7.10.2000

SUS og ESB

Eftir að hafa verið í Háskólanum á Akureyri hinn 6. október átti ég þess kost að hitta fundarmenn á málefnaþingi Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem hófst á Akureyri þennan sama föstudag, en Evrópumálin voru meðal helstu mála þingsins og flutti ég stutta ræðu um þau mál á fundi um kvöldið. Þar lagði ég áherslu á, að spurningin fyrir okkur Íslendinga væri ekki, hvort ESB vildi taka á móti okkur, um það væri enginn vafi, þótt óráðið væri hvenær aðildardyrmar yrðu opnaðar, heldur yrðum við að velta því fyrir okkur, hvaða hagsmunir kölluðu á aðild okkar að ESB. Um það þyrftum við ekki spyrja neina í Brussel heldur líta í eigin barm og meta. Ekki væru það öryggishagsmunir, þá tryggði varnarsamningurinn við Bandaríkin og nýleg heimsókn Madeleine Albright utanríkisráðherra hingað hefði enn sannfært mig um, að í Washington væri enginn áhugi á að raska samstarfi þjóðanna á þessu sviði. Ekki væri það þátttaka í evrópsku samstarfi um menningu, menntun, rannsóknir og vísindi, því að þar tækjum við þann þátt, sem við kysum og nytum okkur vel. Ekki væri það vegna viðskiptafrelsis og ekki gæti það verið vegna þess að EES-samningurinn yrði úreltur, ef Norðmenn yrðu aðilar að ESB, því að þeir hefðu stefnt að slíkri aðild, þegar samningurinn var gerður en þjóðin sagði nei í atkvæðagreiðslu. Ekki væri það vegna sjávarútvegsstefnu ESB, sem er andstæð okkar hagsmunum og við fáum henni ekki breytt. Jafnframt taldi ég, að nei-afstaða Dana hefði mun djúptækari áhrif á þróunina innan ESB en ráðamenn og talsmenn ESB vildu vera láta. Myndi það koma fram, þótt síðar yrði. Loks minnti ég á þá staðreynd, að enginn stjórnmáladflokkanna hefði aðild að ESB á stefnu sinni.

Það eru ekki mörg ár liðin frá því, að hart var tekist á um það á þingi SUS, hvort Ísland ætti að ganga í ESB, og sögðu menn þá, að það hefði verið fyrir harðfylgi Davíðs Oddssonar, leiðtoga flokks okkar, að meirihlutinn studdi ekki aðild. Þróunin hefur ekki orðið sú í röðum ungra sjálfstæðismanna, að stuðningur við ESB-aðild vaxi heldur hefur hann þvert á móti minnkað. Má segja, að það sé í samræmi við það, sem er að gerast innan borgaralegra flokka víða um Evrópu, en þar eru raddir efasemdarmanna um þá stefnu, sem Evrópusamruninn hefur tekið, háværari en áður.