1.10.2000

Nýtt útlit á vefsíðunni bjorn.is 01.10.00


Vefsíðan mín breytir nú um svip og einnig tek ég upp nýja aðferð við að uppfæra hana, þar sem ég stjórna ferðinni sjálfur meira en áður og styðst ekki lengur við milliliði eins og ég hef gert í þau rúm fimm ár, sem ég hef haldið síðunni úti. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka öllum, sem hafa af mikilli alúð og vandvirkni aðstoðað mig við að uppfæra síðuna á undanförnum árum. Hefur aldrei orðið neitt rof á því á þessu árabili og efni síðunnar endurspeglar það, sem ég hef verið að sýsla, og skoðanir mínar á mönnum og málefnum.. Nú get ég sjálfur uppfært síðuna hvar og hvenær sem ég hef aðgang að netinu.

Kveikjan að síðunni eru samtöl mín við Arnþór Jónsson og félaga hans, sem stóðu að því að stofna Miðheima á árinu 1994, ef ég veit rétt, og voru meðal hinna fyrstu til að hvetja almenning til að nýta sér netið. Þeir vöktu áhuga minn á því í nóvember 1994 að tengjast netinu eða veraldarvefnum að heiman frá mér og hinn 19. janúar 1995 sendi Arnþór mér tölvubréf um að á netinu gæfist einstakt tækifæri til að eiga samskipti við fólk á einfaldan en markvissan hátt og hvatti mig til að setja upp heima- eða vefsíðu í samvinnu við þá félaga. Ég tók hugmyndinni vel og síðan hannaði Gunnar Grímsson síðuna og við Miðheimamenn gerðum samkomulag okkar á milli, sem hefur verið staðið við það alla tíð síðan, þótt Miðheimar hafi tekið breytingum og komist í hendur nýrra eigenda. Hefur útlit síðunnar tekið litlum breytingum frá því að hún birtist fyrst í febrúar 1995 þar til núna í samvinnu við tæknimenn og vefsíðusmiði Skímu, grunnurinn er hinn sami en hið nýja útlit síðunnar varð til í höndum Rebekku Samper.

Nýmæli í útliti síðunnar er meðal annars það, að nú birtast þar annars vegar fyrirsagnir á þremur síðustu pistlunum mínum og hins vegar á þremur síðustu ræðunum eða greinunum.

Samhliða því sem útlitið breytist hefur verið unnið að því að endurskipuleggja efni síðunnar á þann veg, að nú eru dagbókarfærslur ekki lengur hluti af pistlunum heldur er unnt að fara beint inn í dagbókina mína og sjá hvað á daga mína hefur drifið. Vil ég í því sambandi árétta, að frá upphafi hef ég fylgt þeirri stefnu að skýra almennt ekki frá öðru í dagbókinni en því, sem er opinbert með öðrum hætti. Ég skýri til dæmis ekki frá einkasamtölum eða fundum, þannig að dagbókin gefur ekki heildarmynd af öllum störfum mínum sem ráðherra, raunar má segja, að því sé víðsfjarri, því að hún lýsir í raun ekki nema toppnum á ísjakanum.

Ég hef hvorki hugmynd um hve efnið á síðunum er mikið að vöxtum, þótt ég hafi skrifað það allt, né hve margir hafa heimsótt síðurnar frá upphafi. Þegar ég var að fara af stað, reyndu ýmsir að gera þessa leið mína til að skrá störf mín og skoðanir tortryggilega. Þótti sumum ekki við hæfi, að ráðherra héldi úti síðu af þessu tagi. Aðrir töldu það svo sem í lagi, ef ráðherrann reyndi að haga orðum sínum með skikkanlegum hætti. Gagnrýni úr þessari átt er fyrir löngu þögnuð og æ fleiri stjórnmálamenn hafa fært sér þennan þátt upplýsingatækninnar í nyt. Ég svaraði gagnrýninni gjarnan á þann veg, að ég væri ekki að halda þessu efni að neinum, menn réðu því, hvort þeir vildu kynna sér það. Vegna óska ýmissa fastagesta minna ákvað ég fyrir nokkrum misserum að bjóða þeim að skrá sig á póstlista og fá sendar tilkynningar um nýtt efni á síðunni. Nýja kerfið á að auðvelda mér að sinna þeirri þjónustu og hef ég í huga að senda jafnan nýja pistla til þeirra, sem eru á póstlistanum, um leið og ég set þá inn á síðuna mína.

Leitarkerfi á síðum mínum hefur einnig verið aukið og endurbætt. Ef lesendur fara inn á leitarsvæðið sjá þeir, að öllu efni á síðunum hefur verið skipt niður í efnisflokka og undir þeim er unnt að slá inn leitarorð og leita annars vegar í pistlum og hins vegar í ræðum og greinum. Vissulega kann að vera hættulegt fyrir stjórnmálamann að gefa mönnum færi á því með jafnauðveldum hætti að finna það, sem hann hefur verið að segja eða skrifa. Hvað sem því líður tek ég þessa áhættu og færi þeim, sérstakar þakkir, sem hafa lagt á sig að flokka efnið. Ég vil einnig benda lesendum á að á heimasíðu menntamálaráðuneytisins er að finna vísan á allar ræður, sem ég hef flutt á alþingi. Á hinn bóginn er það svo, að ég hef ekki gætt þess að setja inn á þessar vefsíður allar greinar, sem ég hef ritað í blöð og tímarit, þannig að þær eru ekki tæmandi að þessu leyti.

Þá er það nýmæli með þessum breytingum, að ég hef sett inn nokkrar slóðir, sem ég nota gjarnan, ef ég hef tíma til að vafra um vefinn. Kennir þar ýmissa grasa.

Loks vil ég geta þess, að nú hef ég í fyrsta sinn eignast mitt eigið lén á netinu: www.bjorn.is og mælist ég til þess við þá, sem vitna til síðunnar minnar í fjölmiðlum, að þeir láti þessa getið, svo að áhugasamir netverjar geti kynnt sér það af eigin raun, sem ég er að segja.

Ég hvet þá, sem vilja gerast áskrifendur að síðunni, að skrá sig á póstlistann. Þá er að sjálfsögðu öllum frjálst að nota síðuna til að senda mér bréf um hvaðeina, sem þeim liggur á hjarta. Leitast ég við að svara öllum slíkum erindum.