Samið við VÍ - hæstiréttur og vald alþingis – málfrelsi stjórnmálamanna.
Kennarar við Verslunarskóla Íslands hafa samið við skólastjóra og skólanefnd sína um kaup og kjör fram til 30. apríl 2004 og var ritað undir samninginn að kvöldi 22. desember, sama dag og Elna Katrín Jónsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, lýsti yfir því, að slitnað hefði upp úr viðræðum við samninganefnd ríkisins vegna óvæntra krafna frá fulltrúum ríkisins. Af fréttum að dæma kom það öllum, sem sátu að viðræðum undir stjórn ríkissáttasemjara, að þessi uppstytta varð í viðræðum kennara og ríkisins. Það kom mér alveg í opna skjöldu, að mál skyldu þróast með þessum hætti þetta síðdegi, því að ég stóð í þeirri trú eins og aðrir, að viðræður samninganefndar ríkisins og kennara væru komnar á beinu brautina.
Með samningnum við VÍ verða kjarasamningar við kennara gagnsærri en áður og það er auðveldara að átta sig á því fyrir hvað er verið að greiða, enda er um verulega tilfærslu að ræða frá alls kyns álagi og yfirvinnugreiðslum inn í dagvinnutaxta. Þessi nýja skipan auðveldar skólameisturum og kennurum að takast á við ný verkefni, sem er mikils virði á tímum örra breytinga og nýmæla í námi og vinnubrögðum nemenda.
Hæstiréttur og vald alþingis
Atburðir síðustu daga hafa enn staðfest, að ríkisstjórn starfar við aðrar aðstæður nú en var fyrir áratug vegna þess hve miklar breytingar hafa orðið á stjórnarháttum. Vísa ég þar annars vegar til þess, að samkeppnisráð taldi óheimilt að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka, og hins vegar til þess dóms, sem hæstiréttur felldi þriðjudaginn 19. desember í máli Öryrkjabandalags Íslands gegn Tryggingastofnun ríkisins til viðurkenningar á því að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka. Byggði rétturinn á því í dómi sínum, að stjórnarskránni hefði verið breytt árið 1995 og jafnréttisákvæði hennar ýttu lögum um þessa skerðingu til hliðar eða eins og segir í forsendum meirihluta dómara: „Þegar litið er til skipulags réttinda örorkulífeyrisþega samkvæmt almannatryggingalögum og þeirra afleiðinga, sem í raun geta af því leitt fyrir einstaklinga, verður þetta skipulag ekki talið tryggja þau lágmarksréttindi, sem í framangreindu stjórnarskrárákvæði [76. gr.] felast á þann að þeir fái notið þeirra mannréttinda, sem 65. gr. stjórnarskrárinnar mælir þeim..." Meirihlutinn viðurkennir hins vegar, að „almenni löggjafinn" það er alþingi hafi svigrúm til að meta, hvernig þessi lágmarksréttindi skuli ákvörðuð en þrátt fyrir það geti dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess, hvort matið samrýmist grundvallareglum stjórnarskrárinnar.
Enginn deilir um það, að öryrkjar eiga stjórnarskrárvarinn rétt á aðstoð samfélagsins, ef þeir geta ekki nægilega séð sér farboða sjálfir. Þá er einnig ljóst, að um þessa aðstoð skal mæla í lögum. Um þetta efni segir minnihluti hæstaréttar: „Það er verkefni löggjafans en ekki dómstóla að kveða á um inntak og umfang þeirrar opinberu aðstoðar, sem öryrkjum er látin í té. Dómstólar geta hins vegar metið, hvort lagasetning um þessi málefni samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar."
Ljóst er af niðurstöðu hæstaréttar, að meirihluti hans fer ekki svo langt inn á valdsvið alþingis, að kveða á um inntak og umfang hinnar opinberru aðstoðar til öryrkja, þótt hann gangi lengra en minnihluti réttarins og viðurkenni, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap eins og gert var með lögum frá 1999. Með hliðsjón af þessu er nauðsynlegt, að alþingi taki málið til meðferðar að nýju og breyti lögunum frá 1999 með forsendur hæstaréttar fyrir dómi sínum að leiðarljósi.
Í umræðum á alþingi um málið verður það rifjað upp, sem fyrir okkur þingmönnum vakti, þegar stjórnarskránni var breytt 1995. Hlýtur það að koma fleirum en mér á óvart, ef túlka á niðurstöðu meirihluta hæstaréttar á þann veg með tilliti til ákvarðana okkar þá, að við höfum verið að kippa á brott forsendum fyrir lagaákvæðum um tekjutengingu.
Þetta mál var ekki höfðað af einstaklingi í því skyni að fá úrlausn í sérgreindu deiluefni og því er eðlilegt, að vinna þurfi úr málinu, þegar kemur að því að líta til úrlausnar í einstökum málum og verður það gert af nefnd sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar, sem mun semja frumvarp til laga um breytingu á þeim ákvæðum, sem um var tekist fyrir hæstarétti.
Það vekur athygli, hve orðalag í forsendum meirihluta dómsins er óljóst miðað við mikilvægi málsins. Er þó nauðsynlegt að kveða sérstaklega skýrt að orði, þegar hæstiréttur fer inn á valdsvið alþingis eins og ótvírætt er gert með þessum dómi. Þá virðist einsýnt, að hæstiréttur eigi að móta sér þá starfsreglu eða sett verði í lög, að sjö dómendur fjalli um mál, sem byggjast á því, að alþingi eða ríkisstjórn hafi brotið stjórnarskrána með ákvörðunum sínum. Myndi það tryggja réttaröryggi í landinu og draga úr ágreiningi um málsmeðferð hæstaréttar sjálfs í viðkvæmum málum.
Þótt forystumenn öryrkjabandalagsins beini máli sínu til forseta Íslands, breytir það engu um skyldu ríkisstjórnar og alþingis til að taka á málinu á sínum vettvangi. Forseti Íslands hefur ekkert sjálfstætt umboð til að fjalla um framkvæmd dóma og lýsir það röngu mati á stjórnarskránni að gefa til kynna í opinberum umræðum, að forseti getir hlutast til um þetta mál.
Málfrelsi stjórnmálamanna
Ég hef oft orðað það við samstarfsmenn mína í menntamálaráðuneytinu, að við allar afgreiðslur mála skuli hafa hugfast, að unnt sé að krefjast þess að fá skjölin, sem liggja á bakvið ákvarðanir okkar, auk þess sem allt, sem við gerum, megi kæra. Vegna breytinga síðustu ár í þessu efni ákvað ég til dæmis, að setja sérstakt lögfræði- og stjórnsýslusvið á laggirnar innan menntamálaráðuneytisins, og tel ég það hafa stuðlað verulega að bættri stjórnsýslu, ekki aðeins innan ráðuneytisins heldur á öllu verksviði þess. Er ég einnig sannfærður um, að þessi skipan hefur auðveldað öllum starfsmönnum ráðuneytisins að nálgast úrlausnarefni sín með kröfur stjónsýsluréttarins að leiðarljósi.
Í ævisögu sinni fer Steingrímur Hermannsson í meting við okkur sjálfstæðismenn vegna stjórnsýslu– og upplýsingalöggjafarinnar, en hvoru tveggja lögin komu til sögunnar undir forystu Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra. Steingrímur lét semja lagatexta en hafði ekki bolmagn til annars. Höfðu ráðherrar á undan honum hugað að þessu sama viðfangsefni, en það er fyrst í tíð Davíðs Oddssonar, sem samin eru frumvörp að stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, sem hljóta brautargengi. Leggur höfundur ævisögu Stengríms lykkju á leið sína í heimildakafla 3ja bindis bókarinnar til að lýsa mig ósannindamann vegna þess, að haft var eftir mér í viðtali í Morgunblaðinu 9. september 2000 (ekki 16. sept. eins og segir í bókinni), Í Morgunblaðinu sagði: „Undir stjórnarforystu sjálfstæðismanna höfum við sett ný stjórnsýslulög, upplýsingalög, ný samkeppnislög, embætti umboðsmanns Alþingis." Við þetta bætir höfundur bókarinnar: „Hið síðasnefnda er beinlínis rangt og hvað stjórnsýslu og upplýsingalög er í besta falli hálf sagan sögð." Tekið skal fram, að þetta viðtal snerist um allt önnur mál en þessi, því að þarna var ég að vekja athygli á óvirðingu R-listans í Reykjavík fyrir stjórnsýslúrskurði um ólöglega aðferð hans í máli, sem ég hef áður rakið nákvæmlega hér á þessum síðum. Að sjálfsögðu er það ekki rangt, að undir forystu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafi öll þessi lög verið sett, því að 1997 voru sett ný lög um umboðsmann alþingis, sem breyttu í veigamiklum atriðum lögunum frá 1987. Auk þess má geta þess, að sjálfstæðismaðurinn Pétur Sigurðsson flutti fyrstur um það tillögu á alþingi árið 1972, að sett yrðu lög um umboðsmann alþingis.
Sama dag og hæstiréttur komst að niðurstöðu vegna Öryrkjabandalags Íslands felldi hæstiréttur dóm í máli Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, gegn Sigurði G. Guðjónssyni hrl. en Kjartan krafðist ómerkingar á tilteknum ummælum Sigurðar í dagblaði, sem Kjartan taldi ærumeiðandi aðdróttanir um sig. Taldi meirihluti hæstaréttar, að Sigurður þyrfti ekki að sanna ummæli sín, þar sem það myndi reynast honum óhæfilega erfitt. Kjartan gegndi áberandi stöðu innan Sjálfstæðisflokksins og yrði að una því, að um þessi tengsl væri fjallað á opinberum vettvangi og bæri að fara varlega við að hefta slíka umræðu.
Í sératkvæði sínu segir dómarinn í minnihluta, að Sigurði G. Guðjónssyni hefði ekki verið ofraun að leiða fyrir dóm menn til að sanna ummæli sín um Kjartan.
Ef gagnályktað er frá niðurstöðu meirihluta hæstaréttur má komast að þeirri niðurstöðu, að væri Kjartan ekki framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins en sæti í bankaráði Landsbankans, hefði meirihlutinn komist að annarri niðurstöðu. Þeir bankaráðsmenn séu betur varðir fyrir ósönnuðum áburði, sem ekki gegna trúnaðarstöðu sem starfsmenn stjórnmálaflokks, því að allir eru bankaráðsmennirnri tilnefndir af einhverjum stjórnmálaflokki.
Í umræðum um dóma hæstaréttar telja sumir ekki við hæfi að stjórnmálamenn segi skoðun sína. Slík takmörkun á málfrelsi okkar, sem að stjórnmálum starfa, er að sjálfsögðu fráleit, ekki síst þegar algengara verður, að rétturinn gengur inn á svið löggjafans og þar með stjórnmálanna. Hún er enn fráleitari, þegar litið er til þess, að dómarar telja stjórnmálastarfið veikja vörn okkar gegn ósönnuðum áburði og við verðum að una því, að hann sé settur fram á opinberum vettvangi.
Sumum áburði er erfitt að verjast. Til dæmis var beinlínis fullyrt í uppsláttarfrétt í Alþýðublaðinu fyrir nokkrum árum, að ég hefði komið í veg fyrir, að Svava Jakobsdóttir rithöfundur fengi heiðurslaun listamanna. Í síðustu viku var látið að þessu liggja í Sandkorni DV vegna fjölgunar í heiðurslaunaflokknum við afgreiðslu fjárlaga 2001. Ég átta mig ekki á því, hver telur sér hag af því að bendla nafn mitt við þetta mál. Áburður af þessu tagi í minn garð er algjörlega úr lausu lofti gripinn og einnig hitt, að menntamálanefnd alþingis þurfi einhvern stimpil frá mér sem menntamálaráðherra vegna fólks í heiðurslaunaflokknum. Við mig er rætt um málið eins og aðra þingmenn en ekki til þess að tekin sé ákvörðun í skjóli þess, sem ég segi. Veit ég ekki til þess, að ég hafi nokkru sinni eða nokkurs staðar látið orð falla, sem sýni andstöðu mína við Svövu Jakobsdóttur á þessum lista.
Ég færi öllum lesendum bestu óskir um gleðileg jól!