5.11.2000

Sagnfræði – stjórnmál – vefsíða

Davíð Oddsson forsætisráðherra ræddi um stjórnmálasögu á fjölmennum fundi Sagnfræðingafélags Íslands þriðjudaginn 31. október. Ég komst því miður ekki á fundinn, þar sem ég var á heimleið að loknum fundi í Brussel með Philippe Busquin, vísindastjóra Evrópusambandsins.

Það kom fram á fundinum, að Davíð er svo var um sig í samskiptum, að hann notar ekki einu sinni tölvupóst, hvað þá að honum dytti í hug að halda úti síðu eins og þessari. Einnig lýsti hann því viðhorfi sínu, að upplýsingalögin, sem hann beitti sér fyrir á vettvangi ríkisstjórnar og alþingis, hefðu leitt til þess að stjórnmálamenn höguðu samskiptum sínum við menn utan ráðuneytis síns og einnig innan ráðuneytis á annan hátt en áður var til að ná þeim árangri í störfum sínum, sem að er stefnt. Í því skyni væri oft nauðsynlegt að geta fjallað um mál án þess að meðferð þeirra félli undir ákvæði upplýsingalaga og kom fram, að líklegt væri, að minna væri skráð í samskiptum manna fyrir vikið.

Ég hef stundum lýst stöðu stjórnmálamanna og embættismanna á þann veg, að allt, sem við gerum, sé unnt að kæra með einum hætti eða öðrum fyrir þeim eftirlitsaðilum auk þess sem unnt sé að krefjast þess að sjá öll skjöl, sem við höfum milli handa við töku ákvarðana.

Þetta hlýtur að hafa áhrif á það, hvernig gengið er til þess að afgreiða einstök mál og markmið laga um þetta efni er að sjálfsögðu að tryggja góða málsmeðferð og efnislega niðurstöðu. Stjórnsýslulög og upplýsingalög skipta miklu í þessu samhengi en þau hafa verið samin og sett undir forystu Davíðs sem forsætisráðherra. Er ekki nokkur vafi í mínum huga um mikið gildi þessara laga, því að þar er tekið á álitaefnum, sem oft ollu deilum og voru til þess fallin að gera störf stjórnmálamanna tortryggileg. Finnst mér margt af því sem blaðamenn segja um störf íslenskra stjórnmálamanna nú á tímum byggjast á hugmyndum úr fortíðinni. Jónas Jónsson frá Hriflu beitti til dæmis valdi sínu sem ráðherra með mjög ámælisverðum hætti í mörgu tilliti eins og menn geta kynnst með því að lesa ævisögu hans eftir Guðjón Friðriksson.
Ævisögur stjórnmálamanna voru einnig til umræðu á fundinum með Davíð Oddssyni og taldi hann slíkar sögur betri sem sjálfsævisögur en ritaðar af öðrum. Lýsti hann einnig skoðun sinni á því, hvaða slagsíða gæti orðið á slíkum sögum og stjórnmálasögunni almennt eftir aðgangi manna að heimildum. Sumir stjórnmálamenn halda dagbækur, aðrir skrifa hjá sér minnispunkta í tilefni af mikilvægum atburðum eða eftir samtöl við einstaklinga. Faðir minn hafði mikla reglu á því þegar hann var utanríkisráðherra fyrir hálfri öld að skrá frásögn af viðræðum sínum við erlenda sendimenn, til dæmis þegar rætt var um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin. Hafa sagnfræðingar notað sumt af þessum frásögnum til að staðreyna það, sem gerðist í slíkum samtölum og borið þær saman við sambærilegar frásagnir viðmælenda hans. Er ekki vafi í mínum huga um, að þessar skráðu heimildir áttu mikinn þátt í því að tímum kalda stríðsins að ómerkja þann áróður kommúnista, að Íslendingar hefðu sýnt undirlægjuhátt í samskiptum við Bandaríkjastjórn eða sætt einhverjum hótunum frá ráðamönnum í Bandaríkjunum. Þegar Bandaríkjamenn tóku að birta opinberlega heimildir sínar frá þessum viðkvæma tíma í sögu íslenskra utanríkismála, var látið að því liggja í Þjóðviljanum, að í þessum bandarísku skjölum gætu menn séð svart á hvítu dæmi um launráðin ef ekki landráðin. Til að hrekja þann áróður ritaði ég greinar í Morgunblaðið, sem byggðust á frásögnum föður míns auk þess sem minnisblöð frá viðræðunum voru birt í heild. Þessi mál eru ekki lengur rædd á fölskum forsendum Þjóðviljans.

Þær síður, sem ég hef haldið úti hér á netinu í tæp sex ár hafa sérstöðu að því leyti, að aldrei fyrr hefur íslenskur ráðherra haft tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með þessum hætti. Þetta er ekki dagbók í þeim skilningi, að allt sé skráð eða sest sé niður í því skyni að gera út um mál gagnvart sjálfum sér eða leggja dóm á menn á málefni til að létta á sálu sinni. Raunar hef ég leitast við að viðhalda þeim trúnaði, sem hver og einn þarf að sýna viðmælendum sínum, því að annars yrði síðan mér fjötur um fót í samskiptum við aðra. Ég hef ekki verið gagnrýndur fyrir að rjúfa slíkan trúnað heldur fyrir hitt að láta í ljós skoðanir á mönnum og málefnum. Mest verð ég hissa, þegar látið er í veðri vaka, að staða mín sem ráðherra valdi því, að ég megi ekki segja eitt eða annað um stjórnmál eða svara fyrir mig, ef að er vegið, með þeim hætti, sem ég kýs. Þá áhættu tek ég undir þeirri smásjá, sem beint er að störfum okkar stjórnmálamannanna.

Stundum velti ég því fyrir mér, hvort ramminn, sem ég set efnisvali á þessar síður, sé of þröngur, ef einhverjir kunni síðar á líta á þær, sem heimild um samtímaviðburði í stjórnmálum, því að sjálfsögðu væri auðvelt að bregða annars konar ljósi á atburði en ég hef kosið að gera. Má því segja, að sú staðreynd, að þetta er skráð í tímans rás, setji mér meiri skorður en ef ég væri að líta til baka að loknu dagsverki í stjórnmálum og hefði það til dæmis ekki að markmiði að eiga gott samstarf við fjölmarga aðila með ólíkar skoðanir og hagsmuni.

Þegar ég lít yfir atburði síðustu viku og velti þessu efni fyrir mér, er það ekki aðeins fundurinn með Davíð Oddssyni og fróðleg og skemmtileg svör hans, sem vekja mig til umhugsunar, heldur einnig frásagnir af ýmsum bókum, sem eru að koma út þessar vikurnar og lýsa atburðum, sem ég þekki af eigin raun, því að nú eru menn teknir til við að lýsa í bókum mönnum og málefnum, sem ég hef þekkt náið. Þannig birtist til dæmis í DV laugardaginn 4. nóvember kafli úr nýrri endurminningabók eftir Sigurð A. Magnússon, þar sem hann segir frá því, þegar hann hvarf frá störfum á Morgunblaðinu og lýsir í því sambandi einkasamtölum sínum við Matthías Johannessen ritstjóra undir þeim formerkjum, að vinátta þeirra hafi aldrei rofnað, þrátt fyrir allt, auk þess sem fram kemur, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi notað frændsemi sína innan SÍS til að tryggja Sigurði ritstjórastöðu á Samvinnunni, en á þessum árum var Ólafur Ragnar að brjóta sér leið inn í íslensk stjórmál um Framsóknarflokkinn.

Þeir, sem fjallað er um í endurminngarbókum, hljóta oft að finna hjá sér hvöt til að segja sína hlið á málum. Varla er það hlutverk annarra. Stundum er lagt út af þögninni með sérstökum hætti ekki síður en því, sem sagt er. Síðurnar mínar hafa nýst mér vel í því skyni að koma á framfæri mínu sjónarmiði varðandi ýmislegt, sem hefur verið efst á baugi, en þær eru alls ekki skrifaðar sem nein tæmandi heimild um viðhorf mín til alls þess, sem gerist í fjölbreyttu starfi.