2.10.2000

Þing kemur samanAlþingi var sett í dag, 2. október. Halldór Blöndal flutti ræðu, þegar hann hafði verið endurkjörinn forseti alþingis og svaraði embættistökuræðu forseta Íslands frá því í ágúst með góðum rökum, enda fráleitt að gera því skóna, að alþingi og störf þess endurspegli ekki höfuðþætti þjóðlífsins á hverjum tíma eða gjá hafi myndast milli stjórnmálaflokka og almennings.

Fjárlagafrumvarpið var lagt fram með meiri tekjuafgangi en áður hefur þekkst og gerist það án þess að vegið sé að þeirri þjónustu, sem krafist er af ríkinu á öllum sviðum. Stjórnarandstöðunni finnst að sjálfsögðu ekki nóg að gert í opinberum útgjöldum og leitar alltaf að leiðum til yfirboða.

Mér þykir dæmigert um málefnafátækt og yfirboðastefnu, að fylgjast með tali Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, um fjarkennslu á Grundarfirði og þá tilraun, sem þar er verið að gera að ósk sveitarfélagsins í samvinnu við menntamálaráðuneytið, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) og Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Þeir, sem hlusta á formanninn, geta ekki annað en dregið þá ályktun, að ég hafi sem menntamálaráðherra beitt Grundfirðinga einhverju ofríki og sérstaklega unglinga á staðnum með ofurálögum í fjarnámi. Staðreynd er, að um þetta mál hefur ríkt gott samkomulag milli allra aðila og engum hefur verið betur ljóst en Grundfirðingum á hvaða forsendum þetta tilraunastarf er unnið. VMA hefur gjaldskrá fyrir þá þjónustu, sem hann veitir, og komast þar færri nemendur að en vilja.

Ef viðhorf Össurar Skarphéðinssonar réðu yrði líklega aldrei um neitt frumkvæði eða neina nýsköpun að ræða hvorki í menntamálum né á öðrum sviðum, því að menn væru alltaf að bíða eftir fjárveitingum frá ríkinu og sýndu því ekkert frumkvæði sjálfir. Grundfirðingar ákváðu að taka frumkvæði og leita eftir samvinnu við menntamálaráðuneytið. Féllst ég á óskir þeirra um samstarf og um það var samið. Ef ætlun Össurar er að spilla fyrir þessu samkomulagi, hefur honum ekki tekist það enn að minnsta kosti, hvað sem síðar verður.

Daginn sem þing kemur saman birtist niðurstaða nýrrar skoðnakönnunar í DV. Hún er einkum athyglisverð vegna þess hve hún sýnir lélega stöðu Samfylkingarinnar undir forystu Össurar Skarphéðinssonar. Er ljóst, að honum hefur ekki tekist að styrkja stöðu flokksins, eftir að hann var kjörinn formaður hans. Raunar er Samfylkingin jafnvel sviplausari núna en þegar hún var formannslaus og nokkur spenna ríkti innan hennar vegna yfirvofandi formannskjörs. Það er helst þegar gefur á bát embættis forseta Íslands, sem Samfylkingarforystan tekur kipp, að öðru leyti lætur forystan sér nægja að hampa dægurmálum og reyna að tengjast þeim á einhvern hátt til að vekja á sér athygli. Að vísu lagði hún dálítið undir með jafnaðarmönnum í Danmörku, þegar þeir börðust fyrir því að danska krónan viki fyrir evrunni, enda hefði það orðið vatn á myllu talsmanna aðildar Íslands að Evrópusambandinu, ef Danir hefðu sagt já. Þeir sögðu hins vegar nei, sem er í raun með ólíkindum, þegar til þess er litið, að um 65% sögðust ætla að segja já við upphaf kosningabaráttunnar.

Við upphaf þings spyrja menn ekki, hvert ríkisstjórnin stefnir eða hvaða áherslur hún hefur. Þær eru skýrar. Athyglin beinist að vandræðagangi þess flokks, Samfylkingarinnar, sem var stofnaður til að verða stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, en nýtur ekki trausts til þess. Hvað ætlar þessi flokkur að gera til að ná markmiði sínu? Hver er stefna hans?