22.4.2001

Ráðherraafmæli - skýrari valdmörk - gildi EES-samningsins

23. apríl 2001 eru sex ár liðin frá því að ég varð menntamálaráðherra. Tíminn síðan hefur verið mjög viðburðaríkur, eins og lesendur vefsíðu minnar geta kynnt sér, því að á henni er að finna dagbók yfir þá atburði, sem ég hef talið eiga erindi til lesenda síðunnar. Er rétt að geta þess, að ég hef fylgt þeirri reglu að segja aðeins frá þeim atburðum í dagbókinni, sem eru opinberir með einum eða öðrum hætti. Ég get þó almennt hvorki um fundi segi ég frá heimsóknum fólks til mín í ráðuneytið eða öðrum persónulegri ríkisstjórnarinnar né setu mína á fundum á alþingi. Því síður þáttum. Í pistlum mínum á síðunni hef ég sagt frá mönnum og málefnum og drepið á það, sem mér þykir mestu skipta hverju sinni. Slíkt yfirlit yfir störf ráðherra í sex ár er líklega sjaldgæft og kannski einsdæmi á netinu, hitt er auðvitað algengt að menn gefi út dagbækur sínar eftir starfslok og þá eru þeir oft persónulegri í frásögnum en ég hef kosið að vera hér á síðunni.

Ég ætla ekki á þessari stundu að leggja neitt mat á einstaka atburði á síðustu sex árum, þarf nokkra fjarlægð frá embætti sem þessu, svo að af nokkru viti sé unnt að vega og meta reynsluna, sem það veitir, og flokka atburði í huga sér.

Menn tileinka sér starfshætti, sem þeim finnst duga sér best, og vissulega er hætta á því, að þeir festist í ákveðnu fari og þess vegna er ekki markmið í sjálfu sér að sitja sem lengst í embættum, þar sem hæfileg endurnýjun á að tryggja, að hlutir séu ávallt á hæfilegri hreyfingu. Með því að fá tækifæri til að gegna embætti ráðherra í þetta langan tíma tekst oft að ýta málum af stað og ljúka öðrum, sem sitja á hakanum, ef ófriður og upplausn ríkja á stjórnmálavettvangi.

Vissulega skiptir miklu, að stjórnmálaflokkar og fulltrúar þeirra hafi skynsamlega stefnu við úrlausn einstakra viðfangsefna, hitt er þó ekki síður mikilvægt, að kjósendur veiti þeim nægan stuðning til að þeir geti sinnt störfum sínum, án þess að vera stöðugt í vafa um umboð kjósenda og meirihluta á þingi. Undir forystu Davíðs Oddssonar hefur Sjálfstæðisflokkurinn hlotið ótvírætt traust og gott fylgi til að vera þungamiðja í landstjórninni í einn áratug. Án tillits til þess mælikvarða, sem menn nota, hljóta þeir að komast að þeirri niðurstöðu, að þetta traust þjóðarinnar til flokksins hafi skilað henni góðum árangri.

Hvert sem litið er segir stjórnmálasagan okkur, að góðar stjórnmálastefnur þurfa öfluga forystumenn til að þær fái notið sín. Án þess að eiga farsælan og vinsælan leiðtoga er til lítils fyrir stjórnmálaflokk að höfða til almennings, hvað sem stefnu hans líður.

Mér þótti einkennilega að orði komist hjá Óðni Jónssyni, fréttamanni hljóðvarps ríkisins, þegar hann sagði í pistli um nýleg ráðherraskipti, að þeir, sem hefðu horfið til annarra starfa úr ríkisstjórnum undanfarin ár, hefðu ekki nennt að gegna ráðherrastörfum áfram. Þetta er ekki spurning um að nenna einu eða öðru heldur að vera til þess búinn að verja öllum kröftum sínum og tíma í þágu opinberra verkefna, sem eru stöðugt undir smásjá stjórnmálaandstæðinga, fjölmiðla og almennings.

Við, sem nú sitjum í ríkisstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn, vorum öll nema einn fyrst kjörin á þing vorið 1991. Við höfum gengið í gegnum þrennar kosningar og komið vel frá þeim öllum, en á hinn bóginn er ekki unnt að halda því fram, að við höfum í ljósi þingsögunnar setið lengi á þingi. Í þingflokki sjálfstæðismanna eru raunar aðeins þrír þingmenn, sem eiga lengri þingsetu en 10 ár, það eru þeir Árni Johnsen, Geir H. Haarde og Halldór Blöndal og vísa ég þá ekki til þeirra, sem höfðu öðru hverju setið sem varaþingmenn fyrir 1991.

Skýrari valdmörk

Nokkurrar tvöfeldni gætir í umræðum manna um völd og áhrif ráðherra. Annars vegar er látið eins og þeir séu að skipta sér af alltof miklu og vilji auka miðstýringu á öllum sviðum og hins vegar er kallað til þeirra og þess krafist, að þeir hafi skoðanir á stóru sem smáu og jafnvel afskipti.

Á undanförnum tíu árum hefur valdsvið ráðherra verið skilgreint með skýrari hætti en áður með löggjöf um ýmis efni, sem snerta störf þeirra og framkvæmdavaldsins almennt. Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögfestur og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar breytt, sett hafa verið lög um stjórnsýslu og upplýsingaskyldu stjórnvalda, umboðsmaður alþingis hefur eflst, umboðsmaður barna er kominn til sögunnar og lagaákvæði um eftirlit með því að samkeppni sé í heiðri höfð hafa verið styrkt. Þá hefur innra starf framkvæmdavaldsins breyst mikið með nýrri löggjöf um starfsmenn ríkisins og fjárreiður þess.

Á þeim sex árum, sem ég hef gegnt embætti menntamálaráðherra, hefur verulegt vald verið flutt frá ráðherranum og ráðuneyti hans. Fyrst ber að nefna flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Þar með fluttist allt mannahald vegna þeirra frá ríkinu. Þá eru framhaldsskólakennarar ekki lengur ráðnir til starfa að tilstuðlan ráðuneytisins og ekki heldur prófessorar eða aðrir starfsmenn háskóla. Menntamálaráðherra skipar aðeins skólameistara framhaldsskóla og rektora háskóla, en við val á háskólarektorum eru hendur ráðherra bundnar af niðurstöðu innan háskólanna. Starfsmenn menningarstofnana fyrir utan forstöðumenn eru ráðnir af stjórnendum þeirra. Á herðum ráðherra hvílir að skipa meirihluta manna í skólanefndir framhaldsskólanna og fulltrúa í háskólaráð auk þess stjórnarmenn í ýmsar stofnanir. Sumir litu þannig á að valdið til að skipa meirihluta skólenefnda mundi leiða til þess, að þær yrðu fremur málsvarar menntamálaráðherra en einstakra skóla. Reynslan sýnir hið gagnstæða.

Oft er sagt, að vald til að setja reglur jafngildi íþyngjandi miðstjórnarvaldi.
Þetta er mikill misskilningur. Skyldan til að setja reglur krefst þess af stjórnvaldi, að það skilgreini verklag og valdsvið með lögmætum hætti. Misbeiting valds byggist oft á geðþótta í skjóli þess, að engar leikreglur gildi. Reglur eru nauðsynlegar til að menn viti um stöðu sína og geti tekið ákvarðanir í samræmi við það. Umboðsmaður alþingis hvatti til dæmis til þess að sett yrðu stjórnsýslulög, svo að auðveldara væri að taka á málum almennings gagnvart stjórnvöldum. Með útfærslu á reiknireglum í fjárhagslegum samskiptum ráðuneyta við stofnanir sínar er verið skapa nauðsynlegt svigrúm við fjárhagslega stjórn, en ríkisendurskoðun segir menntamálaráðuneytið vera í fararbroddi meðal ráðuneyta á þessu sviði.

Það er ekki nóg að skilgreina ábyrgðina með skýrum hætti á pappírnum heldur verður að virða hana í reynd. Þetta hef ég leitast við að gera og stundum sætt ámæli fyrir að blanda mér ekki í mál, sem ég tel ekki á valdi menntamálaráðherra að leysa, þótt málaflokkurinn sem slíkur lúti undir hann samkvæmt skilgreiningu.


Gildi EES-samningsins

Á þessum sex árum hefur alþjóðasamstarf aukist á öllum sviðum, en ég verð ekki var við, að Ísland sé nokkurs staðar að einangrast, þótt við séum utan Evrópusambandsins (ESB). Við gerðum samning við ESB um evrópska efnahagssvæðið og hann stendur fyrir sínu um þau efni, sem hann gildir. Er furðulegt að heyra, að þessi samningur hafi verið hugsaður sem einhver biðleikur eða aðlögunarsamningur að ESB-aðild. Svo var aldrei, þvert á móti var það sagt við EFTA-ríkin, að þau ættu tvo kosti, að gera EES-samninginn eða ganga í ESB. Hlutlausu ríkin, Austurríki, Finnland og Svíþjóð vildu gera EES-samninginn, á meðan þau töldu aðild að ESB ögrun við Sovétríkin. Eftir að Sovétríkin hurfu úr sögunni, ákváðu þessi ríki að gerast aðilar að ESB. Þau litu aldrei á EES-samninginn sem neinn biðleik – væri hann það, ætti að bjóða ríkjunum, sem nú æskja aðildar að ESB að gerast EES-ríki til að búa sig undir aðildina, það er hins vegar ekki gert, því að aðild að EES er varanleg og EES-svæðið stækkar sjálfkrafa með stækkun ESB.

Dæma má styrk málstaðar eftir þeim rökum, sem talsmenn hans nota til að afla sér fylgis. Vopnaburður málsvara ESB-aðildar ber þess ekki merki, að málstaður þeirra sé góður. Oft forðast þeir beinlínis að segja frá hlutum eins og þeir eru, þeim er einnig gjarnt að líta á litla atburði í smásjá og telja þá miklu stærri en þeir eru í réttu samhengi við annað. Ekki er til dæmis trúverðugt að gera lítið úr yfirlýsingum Frakklandsforseta og forseta framkvæmdastjórnar ESB um gildi EES-samningsins í samtölum þeirra við Davíð Oddsson en láta eins og ágreiningur um setu í sérfræðinganefnd í tengslum við EES-samstarfið stofni því öllu í voða! Þeir, sem þannig tala, komast aldrei á leiðarenda, því að athyglin er öll bundin við villuljós.