19.5.2001

Þinglok – VG veltir vöngum – Svavar og misheppnuð samfylking

Þegar þetta er skrifað, síðdegis laugardaginn 19. maí, er ekki vitað, hvort alþingi lýkur störfum í dag eða situr fram yfir helgi, en samkvæmt starfsáætlun þingsins átti störfum þess að ljúka í gær, föstudaginn 18. maí. Enn eru meira en 50 mál á dagskrá, samkomulag er um mörg þeirra, önnur vekja umræður og deilur. Með góðu móti er þó unnt að ljúka þingstörfum í dag, ef vilji er til þess.Stórmálið sem veldur óvissu snertir óskir smábátamanna um að halda sérstöðu sinni innan kvótakerfisins. Glufur í lögunum um stjórn fiskveiða hafa gagnast smábátamönnum vel hin síðari ár og vilja þeir geta haldið áfram að njóta þeirra tækifæra, sem þær veita þeim. Alþingi hefur hins vegar komist að niðurstöðu um að setja þessar veiðar undir stjórn með aflamörkum eins og veiðar annarra, þingið hefur einu sinni frestað að hrinda ákvörðun sinni um þetta efni í framkvæmd og þess hefur verið krafist, að enn verði gildistökunni frestað, að öðrum kosti kemur hún til sögunnar næsta haust.Eftir að hafa tekið þátt í viðræðum í útvarpsþættinum Í vikulokin í morgun undir stjórn Þorfinns Ómarssonar og með Össur Skarphéðinsson sem viðmælanda fór ég niður á þing upp úr hádeginu og var þá hópur smábátamanna þar til að ítreka kröfur sínar um áframhaldandi undanþágu frá lögunum um stjórn fiskveiða. Hvað sem mönnum finnst um málstað þessara ágætu sjómanna, hljóta þeir að dást að baráttu þeirra og þrautseigju, því að ekki eru menn fyrr sannfærðir um að náðst hafi samkomulag við þá um einhverja niðurstöðu, en þeir fara af stað með kröfur á nýjan leik og sækja þær af mikilli festu. Virðist aldrei unnt að finna þá lausn innan fiskveiðistjórnarkerfisins, sem kemur til móts við kröfur þeirra.Á þetta mál sér þá hliðstæðu við kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna, að ógjörlegt sýnist vera að sættast á neitt í samskiptum aðila. Enn einu sinni varð alþingi að hlutast til um að koma flotanum úr höfn með setningu laga í vikunni, eftir að stærstu fiskiskipin höfðu legið í sex vikur bundin við bryggju og engin lausn á kjaradeilunni var í sjónmáli. Er það umhugsunar- og rannsóknaefni, hvað veldur því, að svo erfitt er að komast að samningsnundinni niðurstöðu um álitamál, sem snerta hagsmuni sjómanna, hvort heldur er um kjör þeirra að ræða eða réttarstöðu innan laganna um stjórn fiskveiða.VG veltir vöngumÍ Morgunblaðinu föstudaginn 18. maí birtist frétt frá Akureyri þess efnis, að ekki væri víst hvort vinstri/grænir (VG) ætluðu að bjóða fram sér eða með öðrum í sveitarstjórnakosningunum vorið 2002, þó var frá því skýrt í fréttinni, að Akureyrardeild VG hefði samþykkt að bjóða fram lista til bæjarstjórnar á Akureyri – en samþykktin er skýrð á þann veg, að aðeins hafi verið samþykkt að bjóða fram (sem ætti að þykja nein frétt) en ekki með hvaða hætti framboðið ætti að vera.Á fundinum var þó ekki mikill áhugi á samstarfi við aðra flokka. Í sveitarstjórnakosningum 1998 áttu Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti aðild að Akureyrarlistanum. Hann var því með svipuðu sniði og R-listinn í Reykjavík nema í höfuðborginni var Framsóknarflokkurinn þátttakandi í hinu sameiginlega vinstra framboði. Eftir kosningarnar gekk Akureyrarlistinn til meirihlutasamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, en skoðanakannanir sýna mjög sterka stöðu sjálfstæðismanna á Akureyri um þessar mundir.Í Morgunblaðinu er rætt við Valgerði Jónsdóttur, formann kjördæmisráðs VG í Norðurlandi eystra. Hún segir, að samstarfsmenn VG í Samfylkingunni hafi leitast við að koma samfylkingarstimpli á Akureyrarlistann, en það sé fráleitt - þetta sé samfylkingarfólk þó að gera víðar um landið, þegar rætt sé um þessa sameiginlegu lista. Besta dæmið um þessa þörf samfylkingarmanna fyrir að eigna sér hin sameiginlegu framboð er að sjálfsögðu í Reykjavík, þar sem samfylkingarliðið setur hiklaust jafnaðarmerki á milli R-listans og Samfylkingarinnar og gerir það ekki síst með því að skírskota til þess, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé skýrasta stjarna Samfylkingarinnar.Eins og kunnugt er slær Ingibjörg Sólrún úr og í, þegar staða hennar gagnvart Samfylkingunni ber á góma, eitt er þó víst, að hennar gamli pólitíski vettvangur, Kvennalistinn, er nú aðeins til á spjöldum sögunnar og var það Ingibjörgu Sólrúnu töluvert kappsmál, svo að ekki sé meira sagt, að hann rataði beina leið þangað, eftir að hún hafði notað hann sem vogarafl í borgarstjórastólinn.Í DV í morgun, laugardaginn 19. maí, er að finna forvitnilega úttekt á stöðu VG og R-listans í Reykjavík undir fyrirsögninni: Hriktir í stoðum Reykjavíkurlistans – og ástæðan er sú, að hluti VG telur réttast að bjóða fram sér í höfuðborginni. Rætt er við Ármann Jakobsson, sem á sæti í stjórn Reykjavíkurfélags VG, og segir hann algjörlega óljóst, hvort VG muni eiga aðild að R-listanum, það hafi ekki einu sinni verið ákveðið, hvort þeir ætli í viðræður um málið við Samfylkinguna, Framsóknarflokkinn eða Ingibjörgu Sólrúnu, ef áfram á að líta á hana sem sjálfstætt en flokkslaust pólitískt afl í þessu samstarfi.VG-fólk er að velta því fyrir sér, hvort það eigi að rugla reitum með Samfylkingunni, sem tapar í skoðanakönnunum á meðan VG eykst ásmegin. VG ætlar að funda um málið í lok maí og þá skýrast línur eitthvað en Ingibjörg Sólrún segir við DV, að R-listinn hafi allt sumarið til að ákveða, hvernig hann ætlar að haga sínum innri málum fyrir næstu kosningar. Ármann segir, að afstaða VG muni ráðast af málefnum auk þess sem það muni vega þungt, að þeir séu engir vinir Sjálfstæðisflokksins.Frá sjónarhóli sjálfstæðismanna er sama, hvor kosturinn er valinn, það er að VG ákveði að vera með í R-listanum eða standa utan við R-listann. Hvers vegna? kann einhver að spyrja. Jú, fari VG í R-listann tapa vinstri/grænir sérstöðu sinni, þeir ganga í pólitískt bandalag við Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn í höfuðborginni og þar með þvert á málflutning sinn og sérstöðu á alþingi.Þeir, sem fylgdust með eldhúsdagsumræðunum á alþingi miðvikudaginn 16. maí, heyrðu, að það er engin séstök vinátta milli þingmanna VG og framsóknar. Stafar þetta af því, að þessir flokkar eru að takast á um atkvæði og hylli kjósenda, færu þeir saman í framboð undir merkjum R-listans yrði sérstaða VG gagnvart framsókn ekki til marks um annað en sýndarmennsku, þess vegna er kannski engin furða, að Sigrún Magnúsdóttir, sem kom úr Framsóknarflokknum inn í R-listann, og Alfreð Þorsteinsson, sem kom úr sömu átt í R-listann, vilja ólm, að VG verði með sér á framboðslista í Reykjavík næsta vor - þau vita, að það er besta leið framsóknar til að taka allan brodd úr málflutningi VG.Hinn kosturinn, að VG bjóði fram sérstakan lista í Reykjavík, yrði í samræmi við innbyrðis sundurþykkju vinstri manna og með því að sýna hana færi glorían af þeirri póltísku blekkingu, sem R-listinn er í raun og veru.Í umræðum um framtíð R-listans er mönnum gjarnt að ræða um að fælingarmáttur Sjálfstæðisflokksins sé helsta lím þeirra flokksbrota, sem nú standa að baki listanum. Þessi hræðsluáróður kann að hafa áhrif á einhverja vinstrisinna en hann er innantómur spuni, þegar litið er til kosta vinstri manna um þessar mundir og stöðu Sjálfstæðisflokksins.Svavar og misheppnuð samfylking.Svavar Gestsson sendi herra hefur staðið í nokkurri fjarlægð frá stjórnmálabaráttunni og ættjörðinni síðan hann hóf störf í utanríkisþjónustunni.Í samtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur á DV, laugardaginn 19. maí, segir hann meðal annars:„Á vinstri vængnum eru nú tveir flokkar. Samfylkingin býr við innri vandamál, erfiðan arf, og það er ekkert einkennilegt að það taki hana tíma að leysa úr þeim málum. Samfylkingin erfði í raun og veru innri vandamál allra flokkanna sem að henni stóðu. Staða Vinstri grænna er ekki eins erfið. Ég heyri menn segja að það myndi breyta mjög miklu fyrir Samfylkinguna ef Ingibjörg Sólrún færi inn á þann vettvang. Ég held að það sé rétt, hún er öflugur stjórnmálamaður, en hvort hún gerir það er svo annað mál. Hún er líka afar bundin Reykjavík og ég sé ekki að hún eigi heimangengt eins og er. Stundum er sagt að Samfylkingin sé eins og Alþýðuflokkurinn og Vinstri grænir eins og Alþýðubandalagið. Það er að nokkru leyti rétt en í raun eru báðir þessir flokkar í dag þó aðallega nýir flokkar og öðru vísi flokkar sem eru að bregðast við umhverfinu á nýjum forsendum. Hið sama má reyndar segja um stjórnarflokkana og það er eðli stjórnmálanna: Ekkert stendur nokkurn tíma kyrrt. Allt breytist um leið og tíminn færist fram."–Af hverju hættirðu í pólitík? spyr Kolbrún síðan Svavar.„Því mun ég svara síðar í ítarlegra máli en mér fannst hæfilegt að skipta um á þessi (svo) stigi enda hafði ég verið í stjórnmálum mestalla ævina. Ég var samfylkingarmaður með litlum staf; þannig skilið að ég vildi að allir vinstri menn væru saman í einum flokki. Sú hugsun gekk ekki upp og mér er til efs að hún verði raunhæf á nýjan leik fyrr en eftir marga áratugi." Svavar Gestsson og Ragnar Arnalds voru þeir í hópi þingmanna Alþýðubandalagsins, sem höfðu mesta vigt, þegar Samfylkingin kom til sögunnar og gengu báðir til liðs við hana. Ragnar hefur nú gengið í lið með VG og Svavar lýsir yfir því, að hann eigi engan flokk á áhorfendabekknum en samfylkingardraumurinn hafi ekki ræst og muni ekki rætast fyrr en eftir marga áratugi.Þessi viðhorf reyndra stjórnmálamanna, sem vildu sameina vinstri menn segja mikla sögu. Menn ættu að skoða þau í tengslum við allt, sem sagt var, þegar Samfylkingin kom til sögunnar. Þá átti eins og með R-listanum að setja Sjálfstæðisflokknum stólinn fyrir dyrnar – raunin hefur orðið önnur. Sé hinu pólitíska kastljósi beint að R-listanum kemur í ljós, að hann stendur á brauðfótum og sundurlyndið innan hans á bakvið stjórnlyndan borgarstjóra stendur vexti og viðgangi Reykjavíkur fyrir þrifum.