7.12.2000

Skemmtilegir tónleikar – fjögur frumvörp – pappírstígrisdýr.


Í kvöld, fimmtudaginn 7. desember, fór ég á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þar sem frumflutt var nýtt verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Í svarthvítu, sem samið er fyrir hljómsveitina að beiðni og frumkvæði stjórnar Reykjavíkur – Menningarborgar Evrópu 2000. Er verkið enn einn góður minnisvarði um árangur að frumkvæði M2000 og á eftir að halda merki ársins lengi á loft. Var skemmtilegt hvernig Jerzy Maksymiuk stjórnandi kynnti okkur áheyrendum verkið áður en það var flutt í heild. Á tónleikunum var Evelyn Glennie, frægasti slagverksleikari heims, einleikari, en hún hefur komið hingað til lands áður og meðal annars frumflutt verk eftir Áskel Másson, sem hún hefur síðan farið með um víða veröld. Að þessu sinni lék hún á marimbu og síðan á víbrófon. Er með ólíkindum að fylgjast með því og heyra hvílík tök þessi heyrnarlausa kona hefur á slagverkshljóðfærunum en hún er berfætt á sviðinu og skynjar tónana og fall þeirra með iljunum auk þess sem hún nemur hljóðbylgjur, þegar þær skella á henni. Tónleikunum lauk síðan með tveimur verkum eftir Frank Zappa og komu ýmsir langan veg til að hlusta á hljómsveitina flytja þau, raunar sagði kunnáttumaður við mig í hlénu, að samhliða því, sem verðskulduð athygli var vakin á hlut Hjálmars á þessum tónleikum hefði átt að segja betur frá því, að Zappa ætti þar einnig verk, því að hann ætti marga aðdáendur hér á landi, sem ekki væru sérstaklega með auga á tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Fyrr í dag flutti ég framsögu fyrir fjórum frumvörpum á alþingi, það er til þjóðminjalaga, safnalaga, húsafriðunarlaga og um bann við flutningi menningarverðmæta úr landi. Forseti bar það upp, áður umræður hófust, hvort athugasemd væri gerð við, að mælt yrði fyrir frumvörpunum saman. Engin gerði athugasemd og mun þetta í fyrsta sinn, sem mælt er fyrir fjórum frumvörpum með þessum hætti.

Frumvörpunum var almennt vel tekið af þingmönnum en Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar, tóku syrpu fyrir hönd Náttúrfræðistofnunar og töldu, að með safnalögunum væri vegið að þeirri stofnun með því að mæla fyrir um, að Náttúruminjasafn verði höfuðsafn á sínu sviði og heyri eins og önnur söfn undir menntamálaráðuneytið. Höfðu þeir í fyrstu ræðum sínum uppi stór orð um, að umhverfisráðherra hefði greinilega ekki gætt hagsmuna Náttúrufræðistofnunar nægilega vel. Umræðurnar þróuðust síðan á þann veg, að umhverfisráðherra upplýsti, að með lögum um Náttúrufræðistofnun frá 1992 hefði beinlínis verið ákveðið, að stofnunin héldi ekki úti náttúrugripasafni og þess vegna væri óþarft að gera ráð fyrir breytingum á lögum um stofnunina, þegar sett yrðu sérlög um Náttúruminjasafn Íslands, en safnið væri munaðaralust eins og málum væri nú háttað, safnalögin væru því nauðsynleg til að skipa safninu sess í stjórnkerfinu. Áréttaði ég þessa skoðun umhverfisráðherra, þegar ég tók saman umræðurnar um frumvörpin í lokin og lýsti þeirri skoðun, að við frágang málsins þyrfti ekki að huga sérstaklega að Náttúrufræðistofnun, því að fram hefði komið, að lög gerðu ekki ráð fyrir því, að hún sinnti Náttúruminjasafni. Er ekki oft sem deilumál gufa upp í umræðum í þingsalnum, en það gerðist að þessu sinni, því að frá upphafi var ljóst, að þeir Samfylkingarmenn höfðu ekki kynnt sér forsendur málstaðar síns nægilega vel.

Í kvöldfréttum heyrði ég Davíð Oddsson forsætisráðherra ræða málflutning Össurar Skarphéðinssonar um efnahagsmál og benda á, að Össur hefði greinilega ekki haft fyrir því að lesa þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar, áður en hann lagði út af henni með miklum hrakspám, því að Össur hefði ekki áttað sig á því, að viðskiptahallinn hefði ekki aukist í raun en hins vegar hefði Þjóðhagsstofnun tekið upp nýja aðferð við mat á honum.

Davíð Oddsson fór einnig yfir umræðurnar um Þjóðmenningarhúsið og kostnað við framkvæmdir við það, sem voru dýrari en áætlað var. Benti hann á, að hann hefði haft frumkvæði að því sjálfur, þegar hann fékk fregnir af kostnaðartölum í júlí, að Ríkisendurskoðun, stofnun á vegum alþingis, gerði skýrslu málið, hún hefði legið fyrir í september. Fráleitt væri að tala um þessa skýrslu eins og eitthvert leyndarplagg. Þar kæmi fram að um helming af þeim 100 milljónum, sem um er að ræða, mætti rekja til verðbreytinga á framkvæmdatímanum, ákveðið hefði verið að ráðast í að ljúka framkvæmdum við lóð hússins, sem ekki hefði verið í upphaflegri áætlun. Var niðurstaða Davíðs, að um 5% kostnaðar væri umfram áætlanir. Er nokkur munur á því og 100% tali Össurar Skarphéðinssonar, þegar hann minnist á þetta mál.

Ég hef hér nefnt þrjú dæmi frá síðustu dögum um að formaður Samfylkingarinnar sækir fram á röngum forsendum og gerir hríð að stjórnmálaandstæðingum sínum, án þess að geta staðið á því, sem hann er að segja, þegar á reynir, vegna þess hve glannalega er lagt af stað. Nú síðast heyrði ég hann segja frá því í sjónvarpsviðtali, að hann og Samfylkingin ætluðu að berjast eins og „villidýr" gegn því að Landssíminn yrði seldur með grunnneti sínu. Hljóta fleiri en ég að hafa orðið undrandi vegna þessa orðalags og verst var, að fréttamaðurinn gekk ekki á Össur og spurði hvað fælist í raun í þessari hótun, en það er óvenjulegt, að stjórnmálamenn taki til orða með þessum hætti. Að ekki var gengið á Össur er til marks um, að stór orð hans vega ekki lengur þungt, því að „villidýr" Samfylkingarinnar þykir líklega eins og hvert annað pappírstígrisdýr.