25.11.2000

Grunnskólakostnaður – verkfall – málflutningur á villigötum.

Um nokkurra mánaða skeið hafa ýmsir sveitarstjórnarmenn látið í veðri vaka, að sveitarfélögin hafi verið hlunnfarinn í fjárhagslegum samskiptum sínum við ríkið vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég hef jafnan mótmælt þessum málflutningi og sagt, að ekkert hafi komið fram, sem sýni, að ríkið hafi ekki staðið við allt, sem um var samið, þegar ráðist var í þetta mikla verkefni.

Ríkið samdi um það við sveitarfélögin, að á árinu 2000 yrði kostnaðar- og tekjuþörf við framkvæmd grunnskólalaganna endurmetin í ljósi reynslunnar. Nefnd með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga hefur unnið að þessu verkefni og fékk hún KPMG endurskoðun til að fara yfir málið á umsömdum forsendum, sem samþykktar voru af öllum nefndarmönnum og skilaði KPMG skýrslu sinni og niðurstöðu 24. nóvember. Þar kemur fram, að ekki er unnt að finna neitt að framkvæmd samningsins og á árunum 1996 til 1999 hefur kostnaður sveitarfélaganna vegna grunnskólans farið 300 milljónum króna umfram þann tekjuauka, sem þau fengu frá ríkinu með grunnskólanum. Dregur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, þessa niðurstöðu ekki í efa.

Ég veit ekki, þegar þetta er skrifað, hvernig þeir munu bregðast við þessari skýrslu KPMG, sem hæst hafa talað um allt að 3,5 milljarða kostnaðarauka sveitarfélaganna vegna grunnskólans, það er meira en 10 sinnum hærri fjárhæð en kemur fram í skýrslu KPMG. Skrýtnast þótti mér, þegar fyrirtækið Deloitte og Touche tók það upp hjá sjálfu sér að setja fram tölur í þessu sambandi. Gagnrýndi ég það hér á þessum síðum við litla þökk forsvarsmanna fyrirtækisins, en Deloitte og Touche taldi, að það vantaði meira en 3 milljarði inn í dæmið og borgarstjórinn í Reykjavík tók síðan undir það á opinberum vettvangi.

Þar sem að samkomulag náðist í nefnd þeirri, sem ég setti á laggirnar, um forsendur fyrir starfi KPMG og allir aðilar málsins hafa átt þess kost að leggja gögn fyrir starfsmenn fyrirtækisins, er erfitt að sjá það þjóna nokkrum tilgangi að halda áfram að þrasa um þessar tölur og gera ríkið að sökudólg fyrir að standa við samninginn upp á punkt og prik.

Frekari talnaleikfimi á þessum forsendum þjónar engu, ef ætlunin er að ná árangri. Samningurinn um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna hefur haldið. Þess sjást einnig merki, að sveitarfélögin ætli að róa á ný mið í kröfugerð á hendur ríkisvaldinu vegna grunnskólans. Nú á að hengja hatt sinn á nýja aðalnámskrá grunnskólans og úrskurði menntamálaráðuneytisins um skóladaga. Sá hængur er á þessum kröfum, að hvorki aðalnámskráin né úrskurðurinn leggur nokkrar skyldur á sveitarfélögin umfram það, sem segir í grunnskólalögunum, en þau lágu til grundvallar samningi ríkisins og sveitarfélaganna um fjárhagslegu uppskiptin vegna grunnskólans á sínum tíma. Í lögunum er til dæmis kveðið á um valfrjálsan tíma í 9. og 10. bekk grunnskólans, hann er ekki ákveðinn í námskránni. Úrskurðir menntamálaráðuneytisins byggjast alfarið að grunnskólalögunum. Um úrskurðina er raunar fjallað í skýrslu KPMG og ekki tekið undir að um viðbótarkostnað vegna þeirra sé óvtírætt að ræða en sagt, að sé hann fyrir hendi, ætti hann nú þegar að hafa komið fram í reikningum sveitarfélaga og gæti þess vegna að einhverju leyti skýrt mismun tekna og gjalda. Meginkostnaður af rekstri grunnskólanna felst í launagreiðslum eða milli 70 og 80% og gjöld umfram tekjur vegna skólanna koma til sögunnar eftir að sveitarfélögin gera samninga við kennara.


Verkfall framhaldsskólakennara hefur haldið áfram alla þessa viku án þess að nokkuð hafi miðað í viðræðunum, á hinn bóginn hafa samningar tekist í tveimur kjaradeilum síðustu daga, enda er niðurstaða þeirra innan þess ramma, sem menn hafa sett efnahags- og atvinnulífinu. Forystumenn framhaldsskólakennara hafa vitað jafnlengi og þeir hafa átt í viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, að hún mundi ekki ganga til samninga við þá, nema þeir væru innan hins almenna efnahagsramma. Það er hvorki skólahaldi, menntastefnu né framtíð ungs fólks til framdráttar að grafa undan efnahagslífi þjóðarinnar, enda gerir enginn stjórnmálaflokkur kröfur kennara að sínum.Þótt kallað sé til menntamálaráðherra og hann beðinn um að grípa til úrræða, sem leysa kynnu deiluna, er borin von að orðið verði við slíkum óskum, á meðan þær taka ekki mið af efnahagslegum staðreyndum og hinni almennu stefnu, sem öll ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á alþingi hafa mótað. Enginn menntamálaráðherra getur setið í ríkisstjórn og snúist gegn grundvallarstefnu hennar í efnahagsmálum.

Þeim stéttum fækkar ár frá ári, sem sjá sér hag af því að nota verkfallsvopnið til að ná fram bættum kjörum. Á sínum tíma var Eðvarð Sigurðsson leiðtogi Dagsbrúnar í Reykjavík og barðist lengi og oft með verkfallsvopninu, síðan snerist honum hugur og sagði óhikað frá því á opinberum vettvangi, að það skilaði ekki því, sem að væri stefnt að nota þetta vopn. Hefðu forystumenn framhaldsskólakennara átt að fara í smiðju hjá gamalreyndum verkalýðsforingjum, áður en þeir ákvaðu að feta þá braut, sem þeir hafa nú leitt félagsmenn sína. Sjaldan hafa þeir komist í jafnmiklar ógöngur og núna og furðulegast er, að öllu, sem hreyft er af viðmælendum þeirra til sátta, er tekið sem móðgun eða ögrun af einhverju tagi, á meðan hugarfarið er með þeim hætti er ekki von um mikinn árangur, þótt menn skiptist á skoðunum. Sýnist þeim einnig fækka jafnt og þétt fyrir utan hóp kennara, sem taka undir málstað þeirra, er það eitt ekki minna áhyggjuefni en verkfallið sjálft, þar sem andúð á málstað, málfltutningi og baráttuaðferðum forystumanna kennara varpar skugga á viðhorf almennings til skólastarfs.


Oft er ástæða til að efast um, að höfundar ýmissa greina eða ummæla í fjölmiðlum trúi því í raun, sem þeir eru að segja eða skrifa, sérstaklega þegar þeir þekkja ekki málavöxtu. Ég sé það til dæmis í Morgunblaðinu laugardaginn 25. nóvember, að Eiríkur Brynjólfsson kennari, sem segist aldrei fara í kirkju ótilneyddur, hefur ekki áttað sig á því fyrr en núna, að síðan 1928 hefur Þingvallanefnd farið með húsbóndavald á Þingvöllum. Hann skrifar grein um málefni Þingvalla, sem byggist á vanþekkingu og dylgjum en telur sig samt hafa stöðu til þess að vega að okkur, sem höfum skyldum að gegna vegna þjóðgarðsins og höfum nú ákveðið að ráða ekki prest sem starfsmann okkar heldur viljum, að hann sé eingöngu starfsmaður kirkjunnar eins og aðrir prestar. Fyrir nokkrum árum réðum við þjóðgarðsvörð og framkvæmdastjóra Þingvallanefndar, sem ekki er prestur og hefur hann síðan stjórnað öllu starfi í þjóðgarðinum, sem eykst ára frá ári. Þingvallanefnd hefur einnig um árabil borið hita og þunga af öllu fræðslustarfi á Þingvöllum. Nefndin vill, að Þingvallabærinn, sem er eign ríkisins og í umsjá Þingvallanefndar síðan 1930 og að hluta bústaður forsætisráðherra síðan 1974 nýtist áfram í þágu þjóðgarðsins án þess að þar búi prestur. Eiríkur segir lesendum Morgunblaðsins, að sér sé ekkert gefið um það, sem verið er að gera á Þingvöllum, verst er, að hann brýtur heilann um þetta og hefur af því áhyggjur án þess að vita um hvað málið snýst. Sá grunur vaknar, að hann skrifi greinina ekki af umhyggju fyrir Þingvöllum eða stöðu prests þar heldur í þeim tilgangi, að koma höggi á okkur Þingvallanefndarmenn og forsætisráðherra.

Sömu sögu er að segja um allan málflutning Svanfríðar Jónasdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um skólamál. Hann snýst ekki um efni málsins heldur miðar að því einu að gera hlut minn og Sjálfstæðisflokksins sem verstan. Líður varla sú vika, að ég svari ekki spurningu hennar um einhverja þætti menntamálamanna á alþingi og þess á milli ritar hún sömu greinina aftur og aftur í blöðin til skiptis Morgunblaðið, Dag og DV. Hún býsnaðist meðal annars mikið yfir því á alþingi fyrir skömmu, að nýja aðalnámskráin gerði ráð fyrir auknu valfrelsi í 9. og 10. bekk grunnskólans og með því væri auknum álögum kastað á herðar sveitarfélaganna umfram það, sem þau gátu vænst þegar þau tóku við grunnskólanum. Valfrelsið í 9. og 10. bekk byggist hins vegar á grunnskólalögunum, sem lágu að sjálfsögðu fyrir, þegar samið var um flutning skólans og fjármál vegna þess. Hrynur þar með málatilbúnaðurinn um að komið sé aftan að sveitarfélögunum.

Í Degi laugardaginn 25. nóvember heldur hún því fram, að atvinnulífið líði fyrir fjársvelti framhaldsskólans á sama tíma og lagt hefur verið meira fé en nokkru sinni til að efla verkmenntun í samstarfi við atvinnulífið. Þurfa menn ekki annað en líta á nýja skóla, nýjar námsgreinar og nýtt og öflugra samstarf við fagfélög á öllum sviðum til að sjá, hve hér er farið með rangt mál. Vandinn er hins vegar sá, að fólk finnur, að það nýtur sín ekki endilega betur á vinnumarkaði með menntun af ýmsum starfsnámsbrautum framhaldsskólanna en grunnskólaprófið eitt. Hér er ekki við skólakerfið að sakast heldur atvinnulífið sjálft, ef það metur ekki menntun til launa og letur þannig ungt fólk frá að afla sér hennar. Viðhorfið í þessu efni kann að vera að breytast, til dæmis tók ég eftir því, þegar sagt var frá nýgerðum kjarasamningi Matvís, að laun nema hækka mest og verður það vafalaust til að auka áhuga ungs fólks á að fara í hinn nýja og glæsilega veitinga- og matvælaskóla í Kópavogi, sem er hluti menntaskólans þar.

Svanfríður er á villigötum í þeirri skýringu sinni í Degi, að staða verknámsins sýni algjört skipbrot skólastefnu Sjálfstæðisflokksins. Er furðulegt, að hún geti ekki viðurkennt þá miklu endurnýjun, sem verið hefur í öllu íslenska skólakerfinu undanfarin ár og kjósi frekar að lemja höfðinu við steininn vegna andúðar sinnar á Sjálfstæðisflokknum. Stjórnmálaumræður, sem byggjast á þessum Samfylkingarforsendum, eiga ríkan þátt í að koma óorði á stjórnmálin eins og hið neikvæða tal Svanfríðar um skólamálin er aðeins til þess fallið að draga upp svarta en falska mynd af íslenska skólakerfinu.