17.12.2000

Fjárlög 2001 - Rúv-gjöld – Bush forseti – Nice-fundur

Alþingi samþykkti fjárlög fyrir árið 2001 mánudaginn 11. desember, hefur það ekki gerst í marga áratugi, að afgreiðslu fjárlaga sé lokið á þessum tíma. Ég var staddur í París þennan dag og greiddi því ekki atkvæði en athyglisvert er, að tal stjórnarandstæðinga um litlar fjárveitingar til menntamála voru meiri fyrir meðferð fjárlagafrumvarpsins en eftir að hún hófst, enda sáu þeir þá, að ekki er með neinum rökum unnt að halda því fram, að um niðurskurð til menntamála sé að ræða. Ef litið er á einstaka stóra liði má geta þess, að fjárveitingar til háskóla og rannsókna hækka úr 6.8 milljörðum króna 2000 í 7,2 milljarði króna árið 2001 eða um 400 m.kr. þ.e. 5,6%. Sé litið sérstaklega til Háskóla Íslands hækka fjárveitingar til hans eins úr 2967 m.kr. í 3244 m.kr. eða um 277 m.kr. þ. e. 9,3%. Fjárveitingar til framhaldsskóla hækka úr 7,2 milljörðum króna í 7,7 milljarði króna eða um 500 m. kr. þ. e. 7,5%. Samtals er þetta 900 milljón króna hækkun til þessara tveggja skólastiga. Þar að auki var fjárveiting hækkuð til símenntunar ög fjarkennslu og vegna styrkja til námsmanna í því skyni að jafna námskostnað.

Samfylkingin barði sér á brjóst og sagðist vera að vinna sérstakt afrek, ef tækist að auka útgjöld til menntamála um 1000 milljónir við gerð fjárlaga fyrir árið 2001. Það markmið náðist án sérstaks atbeina samfylkingarmanna og hafa þá ekki enn komið fram þær hækkanir, sem hljóta að sigla í kjölfar þess, að samið verður við framhaldsskólakennara auk þess sem ætlunin er að verja 150 milljónum króna á næsta ári til að efla menntun ungra vísindamanna með auknu rannsóknum á háskólastigi annars vegar og auka fjárhagslegt svigrúm Vísindasjóðs hins vegar.

Við afgreiðslu fjárlaga kom einnig fram mikill áhugi þingmanna á því að efla safnastarfsemi um land allt og varðveislu gamalla báta og húsa. Þannig voru fjárveitingar til Húsafriðunarsjóðs auknar verulega og álveðið að styrkja sýninga og söfn um land allt auk þess sem aukið fé flst til fornleifarannsókna.

Finnst mér að þessi afgreiðsla fjárlaga hafi enn staðfest fyrir mér, að skynsamlegt sé að kynna góð verkefni og leita stuðnings við þau frekar en berja sér á brjóst og gera háar fjárkröfur í von um að afla sér stuðnings einhverra þrýstihópa.


Fimmtudaginn 14. desember urðu einkennilegar umræður við upphaf funda alþingis, þegar Jón Bjarnason, þingmaður vinstri/grænna, kvaddi sér hljóðs og lýsti þeirri skoðun, að ég hefði að minnsta kosti farið á svig við lög ef ekki brotið þau með því að heimila 7% hækkun á afnotagjaldi ríkisútvarpsins í sömu andrá og alþingi var að leggja lokahönd á gerð fjárlaga. Var helst að skilja á Jóni og flokkssystkinum hans, að ég hefði gert eitthvað sérstaklega á hlut þeirra með þessari ákvörðun, því að við afgreiðslu fjárlaga hefði verið felld tillaga frá þeim um hækkað ríkisframlag til ríkisútvarpsins. Var því haldið fram, að ekki væri unnt að hækka afnotagjöld ríkisútvarpsins nema með því að bera það undir alþingi við gerð fjárlaga og væri það ekki gert yrði að minnsta kosti að fá stuðning til þess í fjáraukalögum.

Var sagt frá þessu máli í fjölmiðlum eins og ég hefði orðið fyrir harkalegum árásum og Sigurdór Sigurdórsson, þingfréttaritari Dags, fékk forsíðu blaðs síns undir þessa ekki-frétt og lét þar í veðri vaka, að ég hefði engu svarað þessari gagnrýni á mig. Þar fór hann enn einu sinni með rangt mál, því að ég margítrekaði í máli mínu, að ég hefði farið að réttum lögum og ekki þyrfti að hagga við fjárlögum vegna samþykkis míns á tillögu útvarpsstjóra og því síður að flytja fjáraukalög. Samkvæmt útvarpslögum staðfesti menntamálaráðherra afnotagjald útvarpsins að fengnum tillögum útvarpsstjóra og það hefði ég gert. Auk þess hefði komið fram í umræðunum á þingi stuðningur við ákvörðun mína, þótt þingmenn hefðu viljað hækka afnotagjaldið meira. Með því að efna til þessarar umræðu hefðu vinstri/grænir gefið mér gott tækifæri til að greina alþingi frá staðfestingu minni og að hún mundi leiða til 100 til 130 m. kr. tekjuauka fyrir Ríkisútvarpið.

Fréttamenn Stöðvar 2 og Bylgjunnar sýndu þessu máli mikinn áhuga en ekki aðrir fjölmiðlar og heyrði ég það raunar fyrst í Stöð 2, að einhverjir þingmenn teldu, að ég hefði átt að fara með staðfestingu mína undir fjárlaganefnd. Engin slík lagaskylda hvílir á menntamálaráðherra en fjárlaganefndarmenn höfðu nákvæmlega sömu megingögn fyrir framan sig og ég, þegar ákvörðun mín var tekin, þannig að þeim var jafnvel ljóst og mér, hvaða rök lágu að bakí ósk útvarpsstjóra um hækkun afnotagjaldsins.

Það er sérstakt athugunarefni, hve skammt er í stóryrðin hjá vinstri/grænum, þegar þingmenn þeirra taka sér fyrir hendur að gagnrýna gerðir ráðherra. Málefnalegar forsendur mega sín minna í þeim orðaflaumi en köpuryrði af ýmsu tagi og yfirlætisfullur tónn, sem oft einkennir málflutning vinstrisinna, þegar þeir þykjast siðferðilega, greindarlega eða menningarlega yfir aðra hafnir. Gengur Kolbrún Halldórsdóttir ekki síst fram með þeim hætti og í tilefni af þessu sérkennilega upphlaupi birtu fjölmiðlar eftir henni að það væru „litlir karlar“ sem höguðu sér á sama veg og ég í þessu tilviki.

Þetta mál gufaði upp með jafnmiklum hraða og það komst inn í þingsalinn og þaðan í fjölmiðla. Ég notaði tækifærið við þessa umræðu að þakka þingmönnunum fyrir að styðja efnislega þá ákvörðun, sem ég tók, um leið og ég fullvissaði þá um lögmæti hennar.

Þá er loks fengin niðurstaða í Bandaríkjunum um að Geoege W. Bush skuli verða næsti forseti landsins. Var orðið tímabært að fá botn í málið en ég sannfærðist um að Bush myndi vinna eftirleik kosninganna, þegar ég heyrið röksemdir talsmanna hans fyrir dómstólunum og kröfur um, að leikreglum yrði ekki breytt eftir að leikurinn var hafinn, það er að talningu atkvæða yrði ekki hagað með öðrum hætti en ákveðið hafði verið fyrir kosningar. Hæstiréttur Bandaríkjanna tók undir þetta sjónarmið og bannaði þess vegna handtalningu í Flórída, þar sem menn voru að meta atkvæði á meira en hæpnum forsendum í stað þess að láta rafræna talningu duga.

Colin Powell verður næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hann er sá maður í bandarísku stjórnmálalífi, sem nýtur hvað mestrar virðingar og vinsælda. Hann hefur mikla reynslu af því að skilgreina hlutverk Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og hvernig þau geta beitt valdi sínu, ef svo ber undir.

Bush ætlar ekki að slaka á varnarmætti Bandaríkjanna og verður fróðlegt að sjá, hvernig stjórn undir hans forystu tekst á við þróunina í öryggismálum Evrópu, þar sem ESB-ríkin eru að búa sig undir að gæta sjálf sérgreindra öryggishagsmuna sinna með sameiginlegum herafla, sem þó er ekki fyrir hendi nema í herbúðum undir merkjum NATO. Stóðu deilur um það á fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna í Brussel í vikunni, hvernig taka skuli ákvarðanir um ráðstöfun á þessum herafla í búðum NATO til ESB og vilja Tyrkir, sem eru Evrópuþjóð í NATO en utan ESB, ekki láta ganga á rétt sinn við ákvörðun um ráðstöfun á NATO-herafla en hvert NATO-ríki hefur neitunarvald innan bandalagsins.

Af fréttum mátti ráða, að Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefði verið linari í afstöðu sinni til óska ESB-ríkjanna, en William Cohen, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, var fyrir fáeinum dögum. Cohen er repúblikani eins og Bush og kannski mótast skoðanir hans af því, þótt hann gangi að sjálfsögðu ekki gegn stjórn Clintons, á meðan hann situr í henni. Ef til vill er það Clinton, sem hefur skipt um skoðun síðustu daga, þegar hann hitti Tony Blair, sem var nýkominn af leiðtogafundi ESB-ríkjanna í Nice, en utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna voru einmitt að ræða um niðurstöður Nice-fundarins. Blair taldi, að hann hefði haft betur í varnarmálunum gagnvart Jacques Chirac, forseta Frakklands, í Nice og tryggt, að NATO yrði áfram forsenda allra evrópskra varna í samvinnu við Bandaríkin.

Ég fylgdist dálítið með Nice-fundinum í frönskum blöðum, þegar ég var í París síðustu daga fundarins. Ég er ekki viss um að staða okkar Íslendinga hafi batnað við þennan fund, ef menn líta á það, hvernig hlutur lítilla aðildarríkja að ESB er skilgreindur. Ef til vill hefur bilið fyrir smáríki milli þess að vera utan bandalagsins eða innan minnkað, þegar litið er til aðildar að ákvörðunum. Þótt fáir hafi skilgreint niðurstöður Nice-fundarins til hlítar, virðast flestir sammála um, að þar hafi verið gengið á hlut smáríkjanna með því að auka áhrif hinna stóru. Eru ekki öll kurl komin til grafar í því efni.