Háskóli Íslands 90 ára - nýjar OECD-tölur - erlendar fréttir.
Háskóli Íslands varð 90 ára hinn 17. júní og var þess minnst við hátíðlega
athöfn í Alþingishúsinu í boði Halldórs Blöndals þingforseta. Var vel við
hæfi að hafa athöfn af þessu tilefni í þingsalnum, hinum gamla neðri
deildarsal, þar sem skólinn var stofnaður með athöfn klukkan 12.00 á hádegi
hinn 17. júní 1911 á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta.
Háskólinn var síðan til húsa í Alþingishúsinu fram til ársins 1940, þegar
háskólabyggingin kom til sögunnar, en skólanum líkaði illa vistin með
þinginu og þótti forráðamönnum hans þingmenn ekki sýna skólanum mikla
fjárhagslega rausn en svo fór, að þeir samþykktu tillögu háskólamanna um,
að stofnað yrði happdrætti til að standa undir kostnaði við byggingar fyrir
skólann.
Ármann Snævarr, prófessor og fyrrverandi háskólarektor, var við athöfnina í
þinghúsinu. Hann stundaði á sínum tíma nám í lögfræði í þinghúsinu, en
lagadeildin hafði aðsetur, þar sem þingflokkur sjálfstæðismanna hefur nú
fundarherbergi. Í því er súla og sagði Ármann, að stúdentar, sem vildu láta
lítið á sér bera í tímum eða voru illa fyrir kallaðir, hefðu gjarnan sest á
bakvið súluna, svo að þeir blöstu ekki við prófessorum, sem stóðu við vegg
andspænis súlunni, en á þeim vegg eru nú myndir af þingflokkum
sjálfstæðismanna, og hefðu hinir veislumóðustu jafnvel dottað undir
fyrirlestrum. Hefði það gerst einu sinni í tíma hjá föður mínum, að illa
sofinn stúdent datt útaf og tók að hrjóta og þá hefði föður mínum verið nóg
boðið og sagt, að með þessari framkomu hefðu orðið vatnaskil og ekki væri
unnt að una því, að nemendur trufluðu aðra, þótt þeir hefðu ekki þrek til
að fylgjast með í tímum. Sagðist Ármann minnast þess æ síðan, að
prófessorinn hefði notað orðið vatnaskil til að lýsa vanþóknun á framferði
stúdents
ins og þótti ekki sérstaklega fast að orði kveðið en þó nægilega til að
hinn sofnaði var vakinn.
Á 90 ára afmæli Háskóla Íslands eru markmið hans skýr og verður ekki annað
sagt en leiðirnar að þeim hafi einnig verið markaðar í samvinnu við
ríkisstjórn og alþingi á grundvelli nýrra háskólalaga og samningum um
fjármögnun kennslu og viðræðum um rannsóknasamning og úrlausn í
húsnæðismálum skólans. Í ræðu minni á 90 ára afmælinu áréttaði ég mikilvægi
þess, að happdrætti skólans starfaði áfram en taldi, að létta bæri af því
byrði vegna einkaleyfisgjalds og dreifa gjaldtökunni á alla, sem reka
happdrætti, auk þess sem samið yrði um aukið viðhaldsfé til skólans úr
ríkissjóði, en með þessu tel ég, að hagur skólans í húsnæðismálum yrði best
tryggður til langframa.
Þegar rætt er um Háskóla Íslands á 90 ára afmæli hans má ekki gleyma því,
að átta skólar starfa nú á háskólastigi í landinu og verður að líta til
þeirra allra við almenna stefnumótum vegna háskólamenntunar auk þess sem
áfram á að stuðla að því, að íslenskir námsmenn sæki til háskóla erlendis
bæði til náms og vísindastarfa. Er ljóst, að samkeppni milli skólanna á
eftir að aukast og þeir munu hver með sínum hætti leggja sitt af mörkum til
að styrkja innviði þjóðarbúsins.
Nýjar OECD-tölur
Í , ræðu sem ég flutti laugardaginn 16. júní, þegar opnuð var sýning í
Ljósafosstöð Landsvirkjunar á skurðlist úr Þjóðminjsafni Íslands, sagðist
ég ekki fallast á þá skoðun, að það var andstætt því að efla menntun í
landinu að virkja auðlindir jarðar og nýta þær til orkufrekrar framleiðslu.
Þannig tala sumir og láta síðan falla orð um það, að Íslendingar séu meðal
þeirra þjóða, sem leggja minnst fé til menntunar.
Í Morgunblaðinu laugardaginn 16. júní birtist á bls. 6 frétt frá London um,
að Ísland sé í hópi þeirra landa heims, sem verja mestu fé í menntakerfið
sem hlutfall af landsframleiðslu. Komi þetta fram í nýrri skýrslu OECD. Í
fréttinni segir, að meðalútgjöld ÖECD-ríkjanna til menntamála sem hlutfall
af landsframleiðslu sé 5,7%. en hér sé þetta hlutfall 6,87% og sé Ísland í
fjórða sæti af 28 OECD-löndum. Efst sé Danmörk með 7,17%, þá S-Kórea,
Noregur, Ísland, Sviþjóð og Bandaríkin en Finnland sé ekki fyrr en í 11.
sæti.
Þessi frétt stangast illilega á við hrakspár andstæðinga okkar
sjálfstæðismanna um framgang menntakerfisins undir forystu okkar, en Ágúst
Einarsson, prófessor og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar,
hefur gengið lengst í áróðri um að allt sé hér á hverfanda hveli í
menntamálum vegna skorts á fjármunum og hefur hann einkum byggt
málflutning sinn á tölum frá OECD. Hef ég oftar en einu sinni sagt, að taka
beri þessum fullyrðingum Ágústs um andúð okkar sjálfstæðismanna á
menntamálum með varúð og líta á þau með þeim augum, að hann sé að reyna að
slá pólitískar keilur. Jafnt og þétt hefur verið unnið að því að styrkja
íslenska menntakerfið á alla lund.
Á vefsíðu sinni, www.agust.is ,birtir Ágúst súlurit frá OECD 1997, þar sem
Ísland er í 13. sæti af OECD-ríkjunum, þegar litið er til útgjalda til
menntamála sem hlutfall af landsframleiðslu. Á þeim lista er meðaltal
útgjalda OECD-ríkjanna 5,1% og er það jafnfram hlutfall okkar þá, nú erum
við hins vegar komin í fjórða sæti með 6,87% en meðaltalið er 5,7% eins og
áður sagði. Verður forvitnilegt að sjá, hvernig Ágúst leggur út af tölum
frá OECD núna.
Í viðtali Morgunblaðsins við mig fyrir skömmu vísaði ég meðal annars til
nýlegs menntamálaráðherrafundar OECD-ríkjanna og sagði íslenska skólakerfið
vera í fremstu röð í samanburði á þeim vettvangi. Hin nýja skýrsla sýnir
til dæmis, að fáar þjóðir standast okkur snúning við nýtingu
upplýsingatækninnar í skólastarfi og er netaðgengi skóla hæst hér landi,
þegar litið er til OECD-ríkjanna í heild.
Í sama tölublaði Morgunblaðsins og á sama stað og fréttin um góða stöðu
Íslands í OECD-samanburðinum um útgjöld til menntamála er vísað í blaðið
International Herald Tribune, sem hafi birt frétt þess efnis, að í
samanburði við laun á almennum markaði stæðu kennarar sig illa á Íslandi í
launamálum og erum við þar á svipuðu róli og Svíar, Norðmenn og
Bandaríkjamenn en allar þessar þjóðir leggja hvað mest fé til menntamála af
OECD-þjóðunum. Tölurnar eru frá 1998 og segir Eiríkur Jónsson, formaður
Kennarasambands Íslands, í samtali við Morgunblaðið, að síðan hafi orðið
verulegar breytingar kennurum í hag og eigi enn eftir að verða á þessu ári.
Raunar endurspegla þessar tölur stöðu á launamarkaði í viðkomandi löndum en
segja ekki, hve mikið kennarar fá í laun í samanburði milli landa.
Erlendar fréttir.
Morgunblaðið birti um helgina yfirlit yfir það, hvernig lesendur blaðsins
nýta sér efni þess. Það vakti sérstaka athygli mína, að 88% segjast lesa
erlendar fréttir blaðsins, en um nokkurt árabil lagði ég þar hönd á
plóginn, raunar gerði ég það einnig við minna lesið efni, því að aðeins 22%
sögðust lesa leiðara blaðsins og 24% Reykjavíkurbréfið en aðeins 16%
Staksteina eða jafnmargir og kynna sér hestaumfjöllun blaðsins, ritstjórnin
nær betur til lesenda í gegnum Víkverja, sem 30% lesa.
Samkeppni um miðlun erlendra frétta hefur aukist mikið undanfarin ár með
beinum sendingum erlendra sjónvarpsstöðva hingað. Sem áhugamaður um efnið,
finnst mér ánægjulegt að geta fylgst með mörgum erlendum
fréttasjónvarpsstöðvum svo að ekki sé minnst á að fá heimsþjónustu BBC á
FM-bylgju.
Síðustu daga hefur athyglin ekki síst beinst að ferð George W. Bush til
Evrópu. Þótti mér með ólíkindum, hvaða mynd var fyrirfram dreginn upp af
ferðinni og þeim vandræðum, sem hún mundi skapa í samskiptum Evrópu og
Bandaríkjanna. Að sjálfsögðu rættust hrakspárnar ekki og að ferðinni
lokinni fær Bandaríkjaforseti almenn góða einkunn fyrir framgöngu sína.
Mörg öflug dagblöð bæði í Bandaríkjunum og Evrópu eru pólitískir
andstæðingar Bush og hikuðu ekki við að draga upp sem versta mynd af honum
og utanríkisstefnu hans, áður en Evrópuferðin hófst.
Dauðarefsing hefur lengi skilið á milli Bandaríkjanna og Evrópuríkja og
ekki komið í veg fyrir náið samstarf ríkjanna. Þegar Bush lýsti yfir
anstöðu við Kyoto-samninginn, tók hann undir með 95% þingmanna í
öldungadeild Bandaríkjaþings - þingið ýtti samningnum til hliðar 25. júlí
1997. Ekkert aðildarríki Evrópusambandsins hefur fullgilt samninginn.
Andstaðan við áætlun Bandaríkjastjórnar um eldflaugavarnir er alls ekki
samstæð innan Evrópu og nokkrar ríkisstjórnir eru hlynntar því, að þróuð
verði tækni í því skyni að verjast langdrægum kjarnorkueldflaugum og þeim
mun fjölga á næstu árum.
Evrópuferð Bush hefur engu breytt um þessi úrlausnarefni, þau eru og verða
áfram á dagskrá í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópuríkja. Ferðin hefur
hins vegar hrundið þeim áróðri, að Bush sé ekki fær um að eiga gagnleg
samskipti við erlenda þjóðarleiðtoga og það sé ekki samboðið Bandaríkjunum
að hafa slíkan mann í forystu vegna vanþekkingar hans á alþjóðamálum.
Framganga Bush hefur verið á allt annan veg en úrtölumenn fjölmiðlanna
töldu og ferð hans hefur alls ekki aukið bilið milli Bandaríkjanna og
Evrópu.
Á sínum tíma veitti Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, Mikhael
Gorbatsjov, leiðtoga Sovétríkjanna mikinn pólitískan stuðning, þegar hún
sagði hann mann, sem hún gæti átt samskipti við. Eftir fund sinn með
Vladimir Putin, forseta Rússlands, í Slóveníu laugardaginn 16. júní, sagði
Bush, að Putin væri ?trustworthy", trúverðugur eða áreiðanlegur, og hefur
sumum þótt það góð einkunn Bandaríkjaforseta fyrir fyrrverandi KGB-mann.