13.5.2001

Rannsóknarráð á þingi - nýjungar í skólastarfi - lög stöðva sjómannaverkfall

Fjölmiðlar sögðu frá því í vikunni, að fimmtudaginn 10. maí fór fram umræða utan dagskrár á alþingi að ósk Sigríðar Jóhannesdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um hugmyndir mínar um breytingu á Rannsóknarráði Íslands. Var ágætt að fá tækifæri til að gera þingmönnum stuttlega grein fyrir hugmyndinni, því að þeir eiga síðasta orðið um breytingar á lögunum, eins og gefur að skilja. Verra var, að umræðurnar báru þess merki, að þingmenn stjórnarandstöðunnar nálguðust viðfangsefnið á þeirri forsendu einni að koma höggi á mig en án þess að hafa kynnt sér málið sjálft. Á fundi með verkfræðingum og tæknifræðingum um þetta mál var ég spurður um fjölda ráðherra í rannsóknarráðinu og þar var með efnislegum rökum bent á, að heilbrigðisráðherra þyrfti að eiga aðild að ráðinu til að halda fram hlut hinna mikilvægu rannsókna, sem stundaðar eru í þeim málaflokki, sem hann stýrir. Ég svaraði því á fundinum, að vissulega væru efnisleg rök fyrir því, að heilbrigisráðherrann kæmi að málinu, þegar litið væri til þess, að ætlunin væri að sameina til stefnumörkunar alla helstu hagsmunaaðila. Ég bætti því við, að ég teldi, að ekki væri brýnt á þessu stigi að velta spurningunni um fjölda ráðherra í hinu nýja ráði mikið fyrir sér, þetta væri mál, sem mundi líklega helst vekja áhuga alþingismanna og þeir hafa skoðun á því. Sannaðist þetta í umræðunum utan dagskrár en stjórnarandstaðan ræddi einmitt helst um þetta atriði og taldi einn úr þeirra hópi Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri/grænna, að utanríkisráðherra og forseti alþingis ættu að sitja í ráðinu. Undir lok umræðunnar var þetta boðaskapur upphafsmanns hennar, Sigríðar Jóhannesdóttur: ?Það vekur furðu að íslensk stjórnvöld ætla nú að fara að fóstra vísindasamfélagið undir pilsfaldi ráðherra og ríkisstjórnar eins og hér er ráðgert ...Þessar hugmyndir minna um margt á það sem einu sinni var kallað ráðstjórnarskipulag sem t.d. var ástundað í Sovétríkjunum sálugu og skýtur skökku við ef hæstv. menntmrh. ætlar að taka upp aflóga hugmyndafræði frá Kreml." Ég sagði í lokaræðu minni, að það kæmi mér ekki á óvart eftir að hafa hlustað á ræður stjórnarandstöðunnar, að innan vísindasamfélagsins væri ótti við það, ef stjórnmálamenn ætluðu að láta meira að sér kveða varðandi rannsóknir og þróun. Að skýra hugmyndir mínar á þann veg, að þær eigi rætur í hugmyndafræði kommúnismans eða gera það að höfuðatriði, að utanríkisráðherra og forseti alþingis sitji í rannsóknarráði, sýnir aðeins, að málsvarar slíkra sjónarmiða bera enga virðingu fyrir viðfangsefninu og eru ófærir um að ræða það á efnislegum forsendum.. Er furðulegt, ef þingmenn halda að unnt sé að blása þessu máli út af borðinu með útúrsnúningi og rökleysu. Umræðurnar sýndu enn, að stjórnarandstaðan tekur upp mál af þessu tagi utan dagskrár í því skyni einu að komast í fjölmiðla, hvað sem það kostar, og halda má, að því meiri vitleysa sem sögð er því meiri líkur á því að komast í fréttirnar. Tókst það að minnsta kosti í þetta skipti. Þingfréttaritari Morgunblaðsins nefnir umræðurnar til marks um hið skondna og skemmtilega, sem gerist undir þinglok, hann minnist á það, að ég hafi oft lýst undrun minni yfir málflutningi Jóns Bjarnasonar - og er ég ekki einn um það. Hitt er rangt hjá blaðamanninum, að mér sé mikil skapraun af því að Jón taki jafnan til máls, ef ég fer í ræðustól. Að sjálfsögðu virði ég þann rétt Jóns án þess að það skaprauni mér, hef raunar stundum gaman að furðulegum uppátækjum hans og skringilegu sjónarhorni. Oft er það hins vegar óvirðing við brýn málefni, hvernig tökum þau eru tekin í ræðustól á alþingi. Á þeim forsendum blöskraði mér virðingarleysi stjórnarandstöðunnar við að skapa rannsóknum og þróun þann sess, sem ber. Ef til vill er rangt að nota heitið Rannsóknarráð Íslands um hið stefnumarkandi ráð á sviði rannsókna- og þróunar, sem felast í hugmynd minni. Annað heiti á þessu stefnuráði hefði ef til vill auðveldað þingmönnum stjórnarandstöðunnar að átta sig á því, að ekki er ætlunin, að ráð með þáttttöku ráðherra hafi það hlutverk að úthluta styrkjum. Í íslenska stjórnkerfinu er óvenjulegt, að mælt sé fyrir um það í lögum, að margir ráðherrar skuli eiga aðild að stefnumarkandi ráði. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald heldur koma þar saman ráðherrar, sem hver um sig ber lokaábyrgð á sínum málaflokki. Rannsóknir og þróun eru á verksviði margra ráðherra og setja æ meiri svip á flesta þætti þjóðlífsins og þverfagleg samvinna er sífellt að aukast. Er ekki síður nauðsynlegt að tryggja hana við stefnumörkun en úrlausn einstakra vísindaverka. Þá er ljóst, að hið sama á við hér og annars staðar, að fyrirtæki leggja sífellt meira af mörkum til rannsókna og þróunar og starfsemi þekkingarfyrirtækja skiptir þjóðarbúið æ meira máli. Með hinu nýja stefnumarkandi ráði er ætlunin að kalla fulltrúa allra aðila saman undir forystu forsætisráðherra til að leggja á ráðin um sameiginlega stefnu og leiðir til að ná umsömdum markmiðum. Að líta á tillögur um þetta sem aðför að vísindasamfélaginu eða óeðlilega íhlutun ráðherra er gjörsamlega úr lausu lofti gripið. Nýjungar í skólastarfi Fyrir ári fóru stjórnarandstæðingar mikinn á alþingi vegna MBA-náms við Háskóla Íslands og töldu, að með því væri vegið að undirstöðum menntunar, vegna þess að HÍ tæki skólagjöld af nemendum í náminu. Voru höfð uppi stór orð um málið og hefði mátt ætla, að á því þingi, sem nú er að ljúka, bæri þetta mál hátt og stjórnarandstaðan fylgdi eftir stóru orðunum með tillögum um breytingar á lögum til að málstaður hennar næði fram að ganga á afdráttarlausan hátt. Ekki hefur verið minnst einu orði á MBA-námið á þessu þingi. Á hinn bóginn hafa nemendur stundað það af miklu kappi og hefur verið skemmtilegt að sjá þessa nýju vídd í íslensku menntakerfi ná að skjóta rótum bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Þeir, sem veðjuðu á það fyrir ári, að stjórnarandstaðan mundi fylgja eftir andstöðu sinni við MBA-námið, völdu ekki réttan hest. Fyrir nokkrum vikum fóru stjórnarandstæðingar mikinn á alþingi og annars staðar í því skyni að koma í veg fyrir, að einkaaðilar kæmu að rekstri grunnskóla í Hafnarfirði, Áslandsskóla. Þau mótmæli voru höfð að engu og nú hefur verið gengið frá samningum um skólann og ráðinn skólastjóri til að leiða hann. Skólinn starfar í tilraunaskyni í þrjú ár en til að hann fái varanlegan sess þarf að breyta grunnskólalögunum. Ég lít á þetta sem merkilegt skref í íslenskri skólasögu og hljóta allir, sem vilja íslensku menntakerfi vel, að óska stjórnendum nýja skólans velgengni. Ef menn láta þröngsýni ráða og loka á allar breytingar á skólastarfi, stuðla þeir einungis að stöðnun, sem síðan leiðir til hnignunar. Í vikunni var ritað undir samkomulag milli Landspítala Íslands ? háskólasjúkarhúss og Háskóla Íslands um samstarf um kennslu og rannsóknir. Með því var verið að hrinda í framkvæmd lögum um Háskóla Íslands, sem tóku gildi 1. maí 1999, og ná því markmiði hins sameinaða sjúkrahúss að verða miðstöð rannsókna og þróunar á sínu sviði í samstarfi við háskólastofnun. Í lögunum um Háskóla Íslands var með bráðabirgðaákvæði framlengt óbreytt fyrirkomulag á tengslum skólans og spítalans til 1. maí 2001. Nú hefur nýtt samningsbundið skipulag á þessu samstarfi komið í stað lagaákvæða og er mikils virði, að um þetta hefur náðst góð sátt, sem miðar að því að skilgreina ábyrgð stjórnenda með skýrari hætti en áður. Sjómannaverkfall Þingflokkur sjálfstæðismanna var kallaður saman síðdegis laugardaginn 12. maí til að ræða frumvarp frá sjávarútvegsráðherra um að binda enda á verkfall sjómanna, sem nú hefur staðið í sex vikur. Samstaða var um nauðsyn þess, að alþingi tæki af skarið og samþykkti lög, sem tryggði, að fiskiskipaflotinn kæmist aftur af stað. Frá mínum bæjardyrum séð er þrautreynt, að forystumenn sjómanna hafa ekki burði eða vilja til að semja fyrir umbjóðendur sína. Útgerðarmenn hafa sýnt samningsvilja sinn með því að semja við vélstjóra. Aðrir viðsemjendur þeirra líta á tilboð, sem þeir fá, eins og blauta tusku framan í sig. Á sínum tíma samþykkti alþingi með lögum málamiðlunartillögu, sem sjómenn höfðu samþykkt, en útgerðarmenn fellt, engu að síður réðust forystumenn sjómanna á alþingismenn. Við fáum að sjálfsögðu gusu yfir okkur núna fyrir að binda enda á verkfallið með lögum. Spyrja má: Er það einleikið, að forystumenn sjómanna hafi aldrei ritað undir kjarasamning fyrir umbjóðendur sína? Á að beina spjótum sínum vegna þess gegn alþingismönnum? Með því að taka af skarið, eftir að verkfall sjómanna hefur staðið í sex vikur, án þess að tekist hafi að mynda þráð milli aðila í samningaviðræðunum, eru alþingismenn að axla ábyrgð, sem er í samræmi við skyldur þeirra. Þingflokksfundur okkar sjálfstæðismanna hófst klukkan 17.00 og lauk um 45 mínútum síðar og sömu sögu er að segja um þingflokksfund framsóknarmanna. Var sérkennilegt að sitja síðan heima hjá sér og hlusta á Óðinn Jónsson, þingfréttaritara hljóðvarps ríkisins, vera með beina útsendingu úr þinghúsinu í fréttatíma rúmlega 18.00 og láta eins og þingfokkarnir sætu enn á fundum og gefa með því til kynna, að einhver vandræði væru við afgreiðslu málsins ? á þeirri stundu, sem fréttirnar voru fluttar, hefði verið nær að eiga samtal við sjávarútvegsráðherra í beinni útsendingu úr þinghúsinu um efni frumvarps hans að lokinni samþykkt þingflokka ríkisstjórnarinnar.