6.5.2001

Varnarsamstarf í 50 ár - alþjóðavæðing - afstaðan til Davíðs - tónlistarumræður

Þess er minnst um þessa helgi, að 50 ár eru liðin frá því að varnarsamningurinn var gerður og bandaríska varnarliðið kom til landsins. Morgunblaðið gefur út veglegt blað af þessu tilefni, þar sem dregin eru saman höfuðatriði úr sögu varnarmálanna í þessa fimm áratugi.Umræður um varnarliðið hafa verið miklar og oft mjög harðar síðan það kom en þó minnstar eftir að kalda stríðinu lauk, að minnsta kosti sem deilumál á milli stjórnmálaflokkanna. Hvort það endurspeglar almennt áhugaleysi á að tryggja fullveldi og sjálfstæði Íslands og ræða leiðir til þess, veit ég ekki, en að sjálfsögðu ber að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, að þeir hafi svör á reiðum höndum um þetta mikilvæga efni.Fimmtudagskvöldið 3. maí var ég í Eldlínunni á Stöð 2, umræðuþætti, sem Árni Snævarr stjórnar. (Þátttakan minnti mig á það, hve miklu skiptir, að ytri aðstæður séu góðar í upptökusalnum, til dæmis stólarnir, en það verður ekki sagt, að þeir séu jafngóðir á Stöð 2 og hjá Agli á Skjáeinum eða í Kastljósi ríkissjórnvarpsins.) Auk Árna tók Ragnar Arnalds, fyrrverandi alþingismaður, sem áður var í Alþýðubandalaginu, síðan í Samfylkingunni en hefur nú gengið til liðs við Vinstri/græna, þátt í umræðunum.Var engu líkara en ekkert hefði gerst síðan 1951, því að Ragnar hélt fast í þá skoðun, að gerð varnarsamningsins hefði verið stjórnarskrárbrot, varnarliðið hefði gert Ísland að skotmarki og þannig aukið á hættu þjóðarinnar en ekki tryggt henni öryggi, auk þess sem sagan sýndi, að engin hætta hefði verið á innrás Rússa 1951, því að þeir hefðu ekki þá ráðið yfir herstyrk til að taka Ísland.Allt eru þetta sögulega úrelt rök, sem ekki dugðu á sínum tíma til að snúa þjóðinni gegn varnarliðinu, enda ekki reist á raunhæfum grunni. Hafði ég satt að segja ekki vænst þess að þurfa að taka þátt í svo gamaldagsumræðum um þetta mál í ljósi 50 ára sögu þess og reynslu okkar Íslendinga af samstarfinu við Bandaríkjamenn.Fréttnæmt þótti í tilefni af afmæli varnarasamningsins, að í bandarísku skjali frá 1961 kæmi fram, að íslensk stjórnvöld teldu sig með skömmum fyrirvara geta kallað út 1500 manna lið til að aðstoða lögreglu, ef nauðsyn krefði vegna öryggis íslenska ríkisins.Ég hef aldrei heyrt um neina lista í þessu sambandi en á slíkt útkall reyndi hinn 30. mars 1949, þegar kommúnistar réðust með grjótkasti á Alþingishúsið. Nú á tímum er unnt með skömmum fyrirvara að kalla út nokkrar þúsundir Íslendinga með skemmri fyrirvara en nokkru sinni fyrr til að takast á við þau verkefni, sem sjálfboðaliðar í björgunarsveitum um allt land eru tilbúnir til að sinna. Hefur skipulagið á þessu sviði líklega aldrei verið betra en einmitt nú á tímum.AlþjóðavæðingFöstudagskvöldið 4. maí tók ég þátt í fundi á Grand rokk um alþjóðavæðingu á vegum þeirra, sem reka vefsíðuna Kreml.is. Þar lýstum við Tryggvi Þór Herbertsson frá Hagfræðistofnun háskólans, Bryndís Hlöðversdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri/grænna, viðhorfum okkar til alþjóðavæðingar.Kom mér þar einnig á óvart eins og í þættinum með Ragnari Arnalds, hve gamaldags rök settu svip sinn á málflutning Steingríms J., það er að heimurinn stæði frammi fyrir mikilli ógn af 30 auðhringjum og líklega enn fleiri bröskurum, sem væru að setja ríkisstjórnum stólinn fyrir dyrnar og gegn þessum yfirgangi yrði að spyrna með því helst að taka upp skatt á fjármagnstilfærslur milli landa auk þess sem alþjóðlegt eftirlit með þessu framferði yrði eflt.Í sjálfu er þetta hið sama og sósíalistar hafa verið að segja hér í áratugi. Á sínum tíma var rætt um hættuna frá kapítalistunum í Wall Street, sem áttu öllu og öllum að ógna, síðan komu auðhringarnir og á sjöunda áratugnum blasti glötunin við okkur Íslendingum vegna þess að fyrirtæki á borð við Alusuisse vildi fjárfesta í álveri hér á landi. Nú er McDonalds tákn alls hins versta í heiminum og á að hafa líf ríkisstjórna í hendi sér.Afstaðan til DavíðsAð vísu er Kristján G. Arngrímsson, dálkahöfundur Morgunblaðsins, þeirrar skoðunar, að hættan af áhrifum auðhringja og risafyrirtækja á lýðræði hafi birst íslendingum best, „þegar Davíð Oddsson sat eins og lítil nellika í hnappagati Kára Stefánssonar þegar skrifað var undir samninginn við Hoffman La Roche hérna um árið."Kristján hefur líklega ekki munað eftir því, að Davíð tók þátt í því um árið að opna fyrsta McDonalds veitingastaðinn á Íslandi, en þá létu ýmsir blaðamenn eins og lýðræðið ef ekki þjóðmenningin öll væri í stórkostlegri hættu.Þetta er skrýtin umræða eins og sú niðurstaða Kristjáns, að sífellt aukið áhugaleysi almennings um stjórnmál og kosningar stafi fyrst og fremst af því, að fólk viti orðið að stjórnmálamennirnir séu ekki lengur þeir sem ráða; þeir séu fyrst og fremst að leika ráðamenn.Áhugaleysi á kosningum hér á landi hefur aldrei verið minna en einmitt, þegar almenningi var boðið að ráða, eins og sannaðist í kosningunni í Reykjavík um framtíð flugvallarins. Hvernig getur Kristján sannað fullyrðingu sína um hlut Davíðs Oddssonar, þegar Kári og fulltrúi la Roche rituðu undir samning sinn? Er þessu ekki slegið fram í þeim tilgangi einum að gera hlut stjórnmálamanna sem minnstan?Við hlið dálks Kristjáns birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 6. maí grein eftir Helga Hjörvar, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, sem byggist á þeirri einstæðu skoðun, að Davíð Oddsson starfi ekki í anda lýðræðis heldur alræðis. Það er ekki alræði auðhringja eða risafyrirtækja heldur alræði Sjálfstæðisflokksins og á þeirri forsendu telur Helgi Davíð „klassískan kommúnistaleiðtoga."Egill Helgason bauð Helga að taka þátt í þætti sínum í tilefni af því, að Davíð hafði verið forsætisráðherra í 10 ár. Notaði Helgi afmælisboðið til að klína kommúnistastimpli á Davíð. Eins og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra orðaði það í umræðum á þingi um tolla á garðávexti, þegar hann svaraði Össuri Skarphéðinssyni, er frekar unnt að afsaka glöp manna, ef þau birtast í hita kappræðna, en hitt er aðeins til marks um alvarlegan dómgreindarskort, ef menn segja órökstudda vitleysu af ráðnum hug.Morgunblaðsgrein Helga Hjörvars um Davíð Oddsson sem klassískan kommúnistaleiðtoga er til marks um ótrúlegan dómgreindarskort og er óvenjulegt, að stjórnmálamenn bíti höfuðið af skömminni með þessum hætti. Greinin er í ætt við þá samanburðarfræði sem málsvarar kommúnismans og Sovétríkjanna notuðu á tímum kalda stríðsins til að leiða fólki fyrir sjónir, að Bandaríkin væru, þegar öll kurl kæmu til grafar, í raun verra risaveldi en Sovétríkin!Á sömu blaðsíðu Morgunblaðsins sunnudaginn 6. maí birtast með öðrum orðum tvær greinar, þar sem vikið er að Davíð Oddssyni - í annarri er fullyrt, að hann sé nellika í hnappagati alþjóðlegra auðjöfra en í hinni, að hann hafi allt vald í hendi sér og beiti því af mikilli festu!Ætli dálkahöfundurinn, sem óttast um afdrif lýðræðisins vegna áhrifaleysis stjórnmálamanna, telji grein Helga Hjörvars stjórnmálamönnum og borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem hann er í forsæti í skjóli R-listans, til framdráttar?TónlistarumræðurÍ Morgunblaðinu hafa nýlega birst greinar eftir tvo góða óperusöngvara um áformin um tónlistarhús í Reykjavík. Af þeim gætu lesendur ráðið, að eitthvert laumuspil hafi verið í kringum kröfur vegna hússins með tilliti til þess, hvernig það verði úr garði gert.Frá því að ég hóf afskipti af þessu máli, hefur alltaf legið ljóst fyrir, að salurinn í tónlistarhúsinu eigi að taka mið af hljómsveitarflutningi en ekki sé um óperusal að ræða. Þessi afstaða byggist á viðtölum við forráðamenn Íslensku ópreunnar á þeim tíma, sem ákvarðanir þurfti að taka um þennan þátt málsins, og á ráðgjöf hljómburðarfræðinga, sem telja mjög óráðlegt, svo að ekki sé meira sagt, að blanda þessu tvennu saman við hönnun hússins með hliðsjón af hljómburðargæðum þess.Get ég ekki annað en harmað, að þessar forsendur vegna tónlistarhússins skuli hafa farið fram hjá þessum ágætu óperusöngvurum.Á fyrrgreindum fundi á vegum Kremlar.is spurði Jakob Frímann Magnússon mig að því, hvort og þá hvers vegna ég stæði gegn því á vettvangi ríkisstjórnarinnar, að iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytti frumvarp til laga um útflutningssjóð tónlistar, eins og hann hefði heyrt. Hafði Jakob Frímann ekki verið á fundinum og taldi, að þessi spurning sín væri á skjön við umræðuefnið.Ég benti honum á, að svo væri ekki, því að afstaða mín til þessa máls byggðist á þeim umræðum, sem nú færu fram um frekari alþjóðavæðingu með tilliti til menningar og menntunar. Ef menn vildu reka slíka styrktarsjóði ætti að skilgreina hlutverk þeirra út frá menningarlegum sjónarmiðum en ekki viðskiptalegum eða iðnaðarlegum, því að það væri vísasta leiðin til að litið yrði á sjóðina, sem tæki til að hygla einhverjum á kostnað samkeppni. Ágreiningur um þróun alþjóðavæðingar snerist meðal annars um það, hvort skapa ætti menningarstarfi einstakra þjóða skjól með því að láta ekki almennar samkeppnisreglur ná til þess og leyfa því meðal annars að dafna í skjóli styrktarsjóða. Þetta væri málefnaleg afstaða af minni hálfu, væri hún túlkuð sem andstaða við útflutningssjóð tónlistar, yrði ég að una þeim dómi annarra, þótt ég væri honum ekki sammála.