4.3.2001

Skíðaferð - heift borgarstjóra – vandi R-listans.

Þótt ekki sé ég mikill skíðamaður, var skemmtilegt að fara í eina viku með allri fjölskyldunni í Dólómítaalpana og hvíla hugann frá stjórnmálum og öðru daglegu amstri með því að glíma við mismunandi brattar brekkur og anda að sér fjallaloftinu í glampandi sól eða mildri snjókomu. Látinn vinur minn, Magnús Guðmundsson blómasali, kynnti mér dýrð Alpanna í fyrsta sinn fyrir meira en áratug og fórum við þá tveir saman á eigin vegum, en nú tók ég upp þráðinn aftur undir handarjaðri Úrvals-Útsýnar og stóð þar allt eins og stafur á bók, fyrir utan að það kom okkur á óvart að þurfa að millilenda í Glasgow á leiðinni heim frá Verona. Voru tvær Boeing-þotur Flugleiða á heimleið þaðan á sama tíma á laugardagskvöldið, önnur af gerðinni 757 en hin af 737 og þurftum við, sem vorum í henni að lenda í Glasgow til að taka eldsneyti í öryggisskyni vegna mótvinds og veðráttunnar hér, 757-vélin fór leiðina í einum áfanga.

Ég heyrði á talsmönnum R-listans í þættinum Silfri Egils í hádeginu í dag, sunnudaginn 4. mars, að það væri aðför að borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, að ég hefði ekki notað skíðafríið til að gefa þeim svör, sem spurðu mig á dögunum, hvort hugur minn stæði til þátttöku í borgarmálum. Stefán Jón Hafstein ráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og hún sjálf, virðast hafa af því nokkrar áhyggjur, að ég hafi ekki tekið af skarið í þessu máli. Verða þau að bíða enn um sinn.

Frá því að Hrafn Jökulsson hleypti þessum umræðum um hugsanleg borgarmálaafskipti mín af stað hefur Ingibjörg Sólrún brugðist við af miklu oflæti og heift. Í viðtali í Degi laugardaginn 24. febrúar, sakar hún meðal annars Sjálfstæðisflokkinn um „nakinn valdhroka" og okkur Hannes Hólmstein Gissurarson um „einelti" í garð þeirra, sem einhvers mega sín í þjófélaginu, og fara ekki eftir leikreglum Sjálfstæðisflokksins. Segist hún hafa séð mörg dæmi um að menn í viðskiptalífinu séu „hengdir upp á tánum öðrum til viðvörunar" en vegna óttans sé í fæstum tilfellum talað upphátt um þetta. Þá talar hún niður til Davíðs Oddssonar og gerir lítið úr störfum hans sem borgarstjóra. Sakar hún okkur þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins um að „hamast á Reykjavík." Og bætir við: „Þeim er satt að segja alveg sama þó að þeir fórni hagsmunum höfuðborgarinnar á altari flokkshagsmunanna." Hún segir einnig um Sjálfstæðisflokkinn: „Forystumenn hans eira engu sem þeim er ekki þóknanlegt. Þeir beita því opinbera valdi sem þeim hefur verið trúað fyrir í þágu pólitískra skammtímahagsmuna flokksins jafnvel þótt þeir viti að það skaði langtímahagsmuni samfélagsins. Þeir skirrast ekki við að grafa undan trausti fólks á öllum helstu stofnunum samfélagsins, ef það hentar þeim."

Svo mikil heift í pólitískum umræðum er óvenjuleg í seinni tíð. Hefur þó ekki farið mikið fyrir vandlætingu þeirra, sem hæst kveina undan hvössu orðbragði forystumanna Sjálfstæðisflokksins, þótt ekki komist það í hálfkvisti við þessar dylgjur. Tilefni þeirra er í raun ekki merkilegra en það, að skýrt er frá umræðum innan Sjálfstæðisflokksins um það, hvernig skynsamlegast sé að standa að því að losa höfuðborgina undan dauðri hönd R-listans. Þau Stefán Jón og Ingibjörg Sólrún ræða ekki um innri málefni Sjálfstæðisflokksins af neinni umhyggju fyrir honum heldur út frá eigin hagsmunum. Hugaræsing þeirra má rekja til þess, að þeim þykir óþægilegt, að kastljósinu sé beint að borgarmálum og þar með slakri forystu R-listans. Klúðrið vegna kosninganna um flugvöllinn er síðasta dæmið af mörgum um handvömm meirihlutans við stjórn borgarinnar.

Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, fær gott tækifæri til að lýsa lélegri stjórn R-listans í fróðlegu viðtali við Morgunblaðið laugardaginn 3. mars, samhliða því sem hún áréttar forystuhlutverk sitt.

Í sporum forystumanna R-listans hefði ég frekar áhyggjur af stöðunni í eigin ranni en þeim umræðum, sem fara fram á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Það var furðulegt að heyra Ingibjörgu Sólrúnu láta líta svo út í samtalinu við Egil Helgason, að hennar flokkur væri Kvennalistinn. Þegar borgarstjóra hentaði, lét hún Kvennalistann sigla sinn sjó og grét krókódílstárum yfir upprætingu hans. Flokkarnir, sem stóðu að R-listanum, nema Framsóknarflokkurinn, eru úr sögunni, en innra flokksstarf framsóknarmanna í Reykjavík snýst í vaxandi mæli um einstaklinga, sem takast á um valdastöður. Ingibjörg Sólrún vill sem minnst af Samfylkingunni vita, einkum þegar vegur hennar minnkar jafnt og þétt undir forystu Össurar Skarphéðinssonar. Á hinn bóginn sækja Vinstri/grænir í sig veðrið en Ögmundur Jónasson. leiðtogi þeirra í Reykjavík, hefur helst áhyggjur af því, að Sjálfstæðisflokknum hafi tekist að draga R-listann og langt til hægri.

Valdapólitík er undirrót R-listans, hin miskunnarlausa þrá eftir völdum í Reykjavík á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Síðustu daga hefur Ingibjörg Sólrún enn staðfest þetta með yfirlætisfullum hætti. Öll störf R-listans síðustu ár hafa byggst á því að halda völdunum, hvað sem þau kosta. R-listinn á enga sameiginlega hugsjón, enda er forðast að ræða þar mál á hugmyndafræðilegum forsendum.