22.3.2001

Dansflokkur í Kanada – ráðherraviðræður – vinaþjóð.Íslenski dansflokkurinn fékk góðar viðtökur á ferðalagi sínu til Toronto og Ottawa í Kanada, sem hófst í síðustu viku og lauk þriðjudagskvöldið 20. mars í National Arts Centre í Ottawa. höfuðborg Kanada. Gerði ég mér ferð þangað af þessu tilefni, enda hefur Íslenski dansflokkurinn aldrei áður komið fram í Norður-Ameríku en það var að frumkvæði Kanadamanna, sem flokknum var boðið til þessara tveggja borga. Var aðsókn mikil á fimm sýningar flokksins í Toronto og um 700 manns voru á einu sýningunni í Ottawa. Tóku áhorfendur flokknum vel og fögnuðu vel og lengi að sýningunni lokinni.

Var það stoltur en þreyttur hópur dansara og aðstoðarfólks, sem tók á móti heillaóskum í litlu hófi, sem við efndum til að lokinni sýningunni. Af viðræðum við kanadíska vini og aðra gesti, sem þarna voru, dreg ég þá ályktun, að sýning dansflokksins hafi komið þeim skemmtilega á óvart, þeir hafi ekki vænst þess, að hér væru gæði og kröfur á þessu sviði listsköpunar með þeim hætti, sem endurspeglaðist í kraftmikilli og listrænni framgöngu dansaranna auk þess sem umgjörðin öll, tónlist og dansar vöktu aðdáun. Lófatak og hrifningarhróp sýningargesta, sem risu úr sætum og hylltu dansflokkinn, voru ótvíræðasti vitnisburðurinn um það, hve sýningin féll í góðan jarðveg.

Hin stutta ferð til Ottawa nýttist mér til að gera fleira en að sjá dansflokkinn, því að ég hitti tvo ráðherra í ríkisstjórn Kanada, Brian Tobin iðnaðar- og rannsóknaráðherra og Sheilu Copps menningarmálaráðherra. Auk þess fór ég í þing Kanada og fylgdist með spurningatíma í neðri deild þess, áður en forseti þingsins gat um að ég væri á þingpöllum en þingmenn risu á fætur og fögnuðu komu minni með lófataki. Ég hitti einnig forseta öldungadeildarinnar og var fagnað á fundi hennar. í öldungadeildinni situr Janis Johnson, fulltrúi Manitoba og Íhaldsflokksins. Hún er Íslendingur í húð og hár en fædd í Gímli og var George faðir hennar ráðherra í ríkisstjórn Manitoba og fylkisstjóri þar. Var það mál manna, sem ég hitti, að Janis væri góður málsvari Íslands á þinginu. Janis hitti ég fyrst árið 1964, þegar ég fór til Winnipeg og Gimli með foreldrum mínum. Hún var hér sumarlangt árið 1966 og vann meðal annars í gjaldeyrisdeild Landsbanka Íslands. Í Ottawa ræddi ég einnig annan þingmann af íslenskum ættum en í fulltrúadeildinni situr John Harvard, þingmaður frjálslyndra frá einu kjördæma Winnpeg, en móðir hans var íslensk. Þá fór ég í Museum of Civilisation, þar sem víkingasýningin frá Smithsonian verður sett upp vorið 2002. Skoðuðum við fasta sýningu safnsins um sögu Kanada og hófst hún við styttuna af Guðríði Þorbjarnardóttur með son sinn Snorra, sem Davíð Oddsson forsætisráðherra gaf Kanadamönnum á síðasta ári í tilefni 1000 ára afmæli landafundanna. Hefst lýsing leiðsögumanna við þessa styttu og verður hún að minnsta kosti um nokkurt skeið í safninu.

Brian Tobin kom hingað til lands 1995, þegar hann var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Kanada, síðar sneri hann sér að stjórnmálum á Nýfundnalandi og var þar forsætisráðherra um skeið og kom hingað sem slíkur 17. júní í fyrra, þegar víkingaskipið Íslendingur lagði úr höfn. Fór hann lofsamlegum orðum um kynni sín af Íslendingum og samstarf við þá um eftirlit með fiskveiðum á Norður-Atlantshafi. Hann sagði þorskstofninn ekki vera að ná sér neitt á strik undan ströndum Nýfundnalands. Tobin er tiltölulega nýlega kominn í embætti iðnaðar- og rannsóknarmálaráðherra en kanadíska ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á þessa málaflokka ekki síst rannsókna- og vísindamál. Við Íslendingar höfum ekki átt formlegt samstarf við kanadísk stjórnvöld á þessu sviði, þótt töluvert samstarf sé á milli íslenskra og kandaískra háskóla og rannsóknir okkar á lúðueldi hafi nýst Kanadamönnum. Tel ég mikilvægt fyrir okkur, að opna dyr á þessum vettvangi gagnvart ríkisstjórn Kanada og tel að það hafi tekist á þessum fundi með Tobin, enda fari fram viðræður embættismanna og sérfræðinga í framhaldinu. Ég kynnti fyrir honum skýrslu, sem samin var á vegum menntamálaráðuneytisins um tungutækni og kynnti honum einnig fartölvuvæðinguna í framhaldsskólunum, en í nágrenni Ottawa meðal annars vegna nálægðar við stjónarstofnanir hafa á skömmum tíma sprottið um tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki. Vangaveltur eru um að Jean Chretien, forsætisráðherra Kanada, hverfi brátt til annarra starfa eftir farsæla forystu og telja menn líklegt, að Brian Tobin muni sækjast eftir leiðtogastarfi Frjálslynda flokksins.

Í lok júní 1998 var ég í Ottawa á fundi menningarmálaráðherra, sem Sheila Copps, menningarmálaráðherra Kanada, bauð til og hitti hana þá á einkafundi og að þessu sinni hittumst við að nýju í skrifstofu hennar í þinghúsinu og fórum yfir ýmis sameiginleg málefni, en Sheilu Copps er mjög hugleikið, hvernig Kanadamenn eigi að standa vörð um eigin menningarstarfsemi í nábýlinu við Bandaríkjamenn. Var fróðlegt að heyra sjónarmið hennar um þau mál og þróun þess óformlega menningarsamstarfs, sem hún var höfundur að á árinu 1998. Ég hef ekki haft tök á að sækja fundi undir merkjum þess síðan, en þeir hafa verið í Mexíkó og Grikklandi og er stefnt að fundi í Sviss á þessu ári.

Í ferðinni átti ég þess einnig kost að kynnast starfsemi Canadian Foundation of Innovation, sem er öflugur sjóður til nýsköpunar í háskólum, rannsóknum og vísindum. Einn af framkvæmdastjórum sjóðsins, Michel Lamoureux, var með mér á námskeiðinu í Harvard vorið 2000 og vorum við þar saman í verkefnahópi, sem hefur tengt okkur vinaböndum síðan. Er í raun með ólíkindum að fylgjast með því, hve mikla áherslu Kanadamenn leggja á að efla starfsemi á þessum sviðum.

Við Íslendingar erum að opna sendiráð í Ottawa nú í vor og verður það vafalaust til að efla samskipti okkar og Kanadamanna enn frekar en þeir munu opna sendiráð hér á þessu ári. Af þeim þjóðum, sem ég hef heimsótt, tel ég, að utan Norðurlandanna eigum við Íslendingar hvað mesta samleið með Kanadamönnum. Allt frá árinu 1964 hef ég farið í ýmsum erindum til Kanada sem embættismaður, blaðamaður og stjórnmálamaður. Hefur ávallt verið tekið á móti mér af mikilli vinsemd og einstakri gestrisni og hef ég jafnan verið eindreginn hvatamaður þess, að við leggjum mikla og góða rækt við samskiptin við Kanadamenn, nýjar og betri forsendur skapast til þess, þegar sendiráðin verða opnuð.