1.1.2001

Matthías hættir - viðburða- og árangursríkt aldamótaár

Um þessi áramót verður mikil breyting á Morgunblaðinu, þegar Matthías Johannessen lætur þar af ritstjórn eftir að hafa setið við hana síðan 1959 en starfað á blaðinu síðan 1951, en þá réð Valtýr Stefánsson ritstjóri hann þangað, að sögn Matthíasar vegna þess hve Valtý var hlýtt til Jóhannesar bæjarfógeta, afa Matthíasar í móðurætt. Ég ólst upp við vináttu foreldra minna og Valtýs og Kristínar Jónsdóttur, listmálara, eiginkonu hans og á góðar bernskuminningar frá heimsóknum til þeirra á Laufásveginn með foreldrum mínum, minnist ég þess sérstaklega, hve mér þótti forvitnilegt að fá að sjá, þar sem Kristín málaði auk þess sem ég minnust þess að hafa leikið mér í sólskinsböðuðum garði þeirra, á meðan þeir Valtýr og faðir minn ræddu landsins gagn og nauðsynjar. Valtýr var stærsti eigandi Morgunblaðsins og ritstjóri þess frá 1924 til 1963, en síðustu æviár sín naut hann sín ekki í starfi vegna veikinda. Valtýr var einarður í stuðningi sínum við Sjálfstæðisflokkinn og mikill baráttumaður fyrir málstað hans.

Tengsl föður míns við Morgunblaðið voru ávallt mikil og þegar vinstri stjórn Hermanns Jónassonar komst til valda 1956 varð hann aðalritstjóri blaðsins fram til þess að viðreisnarstjórnin var mynduð á árinu 1959, sama árið og Matthías varð ritstjóri, en eftir kynnin á Morgunblaðinu varð mikil vinátta milli foreldra minna og Matthíasar og Hönnu, konu hans. Hefur Matthías oft sagt frá vináttu þeirra í viðtölum og greinum og fer enginn í grafgötur um að hann metur foreldra mína mikils og var það gagnkvæmt af þeirra hálfu í garð þeirra Hönnu, því að margar gleðistundirnar áttu þau saman og var ómetanlegur skóli fyrir mig að fá að hlusta á það, sem þar var skrafað.

Þykir mér furðulegt að lesa mat annarra á þessari góðu vináttu eins og til dæmis í nýrri bók Sigurðar A. Magnússonar, sem einkennist af sérkennilegri óvild í garð föður míns, án þess að hann hafi í raun haft af honum nokkur kynni, sem máli skipti, og dragi ályktanir sínar oft í því skyni að gera sjálfan sig að pólitískum píslarvotti, vegna þess að honum þykir, að hann fái ekki nægan stuðning eða skjól frá þeim, sem hann veitti sjálfur aldrei neinn stuðning, eins og bókin ber með sér.

Á einum stað er ég nafngreindur í þessari bók og segir Sigurður, að árið 1964 eða 1966, ef ég átta mig rétt á ártali, hafi hann ætlað að selja mér hest og farið með mér í því skyni upp í Mosfellssveit, en þá hafi ég verið blaðamaður á Morgunblaðinu og lítt vanur hestamaður, enda hafi fum mitt komið fáti á hestinn og hann kastað mér af baki. Ég minnist ekki þessa atburðar, en ég var ekki blaðamaður á Morgunblaðinu á þessum árum, þótt ég kæmi oft á ritstjórnina og ynni á öðrum deildum blaðsins, auk þess sem ég var alls ekki óvanur hestamennsku á þessum tíma, átti sjálfur hest hér í bænum og hafði í mörg ár vanist alls konar hestum, þegar ég var níu sumur í sveit á Reynistað í Skagafirði. Finnst mér með ólíkindum, að ég hafi verið að hugsa um hrossakaup af Sigurði á þessum árum, því að ég átti í mestu vandræðum með að sinna þeim eina hesti, sem ég átti í húsum Fáks og kom honum um þessar mundir í geymslu utan borgarinnar.

Matthías Johannessen er eftirminnilegur öllum, sem hafa starfað með honum á Morgunblaðinu, og þeir skipta hundruðum þá tæpu hálfu öld, sem hann hefur verið þar í fremstu röð. Biturleiki og höfnunarkennd Sigurður endurspeglar ekki minningar þeirra, sem bera hlýjan hug til Matthíasar og virðingu fyrir honum eftir kynni við hann sem ritstjóra. Mörgum hefur hann veitt ómetanlega leiðsögn og fundirnir, sem hann hélt daglega upp úr hádeginu með blaðamönnunum í Aðalstræti eru öllum ógleymanlegir, því að þar var oft farið á meira flug en unnt hefur verið að kynnast á nokkrum öðrum stað. Stundum drógust fundirnir svo mjög á langinn, að menn veltu því fyrir sér, hvort tími gæfist til að gefa út blaðið næsta dag!

Ég hóf að skrifa í Morgunblaðið upp úr miðjum sjöunda áratugnum og veturinn 1966 til 1967 fól Matthías mér að taka þátt í Staksteinaskrifum, en þá var sá dálkur með öðrum hætti en núna, og þótti mörgum, að þar væri oft vegið að pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins með strákslegum hætti. Ég man eftir því, að föður mínum fannst ekki sjálfsagt, að ég settist við stjórnmálaskrif á Morgunblaðinu. Hann stóð þá í erfiðri kosningabaráttu sem forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og stóðu öll spjót á honum, taldi hann, að það yrði lagt út á neikvæðan veg fyrir of mikil afskipti sín af öllum þáttum, ef sonur hans væri að skrifa nafnlausa stjórnmáladálka í Morgunblaðið, skynsamlegra væri að dreifa ábyrgðinni. Þessi varkárni föður míns kemur mér ekki síst í huga, þegar andstæðingar föður míns og Matthíasar Johannessens láta eins og faðir minn hafi viljað ráða öllu, sem sagt var í Morgunblaðinu og Matthías hafi verið einskonar fjarstýrð málpípa hans. Þennan vetur hóf ég sem sagt að skrifa dálítið um stjórnmál í Morgunblaðið og síðar einnig forystugreinar og er mér sérstaklega minnisstætt sumarið 1968, þegar Sovétmenn réðust inn í Prag og við Þór Whitehead unnum saman á blaðinu.

Matthías hefur meðal annars lýst samskiptum sínum við föður minn með þessum hætti: í samtali við Árna Þórarinsson í Vísi 1978: „Þann 18. september 1967 hringir Bjarni Benediktsson til mín og segir að Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra sé miður sín út þessum skrifum Morgunblaðsins [um aðgerðarleysi Viðreisnarstjórnarinnar í mennta- og fræðslumálum]. Spyr hvort sé ástæða til þessarar gagnrýni allrar. Ég sagði að svo væri, enda vissi hann það sjálfur að skólakerfið væri úrelt og bitnaði á unglingum og foreldrum þeirra. Bjarni sagði að stjórn sín gæti verið í hættu vegna þessara skrifa, og ég fann að hann taldi þau ekki sanngjörn. Ég sagði honum að ritstjórar Morgunblaðsins væru á annarri skoðun. Það yrði að taka til hendi í menntamálum, en kannski væri ofætlan að sami maður gæti sinnt fræðslumálum og viðskiptamálum. Bjarni sagði: „Þú hefur heyrt hvað ég segi." Ég sagði: „Já, en ég treysti mér ekki til að breyta stefnu blaðsins í þessu máli því við teljum hana rétta." Þá sagði Bjarni: „En má ég biðja þig að vera aldrei persónulegur, heldur einungis málefnalegur í þessum skrifum." „Þarftu að biðja mig um það?" spurði ég. „Nei," sagði hann. Samtalinu lauk og við vorum jafn góðir vinir eftir sem áður."

Þessi lýsing kemur heim og saman við minningu mína um samskipti föður míns og Matthíasar, en hún er einnig ágæt áminning til þeirra, sem nú skrifa um menntamál eins og um þau hafi alls ekki verið rætt eða deilt á sjöunda áratugnum eða allir verið á eitt sáttir um þau, prófessor í sagnfræði skrifaði meðal annars í þeim dúr í DV á dögunum í því skyni að koma höggi á mig í samanburði við Gylfa Þ. Gíslason, var sú grein til marks um, hvernig fer fyrir þeim, sem gerast persónulegir á kostnað málefnisins.

Eftir fyrri hluta próf í lögfræði fór ég á árinu 1969 út til Brussel og var þar í nokkra mánuði hjá Rut, unnustu minni, sem þar stundaði fiðlunám, og snerum við heim um sumarið og giftum okkur í september. Skrifaði ég pistla frá Brussel og tók meðal annars viðtal við Paul-Henri Spaak, sem hafði verið forsætis- og utanríkisráðherra Belga og framkvæmdastjóri NATO, en var á leið til Íslands í heimsókn. Fór ég heim til hans og ræddi við hann, var ég stoltur af því að hafa tekist þetta á hendur, en ég man, að föður mínum þótti meira kjöt mega vera á beininu, en þeir voru saman í Washington 1949 og rituðu undir Norður-Atlantshafssáttmálann, sem lagði grunninn að NATO. Á þessum árum vaknaði áhugi minn á utanríkis-, öryggis- og varnarmálum og þótt ég starfaði ekki á Morgunblaðinu skrifaði ég oft um þessi mál í blaðið, þar til ég réðst þar til starfa á árinu 1979 og var þar næstu 12 árin, til 1991, þegar ég var kjörinn þingmaður. Við vistaskiptin tók ég ákvörðun um að draga skörp skil gagnvart Morgunblaðinu, en frá því á áttunda áratugnum og fram á þann tíunda, unnu ritstjórar blaðsins markvisst að því að skilgreina sjálfstæði sitt gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

Ég rek þetta hér í tilefni af brottför Matthíasar Johannessens frá Morgunblaðinu til að lýsa því, hve náin kynni okkar hafa verið í áranna rás, og þess vegna veit ég, að það verður skarð fyrir skildi, þegar hann lætur af störfum á Morgunblaðinu. Andi hans svífur þó áfram yfir vötnum en árvökult auga hans og skapandi hvatningarorð verða ekki lengur til að fylgja honum eftir. Sá tími kann einnig að renna, að arftakar Matthíasar telji sig þurfa að sanna sjálfstæði sitt og eigið ágæti á kostnað þess, sem verið hefur.

Athyglisvert er, að ekki skuli ráðinn ritstjóri í stað Matthíasar og í stað þess farin sú leið að fjölga enn millistjórnendum á blaðinu. Tveir aðstoðarritstjórar og fréttaritstjóri hafa verið ráðnir til starfa en Styrmir Gunnarsson verður einn ritstjóri. Matthías sagði frá því í viðtali á áttræðisafmæli Morgunblaðsins, að Eyjólfur Konráð Jónsson hefði orðið ritstjóri blaðsins fyrir sín orð, og þeir Eyjólfur Konráð hefðu beitt sér fyrir því með Haraldi Sveinssyni. framkvæmdastjóra Morgunblaðsins, að Styrmir var ráðinn við hlið þeirra Matthíasar og Eyjólfs Konráðs. Hvað sem þessum áhrifum Matthíasar leið, er það stjórnar Árvakurs hf., eiganda Morgunblaðsins, að ráða blaðinu ritstjóra.

Morgunblaðið hefur sterka stöðu, þegar Matthías lætur af störfum. Við ritstjórn þess hafa grundvallargildi verið höfð í heiðri, ekki síst óskoruð virðing fyrir íslenskri tungu. Menningarlegur hlutur blaðsins hefur vaxið og dafnað og átt mikinn þátt í hinni miklu grósku á öllum sviðum íslenskrar menningar. Eftir að blaðið dró skarpari skil á milli sín og Sjálfstæðisflokksins hefur pólitískt hlutverk þess breyst, en þó er enn litið á það sem málsvara flokksins í mörgum efnum, enda hefur það stutt stefnu hans og forystmenn, þótt ágreiningur kunni að vera um einstök málefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki veikst við þessar breytingar, enda verið undir öruggri forystu Davíðs Oddssonar. Helsta flokkspólitíska breytingin felst í því, að Morgunblaðið veitir sjálfstæðismönnum í Reykjavík ekki þann stuðning, sem það gerði áður. Er til dæmis mikill munur á því, hvernig blaðið hefur brugðist við meirihluta R-listans undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur miðað við það, sem gerðist, þegar sjálfstæðismenn misstu meirihlutann 1978. Reykjavík er helsta markaðssvæði Morgunblaðsins og langvinnur meirihluti sjálfstæðismanna í borgarstjórn veldur því, að blaðið er almennt hallt undir þá, sem borginni stjórna, og hefur blaðið ekki lagt hart að sér við að vekja athygli á þeirri stöðnun, sem orðið hefur í Reykjavík undir stjórn R-listans. Þá setur sú skoðun svip sinn á Morgunblaðið í seinni tíð, að viðskiptalífið og sviptingar á þeim vettvangi skipti lesendur þess meira máli en það sem gerist á sviði stjórnmálanna, þótt hitt ætti að vera öllum ljóst, að frjálsræði og gróska í viðskiptum byggist á því svigrúmi, sem stjórnmálamenn veita og þeirri stefnu, sem ræður hjá þeim.

Þessum sundurlausu hugleiðingum í tilefni af brotthvarfi Matthíasar Johannessens af ritstjórastóli get ég ekki lokið nema láta þess getið, að Matthías hefur oft komið mér á óvart, þegar hann beitir sjötta skilningarviti sínu. Öll getum við ræktað með okkur hæfileika, sem eru þess eðlis, að þeir eru ekki öllum gefnir, og Matthías hefur þessa hæfileika í ríkum og þeir gera honum kleift að sjá marga hluti á annan veg en öðrum er fært. Hann hefur einnig kunnað að gjalda lausung við lygi. Hin mikla reynslu hans og kynni af mönnum og málefnum hefur veitt Morgunblaðinu gífurlegan styrk. Líklega getur fátt ef nokkuð komið í stað hennar.

Viðburða- og árangursríkt ár.

Þegar litið er menningar, mennta, rannsókna og íþrótta er ekki unnt að segja annað en aldamótaárið 2000 hafi verið viðburða- og árangursríkt fyrir okkur Íslendinga. Á öllum þessum sviðum hafa í raun gerst stórviðburðir. Menningin hefur blómstrað meira en nokkru sinni og er sama til hvaða greina hennar er litið, á öllum sviðum er verið að gera meira en áður og íslenskir listamenn ná víða mjög langt. Unnið hefur verið að því að framkvæma nýja skólastefnu, en langvinnt verkfall framhaldsskólakennara síðustu tvo mánuði ársins rauf nám tæplega 20.000 nemenda. Rannsóknastarf er sífellt að aukast og háskólastigið að styrkjast á alla lund. Íþróttamenn okkar hafa náð glæsilegum árangri á árinu og samstaða hefur tekist um afreksstefnu í íþróttum, sem hrundið verður í framkvæmd á næstu árum.

Eins og þeir sjá, sem skoða dagbók mína á þessu ári, hefur það einkennst af mörgum viðburðum, bæði hér heima og erlendis. Fyrri hluta ársins fór ég nokkrar ferðir til Noður-Ameríku vegna landafundahátíða og einnig til að setjast á skólabekk. Mesta ferðin var til á Ólympíuleikana í Ástralíu. Leiðin lá einnig á heimssýninguna í Hannover og tækifæri gafst til að hlusta á Raddir Evrópu syngja í Helsinki og Tallinn. Sinfóníuhljómsveit Íslands leika í Carnegie Hall í New York og leikara Þjóðleikhússins flytja Sjálfstætt fólk á íslensku í Borgarleikhúsinu í Hannover.

Innan lands heimsótti ég alla framhaldsskólana á fyrstu mánuðum ársins og ræddi bæði við nemendur og kennara um nýju námskrárnar og að loknum þeim fundum var farið yfir öll álitamál, sem fram komu, og leitast við að finna niðurstöðu í samræmi við óskir á hverjum stað. Á þessum fundum var ekki rætt um kjaramál kennara, enda hefur menntamálaráðherra ekki umboð til að semja um þau. Öll fagleg atriði voru hins vegar rædd og svaraði ég hundruð spurninga um þau mál og leitaðist við það með samstarfsmönnum mínum að greiða úr öllu, sem óljóst þótti á okkar verksviði. Gáfu heimsóknirnar mér góða sýn yfir gott starf innan framhaldsskólanna og hispurlausa og málefnalega framgöngu nemendanna. Með þetta í huga kom það mér á óvart, að í verkfallsátökum var ég sakaður um að sýna starfi skólanna, hvorki þann áhuga né virðingu sem skyldi.

Ársins 2000 verður lengi minnst vegna stóratburðanna, sem þá gerðust, og Íslendingar munu með stolti geta litið til þessa sögulega aldamótaárs.

Ég þakka lesendum samfylgdina á árinu 2000 og óska þeim farsældar á nýju ári og nýrri öld.