Hallgrími svarað - fullveldishátíð
Hallgrímur Helgason rithöfundur beinir orðum sínum til mín í DV laugardaginn 2. desember í tilefni af verkfalli framhaldsskólakennara. Hann segir meðal annars: „Samt er skólakerfið ennþá miðað við löngu úreltar þarfir bóndans. Þrátt fyrir falleg loforð og ráðherraræður um „nýja skólaskipan"virðist ekkert hafa gerst. Skólaárið er ennþá bara átta mánuðir. Menntaskólinn ennþá fjögur ár. Bóknámið ennþá ljósárum ofar iðnnáminu. Listmennt ennþá talin til föndurs, skólarnir að mestu tölvulausir, og laun kennara ennþá niðri í kjallara." Síðan segir Hallgrímur: „Kæri Björn. Was up?"
Ég þakka spurninguna og leitast við að svara henni:
1. Ég hef aldrei rætt um nýja skólaskipan, hins vegar hefur nýrri skólastefnu verið hrundið í framkvæmd með nýjum námskrám fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Var unnið að námskrárgerðinni undir forsjá menntamálaráðuneytisins í góðri samvinnu við kennara á öllum skólastigum og hafa allar námskrárnar tekið gildi. Er það mál allra, sem að skólastarfi koma, að vel hafi til tekist og með þessum nýju námskrám er lagður grunnur að mikilli nýsköpun í íslenska skólakerfinu. Það er ekki sanngjarnt að segja ekkert hafa gerst í íslensku skólastarfi, þegar því hafa í raun verið skapaðar nýjar forsendur með námskránum. Þá gengur næsta vor í gildi breytt skipan samræmdra prófa í grunnskólum og afnumin skylda til að gangast undir þau, enda munu innritunarskilyrði í framhaldsskóla taka mið af því.
2. Skólaárið er ekki átta mánuðir heldur níu. Athuganir sýna, að kennslustundafjöldi hér er meiri í grunnskólum og framhaldsskólum en annars staðar á Norðurlöndunum, hvað sem lengd skólaársins líður. Í umræðum um þennan þátt koma fram mjög skiptar skoðanir meðal landsmanna og athuganir, sem menntamálaráðuneytið hefur látið gera, sýna, að meirihluti landsmanna er andvígur því að lengja skólaárið. Um þetta mál verður að ríkja góð sátt í þjóðfélaginu. Rökræður þurfa að verða meiri um það, áður en ákvörðun um lengingu skólaársins er tekin, verði hún á annað borð tekin.
3. Það er hluti nýju skólastefnunnar að stytta nám til stúdentsprófs. Nýskipan grunnskólans gerir meðal annars ráð fyrir því, að nemendur geti útskrifast úr 9. bekk hans sýni þeir mikinn dugnað í námi. Í áfangaskólum lýkur sífellt stærri hópur nemenda námi til stúdentsprófs á skemmri tíma en 4 árum, þessi leið er opin fyrir alla í þeim skólum. Við mat á styttingu námstíma til stúdentsprófs þarf að skoða marga þætti og ræða meira áður en skrefið er stigið. Menntamálaráðuneytið vinnur markvisst að því að leiða þetta mál til lykta í eins mikilli sátt og kostur er. Ég taldi ekki skynsamlegt að knýja á um styttinguna um leið og nýju námskrárnar tóku gildi, en í námskrárgerðinni var höfð hliðsjón af þessum þætti nýju skólastefnunnar.
4. Mikið hefur verið gert til að auka veg starfsnáms og iðnnáms meðal annars með því að reisa nýja skóla á borð við Borgarholtsskóla, verknámsálmu Menntaskólans í Kópavogi og Iðnskólans í Hafnarfirði. Samstarf atvinnulífs og skóla er með allt öðrum hætti en áður. Á hinn bóginn mætast mjög ólíkir heimar, þegar lagt er á ráðin um aukinn hlut atvinnulífs í skólastarfi eins og sjá má meðal annars í grein Ara Edwalds, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu 3. desember.
5. Listnám er alls ekki talið til föndurs, það hefur verið samin sérstök námskrá um listnám í framhaldsskólum og Listaháskóli Íslands er kominn til sögunnar og eflist með hverjum mánuði, sem hann starfar.
6. Þegar tölvukostur íslenskra skóla er skoðaður, getur enginn dregið þá ályktun, að þeir séu tölvulausir. Á alþjóðlegan mælikvarða erum við í fremstu röð á þessu sviði og keppum helst við Singapore.
7. Laun kennara eru ekki niðri í kjallara, þótt umræðurnar séu á þann veg, að gert sé á hlut kennara í samanburði við aðra. Í því samhengi er verið að bera saman ólík launakerfi og núverandi kjaradeila við framhaldsskólakennara snýst meðal annars um leiðir til að komast út úr þessu öngstræti með varanlegum hætti.
Ég hef hér farið yfir þá sjö liði, sem Hallgrímur nefnir og leitar síðan svara hjá mér. Vona ég, að þetta sé til fróðleiks fyrir fleiri en hann. Hef ég oft hvatt til þess, að menn líti ekki af bölsýni á tilveruna, þegar þeir ræða um íslenska skólakerfið, það er með öllu óþarft.
Í DV-grein sinni segir Hallgrímur, að það sé fyrir löngu kominn tími til þess að stokka upp allt skólakerfið. Hann vill, að skólaárið verði 10 mánuðir, þá geti menntamálaráðherra horft rólegur á mánaðarlangt verkfall kennara. Hann spyr hvort ríkisstjórnin vilji halda uppi öflugu og fyrsta flokks menntakerfi. Svarið við því er einfalt, að sjálfsögðu hlýtur það að vera markmið skólastarfsins.
Hallgrímur segir skólakerfið í vítahring vegna þess að karlar flýi það vegna launanna, stéttin fyllist af konum og þá lækki launin ennþá meir. Síðan segir hann konurnar fara í verkföll og karlana í ráðuneytunum ekki vilja semja. Ég sé þetta ekki með þessum augum og kem þá að þeim hvatningarorðum Hallgríms til mín, að ég sýni smá manndóm og reisn og endurreisi skólakerfið í reynd. Ég eigi að hækka launin og útrýma kennaraverkföllum í eitt skipti fyrir öll „þessum smánarbletti á okkar glæsilega upplýsingasamfélagi." Hallgrími er ljóst, að ekki sé unnt að endurreisa skólakerfið á einum laugardegi, kennarar verði þess vegna að sætta sig við málamiðlun, þetta geti ekki gengið lengur og semja verði strax.
Ég þarf ekki að ítreka það, sem ég hef sagt hér áður, um hinn efnahagslega ramma, sem bæði ég og kennarar verða að virða. Viðurkenni menn nauðsyn þess, er unnt að leita leiða að sameiginlegu markmiði og þar sé ég tækifæri til umbóta í skólakerfi okkar innan ramma nýs kjarasamnings, sem tekur mið af nýju starfsumhverfi skólanna, samningum um árangursstjórnun og nýjum námskrám. Samstarfið sem tókst um gerð námskránna sýnir, að kennarar eru fúsir til þátttöku í umbótastarfi, sem snertir grundvallarþætti. Fyrri hluta þessa árs viðurkenndi ríkið sem atvinnurekandi sérstakar greiðslur til framhaldsskólakennara við að hrinda námskránni í framkvæmd og átti menntamálaráðuneytið þar frumkvæði í samvinnu við fjármálaráðuneytið. Ég tel, að mörg merki séu um það, að sem vinnuveitandi vilji ríkisvaldið leitast við að koma til móts við óskir kennara innan þeirra marka, sem um hefur verið samið við aðra, og með hliðsjón af nýjum starfsháttum í skólum. Enginn getur vænst þess í verkfalli að fá öllum kröfum sínum framgengt og ekki heldur hins, að viðmælendur láti ekki í ljós skoðanir sínar. Þeir, sem utan deilunnar standa, hljóta að líta framvinduna frá eigin sjónarhóli og margir óttast, að almennt friðrof verði á vinnumarkaði, ef samningar við kennara gefi tilefni til þess.
Fullveldishátíð Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) var illa sótt í hátíðasal skólans klukkan 13.00 1.desember. Sýndust mér um 20 námsmenn vera í salnum en einnig komu þangað forseti Íslands, nokkrir háskólakennarar og að auki áhugafólk um menningarmál, þegar rætt var um þau. Þá voru forvígismenn M2000 í salnum en hátíðin fór fram undir merkjum Reykjavíkur menningarborgar.
Sagt hefur verið frá því í fjölmiðlum, að komið hafi til snarpra orðaskipta milli mín og Eiríks Jónssonar, formanns Stúdentaráðs Háskóla Íslands, á hátíðinni, en tilgangur hennar var meðal annars sá af hálfu SHÍ að stilla mér upp við vegg vegna þess hve illa væri staðið við bakið á HÍ og opinbert fé til hans skorið við nögl. Endurtók formaður SHÍ það, sem hann hefur verið að rita í Morgunblaðið undanfarnar vikur og fór með talnaraðir, sem áttu að sýna, hve við Íslendingar stæðum halloka gagnvart öðrum þjóðum. Er þessi raunalestur orðinn að kæk, þegar formaður SHÍ ræðir um skólann sinn og er það eitt athyglisvert, að í engum öðrum háskóla ganga forvígismenn nemenda fram með sama hætti og þeir eru ekki heldur að agnúast út í Háskóla Íslands með sama hætti og formaður SHÍ talar um aðra háskóla og virðist sjá ofsjónum yfir því, hvernig staðið er að fjármögnun þeirra. Í því efni ræðir hann gjarnan um samanburð við einkarekna háskóla á Norðurlöndunum, án þess þó að nefna nokkurn skóla í því sambandi, enda er það erfitt, þegar litið er yfir sviðið allt, því að við Íslendingar höfum skapað okkur sértöðu á Norðurlöndunum með starfi einkarekinna háskóla.
Ég minnti á það í ræðu minni, hve Ísland stæði vel að vígi í alþjóðlegum samanburði á öllum sviðum og greindi meðal annars frá því, að Vilhjálmur Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs Íslands, hefði kannað hvaða tölur um fé til rannsókna á Íslandi World Economic Forum hefði notað við mat á samkeppnishæfni þjóðarinnar, en greint var frá því fyrr á árinu, að Ísland hefði dalað úr 17. sæti í hið 23. og mætti einkum rekja það til slakrar stöðu á sviði tækni og við fjárfestingar í rannsóknum. Athugun Vilhjálms leiddi í ljós, að tölurnar héðan voru úr UNESCO-skýrslu frá 1995, en frá 1996 til 2000 hefur orðið 26% aukning á árlegri framleiðslu hér á landi og hefur verið bent á, að það hafi stundum tekið aðrar þjóðir 10 ár eða jafnvel 20 ár að ná slíkum árangri. Þótt ég benti á það í ræðu minni, að tölur World Economic Forum byggðust þannig á veikum grunni og tækju ekki mið af hinum mikla vexti síðustu ára, studdist formaður SHÍ við þær í raunalestri sínum. Þegar ég benti á, hve mikið fjárveitingar úr ríkissjóði til HÍ hafa vaxið undanfarin ár t.d. um 12,4% milli áranna 1999 og 2000 eða um rúmar 300 milljónir króna, hneykslaðist formaður SHÍ yfir því, að ég væri að „gorta". Þegar ég benti á þá staðreynd, að 28,6% íslenskra háskólanema stundaði nám við erlenda háskóla og hlyti að þurfa að taka tillit til þess, þegar gerður væri samanburður á útgjöldum íslenska ríkisins til háskólastigsins og litið til þjóða, þar sem milli 90% og 100% nemenda væru við nám í heimalandi sínu, fór formaður SHÍ að tala um það, að Íslendingar ættu kannski ekki að vera læra svona mikið í útlöndum!