11.3.2001

UT 2001 – netverjar – borgarstjórnarmál – góður áratugur.

Menntamálaráðuneytið efndi dagana 9. og 10. mars til ráðstefnunnar UT2001, það er um upplýsingatækni í skólastarfi og snerist hún að þessu sinni um rafrænt menntakerfi og breytta kennsluhætti. Ráðstefnan fór fram í Borgarholtsskóla við hinar bestu aðstæður og sóttu hana um 900 manns, en 103 fyrirlestrar og kynningar voru á dagskránni auk margs annars. Fyrsta ráðstefnan af þessu tagi var haldin í Menntaskólanum í Kópavogi um þetta leyti 1999, í fyrra var UT2000 í Háskólanum í Reykjavík.

Ég held, að allir, sem ráðstefnuna sóttu, hafi sannfærst um, að síst minni kraftur er í þróun upplýsingatækni í skólastarfi núna en áður, þvert á móti eru alltaf að opnast nýjar leiðir og nú erum við tekin til við að ræða um dreifskóla, dreifnám og dreifmenntun, sem er skipulag á námi, þar sem sameinaðir eru kostir þess að vera í skóla og stunda fjarnám.

Menntamálaráðuneytið kynnti á ráðstefnunni verkefnaáætlun sína Forskot til framtíðar, sem vísar leiðina í upplýsingatækninni til ársins 2003. Geta menn kynnt sér þessa stefnu á vefsíðu ráðuneytisins, www.mrn.stjr.is.

Vandinn við að fjalla um mál af þessu tagi er einna helst sá, að það er erfitt að lýsa því með orðum, sem menn sjá fyrir sér, að muni gerast. Í mörgu tilliti eru nýjungarnar þess eðlis, að gagnsemi þeirra skýrist ekki, fyrr en menn fá tækifæri til að nýta sér þær í reynd.

Fyrirlesarar voru fengnir frá útlöndum til að skýra frá því, sem þar er að gerast, í Bandaríkjunum, Evrópu og á Norðurlöndunum. Við erum ekki eftirbátar neinna á þessu sviði og stöndum í sumu tilliti í fremstu röð varðandi þróun tækni og kennsluhátta. Hitt er ekki síður greinilegt, að með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á fjárveitingum til skóla, er einnig á því sviði verið að laga íslenska skólakerfið að alþjóðlegum kröfum. Sjálfstæði einstakra skóla er meira en áður og samkeppni milli þeirra um nemendur á aðeins eftir að aukast.

Þótti mér í því sambandi fróðlegt að ræða við fulltrúa einkafyrirtækis hér, sem hóf samskipti við skólakerfið fyrir um það bil ári. Hann var þá þeirrar skoðunar, að hann væri á leið inn í umhverfi, þar sem trú á ríkisforsjá og afskipti réðu ferðinni og þótti ekki endilega fýsilegt að eiga mikið samstarf við slíka aðila. Hann sagðist hins vegar hafa orðið fyrir mjög skemmtilegri reynslu, því að andrúmsloftið innan skólanna einkenndist af áhuga og vilja til að fara inn á nýjar brautir og gera sífellt meira og betur. Taldi hann, að svipuð vakning væri innan skólakerfisins eins og var í viðskiptalífinu á sínum tíma, þegar það barðist fyrir því að geta farið sínar eigin leiðir án ríkisafskipta og á grundvelli skýrra leikreglna.

UT2001 sannaði mér enn, að innan íslenska skólakerfisins er ekki síst að finna þekkingu og áhuga á að þróa upplýsingatæknina og nýta hana með sem bestum hætti. Er ég þeirrar skoðunar, að þessi vettvangur sé hinn besti, sem fyrir hendi er hér á landi til að skiptast á skoðunum um málefni tengd upplýsingatækninni.

Netverjar

Töluverðum tíma hef ég varið undanfarna daga til að fjalla um höfundarétt, gæslu hans og óánægju netverja og fleiri vegna laga um gjaldtöku vegna stafrænnar upptöku og reglugerðar í samræmi við lögin. Ég ætla ekki að rita um þetta mál hér á vefsíðu mína en vísa á grein, sem ég birti í Morgunblaðinu 9. mars auk þess sem ég svaraði spurningum um efnið á visir.is og hef tekið þátt í umræðum á vefsíðu netverja.

Tölvuviðræðurnar á netverjasíðunni hafa gefið mér tækifæri til að koma á framfæri skoðunum mínum og svara spurningum frá andmælendum gjaldsins. Er greinilegt, að hin ólíku viðhorf er erfitt að sætta, en ég held, að öll meginsjónarmið séu komin fram í málinu fyrir þá, sem vilja kynna sér þau.

Borgarstjórnarmál

Í tveimur sjónvarpsþáttum, Kastljósi 9. mars og Silfri Egils 11. mars, hef ég svarað spurningum um það, hvort ég ætli að gefa kost á mér sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í kosningum til borgarstjórnar Reykjavíkur. Í báðum tilvikum hef ég látið undir höfuð leggjast að taka af skarið. Ég hef einfaldlega ekki gert upp hug minn í málinu. Mér finnst hins vegar, að ýmsir þættir þess séu að skýrast, til dæmis sjá allir, hve fráleitt er að líta á umhugsun mína sem einhverja árás á borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna eða ögrun við hann. Hvers vegna mega menn ekki ræða þessi mál við mig og ég segja frá slíkum viðræðum, án þess að komast að niðurstöðu um málið á svipstundu?

Eðlilegt er, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins leitist við að draga upp sem versta mynd af þessu máli fyrir flokkinn. Við því er ekkert annað að segja en benda á hve veikburða slíkur málflutningur er. Hlálegast er, þegr Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sakar okkur sjálfstæðismenn um valdhroka og skort á lýðræðislegri virðingu af þessu tilefni. Muna menn ekki eftir því, að jafnan við uppstillingu R-listans hefur Ingibjörg Sólrún gert kröfu um það, að hún sé á friðarstóli í hefðarsæti, en aðrir geti rifist um sætin sín, enginn megi draga í efa sess hennar? Er sá, sem situr á slíkum stóli, best til þess fallinn að segja öðrum, hvernig á að standa að lýðræðislegum vinnubrögðum?

Í þættinum með Agli Helgasyni lýsti ég þeirri skoðun minni, að vinstri/grænir væru núna í svipuðum sporum og Kvennalistinn á sínum tíma, þegar honum var mjög í mun að berjast fyrir pólitískum hreinleika sínum. Þá mældist fylgi hans mikið í skoðanakönnunum og talsmenn listans ljáðu ekki máls á samstarfi við aðra. Ingibjörg Sólrún notaði Kvennalistann sem vogarafl í borgarstjórastólinn og sagði síðan skilið við hann og lagði sig fram um, að hann yrði að engu. Ef vinstri/grænir ætla að halda pólitískum hreinleika sínum fram að þingkosningum 2003, fara þeir ekki inn í R-listann – geri þeir það selja þeir sig mjög dýrt og R-listinn færi mikla vinstri slagsíðu.

Í viðtali mínum við Egil Helgason minntumst við þess, að í þætti hans á gamlársdag boðaði Ingibjörg Sólrún stuðning sinn við aðild að Evrópusambandinu, Ögmundur Jónasson, oddviti vinstri/grænna í Reykjavík, var þátttakandi í viðræðunum og var henni innilega ósammála. Ætlar Ögmundur að leggja stjórnmálamanni með þessar skoðanir stuðning sem borgarstjóra? Hvar yrði pólitískur trúverðugleiki Ögumundar þá? Hitt var ekki síður sérkennilegt, að Egill sagðist hafa orðið að toga það út úr Ingibjörgu Sólrúnu, að hún styddi Samfylkinguna, en samt lá það í oðrum hans, að Ingibjörg Sólrún yrði pólitískur leiðtogi Samfylkingarinnar.

Góður áratugur

Ástæða er til að minnast þess, að hinn 10. mars voru rétt 10 ár liðin, frá því að Davíð Oddsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Var ánægjulegt að taka þátt í því á sínum tíma að tryggja honum sigur í tvísýnni og erfiðri kosningu gegn Þorsteini Pálssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Davíð var varaformaður flokksins og borgarstjóri, þegar hann sóttist eftir formennskunni. Við, sem hvöttum hann til formannsframboðs, vorum þeirrar skoðunar, að undir forystu hans mundi Sjálfstæðisflokkurinn ná undirtökunum í íslensku stjórnmálalífi. Sagan sýnir, að við höfðum rétt fyrir okkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur notið glæsilegrar framgöngu Davíðs og þjóðin öll framsýni hans og dugnaðar sem forsætisráðherra.