12.11.2000

Verkfall í framhaldsskólum – leikreglur – bráðabirgðalög


Hinn 7. nóvember, sama dag og 450 ár voru liðin frá því að Jón Arason og synir hans tveir voru teknir af lífi skammt frá Skálholti og forsetakosningar fóru fram í Bandaríkjunum, hófst verkfall í framhaldsskólunum, hið fyrsta, sem efnt er til í tíð minni sem menntamálaráðherra. Ég minnist vel hins mikla hita sem var í síðasta kennaraverkfalli fyrri hluta árs 1995, þegar háð var kosningabarátta til alþingis og víða efnt til stjórnmálafunda, sem báru svip af verkfallsátökunum. Sérstaklega er mér minnisstæður fjölmennur fundur með kennurum, sem ég sótti á Akranesi á þessum tíma.

1997 var samið um kjör kennara í framhaldsskólum án þess að til verkfalls kæmi en þá ákváðu forystumenn kennara að fara aðra leið í kjaramálum en háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins almennt. Héldu kennarar í gamla skipan en hinir fóru inn í nýtt kerfi, þar sem dagvinnulaun hækkuðu með tilfærslum frá yfirvinnu. Hefur þetta að sjálfsögðu haft í för með sér mismunandi þróun dagvinnulauna á þeim árum, sem síðan eru liðin. Er óraunhæft að bera þá þróun saman, af því að grunnurinn er ekki hinn sami.

Í umræðum um þessi mál á vettvangi skóla hef ég orðið var við, að kennarar lýsa tortryggni í garð viðsemjenda sinna og telja, að þeir hafi sýnt tvöfeldni gagnvart kennurum. Upptök þessarar tortryggni eru gjarnan rakin aftur til áranna 1989 og 1990, þegar sett voru bráðabirgðalög á samninga fjármálaráðherra við BHMR og tekin var til baka umsamin launahækkun kennara. Þetta var í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar sem fjármálaráðherra en Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra og lýsir hann málinu í þriðja bindi ævisögu sinnar.

Frá því að þessir atburðir gerðust hefur ekkert svipað endurtekið sig og verður að skoða þá í ljósi þess, hverjir fóru með forystu á þessum árum. Ráðuneyti Davíðs Oddssonar hafa til dæmis gjörbreytt um stefnu varðandi útgáfu bráðabirgðalaga og menn vænta þess ekki, að ríkisstjórn hlutist til um kjaradeilur með lagasetningu. Kjaradeilan við framhaldsskólakennara verður ekki leyst annars staðar en við samningaborðið. Þar verða menn að finna þá lausn, sem dugar til að opna skólana að nýju fyrir nemendum. Við búum við ákveðnar leikreglur í þessu efni og eftir þeim verður að fara, þar ber hver aðili sína ábyrgð og undan henni verður ekki vikist, hvar sem menn sitja við borðið.

Eðlilegt er, að nemendur hafi áhyggjur af hverjum degi, sem líður án þess að samningar takist, því að rof á skólastarfi setur allar áætlanir þeirra úr skorðum. Á hinn bóginn sjá allir, að kröfur um 65 til 70% hækkun launa eru utan við alla ramma, sem efnahagskerfinu eru settir. Af minni hálfu hefur verið lögð áhersla á að nýr kjarasamningur auki sveigjanleika í skólastarfi. Er það í samræmi við markmiðin með nýrri námskrá.

Menntamálaráðherrar sitja jafnan undir því á tímum sem þessum, að þeir láti ekki nægjanlega mikið frá sér heyra um ágreiningsefnin á opinberum vettvangi. Fjölmiðlamenn hringja og höfða til þess, að almenningur eigi rétt á að vita, hver sé skoðun menntamálaráðherra á stöðunni. Kennarar vilja, að ráðherrann skipi sér í fylkingu með þeim, annars sé ekki unnt að líta á hann sem málsvara skólakerfisins. Nemendur vilja fá skýr svör um stöðu sína, þótt þeim sé jafnljóst og öðrum, að hún ræðst að lokum af því, hve langan tíma tekur að finna sameiginlega niðurstöðu.

Það er í andstöðu við þá starfshætti, sem ég hef tamið mér, að nota alvarlegt tilefni eða ástand sem þetta til opinberra yfirlýsinga, sem hafa í raun lítið sem ekkert gildi, þegar litið er á kjarna málsins, því að málið leysist ekki nema báðir aðilar líti til sömu áttar, þegar rætt er um leiðarenda. Ég tel mestu skipta að leita samninga innan þeirra leikreglna, sem okkur eru settar.

Við höfum verið minnt á það eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, hve leikreglur skipta miklu, þegar tekist er á við úrlausn mála á lýðræðislegum forsendum. Þegar mjótt er á munum, er eðlilegt, að ekki sé lýst yfir úrslitum, fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Lýðræðið er tímafrekt og þess vegna vitum við ekki enn, hver verður næsti forseti Bandaríkjanna. Það kemur hins vegar á óvart, hvaða fréttir berast af framkvæmd forsetakosninganna í Flórída og meðferð kjörgagna. Er ekki vafi á því, að þessir atburðir marki þáttaskil við þessa framkvæmd, betur verið að málum staðið, þegar næst verður kosið, auk þess sem síendurtekin talning minnir kjósendur á þá staðreynd, að hvert atkvæði skiptir máli. Meira að segja forseti Bandaríkjanna á allt sitt undir einu atkvæði.

Virðing fyrir leikreglum á stundu eins og þessari í Bandaríkjunum, ræður ekki aðeins miklu um aðferðina við að komast að endanlegri niðurstöðu um það, hver verður næsti forseti Bandaríkjanna, heldur skiptir höfuðmáli við að friða stuðningsmenn forsetaframbjóðendanna og skapa þeim, sem hreppir hnossið að lokum, bærilegar forsendur til að sinna því meginhlutverki að sameina þjóðina að baki sér.

Hvarvetna í lýðræðisríkjum höfum við búið okkur til leikreglur, sem miða að friðsamlegri lausn ágreiningsmála, og er verkfallsréttur kennara ein af þessum reglum. Þegar ákveðið er að nýta hana, fer af stað lögbundið ferli, sem alltaf leiðir til samkomulags að lokum, spurningin er um tíma og hve dýru verði menn kaupa friðinn. Það var greinilega gert of háu verði fyrir 10 árum, þegar ríkisstjórnin samdi við við BHMR og varð síðan að taka eigin samning úr gildi með bráðabirgðalögum.

Vikið er að bráðabirgðalögunum á kjarasamninga BHMR. Í ævisögu Steingríms Hermannssonar og sagt þannig frá aðdraganda lagasetningarinnar, að Einar Oddur Kristjánsson, sem þá var formaður Vinnuveitendasambands Íslands, hafi komið til fundar við Steingrím og þeir hafi rætt, að taka yrði á málinu með lögum. Síðan segir, að ríkisstjórninni hafi í raun verið stillt upp við vegg í málinu, formenn stjórnarflokkanna hafi verið á einu máli, að ekki væri um annað ræða en að fallast á beiðni Einars Odds. Steingrímur segist hafa vitað, hvernig í beiðni Einars lá en hann hafi heyrt svipaðan tón hjá ýmsum verkalýðsforkólfum, Einar Oddur hafi hins vegar einn gengið svo langt að óska eftir setningu laga. Kemur fram, að í viðtali vegna bókarinnar hafi Einar Oddur skýrt frá því, að hann hafi gengið á fund Steingríms að beiðni forystumanna þeirra launþegasamstaka, sem stóðu að þjóðarsáttinni, það er ASÍ og BSRB.

Lesandinn hefur ekki ástæðu til að draga neitt í efa, sem hér er sagt. Hitt er einkennilegra, að öll frásögnin ber merki þess, að forystan í málinu hafi verið annars en þeirra, sem sátu í ríkisstjórninni, sem setti bráðabirgðalögin. Hún hafi verið leiksoppur en ekki forystuafl. Frásögnin minnir síðan á þá staðreynd, að allir samningar um kaup og kjör verða að vera innan ákveðinna marka, svo að þeir snúist ekki upp í andhverfu sína og leiði að lokum frekar til þess að rýra kaupmátt en auka hann – spilla friðinum í stað þess að efla hann.