18.3.2001

R-listi enn í uppnámi – ákvörðun um flugvöll frestað.

Nokkurt umrót hefur verið í umræðum um stjórn Reykjavíkurborgar síðustu vikur. Tvennt ræður mestu um það. Í fyrsta lagi kosningin um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, sem fór fram hinn 17. mars. Í öðru lagi umræður um skipan forystusveitar sjálfstæðismanna í næstu borgarstjórnarkosningum.

Ef við lítum fyrst á síðara málið, finnst mér athyglisverðast að fylgjast með hinum harkalegu viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra. Ég hef áður fjallað um framgöngu hennar í viðtali við Dag og í þættinum Silfur Egils. Í báðum tilvikum gekk hún fram fyrir skjöldu með miklu offorsi í garð Sjálfstæðisflokksins og lét eins og það væri tími til þess kominn að einhver málsmetandi andstæðingur hans sýndi okkur sjálfstæðimönnum í tvo heimana.

Í viðtali við DV mánudaginn 12. mars segir hún, að ég hafi komið eins og „minkur í hæsnabú" með því að ljá máls á því að ræða pólitíska framtíð mína við nána stuðningsmenn og með því hafi ég vakið ótímabæra umræðu um framboðsmál innan R-listans.

Eftir að Ingibjörg Sólrún hefur hvað eftir annað hreytt ónotum í Sjálfstæðisflokkinn gerir DV skoðanakönnun meðal kjósenda í Reykjavík og hvað kemur í ljós: Fylgi Sjálftæðisflokksins vex um 5% miðað við það sem hann fékk í síðustu alþingiskosningum og 50% Reykvíkinga segjast styðja flokkinn. Á hinn bóginn hrapar Samfylkingin, stjórnmálaaflið á landsvísu, sem stendur næst borgarstjóra og þar sem margir bíða eftir henni til forystu, úr 29% fylgi meðal Reykvíkinga í síðustu alþingiskosningum í 16% en vinstri/grænir fara úr 9,4% í 18,7%. Framsóknarmenn eru með rúmlega 9% fylgi og dala aðeins.

Þessar tölur segja ekki, að borgarstjóri hafi erindi sem erfiði, þegar hún gengur fram sem höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins með stóryrðum. Hún ættti miklu frekar að huga að stöðunni í R-listanum, en í baklandi hans eru vinstri/grænir orðnir sterkasta pólitíska aflið og á eftir að koma í ljós, hvort þeir vilja ganga til málamiðlana um stefnu sína við borgarstjóra.

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, vandaði vinstri/grænum ekki kveðjurnar í setningarræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna föstudaginn 15. mars, þegar hann sagði þá „fulltrúa afturhaldsins í landinu", þeir væru á móti öllum nýjum leiðum í atvinnuuppbyggingu, framsóknarmenn kynnu einhvern tíma að starfa með þeim en vinstri/grænir yrðu að breyta um stefnu, því að það væri ekki hægt að starfa með þjóðmálaafli, sem væri á móti öllum sköpuðum hlutum. Sagðist Halldór ekki enn þá hafa orðið var við það á alþingi að vinstri/grænir fylgdu einhverju framfaramáli.

Við undirbúning framboðs R-listans mun reyna á það, hvort vinstri/grænir breyta nægilega um stefnu til að formaður Framsóknarflokksins telji rétt fyrir flokk sinn að starfa með þeim þar. Þótt Ingibjörg Sólrún vilji helst ekki ræða þessi mál vegna þess hve óþægileg þau eru fyrir hana og R-listann, verður ekki undan því vikist og umræðurnar eru hafnar víða í netheimum, þótt prentmiðlar og ljósvakamiðlar virðist ekki hafa áttað sig á þeirri valdabaráttu, sem háð er á bakvið tjöldin meðal vinstrimanna í Reykjavík, þar sem vinstri/grænir krefjast þess réttilega að tekið sé ríkara tillit til skoðana þeirra en gert hefur verið til þessa.

Á vefsíðunni Kreml.is segir Stefán Hrafn Hagalín í nýlegum pistli:

„Eitt það versta við þessa könnun [þ.e. könnun DV, sem birtist 15. mars] fyrir Samfylkinguna er auðvitað að hún sýnir glöggt að Vinstrigrænir eru í firn sterkri stöðu í yfirvofandi samningaviðræðum um aðild þeirra að kosningabandalagi Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins í næstu borgarstjórnarkosningum. Og ekki virðist Samfylkingunni veita af áframhaldandi stuðningi Framsóknar, því fylgi þeirra í borginni frá síðustu Alþingiskosningum hefur lítið breyst. Að sönnu er borgarpólitíkin mun einsleitari og daufari vettvangur en landsmálin og því víst að ekki mun bera jafn mikið milli flokkanna þegar kemur að málaleitunum vegna stefnuskrár. Samt sem áður hlýtur að fara ónotalega um frjálslynda stuðningsmenn Reykjavíkurlistans við þá tilhugsun um að kreddufullir sósíalistar njóta sannarlega öflugs stuðnings í borginni. Það verður gaman eða hitt þó heldur að sjá smánaðan vinstrikantinn úr Alþýðubandalaginu skríða til valda á nýjan leik í skjóli þeirra vinsælda."


Marklaus flugvallarkosning.

Hafi borgarstjóri sýnt pólitískan dómgreindarskort með því að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn á ótrúverðugan hátt, staðfestir niðurstaðan í kosningunni um framtíð Vatnsmýrarinnar, að hún hefur ekki næma tilfinningu fyrir því, hvernig best er að greiða úr flóknum viðfangsefnum, þar sem skynsamleg niðurstaða fæst ekki nema með því að draga fram mörg sjónarmið og sætta þau.

Í löngum aðdraganda þess að gengið var til atkvæða um málið var það meðal annars rifjað upp, að árið 1988 var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarfulltrúi Kvennalistans, alfarið á móti Reykjavíkurflugvelli og vildi hann á brott úr Vatnsmýrinni. Hún er síðan kjörin borgarstjóri 1994 og árið 1999 ritar hún undir samning við ríkið um að ráðist verði í miklar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli enda verði hann áfram að minnsta kosti til ársins 2016. Blekið er vart þornað á þessari undirskrift, þegar þessi sami borgarstjóri viðrar þá hugmynd, að rétt sé að borgarbúar ákveði það í atkvæðagreiðlsu, hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Þetta tækifæri fengu borgarbúar 17. mars 2001, án þess að nokkur vissi, hvert flugvöllurinn ætti að fara, hinir raunsæju í hópi andstæðinga vallarins í Vatnsmýrinni, eins og Morgunblaðið, töldu einsýnt, að allt innanlandsflug mundi flytjast til Keflavíkur, aðrir ræddu kosti, sem allir eru óraunhæfir í framkvæmd.

Þegar dró að kosningunni samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Ingibjargar Sólrúnar, að niðurstaða kosningarinnar skyldi vera bindandi tækju að minnsta kosti þrír fjórðu hlutar atkvæðisbærra manna þátt ( það er um 60.000 manns) í kosningunni eða ef einsýnt væri, að helmingur atkvæðisbærra manna (rúmlega 40.000 manns) greiddu öðrum hvorum kostinum, sem um yrði kosið, atkvæði sitt.

Því fer víðs fjarri, að kosningin sé bindandi á þessum forsendum, því að aðeins 30219 af 81258 á kjörskrá kusu eða 37,2%., þar af vildu 14.529 eða 48,1% áfram flugvöllinn en 14.913 eða 49,3% að flugvöllurinn færi, það munaði aðeins 384 atkvæðum.

Hitt lá ljóst fyrir, áður en gengið var til atkvæða, að kosningin mundi ekki binda hendur neinnar borgarstjórnar fram til 2016 nema þeirrar, sem nú situr.

Eftir að úrslitin liggja fyrir segir borgarstjóri, að af þeim megi draga þá ályktun, að Reykvíkingar vilji hafa flugvöllinn á höfuðborgarsvæðinu en þó ekki í Vatnsmýrinni. Erfitt er að sjá heila brú í þessari röksemdafærslu miðað við það, sem borgarstjóri sagði fyrir kosninguna um þennan þátt málsins. Ef fá hefði þessa niðurstöðu, hvers vegna var ekki spurt um það, hvort menn vildu flugvöll í Vatnsmýrinni eða einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu?

Þegar tölurnar liggja fyrir gefur borgarstjóri einnig til kynna, að þær séu á einhvern hátt bindandi. Þegar talin voru atkvæði í bandarísku forsetakosningunum, þurfti hæstarétt Bandaríkjanna til að benda mönnum í Flórída á það, að í kosningum breyttu menn ekki leikreglunum eftir að leiknum væri lokið til að fá þá niðurstöðu, sem þeir sjálfir vildu. Svipuð ábending á við við, þegar hlustað er á það, hvernig borgarstjóri ræðir niðurstöðu flugvallarkosningarinnar. Borgarstjóri getur ekki fyrir kosningar sagt, að þær séu bindandi ef meira en 60.000 manns koma á kjörstað eða meira en 40.000 velji annan kostinn, en eftir þær sagt niðurstöðuna bindandi, þegar aðeins um 30.000 komu á kjörstað og innan við 15.000 völdu annan kostinn.

Er þá komið að þeirri hlið þessa máls, sem margir hafa talið helsta gildi kosninganna, það er væntingar vegna þeirra í þágu breyttra stjórnarhátta. Hafa margir kveðið fast að orði um þennan þátt, Ingibjörg Sólrún taldi til dæmis í viðtali við Morgunblaðið, að með atkvæðagreiðslunni væri brotið blað í íslenskri stjórnmálasögu og með henni mundi þeirri lýðræðiskröfu aukast ásmegin, að í mikilvægum samfélagsmálum fengi þjóðin sjálf að móta sér framtíð en þyrfti ekki nauðsynlega að lúta forræði stjórnmálaflokka.

Umræður um flugvallarmálið voru miklar og það fór ekki fram hjá neinum, að mikið var í húfi. Framkvæmd kosninganna kostaði milli 30 og 40 milljónir króna, svo að ekkert var til sparað, auk þess sem hinir ólíku hópar vörðu miklu fé til auglýsinga og kynningar. Kunnir fljölmiðlamenn á borð við Egil Helgason og áhrifamenn í netheimum tóku skýra afstöðu gegn flugvellinum, Morgunblaðið ritaði tvær forystugreinar sérstaklega í tilefni þeirra, aðra um að fólk ætti að fara að kjósa og hina um að það ætti að kjósa gegn flugvelli í Vatnsmýrinni.

Morgunblaðið taldi, að hér væri um merkilegt skref í átt til nýrra stjórnarhátta að ræða, en eftir að blaðið birti fyrir nokkrum árum úttekt vikuritsins The Economist um þátttöku almennings í töku ákvarðana með þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur blaðið aðhyllst stjórnarhætti af því tagi og rökstutt á ýmsa lund. Hugmyndafræðin byggist á því, að vald sé tekið af stjórnmálamönnum og fært í hendur almennings, sem taki ákvörðun sína meðal annars með tilliti til þess, hvernig fjölmiðlar kynni mál. Í stað þess að hagsmunahópar og fjölmiðlar leitist við að hafa áhrif á stjórnmálamenn snúi þessir áhrifaaðilar sér beint til almennings, stefnumarkandi áhrif flytjist af stjórnmálavettvangi inn á fjölmiðlavettvanginn og helst milliliðalaust þaðan til almennings.

Atkvæðagreiðslan um flugvöllinn skiptir, þegar upp er staðið engu máli um flugvallarmálið sjálft, og hún sýnir jafnframt, að það höfðar ekki sterklega til almennings, að hann fái tækifæri til að segja skoðun sína á álitamáli af þessu tagi. Verður forvitnilegra að sjá, hvaða áhrif atkvæðagreiðslan hefur á talsmenn hins nýja lýðræðis en á skipulagsmál vegna flugvallarins. Hvernig ætla málsvarar milliliðalausa lýðræðisins að vinna málstað sínum fylgis í ljósi þess takmarkaða áhuga, sem Reykvíkingar sýndu atkvæðagreiðslunni?

Í umræðum um þennan þátt mun athyglin enn beinast að því, hvernig staðið var að öllum málatilbúnaði af hálfu R-listans vegna flugvallarmálsins. Staðreynd er, að hinn almenni kjósandi skynjaði, að hér var um kostnaðarsamt sjónarspil að ræða til að breiða yfir vandræðagang innan meirihluta borgarstjórnar. Hef ég áður á þessum vettvangi vakið máls á því, hve hættulegt er fyrir talsmenn nýrra stjórnarhátta að leggja lóð sitt á vogarskálina með R-listanum í þessu máli og gera það að einhverju prófmáli fyrir málstað sinn.

Glöggur lesandi Morgunblaðsins benti mér á tveggja dálka frétt á bls. 59 í blaðinu föstudaginn 16. mars, daginn fyrir kosninguna um flugvöllinn, en fyrirsögn hennar var: Vilja fresta ákvörðun í flugvallarmálinu. Undir þessum orðum er birt sameiginleg ályktun Arkitektafélags Íslands, Félags íslenskra landslagsarkitekta, Skipulagsfræðigafélags Íslands, Tæknifræðingafélags Íslands og Verkfræðingafélags Íslands um Reykjavík og flugvöllinn. Þessi félög telja, að grundvallarupplýsingar skorti og leggja til að endanleg ákvörðun verði tekin um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar þegar fram hafa farið ítarlegar og faglegar úttektir á þeim kostum sem fyrir liggja. Þá fyrst er hægt að taka endanlega ákvörðun um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar með tilliti til skipulags-, umhverfis- og kostnaðarsjónarmiða og með heildarhagsmuni borgarbúa og landsmanna allra að leiðarljósi.

Þegar þessi ályktun í nafni fimm félaga sérfróðra manna er lesin, fá menn staðfestingu á þeirri skoðun, að atkvæðagreiðslan um flugvöllinn var ótímabær og málið var kynnt, án þess að allar hliðar þess lægju ljóst fyrir. Með hliðsjón af áhuga Morgunblaðsins á að skýra málið sem best fyrir lesendum sínum hefði mátt ætla, að þessari ályktun yrði gert hærra undir höfði.

Niðurstaða kosningarinnar um flugvöllinn er sú, að ákvörðun í málinu er frestað með leyfi kjósenda. Þessi niðurstaða lá í augum uppi, þegar ákveðið var að stofna til atkvæðagreiðslunnar, því að sérhver borgarstjórn fram til 2016 hefur sjálfstæða skyldu til að taka afstöðu til málsins.