19.11.2000

Íslensk tunga – ASÍ-kosning – ESB-umræða.


Síðustu daga hef ég sinnt ýmsum verkefnum, sem tengjast degi íslenskrar tungu en hann var nú haldinn hátíðlegur í fimmta sinn. Umsvif í tilefni dagsins aukast jafnt og þétt og hefur hann fest sig í sessi með skemmtilegum hætti ekki síst innan skólanna, þar sem efnt til umræðna og verkefna af ýmsi tagi. Ég hafði ekki tök á að fylgjast með því, hvað fjölmiðlar sögu frá miklu vegna dagsins en vissi til dæmis, að leikarar Þjóðleikhússins ætluðu að fara í strætisvagna eða annars staðar á mannmót til að lesa ljóð eða fara með góða texta.

Magnús Þór Jónsson, Megas, fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar að þessu sinni. Ég met viðbörgðin við veitingu verðlaunanna til Megasar á þann veg, að þau hafi snert viðkvæman streng í brjósti mjög margra og víða valdið miklum umræðum. Ýmsir hneykslast en hinir eru þó fleiri að mínu mati, sem finnst Megas vel að þessum verðlaunum kominn. Þegar nafn hans var nefnt af ráðgjafanefndinni var enginn í efi í mínum huga um réttmæti þess að Magnús Þór hlyti verðlaunin. Strax og ég kom í Sundhöllina klukkan 6.30 að morgni 17. nóvember hófu menn að ræða verðlaunaveitinguna við mig og hvergi hef ég komið síðan, án þess að verðlaunin beri ekki á góma.

Laugardaginn 18. nóvember var ég á Akureyri og tók þátt í málstefnu menntaskólans þar um stöðu íslenskrar tungu í lok aldar. Í umræðum að loknum fróðlegum erindum var einkum rætt um málumhverfi ungs fólks með tilltiti til þeirra útvarpsstöðva, sem sérhæfa sig í efni fyrir það. Var það samdóma álit þeirra, sem ræddu málið, að öll efnistök þar væru með eindæmum léleg og lágsigld. Undruðust menn hvernig stjórnendur fyrirtækja, sem kosta þætti af þessu tagi, sæju sóma sinn í því að leggja nöfn fyrirtækjanna við þá. Ekki mætti gleyma þeirri staðreynd í þessu sambandi, að það væri ekki unga fólkið, sem gerði þættina, heldur yfirleitt karlmenn um þrítugt, sem teldu sig í stöðu til að meta, hvað unga fólkinu væri fyrir bestu. Væri stundum mjög hallærislegt að hlusta á þá, einkum þegar þeir væru að byggja upp spennu í kringum væntanlegar kvikmyndir, sem héldu síðan ekki lífi nema fyrstu sýningarhelgina, áður en umsagnir birtust, því að þær væru svo lélegar. Þessi glæra auglýsingamennska hlýtur að ganga sér til húðar, verst er, ef hún leiðir til þess, að ungt fólk hættir að gera mun á því, sem skiptir máli, og hinu, sem er hjóm eitt.

Átökin á þingi Alþýðusambands Íslands leiddu til annarrar niðurstöðu en menn gátu vænst eftir að hafa fylgst með framvindu þeirra fyrirfram í fjölmiðlum, því að þar var látið í veðri vaka, að Ari Skúlason framkvæmdastjóri þyrfti ekki annað en lyfta litla fingri þá myndi hann ýta Grétari Þorsteinssyni úr forsetastólinum. Þótti skipan kjörnefndar á þinginu staðfesta þessa kenningu og virtust allir bíða þess eins, að Ari myndi kolfella Grétar. Hið gagnstæða gerðist, Ari beið ósigur. Á hinn bóginn sögðu ýmsir fréttamenn frá niðurstöðunni á þann veg, að helst mætti líta á úrslitin sem áfall fyrir meirihluta kjörnefndar! Formaður hennar, Halldór Björnsson, var hins vegar síðan sjálfkjörinn varaforseti ASÍ.

Ari Skúlason hefur á stundum komið fram í fjölmiðlum eins og hann væri frekar talsmaður Samfylkingarinnar en framkvæmdastjóri ASÍ og verður forvitnilegt að fylgjast með því, hvaða áhrif átökin um forsetaembættið hafa á þá stöðu hans.

Ari Skúlason er talsmaður þess, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Áður hef ég vikið að því hér á þessum stað, að þeir, sem vilja Ísland inn í ESB, virðast haldnir þeirri trú, að nái sú stefna ekki fram að ganga eða aðhyllist menn hana ekki séu þeir talsmenn þess, að Ísland sé í lausu lofti á alþjóðavettvangi. Þetta er furðuleg afstaða, þegar til þess er litið, að Ísland hefur óvtíræðan sess á alþjóðavettvangi og með öllu er ástæðulaust að gera því skóna, að ekki sé vitað, hver hann er. Hitt er víst, að Evrópuglýjan getur auðveldlega gert menn áttavillta..

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Danmörku 28. september var því haldið fram af já-sinnum, að þeir, sem ætluðu að segja nei, væru að taka fótfestuna undan þjóð sinni á alþjóðavettvangi, ef þeir voru ekki einnig að skapa óbærilega óvissu fyrir þjóðir, sem sótt hafa um aðild að ESB. Nei-sinnar sigruðu og Danir halda sínu striki án þess að hafa tapað fótfestunni. Þegar við gerðumst aðilar að evrópska efnahagssvæðinu (EES), vissum við, að aðildinni fylgdi ekki þátttaka í pólitísku ákvarðanaferli innan ESB. Við yrðum að halda á hagsmunum okkar í samræmi við það. Að vísu telja sumir rangt, að íslenskir stjórnmálamenn gæti íslenskra hagsmuna. Þeir séu í raun best komnir í höndum alþjóðastofnana. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, talaði til dæmis á þann veg í umræðum utan dagskrár um Kyoto-samkomulagið á alþingi fyrir skömmu, að henni þætti óþarft að halda fram íslenskum hagsmunum á fundi um samkomulagið í Haag.

Steingrímur Hermannsson skýrði frá því í Silfri Egils í dag, í fyrsta sinn opinberlega að eigin sögn, að hann hefði ákveðið að draga sig í hlé sem formaður Framsóknarflokksins, þegar þingflokkur hans klofnaði í atkvæðagreiðslunni um EES-málið á alþingi. Honum hefði mislíkað svo mjög, að hafa ekki full tök á flokki sínum, en Halldór Ásgrímsson snerist gegn Steingrími í þessu úrslitamáli. Þessi uppgjörsmál innan Framsóknarflokksins verða ljós núna í tilefni af því, að þriðja bindi ævisögu Steingríms er að birtast. Mér þótti sérkennilegt, að sjá hann í fréttum sjónvarpsins á laugardagskvöld, þegar hann var að gera því skóna, að Bandaríkjamenn hefðu brotið margítrekaðar yfirlýsingar sínar um, að kjarnorkuvopn hefðu ekki verið á Íslandi. Er með ólíkindum, að fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra lands tali á þennan veg um lykilatriði í öryggismálum þjóðar sinnar, án þess að hafa nokkuð annað að styðjast við en eigin tortryggni í garð Bandaríkjanna nema um sé að ræða viðleitni til að skapa vanda fyrir núverandi utanríkisráðherra.