28.3.2001

Norrænn ráðherrafundur – dreifmenntun og ávísanakerfi


Á fundi menntamálaráðherra Norðurlandanna, sem ég sótti í Kaupmannahöfn þriðjudaginn 27. mars, var einkum rætt um framtíð háskólastigsins og hvort og hvernig ætti að leitast við af opinberri hálfu að beina nemendum frekar í eitt nám en annað.

Hér á landi hefur þeirri stefnu almennt ekki verið fylgt að stýra straumi nemenda inn í einstakar háskóladeildir, en í sumum deildum hefur hins vegar verið sett upp sía til að stjórna ferð nemenda og eru fjöldatakmarkanir læknadeildar kunnasta dæmið um slíka stýringu.

Meðal Norðurlandanna höfum við skýra sérstöðu vegna þess hve margir háskólastúdentar eru við nám erlendis, eða 28,6%. Í Noregi er þessi tala 6%, í Svíþjóð 4,3%, Finnlandi 3,3% og í Danmörku 3,2%. Hef ég bent á þessa tölu, þegar menn eru að ræða um útgjöld hér til háskólastigsins og bera saman við útgjöld annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi sérstaða okkar veldur því, að á tímum alþjóðavæðingar í skólastarfi stöndum við að ýmsu leyti betur að vígi en þær þjóðir, sem eru lítt eða ekki vanar því að senda nemendur sína mikið á alþjóðlegan menntamarkað.

Söguleg viðhorf reynsla skipta máli, þegar borin eru saman útgjöld þjóða til rannsókna- og þróunarmála. Þar skara Svíar jafnan fram úr vegna þess hve stóran skerf landsframleiðslu sinnar þeir leggja til þessa málaflokks eða 3,5%.

Ég spurði háttsettan sænskan embættismann á þessu sviði að því, hvernig hann skýrði það, að Svíar hefðu þessa sérstöðu og engum virtist takast að ná þeim á þessu sviði. Hann sagði að leita yrði skýringa allt aftur í síðari heimsstyrjöldina og átta sig á því, að Svíar hefðu komið frá henni, án þess að þurfa að reisa land sitt úr rústum auk þess sem Tage Erlander, forsætisráðherra þeirra um áratugaskeið, hefði verið mikill áhugamaður um rannsóknir og þróun. Svíar hefðu auk þess vegna hlutleysis síns orðið að leggja verulega mikið af mörkum til rannsókna og þróunar á sviði varnarmála, þeir hefðu til dæmis verið komnir vel á veg við smíði eigin kjarnorkusprengju auk þess sem þeir hefðu lagt hart að sér við smíði á orrustuflugvélum. Þá mætti ekki gleyma því, að í Svíþjóð hefðu jafnan starfað öflug fyrirtæki á borð við Volvo, Scania og Saab, sem öll hefðu lagt mikla áherslu á að þróa öflug farartæki ekki síst flutningabíla. Þá mætti minna á Ericsson, sem hefði um langan aldur verið í fremstu röð á sínu sviði og þannig mætti lengi áfram telja. Svíar hefðu gert sér grein fyrir því, að ekki síst þróunarþátturinn skipti miklu til að ná undirtökunum á heimsmarkaði. Loks mætti ekki gleyma framlagi Svía á sviði læknavísinda og rannsóknum þeirra á þeim vettvangi. Á sínum tíma hefðu hinir svonefndu launþegasjóðir, sem sósíalistar stofnuðu til að ná meira fé af atvinnulífinu, verið notaðir til að auka fjárveitingar til rannsókna- og þróunar.

Þegar þessi sterka staða Svía er metin verða menn því að líta meira en hálfa öld til baka og átta sig á þróun sænska þjóðfélagsins í samanburði við mörg önnur og nauðsynlegt er að gera sér jafnframt grein fyrir því, að Svíar hafa lengi séð, að fjárfesting á þessu sviði skilar arði og skiptir afkomu allrar þjóðarinnar miklu. Hér á landi höfum við ekki svipaðar hefðir á þessu sviði en það er ein af meginbreytingum á íslenska þjóðfélaginu og efnahagskerfinu síðustu ár, að skilingur á gildi rannsókna og þróunar fyrir þjóðarbúskapinn er að aukast jafnt og þétt og ekki síst eftir að hátækni- og hugbúnaðarfyrirtæki komu til sögunnar og líftæknin fór að ryðja sér rúms.

Alþjóðaðvæðing á þessu sviði vex stöðugt og enn eru meiri breytingar á næsta leiti en við höfum séð til þessa. Háskólar eru ekki lemgur staðbundnir og fréttir berast af því að kunnir prófessorar við heimsfræga háskóla séu teknir til við að bjóða sameiginlega kennslu á Netinu og síðan sé þannig um hnúta búið, að nemendur taki einingar eða áfanga hjá þeim, sem þeir fá viðurkennda í þeim skóla, þar sem þeir eru innritaðir.

Þetta er í raun kjarninn í þeirri dreifmenntun eða dreifnámi, sem við í menntamálaráðuneytinu kynntum á ráðstefnunni UT2001 og unnt er að fræðast nánar um á vefsíðu ráðuneytisins www.mrn.stjr.is Við boðum, að nemendur geti, þótt þeir séu innritaðir í einn skóla og ljúki þaðan prófi, í raun stundað nám við marga skóla til að afla sér þeirra eininga, sem þeir þurfa til að ná prófgráðu sinni.

Þegar þessi þróun er höfð í huga verður enn fjarlægara en áður að telja sér trú um að unnt sé að halda þannig á málum af stjórnvöldum eins lands, að þau stýri með skólastefnu sinni háskólanemum inn á eina braut en ekki aðra. Spurningin verður kannski frekar, hvernig ætla opinberir aðilar að koma að því að fjármagna nám af þessu tagi, þegar til dæmis reiknireglur eru þannig úr garði gerðar, að þær færa þeim skólum fé, sem útskrifa nemendur en ekki endilega þeim, þar sem þeir stunda hluta af námi sínu.

Sumir velta því fyrir sér, hvort einmitt þessi þróun verði ekki til þess, að víðtæk sátt náist um það, sem kallað hefur verið ávísanakerfi á íslensku, það er að nemendum sé afhent ávísun á nám af ríkinu eða sveitarfélagi og þeir ákveði síðan, hvar þeir verja því fé, sem þeir fá til að mennta sig. Þannig verði til virkur menntamarkaður, sem sameini hefðbundna skóla og stafræna og þeir dragi að sér nemendur, sem veiti þeim besta þjónustu.

Byltingin í skólastarfi vegna nýju upplýsingatækninnar lýtur ekki aðeins að innra starfii skólanna heldur öllu starfsumhverfi þeirra og þeim úrræðum, sem best eru fallin til að veita nemendum sannkallað frelsi til að nýta sér þau tækifæri, sem bjóðast.