Öryggismál Evrópu – smáþjóðaleikar.
Það var fróðlegt að taka þátt í ráðstefnu um öryggismál Evrópu, sem haldin var við Helsingör í Danmörku dagana 24. til 27. maí. Ráðstefnan er skipulögð af Center for Strategic Decision Research í Kaliforníu undir heitinu International Workshop on Political-Military Decision Making og var að þessu sinni í 18. sinn en til hennar er boðið stjórnmálamönnum, herforingjum, fulltrúum fyrirtækja, embættismönnum og sérfræðingum í öryggis- og alþjóðamálum. Flutti ég stutta ræðu um öryggi Íslands og tók þátt í pallborðsumræðum með varnarmálaráðherrum Eistlands og Litháens, auk þess sem forseti Litháens var þar einnig til andsvara, en hann hóf ráðstefnuna með ræðu um mikilvægi þess, að land hans fengi aðild að NATO. Var þetta fyrsti liðurinn á dagskrá ráðstefnunnar, sem snerist um þau málefni, sem eru efst á baugi í evrópskum öryggismálum og ekki síst um viðleitni Evrópusambandsins til að skipuleggja öryggis- og varnarmálaþáttinn í starfi sínu.
Eins og þeir sjá, sem lesa vefsíður mínar, hef ég ekki um langt árabil átt þess kost að taka þátt í umræðum um þessi mál á alþjóðlegum vettvangi eða fylgjast með þeim, þegar rætt er um þau af jafnmikilli þekkingu og gert var á þessum fundum. Setja nokkuð önnur sjónarmið svip sinn á þessar umræður núna en var fyrir fáeinum árum, þótt í raun sé viðfangsefnið alltaf hið sama, það er hvernig ríki geti best tryggt öryggishagsmuni sína og í því efni breytast ekki mikilvægar grundvallarforsendur. Nú er til dæmis greinilegt, að reynsla Evrópusambandsins af máttleysi sínu gagnvart því, sem gerðist í Júgóslavíu fyrrverandi, hefur ráðið miklu um hinn mikla áhuga á því innan sambandsins að skipuleggja eigin hermálanefnd og ráðgjafakerfi, sem getur látið að sér kveða í þágu sambandsins, þegar hættuástand skapast. Markmið ESB er ekki að koma sér upp herafla, sem kemur í stað varnarkerfisins NATO, heldur að ráða yfir kerfi, sem gerir ESB kleift að glíma við stjórn á hættutímum, án þess að eiga allt undir forystu og mætti Bandaríkjanna.
Bandaríkjastjórn hefur síður en svo verið andvíg þessari þróun í Evrópu og raunar lengi talið æskilegt, að styrkja ætti Evrópustoðina innan NATO með því að efla hernaðarlega burði Evrópuþjóðanna, aðeins með þeim hætti skapaðist hið æskilega jafnvægi innan bandalagsins. Á hinn bóginn hefur reynst erfitt að finna þá skipulagslegu útfærslu á þessum nýja þætti í samstarfi þjóðanna innan NATO og utan um öryggismál: Markmiðið er að koma í senn í veg fyrir klofning NATO og tryggja sjálfstæði ESB. Taka verður tillit til hagsmuna þeirra Evrópuþjóða, sem eru í NATO, en eru utan ESB (Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland) auk þess eru í ESB þjóðir, sem ekki eru í NATO (Austurríki, Finnland og Sviþjóð). Varnarmálaráðherra Austurríkis, sem talaði á ráðstefnunni, vill að land sitt gangi í NATO. Danmörk hefur sérstöðu, þar sem Danir taka ekki þátt í varnarsamstarfinu innan ESB. Þá eru Kanadamenn næsta einmana í hinu nýja samstarfsmunstri, ef litið er til þess, að það mótist af tvíhliða samskiptum Bandaríkjanna og ESB. Á ráðstefnunni var lögð áhersla á, að hvorki öryggi ESB né annarra yrði tryggt nema með því að leggja áfram mikla rækt við Atlantshafstengslin, það er samstarfið á vettvangi NATO.
Hlutleysið er úr sögunni í Evrópu, ef litið er framhjá Sviss. Upplýsingar að loknu kalda stríðinu sýna, að það var blekking að ímynda sér, að hlutleysið tryggði öryggi á þeim tíma. Bandarískur hershöfðingi minntist þess á ráðstefnunni, að fyrir nokkrum árum sat hann fund í Austurríki með fyrrverandi hershöfðingja í Sovétríkjunum. Þeir sátu í pallborði og spurði Austurríkismaður, hvort það væri ekki réttur skilningur hjá sér, að hefði komið til átaka milli austurs og vesturs á tímum Sovétríkjanna hefðu þau virt hlutleysi Austurríkis og ekki ráðist með herafla sínum gegn því. Þá svaraði hinn gamli sovéski hershöfðingi eins og ekkert væri sjálfsagðra, að strax á fyrstu stigum átaka hefðu Sovétmenn sent tíu herfylki í gegnum Austurríki.
Af kunnum stjórnmálamönnum, sem þarna voru, má nefna William Cohen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann sat áður í öldungadeild Bandaríkjanna fyrir republíkana en var valinn sem varnarmálaráðherra af demókratanum Clinton. Ávann Cohen sér traust og virðingu um heim allan í þeirri stöðu og hefur nú komið á fót eigin stofnun, The Cohen Group, og ætlar að stunda ráðgjöf fyrir fyrirtæki en ekki koma fram sem hagsmunagæsluaðili til dæmis gagnvart Bandaríkjaþingi. Fetar Cohen með þessu í fótspor Henrys Kissingers, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Er eftirminnilegt að hafa rætt við Cohen og hlýða á hann, er enginn vafi á því, að hann á enn eftir að láta verulega að sér kveða, þótt hann hafi sagt skilið við bein stjórnmálastörf.
Samskipti ESB og Bandaríkjanna eru annars eðlis nú en á tímum kalda stríðsins. Þá byggðust þau í öryggismálum á því, að Evrópuríkin treystu alfarið á forystu bandaríska heraflans, ef til átaka hefði komið átti hann að vera í fremstu röð en evrópski heraflinn honum til stuðnings. Raunar má segja, að þessi skipan hafi einkennt þróunina í Bosníu og Kosovo. Bandaríkjamenn lögðu til sóknarmáttinn, flugstyrkinn, eftirlits- og njósnakerfið, en það hefur komið í hlut Evrópbúa að bera meginþungann af hinu langa úthaldi við að sinna friðargæslu og síðan hafa orð, sem Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lét falla um brottflutning bandaríska heraflans verið túlkuð á þann veg, að hann yrði kallaður á brott einhliða og Evrópumennirinri skildir einir eftir. Hefur það greinilega vakið ótta og tortryggni, sem Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur slegið á með þeim orðum, að þeir, sem komu saman inn í Bosníu muni fara þaðan saman.
Umræðurnar núna eru hefðbundnar, þegar til þess er litið, að alltaf blossuðu upp umræður um það á tímum kalda stríðsins, að það væri að skapast gjá milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna í NATO. Þá voru það Sovétmenn, sem gerðu allt til að reka fleyg í samstarfið. Enn eru rússneskir forystmenn mjög tortryggnir í garð NATO og vilja til dæmis alls ekki, að Eystarsaltsríkin þrjú gangi í bandalagið. Enginn innan NATO er þó til þess búinn að hlusta á þetta tal Rússa. Spurningin hjá NATO er hins vegar, hve mörgum þjóðum eigi að opna dyrnar, þegar ákveðið hefur verið að gera það.
Ef rétt er á málum haldið, er vafalaust, að aukinn styrkur ESB-rikjanna til að gæta sérgreindra evrópskra öryggishagsmuna getur eflt samstarf ESB og Bandaríkjanna og styrkt NATO. Kom mér reyndar á óvart að heyra, hve langt skipulagning á verkefnum ESB á þessu sviði er komin og hve glögga grein menn hafa gert sér fyrir því, hver verkefnin og hlutverkaskiptin eru. Smiðshöggið er hins vegar enn eftir, en svo virðist sem menn hafi nálgast það enn frekar á fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna í Búdapest í vikunni. Eru það einkum Tyrkir, sem standa gegn því innan NATO, að unnt sé að ljúka málinu þar en auk þeirra hafa Íslendingar verið tregir í taumi við að afsala evrópskum NATO-ríkjum utan ESB áhrifum.
Grunnatriði í öllum umræðum um þessi mál er, að ESB ætlar þá fyrst að láta til skarar skríða, þegar ákveðið er, að NATO í heild skipti sér ekki af hættuástandi. ESB er víðtækari samstarfsvettvangur en NATO og ESB getur látið að sér kveða við úrlausn mála á fyrri stigum þeirra en NATO og með öðrum úrræðum en NATO. Ekki er ætlunin að koma á fót sérstökum ESB-herafla, heldur fær ESB aðgang að sömu hersveitum í Evrópu og NATO, en boðleiðirnar undir merkjum ESB verða aðrar og mun vara-yfirhershöfðingi Evrópuherstjórnar NATO (D-SACEUR), sem er Evrópumaður, en SACEUR hefur ætíð verið Bandaríkjamaður, verða yfirhershöfðingi heraflans, þegar hann starfar undir merkjum ESB. Herafli undir merkjum ESB verður aðeins notaður til að sinna svonefndum Petersberg-verkefnum, en þá er vísað til fundar á vegum Vestur-Evrópusambandsins (VES) í Petersberg við Bonn í Þýskalandi fyrir nokkrum árum, þar sem verkefni herafla á vegum VES voru skilgreind, en þau lúta einkum að friðargæslu og stjórn á hættutímum. VES hverfur úr sögunni með þessum nýja þætti í starfi ESB.
Í augum margra er það, sem hér er sagt vafalaust flókið og illskiljanlegt, en þó hef ég aðeins drepið á því helsta, því að málið verður enn flóknara, þegar farið er út í framkvæmdaatriðin. Póltíska hliðin er ekki síður flókin og viðkvæm. Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar, að ESB hviki ekki frá því að hrinda áformum sínum á þessu sviði í framkvæmd. Sumum finnst þetta verkefni líklega smáræði miðað við það að leggja niður gjaldmiðla aðildarríkja myntsamstarfsins innan ESB og taka upp evruna um næstu áramót. Það er hins vegar ekkert hik á ESB í því efni frekar en þessu.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var hinn 27. maí birt endursögn enska vikuritsins The Spectator af fundi í Washington, þar sem sérfræðingar í evrópskum og bandarískum öryggismálum deildu harkalega og nefndi vikuritrið meðal annars Bandaríkjamanninn Richard Perle og Þjóðverjann Christoph Bertram til sögunnar og að þeir hafi deilt hart. Þessa menn hitti ég oft á ráðstefnum um öryggismál á tímum kalda stríðsins og þá deildu þeir ekki síður en núna, þótt báðir væru eindregnir stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins. Voru þeir meðal annars á ráðstefnu, sem ég tók þátt í að skipuleggja hér á landi árið 1975, ef ég man ártalið rétt. Er vissulega skemmtilegt að sjá þá aftur nefnda til sögunnar, þegar rætt er um öryggismál Evrópu og Bandaríkjanna, sem segir mér ekki annað en, að ekkert er nýtt undir sólinni á þessu sviði frekar en öðru.
Dr. Valur Ingimundarson kveikti umræður um þessi mál hér með fyrirlestri, sem hann flutti í Helsinki fyrir tveimur vikum. Þar telur hann, að Íslendingar séu að færa sig nær ESB í öryggismálum vegna efnahags- og stjórnmálatengsla, en íslenskir stjórnmálamenn hafi ekki viðurkennt, að varnartengslin við Bandaríkin skipti minna máli en áður eftir lok kalda stríðsins.
Ég hef haldið því fram, að varnarsamningurinn við Bandaríkin hafi gert Íslendingum kleift að standa utan ESB. Sé það rétt hjá Vali, að gildi varnarsamningsins sé að minnka, er ég sammála honum um, að við munum halla okkur meira að ESB. En er gildi varnarsamningsins að minnka? Er það svo, að breytt strategískt umhverfi valdi þessari breytingu á varnarsamstarfinu? Er ekki um varanlega varnarhagsmuni að ræða, sem eru gagnkvæmir í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna án tillits til þess, sem gerist á vettvangi Evrópusambandsins eða hvort spenna er á Norður-Atlantshafi eða ekki? Ég er þeirrar skoðunar, að í því felist of mikil einföldun að draga mynd öryggismála í svart/hvítum litum og líta á Evróputengslin annars vegar og Atlantshafstengslin hins vegar. Íslenskir stjórnmálamenn standa í raun frammi fyrir sama viðfangsefni og stjórnendur Evrópusambandsins, að leggja á sama tíma rækt við Evróputengslin og Atlantshafstengslin. Viðfangsefninu hefur verið lýst á þennan veg: Ef þú getur ekki setið tvo hesta samtímis, áttu ekkert erindi í þennan sirkus! Spurningin er, hvað Evrópuríkin eru tilbúin til að leggja mikið af mörkum til að jafna bilið í samanburðinum við mátt Bandaríkjanna. Ég hef bent á, að farsældin í varnarsamstarfi okkar við Bandaríkin byggist á því, hvernig verkaskiptingunni er háttað og hvað Íslendingar leggi mikið af mörkum til eigin varna.
Fyrirlestur Vals hefur ýtt undir umræður og sumir hrapa að niðurstöðu. Þannig mátti lesa á ritstjórnarsíðu DV í grein eftir Jón Trausta Reynisson blaðamann, laugardaginn 26. maí: „Góð og gild ástæða er fyrir því af hverju Bandaríkjamenn vilja fara héðan. Það eru engin átök og engin spenna. Ef skyndilega blossuðu upp átök við Íslandsstrendur kæmu Bandaríkjamenn eins og eldibrandar, beðnir eða óbeðnir. Slík er staða þeirra í heimsmálunum. Það verður aldrei nema gæluverkefni fyrir Íslendinga að sinna friðargæslu á Balkanskaga og sérhver tilhneiging í átt til aðildar að varnarstefnu ESB hlýtur að leiða til aðildar að ESB sjálfu." Blaðamaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu, að NATO sé að klofna og Íslendingar geti ekki verið beggja megin borðs - þess vegna spyr hann hvers vegna hlutleysisstefnan þurfi að vera fyrir bí – Íslendingum sé næst að sitja sem rólegastir og bíða þess sem verður. Ef þeir ákveði að ganga í ESB skuli það gert með öllum kostum þess og göllum. en fyrsta skrefið þurfi ekki að vera þangað „bakdyramegin í gegnum varnarmálin:" Þá telur Jón Trausti ekki þörf á að gráta áhrifaleysi Íslendinga innan NATO, þeir hafi ekkert með áhrif á hernaðarmál að gera. Smáríki eigi ekki að vera með stórveldistakta.
Þessi stefna, sem þarna er boðuð, byggist líklega á svipuðum sjónarmiðum og búa að baki viðhorfi Steingríms J. Sigfússonar, leiðtoga vinstri/grænna, sem hann kynnti á fundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsríkjanna í Ríga í vikunni, um að stækkun NATO væri af hinu illa eins og bandalagið sjálft og þess vegna ættu Eystrasaltsríkin ekkert erindi þangað. Með þessu áréttaði Steingrímur enn og aftur sérstöðu vinstri/grænna í umræðum um evrópsk öryggismál utan þess, sem sagt er á rússneska þinginu, Dúmunni, þegar menn berja sér á brjóst og hallmæla NATO.
Stefna ESB í öryggismálum skiptir miklu í umræðum um þróun þessara mála í okkar heimshluta, sömu sögu er að segja um stækkun NATO og þriðji þátturinn, sem gjarnan er nefndur um þessar mundir, eru bandarískar eldflaugavarnir. Á ráðstefnunni í Danmörku var ekki mikið rætt um slíkar varnir, því að kunnáttumenn draga almennt ekki í efa, að tækniþróunin á þar ekki síður mikinn þátt en vilji stjórnmálamanna til að nýta tæknina sem best til að treysta varnir þjóða sinna, raunar mætti kenna það við ábyrgðarleysi hjá forseta Bandaríkjanna að ýta því frá sér að nýta tæknilega getu til varnar gegn eldflaugum.
Það er mikill misskilningur, ef menn halda, að Bandaríkjastjórn þurfi að sannfæra einhverja um ágæti eldflaugavarnakerfis. Hernaðarlegu rökin gegn slíku kerfi er, að líklegra sé, að til átaka komi, ef fælingarmáttur gjöreyðingarvopna hverfi vegna þess að einhver geti varist þeim. ABM-samningurinn heimilar takmarkaðar eldflaugvarnir og eru þær aðeins fyrir hendi í Rússlandi. Deilan um varnarkerfi Bandaríkjanna snýst ekki síst um það, hverjum það nýtist til varnar og í því efni skiptir máli, hvaða leið er valin við gerð kerfisins, hvort miða á við að eyða árásareldflaug þegar henni er skotið á loft eða þegar hún er komin á sporbaug um jöðru. Meiri sátt er um fyrri leiðina en hina síðari, af því að hún tryggir öryggi fleiri. Það er hefðbundið viðfangsefni í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópuríkja á vettvangi NATO að ræða um áhrif tækniþróunar á samskipti sín og við nýtingu nýrrar tækni er jafnmikilvægt að sporna gegn klofningi milli Bandaríkjanna og Evrópu og við mótun stefnu ESB í öryggismálum. Ef Banadríkjamenn velja eldflaugavarnakerfi, sem dugar þeim einum, sætta bandamenn þeirra sig að sjálfsögðu illa við það.
Ýmsum rökum er beitt gegn eldflaugavarnakerfinu. Til dæmis sést því stundum haldið fram, að til lítils sé að ráðast í smíði þess, ef ætlunin er að tryggja algjöra vernd gegn kjarnorkuárás, þar sem unnt sé að koma kjarnorkusprengju á milli landa með öðrum hætti en í eldflaug, til dæmis smygla henni í farangri ferðamanna. Væri þessum rökum almennt beitt við skipulag varnarmála, mætti alveg eins hvetja til þess, að til dæmis skriðdrekar hyrfu úr sögunni, af því að hryðjuverkamaður gæti valdið miklu mannfalli með því að fara í sjálfsmorðsferð inn í hóp ungs fólks í biðröð fyrir framan skemmtistað.
Umræður um öryggismál eru jafnlíflegar og áður á þeim vettvangi, þar sem um þau er fjallað, en á hinn bóginn setja þær ekki jafnmikinn svip á almennt pólistískt starf og áður. Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að gæta hagsmuna okkar. Það gerum ekki með þeim hætti að stinga hausnum í sandinn og bíða þess sem verða vill.
Skynsamlegast er að leggja rækt við samstarfið innan NATO með virkri þátttöku í friðargæslu á vegum þess í samvinnu við Evrópuríkin samhliða því sem staðinn er vörður um varnarsamstarfið við Bandaríkin og gert átak til að styrkja hlut okkar sjálfra við gæslu eigin öryggis.
Smáþjóðaleikarnir.
Eftir ráðstefnuna í Danmörku fórum við Rut til San Marínó, sem er smáríki skammt frá Rimini á ítalíu, aðeins um 60 ferkílómetrar að stærð á og við fjallstind með 26 þúsund íbúa. Þar voru samþjóðaleikar Evrópuríkja (Andorra, Íslands, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Monakó, Möltu og San Marínó), sem hófust með hátíðlegri setningarathöfn að kvöldi mánudagsins 28. maí og lauk í dag, laugardaginn 2. júní.
San Marínó fagnar nú 1700 ára sjálfstæðisafmæli sínu, en þar er lýðveldi eins og hér, þjóðhöfðingjar eru hins vegar tveir, captains regent heita þeir á ensku, eru þeir kjörnir til sex mánaða í senn. Þingmenn eru 60, en 10 sitja í ríkisstjórn, sem ekki hefur forsætisráðherra, og ríkið er með sendiráð í New York vegna Sameinuðu þjóðanna, Genf vegna alþjóðastofnana þar og í Strassbourg vegna Evrópuráðsins auk þess að hafa sendiherra í Róm. Margir Íslendingar hafa komið San Marínó vegna nálægðarinnar við Rimini en það tekur innan við 30 mínútur að aka þaðan í gömlu borgina í San Marínó, heimsækja um 3 milljónir ferðamanna landið á ári hverju en sárafáir eru þar lengur en hluta úr degi. Raunar var forvitnilegt að kynnast því, hvernig San Marínó leggur áherslu á ytri tákn sjálfstæðs ríkis, til dæmis með litlum her fyrir utan lögreglu og skrautlega varðmenn við þinghúsið og aðsetur ríkisstjóranna tveggja.
Setningarhátíð smáþjóðleikanna stóð í tvo tíma og var hin glæsilegasta í alla staði, raunar eftirmynd af setningu Ólympíuleikanna, þótt allt væri að sjálfsögðu minna í sniðum en þó miklu stærra en vænta hefði mátt af 26 þúsund manna þjóð, meira að segja komu The Supremes alla leið frá Los Angeles til að syngja einkunnarlag, sem var sérstaklega samið vegna leikanna. Samaranch, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar kom til San Marínó í tilefni leikanna og flutti ávarp við setningu þeirra. Var unnt að fylgjast með athöfninni í beinni sjónvarpsútsendingu frá gervihnetti en einkarekinn sjónvarpsstöð starfar í San Marínó og sendir fréttir og annað efni fyrir íbúa landsins.
Á fundi okkar íþróttaráðherra ríkjanna átta tilkynnti ráðherrann frá Möltu, að leikarnir yrðu þar 2003, ráðherrann í Andorra bauð til þeirra í landi sínu 2005 og 2007 verða þeir í Mónakó.
Smáþjóðaleikarnir hófust í San Marínó 1985 þannig að nú var að hefjast önnur umferð þeirra, en Evrópuþjóðir með innan við eina milljón íbúa eiga rétt til þátttöku. Hér voru leikarnir 1997 og við setningarathöfnina þá var norðanblástur og hitastigið rétt yfir frostmarki – hefði ekki þýtt að bjóða gestum að sitja tvo tíma og horfa á listamenn og skólabörn eins og við gerðum í um 30 stiga kvöldhitanum í San Marínó auk þess sem við getum ekki á þessum árstíma leikið okkur með ljóskastara eins og þarna var gert eða efnt til flugeldasýningar.
Íslenska íþróttafólkið hefur unnið langflest gull í sögu leikanna og sýndi enn frábæra framgöngu í San Marínó. Var sama hvar við komum, alls staðar voru Íslendingar að ná góðum árangri. Enn einu sinni er ástæða til að fyllast stolti yfir því, hve við eigum marga góða íþróttamenn, sem leggja hart að sér við æfingar og þátttöku í mótum – alls fengu þeir 31 gull að þessu sinni, 18 silfur og 16 brons.