21.1.2001

Gagnlegar rökræður um öryrkjadóminn

Umræður um öryrkjadóminn svonefnda hafa sett mestan svip á þjóðlífið undanfarna daga og málið fékk nýja vídd miðvikudagskvöldið 17. janúar, þegar Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, hné niður í beinni útsendingu úr alþingishúsinu í sjónvarpi ríkisins, þar sem hún var að ræða við Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar. Kom í ljós, að Ingibjörg hefur lagt svo hart að sér við störf sín, að heilsa hennar lét undan á þessu viðkvæma augnabliki, en að sögn lækna eru batahorfur hennar sem betur fer góðar. Það er góðu heilli mjög sjaldgæft, að sjónvarpsáhorfendur verði vitni að slíkum atburðum og eftir að fréttir bárust um að Ingibjörg myndi ná sér að fullu beinist athyglin með réttu eða röngu að viðbrögðum Össurar Skarphéðinssonar. Þessi saga var sögð á þorrablóti: Það var ekki við því að búast, að Össur hreyfði legg né lið, ekki er hlutverk stjórnarandstöðunnar að verja ráðherra eða ríkisstjórn falli!

Stjórnarandstaðan hefur sótt í sig veðrið samkvæmt skoðanakönnunum, eftir að deilurnar um öryrkjadóminn hófust. Í átökum af þessum tagi er dæmt að leikslokum en ekki í hita leiksins, þegar tilfinningar eru heitastar. Er ekki nokkur vafi á því, að allt umtalið um málið frá því að dómur féll og þar til ríkisstjórnin komst að niðurstöðu um það, hvernig honum ætti að framfylgja, var ríkisstjórninni mjög andstætt. Var skoðanakönnunin einmitt gerð um það leyti, sem ríkisstjórnin var að ná vopnum sínum og lagði fram frumvarp sitt, sem kom síðan til kasta alþingis mánudaginn 15. janúar, sama daginn og niðurstöður könnunarinnar birtust. Þá hófust hin eiginlegu stjórnmálalegu átök um málið, því að fram til þess tíma var málið nær einungis rætt á þeim forsendum, sem öryrkjar gáfu sér með aðstoð fjölmiðlamanna.

Þegar málið kom inn á alþingi, sáu menn, að stjórnarandstaðan vildi helst, að umræðurnar snerust um annað en efni þess. Kom þetta strax í ljós, þegar hún neitaði að veita heimild til afbrigða. Vegna þess að slík heimild fékkst ekki, dróst það fram til miðvikudagsins 17. janúar, að fyrsta umræða hæfist á þingi og stóð hún allan þann dag frá 10.30 til tæplega eitt um nóttina. Síðan hófst hún að nýju fyrir hádegi fimmtudaginn 18. janúar en lauk með atkvæðagreiðslu klukkan 20.15 þá um kvöldið, heilbrigðis- og trygginganefnd þingsins fjallaði um málið föstudaginn 19. janúar og lauk þá meðferð sinni á málum, var álit meirihluta hennar lagt fram á þingi laugardaginn 20. janúar og mánudaginn 22. hefur það legið frammi í tvær nætur þannig að önnur umræða getur hafist án afbrigða á morgun mánudag, en ætlunin er að ljúka málinu þann dag.

Þessar tímasetningar segja sína sögu um þróun málsins í höndum stjórnarandstöðunnar. Hún hefur greinilega metið stöðu sína þannig að það væri ekki skynsamlegt fyrir sig að tefja fyrir málinu með því að beita aðferðum til slíks á vettvangi alþingis, eftir að hafa neitað um afbrigðin. Mæltist sú aðgerð mjög illa fyrir, enda með öllu tilefnislaus og ómálefnaleg.

Eftir því sem málið hefur verið meira rætt, þeim mun betur kemur einnig í ljós, að málstaður þeirra, sem telja ríkisstjórnina vera að fara á svig við stjórnarskrána og níðast á öryrkjum með viðbrögðum sínum við dóminum, á ekki við nein rök að styðjast. Er til dæmis ekki nokkur vafi á því, að sjónvarpsumræður þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Össurar Skarphépðinssonar í Kastljósi þriðjudaginn 16. janúar urðu til þess, að opna augu margra fyrir því, að hæstiréttur var alls ekki að fjalla um alla öryrkja heldur einungis lítinn hóp þeirra og ekki þá, sem hafa það endilega fjárhagslega verst meðal öryrkja. Þetta gerði rétturinn á grundvelli kröfugerðar Öryrkjabandalags Íslands, sem vildi fá sérstaka viðurkenningu á stöðu þessa fólks. Við öllum, sem horfðu á þennan þátt, blasti, að Össur vildi helst ekki ræða efni málsins og virtist jafnvel ekki hafa kynnt sér það til hlítar, heldur lét hann slagorðaflauminn nægja eins og svo oft áður.

Er það skoðun mín, að þessi vika í þinginu, hafi ekki nýst stjórnarandstöðunni til að afla sér aukins trausts, þvert á móti séu ýmsir, sem ljáðu henni stuðning í skoðanakönnuninni, áður en hin pólitíska orrahríð hófst fyrir alvöru, að vakna upp við vondan draum og sjá, að í þessu máli er málstaður ríkisstjórnarinnar ekki sá, sem látið var í veðri vaka, á meðan umræðurnar voru einvörðungu á tilfinningalegu áróðursstigi.

Ríkisstjórnin og fylgismenn hennar á alþingi eru ekki að brjóta gegn dómi hæstaréttar með því frumvarpi, sem er að verða að lögum. Það er alrangt að halda slíku fram. Hitt geta menn deilt um í hið óendanlega, hvaða fjárhæðir eigi að leggja til grundvallar. Það eru hefðbundin pólitísk átök.

Páll Þórhallsson, lögfræðingur hjá Evrópuráðinu, bregður ljósi á dóm hæstaréttar í Morgunblaðinu 21. janúar og bendir á muninn milli hinna algildu eða klassísku réttinda mannsins annars vegar og félagslegra réttinda hins vegar. Þessi munur milli réttinda kemur fram í íslensku stjórnarskránni eins og í flestum stjórnarskrám vestrænna ríkja, en þar eru félagsleg réttindi sett skör lægra en hin klassísku eða algildu réttindi eins og tjáningarfrelsið. í 76. gr. stjórnarkrárinnar er ekki mælt fyrir um beinan rétt einstaklinga á hendur ríkinu, heldur er þar sagt, að einhvers konar félagsleg réttindi skuli tryggð með lögum. Með frumvarpi sínu er ríkisstjórnin að fullnægja þessari skyldu.

Félagslegu réttindin eru orðuð þannig í alþjóðasamningum, að þau veita einstaklingum takmarkaðan rétt og þá hafa dómstólar verið tregir til að byggja á þeim eins og Páll lýsir. Bendir hann til dæmis á það, að 67. grein alþjóðavinnumálasamþykktarinnar frá 1952, sem meirihluti hæstaréttar vísar til í forsendum sínum, gerir beinlínis ráð fyrir því að tengja megi örorkubætur við tekjur maka, enda sé um verulegar viðbótartekjur að ræða. Er erfitt að sjá rökin fyrir því í þessu ljósi, að frumvarp ríkisstjórnarinnar brjóti gegn alþjóðasamþykktum.

Í umræðunum hafa ýmsir vísvitandi látið í veðri vaka, að verið sé að brjóta klassísk réttindi mannsins, þegar deilt er um félagsleg og efnahagsleg réttindi, sem ekki eru algild og verður að skilgreina með lögum, því að það er beinlínis skylt samkvæmt stjórnarkránni. Á tímum Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra töldu þau sér það til tekna, að félagsleg og efnahagsleg réttindi væru skilgreind sem klassísk mannréttindi, þótt hvergi væri virðingin fyrir hinum algildu mannréttindum eins og frelsi til að tjá sig eða móta sér eigin skoðun minni en í þessum ríkjum, og hin félagslegu og efnahagslegu ákvæði væru einnig að engu höfð vegna gjaldþrotastefnunnar, sem leiddi að lokum til þess, að allt kerfið hrundi til grunna.

Í umræðum um öryrkjadóminn hefur verið fundið að því, að Davíð Odsson forsætisráðherra skyldi hafa látið orð falla á þann veg, að með þessum dómi væri hæstiréttur að fara inn á svið löggjafans og þar með stjórnmálanna. Sé grein Páls Þórhallssonar lesin með þennan þátt umræðnanna í huga, er niðurstaðan sú, að Páll er sama sinnis og forsætisráðherra. Grein hans lýkur með þessum orðum:

„Tenging jafnréttisreglunnar með þessum hætti við félagsleg réttindi auðveldar málshöfðanir þar sem tilteknir þjóðfélagshópar spyrja sem svo: Hvers vegna fáum við minna en hinir? Þannig er gefið undir fótinn með að deilumál sem hingað til hafa fyrst og fremst verið háð á pólitískum vettvangi fari í vaxandi mæli fyrir dómstólana. Þessi þáttur vekur hvað mestar spurningar. Er þetta æskilegt og lýðræðislegt eða einfaldlega óhjákvæmilegt í réttarríki? Hvernig eru íslenskir dómstólar í stakk búnir til að taka á málum af þessu tagi? Njóta þeir trausts til þess arna?"

Þegar deilum vegna þessa einstaka máls lýkur, eru það spurningar af þessu tagi, sem þarf að ræða af meiri yfirvegun en gert hefur undanfarnar vikur. Þessar spurningar snerta grundvallarþætti stjórnskipunarinnar ekki síður en réttarstöðu borgaranna. Ef niðurstaðan er sú, að stjórnmálamenn eigi ekki að taka ákvarðanir um álitamál af þessu tagi heldur dómstólar, vaknar einnig spurning um skattheimtuvaldið, en þjóðkjörnir fulltrúar komu til sögunnar á sínum tíma til að sporna við því að konungur og ráðgjafar hans færu of djúpt í vasa skattborgaranna. Á milli útgjalda og tekna þarf að vera samhengi. Á stjórnmálavettvangi hefur það verið kappsmál þeirra, sem vilja sem mesta tekjutengingu á flestum sviðum, að krefjast sem mestra skatta, það er félagshyggjufólksins og sósíalistanna.

Þessi grundvallaratriði þarf að ræða án þess að því sé haldið fram, að umræðurnar snúist einvörðungu um hag öryrkja. Málstað þeirra er enginn greiði gerður með því að gera þá að leiksoppum í átökum um þessa gurndvallarþætti. Að sjálfsögðu er það ekki á stefnuskrá neins stjórnmálamanns eða stjórnmálaflokks að ráðast á öryrkja eða sjálfsvirðingu þeirra.