13.1.2001

Afmæli vefsíðu – fjölmiðlar og Sjálfstæðisflokkurinn.

Hinn 18. janúar næstkomandi verða sex ár liðin frá því, að fyrsti pistillinn minn birtist hér á þessari síðu, og geta þeir, sem skoða hana séð, hvað hefur opinberlega á daga mína drifið síðan auk þess sem ég hef reglulega viðrað skoðanir mínar á mönnum og málefnum hér á þessum stað.

Á liðnu sumri var útliti síðunnar breytt og allt efni á síðunum flokkað þannig að unnt væri að leita að því, sem vekti áhuga lesenda. Auk þess tók ég tæknilega stjórn síðunnar í mínar hendur, ef svo má segja, með nýju forriti, sem gerir mér kleift að setja efni milliliðalaust inn á netið og senda það eftir póstlista, en í rúm fimm ár naut ég góðrar aðstoðar margra, sem tóku við efninu frá mér og settu það inn á netið. Þá breytti ég einnig síðunni að því leyti, að nú færi ég ekki dagbókina mína sem hluta af pistlunum heldur er hún sérstakur liður á síðunni og uppfæri ég hana ekki endilega á sama tíma og ég skrifa pistlana.

Nýja forritið gerði mér einnig kleift að virkja póstlistann minn með betri hætti en áður og skipta þeir nú nokkrum hundruðum, sem eru á honum. Einfalt er að skrá sig á listann og afskrá sig. Póstforritið hefur valdið mér dálitlum vandræðum en nú er verið að hanna nýtt slíkt forrit fyrir mig, sem ætti enn að auðvelda mér samskipti við þá, sem vilja nota þessa þjónustu. Er líklegt að það komist í gagnið á afmælisdegi síðunnar.

Bréfin sem ég hef fengið vegna síðunnar og í gegnum hana skipta þúsundum og vil ég þakka öllum, sem hafa notað hana til samskipta við mig. Hefur það auðveldað mér margt og víkkað sjóndeildarhringinn. Einnig vil þakka þeim, sem koma með ábendingar um villur af ýmsu tagi, en líklega gef ég mér aldrei nægan tíma til að lesa nógu gaumgæfilega yfir það, sem ég sendi frá mér, og aldrei hef ég nýtt mér leiðréttingaforrit við það, sem ég skrifa á tölvuna.

Ef það er eitthvað eitt, sem hefur sérstaklega vakið undrun mína í tölvusamskiptunum við hundruð eða þúsundir manna, er það, hve margir setjast við skriftir á tölvuna án þess að hafa nægilegt vald á ritmálinu, því að villurnar eru svo margar og einkennilegar. Hefur þetta meðal annars aukið áhuga minn á því að auðvelda ungu fólki að ná tökum á dyslexíu eða lestrarörðugleikum af ýmsu tagi, því að margan sérkennilegan textann má rekja beint til þess, að fólk sér ekki texta með sama hætti og við, sem teljum okkur hafa sæmilegt vald á rituðu máli, þótt allt sé ekki endilega merkilegt, sem við segjum - en það er önnur saga.

Frá því að ég hleypti þessari síðu af stokkunum hefur hún oft kallað á opinberar umræður nú síðast í nýafstöðnu kennaraverkfalli og hafa orð mín hér um það mál verið lögð út sem árás á kennara. Síðast sá ég þetta gert í pistli eftir séra Þórhall Heimisson í DV nú í vikunni, án þess hann rökstuddi það með dæmi. Velti ég því fyrir mér, hvort séra Þórhallur hafi í raun lesið það, sem ég hef sagt á síðunni vegna kennaraverkfallsins eða hvort hann sé að endurtaka að óathuguðu máli ummæli annarra, sem töldu það þjóna hagsmunum sínum í hita baráttunnar að gera mig að einhverjum sérstökum óvildarmanni kennara. Ég sendi einum þeirra, sem þannig töluðu, tölvubréf, þegar ég sá ummæli hans, einmitt í DV, og spurði, hvernig mætti rökstyðja sérstaka óvild mína hér á síðunum í garð kennara, fékk ég það svar til baka, að honum hefði sárnað, þegar ég birti á síðu minni tölvubréf frá nemanda, sem tók undir sjónarmið mín, eftir að formaður Félags framhaldsskólakennara hafði líkt mér við skemmdarverkamann. Ef menn vilja safna óvinsamlegum stóryrðum, sem féllu í kennaradeilunni, þurfa þeir að leita annars staðar en hér á síðunum.

Síður sem þessi hafa gjörbreytt aðstöðu okkar allra til að viðra skoðanir okkar, en þessi kostur er sérstaklega mikilvægur fyrir stjórnmálamenn, sem eiga mjög mikið undir því, að rétt sé sagt frá störfum þeirra. Oft hef ég tekið á rangfærslum frétta- og blaðamanna hér á síðunum. Tilefnin, sem gefast til þess eru einnig mörg. Í þessari viku var því til dæmis haldið ranglega fram, einkum í Degi, að hart væri deilt innan ríkisstjórnarinnar vegna viðbragða við dómi hæstaréttar í máli Öryrkjabandalags Íslands. Var látið að því liggja, að ríkisstjórnarfundi hefði þurft að fresta vegna ágreinings og jafnframt sagt, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu setið leynifund vegna málsins. Allt var þetta hugarburður þeirra, sem settu þetta á prent. Eina umhugsunarefnið í þessu sambandi er, hvað fyrir þeim vakir, sem eru að skrökva slíku að fjölmiðlamönnum, nema fréttamennirnir setjist sjálfir niður og skáldi bara eitthvað í hallæri sínu.

Karl Th. Birgisson ritar reglulega í DV og flytur einnig pistla í hljóðvarpi ríkisins, sem birtast að minnsta kosti sumir á netinu, en þar rakst ég á útvarpspistil hans undir fyrirsögninni. Sjálfstæðisflokkurinn og fjölmiðlarnir. Þar kemst Karl að þeirri niðurstöðu, að Sjálfstæðisflokkurinn geti ráðið því sem hann vill í íslenskum fjölmiðlum, og ítök hans að þessu leyti séu að aukast. Segir hann alla lykilmenn RÚV og yngri fréttamenn sjónvarpsins vera flokksbundna sjálfstæðismenn. Þá fullyrðir hann, að starfsmenn RÚV líti á sig í pólitískri herkví Sjálfstæðisflokksins. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sé með Jón Ólafsson einn aðaleigenda Stöðvar 2 á heilanum og níði af honum skóinn við hvert tækifæri. Hjarta Morgunblaðsins slái með Sjálfstæðisflokknum í kosningum og nú sé Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sestur í stjórn Frjálsrar fjölmiðlunar, sem gefi út DV og Dag, sem sé að syngja sitt síðasta, eigi einungis eftir að tilkynna andlát blaðsins formlega og gefur Karl til kynna, að það sé vegna Kjartans, sem Dagur deyi drottni sínum.

Á Vef-Þjóðviljanum var vakin athygli á því í tilefni af þessari raunarollu Karls Th. Birgissonar, að dylgjur hans um reynsluleysi Kjartans Gunnarssonar af fjölmiðlun ættu ekki við rök að styðjast, enda mátti Kjartan sæta dómi fyrir það á sínum tíma að hafa rekið frjálsa útvarpsstöð, á meðan einkaréttur ríkisins á þeirri starfsemi var við lýði. Minnist ég þeirra atburðanna haustið 1984 vel, því að á þeim tíma starfaði ég á Morgunblaðinu, en blaðamenn þar voru í verkfalli, þegar starfsmenn Ríkisútvarpsins lögðu niður störf 1. október 1984, af því að þeir fengu ekki greidd laun allan októbermánuð heldur aðeins þrjá fyrstu dagana, þar eð þeir hefðu boðað verkfall frá og með 4. október. Var Ögmundur Jónasson, þáverandi fréttamaður, fremstur í flokki þeirra, sem kröfðust tafarlausra aðgerða og fólust þær í því að hætta útsendingum 1. október.(Í þessu sambandi má minnast þess, að þegar framhaldsskólakennarar boðuðu verkfall frá og með 7. nóvember sl. var að sjálfsögðu ákveðið að greiða þeim ekki laun lengur en til þess dags frá 1. nóvember – varð það ekki til þess, að kennarar hyrfu úr skólunum hinn 1. nóvember.) Strax og Ríkisútvarpinu hafði verið lokað, en það sat þá eitt að allri innlendri útvarpsstarfsemi, hófu Kjartan Gunnarsson, Hannes Hólmsteinn og Eiríkur Ingólfsson viðskiptafræðinemi ásamt nokkrum öðrum undirbúning að rekstri óháðrar útvarpsstöðvar og hófust sendingar hennar kvöldið 2. október og var stöðin nefnd Frjálst úivarp. Hefur Hannes Hólmsteinn lýst þessu öllu vel í bók sinni Fjölmiðlar nútímans, en hann er sá íslenskra fræðimanna, sem helst hefur lagt sig fram um að fjalla um íslenska fjölmiðlun. Á ég góðar minningar frá samstarfi mínu við þessa félaga mína vegna fréttamiðlunar á vegum Frjálsa útvarpsins, en allt varð þetta til þess að flýta því, að einokun ríkisins á útvarpsrekstri var afnumin með lögum 1985.

Þróunin hin síðari ár hefur orðið sú í dagblaðarekstri, að vinstrisinnar hafa hreinilega lagt upp laupana við þennan rekstur og er Dagur leifar af Tímanum og Alþýðublaðinu en Þjóðviljinn hvarf sporlaust. Hér á þessari síðu hefur oft verið fullyrt, að Dagur sé hvorki fugl né fiskur sem fjölmiðill. Í flokkspólitík er hann eindregið andvígur Sjálfstæðisflokknum eins og sjá má af leiðurum ritstjórans, Elíasar Snælands Jónssonar, sem var á sínum tíma í hópi Möðruvellinga með Ólafi Ragnari Grímssyni, en eins menn vita dreifast þeir á marga vinstri flokka. Hætti Frjáls fjölmiðlun að greiða fyrir útgáfu Dags hljóta þeir, sem sjá sér hag af því að taka blaðið upp á arma sína, að gera það, en þegar Dagur var að stíga sín fyrstu spor, átti blaðið að ganga að Morgunblaðinu dauðu, ef rétt er munað.

Lesi menn DV, Morgunblaðið eða hlusti á RÚV með því hugarfari, að þar hljóti allt að vera gert í þágu Sjálfstæðisflokksins eða forystu hans, hljóta þeir fljótt að komast að þeirri niðurstöðu, að þeir, sem stjórna þessum miðlum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hljóti að ástunda sjálfspyndingar með því að lesa, horfa eða hlusta á fjölmiðla. Er til dæmis nokkur málsvari Sjálfstæðisflokksins á borð við Karl Th. Birgisson fyrir andstæðinga hans, sem hefur reglulegan aðgang að hljóðvarpi ríkisins? Á sínum tíma var Hannesi Hólmsteini bannað að flytja pistla í hljóðvarpið vegna þess að Illugi Jökulsson fór út fyrir sæmileg mörk að mati stjórnenda RÚV!

Guðbergur Bergsson sagði fyrir nokkrum árum, að nú skyldu Morgunblaðsmenn fara að gæta sín, því að þeir dapurlegu höfundar, sem skrifuðu Þjóðviljann út úr heiminum, væru teknir til við að fylla síður Morgunblaðsins. Þessi varnaðarorð Guðbergs eiga ekki síður við vegna föstu pistlahöfundanna í DV.

Jón Ólafsson, einn aðaleigandi Stöðvar 2, er sá í hópi stóreigenda innlendra fjölmiðla, sem helst hefur látið að sér kveða á gráu svæði milli fjölmiðla og stjórnmála hin síðari ár. Hann hefur nú tök á ljósvakamiðlum fyrir utan RÚV og Skjáeinn, en uppgangur þeirrar stöðvar síðasta ár er undraverður, því að tekjur hennar byggjast aðeins á auglýsingum og hefur hún boðið bæði RÚV og Stöð 2 birginn með innlendu efni, náð betur til ungs fólks en þessar stöðvar og gefið nýjan tón í mörgu tilliti. Spútnik á borð við Skjáeinn gerir Stöð 2 frekar skráveifu en RÚV, þegar til lengdar lætur auk þess sem Stöð 2 kann að hefja píslargöngu vinstrsinnuðu dagblaðanna verði andrúmsloftið í kringum hana hið sama og þau vegna framgöngu eigenda hennar og málsvara andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Sjónvarp ríkisins sætir gagnrýni af ýmsum toga og með ólíkindum er, að þar á bæ skuli menn hafa talið sér sæma að klippa jólaguðspjallið út úr biskupsmessu á jólanótt – ætli menn telji Sjálfstæðisflokkinn standa á bak við þá einstöku handvömm?

Málsvarar vinstrisinna hafa svo lengi sem ég man kveinkað sér undan því, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tögl og hagldir í innlendri fjölmiðlun. Minnsta átylla til kveinstafa er notuð til hins ýtrasta og í skjóli þeirra telja ýmsir fjölmiðlamenn sér trú um, að þeir verði að hallast til vinstri, vilji þeir sanna óhlutdrægni sína, skrifa eða tala sig inn í skjól þeirra, sem helst láta að sér kveða í fjölmiðlunum. Lesendur, áhorfendur og hlustendur eiga hins vegar síðasta orðið og áhrif þeirra eru miklu meiri á stöðu og styrkleika fjölmiðla en jafnvel Sjálfstæðisflokksins. Bölmóðurinn er ekki lífvænlegur, allra síst þegar hann byggist á eigin hugarburði.

Í sömu andrá og ég er að leggja síðustu hönd á þennan pistil er viðtal í RÚV um fjölmiðla við Herdísi Þorgeirsdóttur, sem er að fjalla um þá fræðilega við háskóla í Svíþjóð. Hún leggur áherslu á, að starfsmenn fjölmiðla skuli hafa frelsi til að vinna störf sín, hvað sem eigendur þeirra segja, en umræður á þessum forsendum enda alltaf í öngstræti, eins og sannast, þegar ætlunin hefur verið að festa reglur um slíkt í alþjóðasamninga til dæmis á vettvangi Evrópuráðsins. Verður þess krafist af einhverjum, að hann verji eigin fjármunum í eigin óþökk? Skyldu þeir, sem þannig tala, vera tilbúnir til þess sjálfir, væru þeir loðnir um lófana?