15.10.2000

Vald þings og þjóðar.


Umræður um nauðsyn þess að setja alþingismönnum skorður með þjóðaratkvæðagreiðslu eru ekki nýjar á nálinni, hins vegar tóku þær nýja stefnu hér á landi vorið 1997, þegar Morgunblaðið þýddi blaðauka vikuritsins The Economist um rafrænar kosningar og að auðveldara væri en áður að kanna hug almennings með því að nýta sér upplýsingatæknina. Við sjáum þegar merki um þetta hér á landi, því að víða er tækifæri til þess á vefsíðum að segja álit sitt á mönnum og málefnum. Í samanburði við skoðanakannanir eru þessar vefsíðukannanir þó næsta lítils virði, svo að ekki sé talað um formlegar atkvæðagreiðslur, sem fara fram samkvæmt kröfum um leynd og aðgang fyrir alla á kjörskrá.

Í Danmörku eru þjóðaratkvæðagreiðslur algengastar á Norðurlöndunum og má rekja það til ákvæða í dönsku stjórnarskránni, sem komu til sögunnar, þegar efri deild danska þingsins hvarf úr sögunni og þingið breyttist í eina málstofu. Í upphafi þessa áratugar var alþingi breytt í eina málstofu en efri og neðri deild hurfu. Rökin fyrir deildarskiptingu voru upphaflega þau, að í neðri deild sátu kjörnir fulltrúar en fulltrúar konungsvaldsins í hinni efri og var litið á það sem nauðsynlegan öryggisventil, þegar konungur var að afsala sér valdi til þingsins. Skýrustu leifar þessarar skipunar er nú að finna í Bretlandi en ríkisstjórn Tonys Blairs beitti sér nýlega fyrir breytingu á lávarðadeild berska þingsins, sem dró verulega úr áhrifum aðalsins innan hennar.

Hér var alþingi fært í eina málstofu án þess að sett yrðu í stjórnarskrána ný skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðslur, en það er á valdi alþingis að ákveða, hvort málum skuli skotið til þjóðarinnar með þeim hætti, auk þess getur forseti Íslands staðið að því að mál fari í þjóðaratkvæði með því að synja lagafrumvarpi alþingis staðfestingar, frumvarpið fær lagagildi þrátt fyrir synjun forseta en frambúðargildið ræðst af niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Skiptar skoðanir eru um það meðal fræðimanna, hvort forseti geti synjað frumvarpi staðfestingar án atbeina ráðherra, það er á sitt einsdæmi. Aldrei hefur reynt á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar.

Þegar rætt er um þjóðaratkvæðagreiðslur og gildi þeirra, líta menn helst til Sviss, þar sem slíkar atkvæðagreiðslur eru tíðastar og virkur þáttur í stjórnskipun landsins, en þar er framkvæmdavald veikara en víða annars staðar og löggjafarþing landsins starfar mun skemur ár hvert en almennt tíðkast í Evrópu, auk þess er jafnan samsteypustjórn allra stærstu flokkanna við völd í landinu Svisslendingar hafa skipað sér einstakan sess í Evrópu með ströngu hlutleysi sínu, öflugum heimavörnum og miklu ríkidæmi.

Umræður um gildi þjóðaratkvæðagreiðslna hófust hér í sumar í kjölfar ræðu, sem Ólafur Ragnar Grímsson flutti, þegar hann tók við embætti forseta Íslands öðru sinni, en eins og kunnugt er bauð enginn sig fram gegn honum og var hann því sjálfkjörinn, sem er venja um þetta tignarembætti þjóðarinnar, enda meginhlutverk þess sem því gengir að stuðla að einingu um embættið.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag (15. október) er vitnað í ræðu Ólafs Ragnars og einnig er birtur kafli úr ræðu Halldórs Blöndals, forseta alþingis, sem hann flutti 2. október síðastliðinn, þegar hann hafði verið kjörinn til að stýra störfum alþingis. Þegar þessar ræður eru bornar saman, eins og gert er í Morgunblaðinu, fer ekki á milli mála, að forseti alþingis svarar forseta Íslands lið fyrir lið og tekur upp hanskann fyrir alþingi, en höfundur Reykjavíkurbréfsins segir, að forseti Íslands hafi „eins og reyndar stundum áður" farið „yfir strikið í umfjöllun sinni og hætt er við að með því hafi hann skaðað málið en ekki unnið því gagn." Vísar höfundur þar með til þeirra orða forseta Íslands, að stjórnskipan „sem veitir almenningi aðgang að ákvörðunum með kosningum á nokkurra ára fresti og bindur formlega ráðgjöf við stofnanir flokka og faglegra samtaka er í reynd aðeins rammi frá liðinni tíð." Verða þessi orð ekki túlkuð á annan veg en sem gagnrýni á þingræðið og alþingi enda sagði Halldór Blöndal í ræðu sinni: „Þingræðið er runnið Íslendingum í merg og blóð. Lýðræði án þingræðis er hugmynd í lausu lofti á meðan lýðræði, sem byggist á þingræði er bezta þjóðfélagsform, sem við þekkjum. Það er ekki gamall rammi utan um dautt málverk heldur lifandi þáttur í þjóðfélagsmyndinni, sem endurnýjar sig í sífellu.....Það er einmitt styrkur þingræðisins að stjórnmálamenn verða að leggja verk sín undir dóm kjósenda og þar með þjóðarinnar á fjögurra ára fresti og kynna stefnumál sín næsta kjörtímabil. Þá reynir á trúverðugleika þeirra og manndóm. Enginn er sjálfkjörinn. Þetta þekkjum við úr sögunni, sögu þingsins og sögu stjórnmálaflokkanna."

Síðan alþingi breyttist í eina málstofu hafa starfshættir innan þess breyst mikið og einkum er nauðsynlegt að líta til starfa nefnda þingsins í því sambandi, því að þar hefur skapast mikil þekking á þeim málaflokkum, sem undir nefndirnar heyra og er ekki vafi á því, að rækt við það starf er besta leið þingsins til að styrkja stöðu sína gagnvart framkvæmdavaldinu, ef talið er nauðsynlegt að gera það.

Nefndirnar starfa fyrir luktum dyrum, en þeir, sem vilja átta sig á áhrifum þeirra ættu til dæmis að kynna sér þær breytingar, sem verða á mörgum mikilvægum frumvörpum í meðförum þingsins. Á hinn bóginn er lagasmíð ávallt að verða fólknari og umræður hafa orðið um það hér eins og annars staðar, hvort enn þurfi að herða á aðgæslu þingsins við meðferð einstakra mála.

Er ómetanlegt, að öflugar þingnefndir leiti álits sem flestra á nýmælum í lögum til að helst öll sjónarmið fái notið sín, áður en lokaniðurstaða fæst. Sum mál eru þess eðlis, að ekki gefst langur tími til að vega og meta allt, sem fram kemur, en mestu skiptir, að ólíkar raddir heyrist, ef um þær er að ræða. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga, að það veltur ekki aðeins á sérfræðilegri kunnáttu innan þings, hvernig tekið er á málum, heldur ekki síður á þekkingu og rökum þeirra, sem eru utan þings, og fá tækifæri til að segja álit sitt við meðferð mála. Þessi þáttur í íslensku þjóðlífi er að styrkjast með öflugri samtökum á mörgum sviðum, en eins og menn vita, er hagsmunagæsla gagnvart þjóðþingum vaxandi þáttur í stjórnmálalífi allra þjóða en þar sjá menn einnig einna helst hættu á pólitískri spillingu eins og dæmi frá mörgum þjóðum sanna.

Öflugir fjölmiðlar skipta einnig máli í þessu samhengi. Hér hefur þróunin orðið á þann veg hin síðari ár, að fjölmiðlar líta á það af minnkandi áhuga og jafnvel virðingu, sem gerist á vettvangi stjórnmálamanna, til dæmis eru þingfréttir svipur hjá sjón miðað við það, sem áður var. Því sést stundum fleygt, að minni þörf sé á því að fylgjast með stjórnmálum en áður, af því að völd og áhrif hafi flust af þeim vettvangi til viðskiptalífsins. Þá gleymist oft, að það eru einmitt stjórnmálamenn, sem hafa skapað hið nýja svigrúm í viðskiptalífinu og menn þurfa ekki að vera neinir stjórnmálafræðingar til að átta sig á því, að eins er unnt að minnka það og auka. Ágreiningur á vettvangi íslenskra stjórnmála snýst að verulegu leyti einmitt um þetta, en hann er ekki eins skarpur og vel skilgreindur og áður vegna þess að dagblöðin telja sig ekki eiga að taka flokkspólitíska afstöðu. Blaðamenn hneigjast frekar að því að setja sig á háan hest gagnvart stjórnmálamönnum og draga þá í sama dilk til að skamma þá alla í senn en setja sig í þeirra spor og meta úrlausnarefni líðandi stundar frá þeim sjónarhóli.

Alan Rusbridger er ritstjóri The Guardian í Bretlandi og ekki mjög hátt skrifaður hjá andstæðingum sínum, sem telja, að undir ritstjórn hans leggi blaðið einstaklinga í einelti og sé alltof hallt undir stjórn Verkamannaflokksins. Rusbridger sat nýlega fyrir svörum í vikuritinu Newsweek um blaðamennsku. Hann bar saman bandaríska og breska blaðamenn, sagði þá fyrrnefndu líta stórt á sig og vera alltof upptekna af siðferðilegum spurningum en Bretar hugi ekki nóg að stóru málunum. Í Bandaríkjunum sé auðvelt að setja sig á háan sess, af því að þar sé lítil sem engin samkeppni milli dagblaða, en í Bretlandi keppi að minnsta kosti þrettán blöð dag hvern, og þau hafi að jafnaði tekið flokkspólitíska afstöðu, sem kalli á miklu baráttumeiri og kyngimagnaðri blaðamennsku – en í henni geti falist mikill styrkur. Það veiti breskum blöðum þrek og virðingarleysi gagnvart valdi, sem sum bandarísk blöð hafi ekki.

Þessi kenning ritstjóra The Guardian um að flokkshollusta breskra blaða eða ótvræð afstaða þeirra með einum stjórnmálaflokki á móti öðrum veiti þeim meira þrek en bandarísk blöð hafi, gengur þvert á það, sem einkennt hefur umræður um innri styrk íslenskra fjölmiðla undanfarna áratugi, því að hún hefur einkennst af því, að blöðin verði þeim mun öflugri því minna, sem þau styðja einn stjórnmálaflokk umfram annan.

Í lýðræðislegum þjóðfélögum er ekki unnt að ræða um stjórnarhætti og þróun þeirra án þess að líta einnig til fjölmiðlanna, en Rusbridger segir í fyrrgreindu viðtali, að Blair og félagar hans í ríkisstjórn Bretlands hafi umgengist fjölmiðla á neikvæðan hátt og ekki sagt neitt nema undir samræmdri stjórn spunameistara Verkamannaflokksins, ráðherrar komi fram og haldi sig við það eitt, sem varðhundar flokksins leyfi þeim að nefna. Almenningur sé á hinn bóginn hættur að treysta spunameisturum flokksins.

Þessar umræður um ýmsa meginþætti stjórnskipunar okkar eru gagnlegar og til þess fallnar að beina athygli að því, sem betur má fara. Enginn hefur bent á það í umræðum um aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi, að í Sviss hafa menn ríkisstjórn og þing en engan þjóðkjörinn forseta. Niðurstaðan skyldi ekki verða hin sama hér, ef við færum að fikra okkur inn á þessa braut? – Að fólkið mundi ákveða að leggja niður forsetaembættið, en ríkisstjórn, þing og stjórnmálaflokkar héldu áfram að starfa og leggja verk sín reglulega undir dóm kjósenda, sem hinir sjálfkjörnu þurfa ekki að gera, eins og Halldór Blöndal nefndi í ræðu sinni við þingsetninguna.