14.2.2001

Vatnsmýrin og uppákoma R-listans

Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, tók af skarið um það í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 14. febrúar, að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar, sem fer fram eftir nokkrar vikur um það, hvort flugvöllur skuli vera í Vatnsmýrinni eða hverfa þaðan, væri aðeins bindandi fyrir þá borgarstjórn, sem nú situr í Reykjavík. Hún snerist um atburð, sem gæti í fyrsta lagi gerst árið 2016 og fyrir þann tíma yrði fjórum sinnum gengið til borgarstjórnarkosninga, atkvæðagreiðsla nú gæti ekki bundið hendur þeirra, sem kjörnir yrðu í þeim kosningum, auk þess sem sú skylda hvíldi á öllum sveitarstjórnum að taka aðalskipulag til skoðunar eftir hverjar kosningar.

Þessi ummæli prófessorsins ganga þvert á það, sem við heyrðum í fréttum sólarhing áður, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri R-listans, útlistaði þá kosti, sem við kjósendum í Reykjavík blöstu varðandi Vatnsmýrina, og hvaða áhrif atkvæði þeirra mundi hafa. Hafði R-listinn hannað einhverja reglu um það efni og taldi borgarstjóri, að í henni fælist, að ákvörðun núna í samræmi við þá reglu mundi binda hendur eftirmanna hennar um aldur og ævi. Allt er það á misskilningi byggt og aðeins enn eitt dæmið um það, hve einkennilega er að þessum málatilbúnaði öllum staðið.

Um nokkurt skeið hefur hópur fólks unnið að því að undirbúa þessa atkvæðagreiðslu og skýrt var frá því, að margir kostir kæmu til álita, þegar gengið yrði til hennar. Voru umræður í nokkrar vikur um þessa kosti, Í þeim skýrðist, að flugvallargerð úti í Skerjafirði væri dauðadæmd, því að ekkert flugfélag tæki þá áhættu að láta sjávarseltu leika um vélakost sinn. Þá kom í ljós, að flugvöllur í Hvassahrauni í grennd við Vatnsleysuströnd yrði á svæði, þar sem veðurskilyrði væru alls ekki góð fyrir flugstarfsemi, eins og nafn hraunsins getur gefið til kynna, þótt það dragi líklega nafn af útliti sínu og gerð en ekki veðurfarinu. Þá hefur verið upplýst, að Reykjavíkurborg leggur ekkert af mörkum til flugvallargerðar og á ekki landið í Vatnsmýrinni undir flugvellinum, það er í raun verið að ráðskast með fé og eignir annarra í óþökk þeirra, eins og samgönguráðherra hefur lýst.

Eftir allar þessar umræður og vangaveltur var það síðan niðurstaða R-listans, að benda ekki á neinn kost heldur spyrja, hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera í Vatnsmýrinni. Það sé ekki mál borgaryfirvalda, að hafa skoðun á því, hvar þessi flugvöllur sé, verði honum hafnað í atkvæðagreiðslunni, aðrir verði að taka þá ákvörðun. Allar umræðurnar um kosti voru sem sagt settar á svið til að gera undirbúning vegna hinnar einföldu spurningar ábúðarmeiri.

Í raun er alltaf að skýrast betur og betur, að atkvæðagreiðslan er til þess eins að koma meirihluta R-listans undan þeirri ábyrgð að taka ákvörðun um þetta mál, lýsa skoðun sinni og fylgja henni fram með þeim hætti, sem borgarfulltrúar ákveða. Ákvörðun þeirra yrði þó ekki frekar en niðurstaða atkvæðagreiðslunnar bindandi fyrir neinn árið 2016, hún endurspeglaði á hinn bóginn viðhorf þeirra, sem nú fara með stjórn borgarinnar og fæli í sér ákveðin markmið. R-listinn hefur einfaldlega ekki burði til að taka slíka ákvörðun, sannast enn, að sundurlyndið innan hans veldur vandræðum á öllum sviðum.

Hér skal engu spáð um þátttöku eða niðurstöðu í þessari atkvæðagreiðslu. Er dapurlegt, að ýmsir einlægir báráttumenn með eða á móti flugvelli virðast binda nokkrar vonir við hana. Aðrir hugsjónamenn og talsmenn nýrra stjórnarhátta telja, að ákvörðunin um að ganga til atkvæða um þetta mál marki einhver þáttaskil í þróun stjórnmála og sé upphaf nýrra tíma með virkri þátttöku almennings. Líklegt er, að tvær grímur renni á þá, sem þannig tala, þegar þeir átta sig á því, að atkvæðagreiðslan er ekki annað en stundargaman R-listans til að losna undan því að taka afstöðu. Það, sem menn segja núna, skiptir engu máli, þegar að því kemur að taka í raun af skarið.

Segja má, að sjaldan hafi jafnmargir látið glepjast jafnmikið af tali stjórnmálamanna og í þessu máli, þegar litið er til þess, hve fjálglega hefur verið fjallað um atkvæðagreiðsluna og gildi hennar. Flugvöllurinn fer eða verður alveg án tillits til þeirrar niðurstöðu, sem fæst með því að verja 30 milljónum króna til að framkvæma þessa atkvæðagreiðslu. Er tímabært fyrir þá, sem vilja vera marktækir í umræðum um stjórnmál, að hætta að láta eins og atkvæðagreiðsla núna skipti sköpum fyrir framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni.

Þeir, sem telja atkvæðagreiðsluna marka þáttaskil í þróun íslenskra stjórnmála, verða ekki síður að líta í eigin barm en hinir, sem telja, að hún leysi flugvallarmálið í eitt skipti fyrir öll. Atkvæðagreiðslur sem þessar missa nefnilega gjörsamlega marks, ef þær eru aðeins skálkaskjól fyrir stjórnmálamenn, sem þora ekki að hafa skoðun og standa og falla með henni. Til þess að slíkar atkvæðagreiðslur hafi gildi verða þær að snúast um mál, sem unnt er að ljúka á einn veg eða annan með þeim. Það á ekki við um þessa uppákomu R-listans núna, þess vegna má alls ekki líta á hana sem fyrirmynd, ef menn vilja auka lýðræði með beinni þátttöku almennings með því að bera mál undir hann.