11.2.2001

Menntamál á viðskiptaþingi – Rannveig og fjarvistirnar.

Frásagnir af viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands fimmtudaginn 8. febrúar sýna, að þar voru menntamál ofarlega á baugi, sem staðfestir enn, að hvarvetna átta menn sig æ betur á því, að menntun og meiri menntun skilar bestum árangri.

Davíð Oddsson forsætisráðherra komst meðal annars svo að orði í ræðu sinni á þinginu: „Möguleikar okkar til að stunda viðskipti hvar sem er í heiminum á jafnréttisgrundvelli aukast jafnt og þétt. Í krafti hyggjuvits okkar, góðrar menntunar og viljans til að vinna, stöndumst við öðrum þjóðum snúninginn í baráttunni um að bjóða bestu lífskjörin. Mikilvægi þess að við Íslendingar tileinkum okkur hina nýju tækni og lögum atvinnulíf okkar að þeim möguleikum sem hún veitir verður því vart ofmetið. Það er mikið ánægjuefni að sjá þá miklu grósku og þá djörfung og kraft sem einkennir mörg þeirra nýju fyrirtækja, sem hafa haslað sér völl á þessu sviði og þannig skapað fjölmörg spennandi og áhugaverð störf, sem eftirsókn er í. Aðstæður til að stofna fyrirtæki hér á landi eru mjög góðar um þessar mundir. Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýna að Ísland er í hópi þeirra tíu ríkja í heiminum þar sem best er að hefja rekstur nýrra fyrirtækja. Við það mat er m.a. horft til þess hversu auðvelt er að afla fjármagns, hversu hátt tæknistig viðkomandi lands er og hversu efnahagskerfið er frjótt og opið fyrir nýjungum. Sterk staða Íslands á þessu mikilvæga sviði gefur góð fyrirheit um öflugt og framsækið atvinnulíf."

Ísland væri ekki í hópi þessara tíu ríkja nema vegna þess, að hér hefur tekist að skapa nútímalegar og krefjandi aðstæður á mörgum sviðum og þá ekki síst með menntakerfinu. Að sjálfsögðu á ávallt að stefna að því að gera betur á þeim vettvangi eins og öðrum, en alltaf er að koma betur í ljós, að barlómur og svartsýni vegna þess starfs, sem unnið er í skólum landsins, eiga ekki við rök að styðjast. Þar tala þeir hæst, sem forsætisráðherra varaði sérstaklega við í ræðu sinni á viðskiptaþingi, þegar hann sagði, að vindhanar yrðu aldrei áttavitar, hvorki til sjós né lands.

Laugardaginn 3. febrúar birtist grein í Morgunblaðinu eftir Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands og formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, þar sem hann endurtók margt af því, sem hann og aðrir talsmenn fylkingarinnar hafa sagt um íslensk menntamál, þegar þeir segja þar allt á hverfanda hveli. Í Morgunblaðinu laugardaginn 10. febrúar birti ég svar við þessari dæmalausu grein Ágústs og leitast við að sýna, hve illa hann rökstyður mál sitt og hve mörgu hann sleppir til að gera hlut íslenska menntakerfisins sem verstan.

Er raunar sérstakt umhugsunarefni, að prófessor við Háskóla Íslands, sem á að leiðbeina nemendum í vönduðum vinnubrögðum og hvetja þá til virðingar fyrir heimildum sínum, skuli setja mál sitt fram að hætti Ágústs. Augljóst er, að töflur, sem hann notar, verður að skoða með miklum fyrirvörum, þegar staða Íslands er metin. Sé tillit tekið til fyrirvaranna verður niðurstaðan á annan veg en Ágúst telur. Hjá honum virðist sá tilgangur, að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn vegna menntamálanna, helga meðalið.

Forsætisráðherra benti á yfirborðslegan málflutning forystu Samfylkingarinnar í efnahagsmálum á viðskiptaþingi. Hið sama á við um það, sem talsmenn Samfylkingarinnar segja um íslensk menntamál, þegar þeir mála þar allt svörtum litum.

Rannveig og fjarvistirnar

Eftir að Davíð Oddsson sat fyrir svörum í Silfri Egils fyrir tveimur vikum, hafa orðið nokkrar umræður um það, hvort réttmætt sé af forætisráðherra að halda sig frá þátttöku í almennum umræðuþáttum í fjölmiðlum, þar sem fleiri en einn setjast niður, oft í þeim tilgangi einum að etja mönnum saman - ekki endilega í því skyni að fá nokkra niðurstöðu, heldur er beinlínis stefnt að orðaskaki. Að sjálfsögðu kemst enginn stjórnmálamaður undan því að etja kappi við andstæðinga sína í fjölmiðlum og þar með í beinni útsendingu í sjónvarpi. Hitt er þeim í sjálfsvald sett að velja og hafna í því efni. Þykir mér til dæmis ágætt að þiggja á stundum boð Egils Helgasonar um að ræða mál undir hans stjórn, því að hann er laus við þann leiða sið margra stjórnenda að taka sjálfa sig alltof hátíðlega. Gildi umræðuþátta byggist ekki síður á stjórnanda eða stjórnendum þeirra en þátttakendum. Hefðir fyrir vönduðum þáttum af þessu tagi eru ekki miklar hér, þótt íslenskt sjónvarp hafi starfað síðan 1966.

Hvarvetna er þegjandi samkomulag um ákveðnar leikreglur varðandi slíka þætti, til dæmis um þátttöku helstu foyrstumanna í stjórnmálum. Einvígi þeirra vekja jafnan töluverða athygli og nægir þar að nefna forsetaframbjóðendur stóru flokkanna tveggja í Bandaríkjunum, en allur heimurinn fylgist með því, þegar þeir hittast saman í sjónvarpssal. Þær umræður eru þrautskipulagðar og eiga sér langan aðdraganda. Sömu sögu er að segja um slíka þætti annars staðar, þeir eru vandlega undirbúnir og leiðtogar hittast almennt ekki til slíkra viðræðna nema við sérstakar aðstæður.

Að sjálfsögðu skorast Davíð Oddsson ekki undan þátttöku í umræðuþáttum, þar sem hefbundið er að foringjar stjórnmálaflokka koma saman og skiptast á skoðunum, til dæmis um áramót eða fyrir kosningar.

Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, ritar langa grein í Morgunblaðið 10. febrúar, þar sem hún býsnast yfir því, að Davíð Oddsson fylgir almennt sömu stefnu varðandi framgöngu í sjónvarpi og annars staðar tíðkast fyrir forsætisráðherra. Er það enn til marks um léttvægan málatilbúnað Samfylkingarinnar, að kvartað sé undan því, hvaða viðhorf forsætisráðherra hefur til þátttöku í sjónvarpsumræðum. Finnur Rannveig til dæmis að því, hvenær forsætisráðherra sest til viðræðna í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag, en Davíð Oddsson gerir það, eftir að hafa lokið við að lesa áramótaávarp sitt inn á band, sem hann gerir eftir hádegi á gamlársdag. Segir Rannveig, að afsökun Davíðs vegna þess hve seint hann komi í þáttinn sé farin að verða hjákátleg, því að hann ráði því hvenær áramótaávarpið er mynd- og hljóðritað.

Eins og áður sagði er skrýtið, að þingflokksformaður Samfylkingarinnar skrifi langa grein með kvörtun af þessu tagi sem þungamiðju. Ummælin um það, hvenær Davíð lætur taka upp áramótaávarpið, minntu mig hins vegar á, að faðir minn hafði sama hátti og Davíð, að flytja ávarpið eins seint á gamlársdag og kostur væri. Hann tók við embætti forsætisráðherra af Ólafi Thors 14. nóvember 1963, en Ólafur andaðist 31. desember 1964. Hafði faðir minn þá lesið áramótaávarp sitt inn á band en við andlát Ólafs breytti hann því og var það tekið upp að nýju á gamlársdag. Þetta var fyrir tíma sjónvarpsins, þegar ekki þurfti eins mikið umstang við upptökur eins og eftir að það kom til sögunnar. Ákvað faðir minn eftir þetta, að lesa ekki ávarp sitt fyrr en síðasta dag ársins, hefur Davíð greinilega komist að sömu niðurstöðu, öruggast væri, að haga afnotum af sjónvarpssal þannig, að hann væri til taks vegna þessa árvissa atburðar eftir hádegi á gamlársdag, þegar ríkisráðsfundi er lokið, en til hans er efnt 31, desember, þótt um sunnudag sé að ræða.

Síðastliðinn gamlársdag sat ég í Silfri Egils með fleiri stjórnmálmönnum. Þá gerðist það allt í einu í miðjum þætti, að gert var hlé, til að Ingibjörg Sólrún gæti farið og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, komið í hennar stað, og var hann ekki fyrr sestur en hann jós úr skálum reiði og hneykslunar yfir mig um mál, sem við höfðum þegar varið tíma til að ræða. Að uppistöðu minninr mig, að það hafi meðal annars verið endurtekning á því, sem Ágúst Einarsson prófessor hefur verið að lesa úr alþjóðlegum samanburðartöflum um menntamál. Held ég, að fleirum en mér hafi verið miðsboðið vegna alls þessa fyrirgangs, en aldrei datt mér í hug, fyrr en ég las grein formanns þingflokks Samfylkingarinnar, að þessi innganga Össurar í miðjan þátt, án þess að hann hefði fyrir því að gefa nokkra skýringu, ætti að skoða á þann veg, að Össur væri að árétta að hann væri prímadonna.

Úr því að fomaður þingflokks Samfylkingarinnar kýs að ræða fjarvistir stjórnmálmanna á mikilvægum stundum, er ein hin frægasta í seinni tíð, að Guðmundur Árni Stefánsson, fyrsti varaforseti alþingis og fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingaráðherra, sem átti verulegan þátt í hinu vandasama úrlausnarefni alþingis, sat ekki á þingi, þegar gengið var til lokaafgreiðslu frumvarpsins vegna öryrkjadóms hæstaréttar.

Síðasta dag umræðunnar gerði forseti alþingis hlé á fundum og boðaði forsætisnefnd til fundar, en af fimm nefndarmönnum voru tveir erlendis og var Guðmundur Árni annar þeirra. Nefndin ákvað einróma að senda forseta hæstaréttar bréf, svo sem frægt er orðið. Var með bréfaskiptunum tekið af skarið um, að samþykkt frumvarpsins bryti ekki í bága við stjórnarskrána og missti stjórnarandstaðan þá glæpinn. Þegar frumvarpið var orðið að lögum, var gert hlé á þingfundum til 8. febrúar og í samræmi við það kom alþingi saman til fundar sl. fimmtudag.


Við upphaf fundar 8. febrúar bað Guðmundur Árni Stefánsson um orðið og sagði meðal annars:

„Herra forseti. Það er óvanalegt að einn af forsetum þingsins kveðji sér hljóðs um störf þingsins. Það er hins vegar af óvanalegu tilefni sem það er gert.

Skömmu áður en þingfundum var frestað þann 23. janúar sl. var tekin um það ákvörðun á skyndifundi forsn. þar sem þrír af fimm nefndarmönnum voru viðstaddir að senda Hæstarétti umdeilt bréf þar sem leitað var svara réttarins á tilteknum þáttum í nýlegum dómi er lutu að meðferð máls hér í þinginu. Ég hafði fjarvistarleyfi úr þinginu þann dag og sat því ekki umræddan fund en gerði grein fyrir afstöðu minni á fundi fullskipaðrar forsn. í gær í ítarlegri bókun. Ég tel nauðsynlegt að gera þingheimi afstöðu mína ljósa þó seint sé.

Ég tel ákvörðun um sendingu umrædds bréfs hafa verið ranga og vanhugsaða. Eðlilegt hefði verið að fullskipuð forsn. kæmi að málinu og einnig formenn þingflokka þegar jafnviðurhlutamikil og umdeild ákvörðun var tekin og þarna var gert."



Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði af þessu tilefni:

„Herra forseti. Það er sérstakt að 1. varaforseti fari í ræðustól til að ræða störf þingsins en það var stórt tilefni til að þessu sinni.

Guðmundur Árni Stefánsson alþm. hefur kynnt bókun sem hann hefur gert í forsn. Alþingis um þá vanhugsuðu ákvörðun forseta að skrifa bréf til Hæstaréttar í nafni forsn.

Ég vil taka fram, þess vegna kem ég hér, herra forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar eru bókuninni algerlega sammála og telja bréfaskiptin hafa verið mistök.

Herra forseti. Þessir atburðir og atferlið á Alþingi í aðdraganda bréfasendinga eru ekki til eftirbreytni í framtíðinni. Þeir eru mistök sem vonandi verða ekki endurtekin."


Spurningarnar, sem vakna í ljósi greinar formanns þingflokks Samfylkingarinnar um fjarvistir Davíðs Oddssonar og hinna þungu orða, sem hún og fyrsti varaforseti alþingis létu falla á þingi sl. fimmtudag, eru þessar: Hvers vegna samþykkti Rannveig Guðmundsdóttir þingflokksformaður, að Guðmundur Árni Stefánsson hyrfi af þingi, áður en frumvarpið vegna öryrkjadómsins var til lykta leitt? Var ekki nauðsynlegt miðað við eðli málsins og hættuna á því, að alþingi væri að brjóta stjórnarskrána, að fulltrúi Samfylkingarinnar í forsætisnefnd alþingis sinnti störfum sínum á alþingi þessa daga? Hvaða erindi var brýnna fyrir Guðmund Árna að mati þingflokksformannsins á þessum tíma en að sitja fundi alþingis og gæta hagsmuna Samfylkingarinnar í forsætisnefnd?