14.10.2000

Góður gestur frá DanmörkuDanski menntamálaráðherrann, Margrethe Vestager, var gestur minn hér á landi miðvikudaginn 11. október til 13. október. Hitti ég hana fimmtudaginn 12. október, en þá um morgunin rituðum við undir samning um leiðir til að efla dönskukennslu í íslenskum skólum. Gerðum við það í Kennaraháskóla Íslands en þar flutti Ólafur Proppé rektor stutt yfirlit yfir samstarf síns skóla við danska skóla og kom þægilega á óvart, hve þessi samvinna er mikil og hún á ekki eftir að minnka á þeim tíma, sem samningurinn gildir en áhrifa hans gætir víðsvegar í skólakerfinu, til dæmis hittum við danskan farandkennara í Sólvallaskóla á Selfossi, þegar við áttum þar ánægjulega viðdvöl.

Alþjóðleg samskipti á sviði menntamála aukast jafnt og þétt, ekki síst milli Norðurlandanna og einnig við aðildarríki Evrópusambandsins. Jafnframt er meira um það en áður, að kennarar fari til Bandaríkjanna í því skyni að kynna sér það, sem hæst ber þar. Var greinilega mikill áhugi á því í bandaríska menntamálaráðuneytinu, þegar ég var þar síðastliðið vor, að efla samskiptin við Ísland í menntamálum.

Þegar rætt er um íslenska skólakerfið í alþjóðlegu samhengi, gera pólitískir andstæðingar mínir það helst í því skyni að draga fram eitthverjar alþjóðlegar samanburðartölur, sem sýna, að við stöndum verr að vígi en aðrir. Hingað koma hins vegar kennarar og skólamenn frá öðrum löndum til að kynnast því, sem vel er gert og þykir öðrum til fyrirmyndar, á þetta jafnt við um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Til dæmis fræddumst við um það í heimsókninni til Selfoss á fimmtudaginn, að mikill áhugi er á því víðar en hér á landi, að kynna sér fyrirmyndarstarf í barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, en þar hefur verið farin sú leið að gera samning á milli skóla, nemanda og foreldra um markmið nemandans í námi hans. Er ótvírætt að þessi leið, sem byggist á því að taka ríkt tillit til þarfa hvers nemanda hefur dregið úr þörf fyrir sérkennslu. Byggist hugmyndafræðin meðal annars á því að knýja ekki alla til að læra það sama á sama tíma eða með sömu aðferð heldur leyfa nemendum að rækta með sér bestu hæfileika sína. Er upplýsingatæknin mikið notuð í þessu skyni. Var nefnt í þessu sambandi, að í Reykjavík væri talið að allt að 20% nemenda þyrfti aðstoð undir merkjum sérkennslu en í þeim skólum, þar sem námið byggðist á samningum minnkaði þessi hópur niður í 5%.

Þá hafði danski ráðherrann mikinn áhuga á að fræðast um samninginn, sem gerður hefur verið alþjóðafyrirtækið Bell og Howell um aðgang allra íslenskra tölvu- og neteigenda að gagnasafni fyrirtækisins og rafrænum tímaritum. Viðurkenni ég fúslega, að hið mikla umfang efnis, sem verður tiltækt samkvæmt samningnum, er meira og stærra en ég get útskýrt, en Danirnir vildu gjarnan kynna sér, hvort samningur af sama tagi og við höfum gert gæti ekki gagnast þeim.