19.9.2000

Sydney 2000 Dagbókarbrot frá upphafi Ólympíuleika.

Við héldum frá Íslandi með vél til London klukkan 07.45 mánudaginn 11. september og gekk ferðin þangað samkvæmt áætlun og vorum við lent klukkan 11.20. Höfðum við þá tíma til klukkan 22.10 um kvöldið, þegar haldið skyldi til Sydney. Fórum við með hraðlestinni inn til Paddington en ferðin þangað tekur ekki nema 15 mínútur og eyddum síðan deginum í gönguferð um London. Þegar við komum aftur í flugstöðina og biðum eftir vélinni hittum við Val Valsson bankastjóra og Guðrúnu konu hans, sem einnig voru á leið til Sydney og skiptumst á nokkrum orðum við þau en sögðumst mundu hittast í vélinni. Í vélinni með okkur til London var einnig Árni Þór Árnason í Austurbakka með Guðbjörgu konu sinni, en þau voru einnig á leið til Sydney. Áttum við von á því, að þessi tvenn hjón yrðu samferða okkur með BA og Qantas um Singapore til Sydney. Við sáum þau hins vegar ekki í vélinni okkar og ekki heldur í flugstöðinni í Singapore, enda kom síðar í ljós, að þau höfðu farið með öðrum vélum, sem héldu í þessa langferð um svipað leyti frá London.

Flugvélin fór í loftið um klukkan 23.00, varð að fara úr röðinni og tafðist vegna þess að flugstjórinn hafði ekki fengið heildarþyngd vélarinnar, þegar hann var kominn í flugtaksstöðu. Flugið til Singapore var tæpir 13 tímar og sváfum við mestan hluta leiðarinnar. Ég hef ekki séð glæsilegri flugstöð en í Singapore en þar dvöldumst við í tvo klukkutíma, áður en við fórum í Qantas-vél til Sydney, var hún að koma frá Frankfurt. Í báðum tilvikum var um Boeing 747-400 vélar að ræða og sátum við á efri hæð vélarinnar. Flugið til Sydney tók tæpar 7 klukkustundir og lentum við þar klukkan 06.00 að morgni miðvikudagsins 13. september en þá var klukkan um 19.00 að kvöldi þriðjudagsins 12. september á Íslandi, þannig að við höfðum verið um 36 tíma á ferðalagi en hvílst vel í flugvélunum, því að við sváfum og allt gekk samkæmt áætlun. Sigrún Baldvinsdóttir, lögfræðingur og aðalræðismaður Íslands í Sydney, tók á móti okkur á flugvellinum, en við vorum saman í Grænuborg, MR og lagadeildinni á sínum tíma, en Sigrún hefur verið búsett 26 ár í Ástralíu.

Við fórum við Sigrúnu á Menzies hótelið, þar sem við fengum strax herbergi og gátum lagt okkur og hvílst fram á daginn. Síðan fórum við í gönguferð niður að hafnarsvæðinu, þar sem hið fræga óperuhús er og skoðuðum okkur um á þeim slóðum í miklum mannfjölda. Við fengum okkur síðan kvöldverð á litlum stað, þegar við ætluðum að fá okkur rauðvínsglas með steikinni sagði þjónustustúlkan hvíslandi, að þarna væri ekki selt vín en við gætum skroppið út og keypt okkur vínflösku og komið með hana. Við gerðum það að vísu ekki en áttuðum okkur á því, að það stóð B.Y.O. við nafn veitingastaðarins, skammstöfun fyrir Bring Your Own, eða komdu með vín þitt sjálfur!

Það var mikið mannlíf á götunum og alls staðar mátti sjá merki um návist Ólympíuleikanna. Borgarlífið hefur mótast af undirbúningi leikanna í mörg ár eða síðan það var ákveðið 1993, að þeir yrðu hér. Mörgum þótti nóg um og var sagt, að af rúmlega 4 milljónum manna í borginni hefðu 500 þúsund ákveðið að verða í burtu á meðan leikarnir stæðu.

Föstudagur 15. september.

Okkur hefur gengið vel að laga okkur að tímamuninum, en nú er klukkan 10.45 að morgni föstudagsins 15. september í Sydney, en 23.45 að kvöldi fimmtudagsins 14. september í Reykjavík, við erum sem sagt að hefja okkar þriðja dag hér í Ólympíuborginni. Er ég viss um, að það hefur auðveldað okkur að aðlagast nýjum tíma, að við höfðum með okkur Melantonin, sem unnt er að kaupa hvar sem er í Bandaríkjunum en fæst aðeins út á lyfseðil á Íslandi. Sum flugfélög selja Melantonin í vélum sínum, eins og til dæmis Singapore Airlines.

Í gær fórum við í könnunaferð snemma morguns í Darling-höfn, sem er hluti af hinni risastóru Sydney-höfn, en hún hefur gengið í endurnýjun lífdaganna á undanförnum árum sem skemmti- og íbúðarhverfi. Þetta nýja hlutverk hafnarinnar hefur þróast frá árinu 1973, þegar óperuhúsið var opnað á tanga skammt frá brú, sem er ekki minna tákn borgarinnar en óperuhúsið og hefur orðið heimsfræg fyrir að fólk fer í skipulagðar gönguferðir upp á boga hennar, sagðist Ingólfur Hannesson, íþróttafréttamaður hjá RÚV, hafa gert það og þótti mikið til ferðarinnar koma en hún tekur að minnsta kosti þrjár klukkustundir og er gengið í sérstökum öryggisbúningum auk þess sem göngufólkið er fest við öryggisstreng.

Í Darling-höfn eru hótel, sjávardýrasafn og veitingastaðir auk þess sem verið er að reisa þar fjölbýishús með glæsiíbúðum, en það tekur aðeins nokkrar mínútur að ganga niður að gömlu höfninni úr miðborginni, sem iðar að lífi milli skýjakljúfa, af minni gerðinni að vísu, en sá hluti borgarinnar, þar sem þeir eru, minnir á bandarískar stórborgir, þannig að segja má að hér blandist með sérkennilegum hætti húsagerðarlist frá breska tímanum með byggingar frá tímum Viktoríu-drottningar og nútímalegir skýjakljúfar, sem hýsa fjármálastofnanir og lögfræðinga.

Saga borgarinnar er rakin til ársins 1788, þegar hermenn og fangar settust að á Klettunum (The Rocks), þar sem nú er brúin fræga og óperhúsið í næsta nágrenni. Iðandi mannlífið þarna við sjóinn minnir til dæmis á það, sem hefur gerst í annarri suðlægri hafnarborg, sem ég heimsótti fyrir tæpu ári, Höfðaborg í Suður-Afríku. Miðborg hennar hefur gengið í endurnýjun lífdaganna með því að breyta gamla hafnarsvæðinu í hótel, veitinga- og skemmtistaði. Það er einmitt þetta, sem við stefnum að með því að reisa hótel, ráðstefnumiðstöð og tónlistarhús við Reykjavíkurhöfn, þar sem Kolakraninn stóð áður. Þar verður tónlistarhúsið ekki síst til að kalla á mikinn fjölda gesta. Því fleiri endurlífguð hafnarsvæði sem ég heimsæki þeim mun meira undrandi verð ég á þeim, sem sjá þessi áform okkar í Reykjavík ekki sem gullin tækifæri til að hleypa nýju lífi í borgarlífið og allt mannlíf á Íslandi frekar en slæma fjárfestingu.

Ólympíuþorpið og aðal leikvangurinn er í um 14 km fjarlægð frá miðborginni, sem reis í kringum Klettana, en þorpið er í Homebush, þar sem áður voru öskuhaugar og mýrarfen. Má sjá hóla við þorpið og leikvanginn einskonar minjar um þetta forna hlutverk staðarins, en varanleg hús í þorpinu hafa þegar verið seld sem íbúðahverfi, að leikunum loknum. Raunar hefur þannig verið staðið að öllu skipulagi leikanna og undirbúningi, að endar hafa þegar náð saman fjárhagslega en á ýmsu hefur gengið síðan 1993, þegar Alþjóðlega Ólympíunefndin ákvað með tveggja atkvæða mun að halda leikana frekar hér en í Peking. Þegar við fórum um götur Sydney í gærmorgun rákumst við á einhverja lengstu biðröð, sem við höfum séð, en þar var fólk að bíða eftir að geta náð í fyrirfram greidda miða á leikana.

Sigrún Baldvinsdóttir sótti okkur á hótelið um klukkan 12.00 og það tók tæpan klukkutíma að aka út í Ólympíuþorpið. Hópur sjálfboðaliða sinnir akstri vegna leikanna, en alls hafa 47.000 manns boðið sig fram til sjálfboðaliðastarfanna og má sjá fólkið um allt klætt sérstökum einkennisklæðum. Þegar fyrir tveimur árum var auglýst eftir fólki til þessara starfa og hefur það hlotið þjálfun síðan. Sjálfboðaliðinn, sem ók okkur að þessu sinni var gamall maður, sem býr í 100 km fjarlægð frá Sydney og var hinn glaðasti yfir að geta tengst leikunum á þennan hátt, hann sagðist áður hafa búið í Sydney og þess vegna þekkja borgina, en sumir þessara ökumanna eru ekki vel kunnugir staðháttum og geta þeir, sem ferðast með þeim, því þurft að fara ýmsar krókaleiðir, áður en komist er á leiðarenda. Bílstjórinn sagði okkur, að konan sín hefði verið á fyrstu æfingunni fyrir hátíðardagskrá setningarathafnarinnar en fengið kvef vegna kvöldsvalans og lægi nú heima og yrði hann að fara kvölds og morgna til að hjúkra henni, hann hefði því lagt af stað klukkan fimm að heiman þennan morgun til að sinna akstrinum. Minnti þetta okkur á það, að betra væri að vera vel búinn á setningarathöfninni en við Rut höfðum, minnug hitasvækjunnar við setningu leikanna í Atlanta 1996, ekki haft rænu á að taka með okkur yfirhafnir. Sagt er að helsti galli hins nýja leikvangs, sem tekur 110 þúsund manns í sæti, sé, að þar geti oft blásið töluvert. Ferðin til Ólympíuþorpsins gekk vel, hefur meðal annars verið búið þannig um hnúta, að sérmerktar akleiðir eru fyrir þá, sem eru að aka keppendum, starfsliði og gestum vegna leikanna til að greiða fyrir umferðinni.

Það kulaði ekki mikið í sólskininu, þegar við komum í Ólympíuþorpið og hittum þar við aðalinnganginn Ellert B. Schram, forseta ÍSÍ, Stefán Konráðsson aðalfararstjóra og Líneyju Rut Halldórsdóttur aðstoðarfararstjóra. Fórum við með þeim í strætisvagni til bústaðar íslensku keppendenna, en hann er í jaðri þorpsins, þar sem sést yfir til leikvangsins. Öryggisgæsla er mikil á svæðinu og þurftum við sérstakan passa til viðbótar við okkar eigin til að komast þar inn og einnig sérstakt merki til að fara í hið risastóra mötuneyti til að fá okkur hádegismat. Leitað er í bílum og speglum rennt undir þá til að tryggja, að ekki sé verið að laumast með sprengjur.

Í íslenska bústaðnum hittum við hluta hins góða íþróttafólks, sem hefur verið að búa sig undir keppnina hér í Ástralíu síðustu tvær vikur. Lengst af hafa þau dvalist í æfingabúðum í nokkurri fjarlægð frá borginni en tínast nú til hennar hvert af öðru.

Það er alvörugefin spenna í loftinu, þegar rætt er við íþróttafólk svona skömmu fyrir leika, margra ára undirbúningur og þjálfun að baki og þess beðið með vaxandi eftirvæntingu að fá tækifærið til að sýna, hvað í sér býr. Er áreiðanlega ekki síst mikilvægt þessa síðustu daga að byggja upp sálarstyrkinn en hinn líkamlega. Þau sögðust hafa lagað sig að tímamuninum og stunduðu æfingar á þeim tíma sólarhringsins, þegar þau áttu að keppa til að búa líkamann sem best undir átökin einmitt á réttri stundu.

Eftir að hafa spjallað við leikendur og þjálfara í nokkra stund og setið fyrir hjá myndasmiðum héldum við aftur af stað heim á hótel en heimleiðin gekk vel, þótt við hefðum óttast að lenda í umferðaröngþveiti vegna þess að hundruð þúsunda manna bjuggu sig undir að fagna blysberum, sem hlupu síðasta spölinn með Ólympíueldinn um götur borgarinnar þennan dag

Eftir stutta viðdvöl á hótelinu héldum við til The Mint, sem er sögufrægt hús í hjarta Sydney en þar hafði ÍSÍ síðdegisboð fyrir keppendur, þjálfara, fréttamenn, fulltrúa styrktaraðila og þá heimamenn, sem veita liðinu aðstoð. Hefði ekki verið unnt að finna skemmtilegri stað fyrir slíka móttöku á þessum tíma, því að blysberar hlupu fram hjá honum og tengdumst við með þeim hætti rafmögnuðu andrúmsloftinu í borginni þennan dag. Það sáum við enn betur síðar um kvöldið, þegar mannfjöldi um ein milljón safnaðist víða saman til að skemmta sér og fagna leikunum.

Laugardagur 16. september.

Ólympíuleikarnir hafa verið settir með miklum glæsibrag. Síðdegisblaðið í Sydney, The Daily Telegraph, segir setningarathöfnina hafa verið stærstu stund í sögu Ástralíu, þar sem þjóðinni hafi tekist að sýna hve mikinn styrk hún hefur menningarlega og félagslega. Þetta var ekki aðeins sýning fyrir þrjá til fjóra milljarði sjónvarpsáhorfenda um heim allan heldur var þetta ekki síður sjálfsuppgjör Ástrala, þar sem þeir litu yfir eigin sögu og áréttuðu sérstaklega hlut frumbyggjanna. Er áberandi, hve blöðin fjalla mikið um hlut þeirra en uppgjör við þennan þátt í sögu þjóðarinnar er viðkvæmt mál, sem setur svip sinn á allt þjóðlífið. Þar að auki segja áströlsku blöðin, að sviðsetningin hafi verið ljósárum fullkomnari en í Barcelona 1992 en við setningarathöfnina þá er nú einkum miðað, þegar litið er til þess hugvits, tæknibúnaðar og listræns sköpunarmáttar, sem nýtt er til að gera þetta ótrúlega sjónarspil, sem best úr garði. Hvergi er lagt meira í eina athöfn en þessa, hún þarf ekki aðeins að skapa eðlilegan ramma um inngöngu keppenda á Ólympíuleikunum heldur einnig vera þannig úr garði gerð, að hennar megi bæði njóta á leikvanginum og við sjónvarpið.

Við vorum kölluð í rútur við hótelið klukkan 15.30 og þaðan var ekið, sem leið lá út á leikvanginn, var nokkur ótti í mönnum um að öngþveiti skapaðist við völlinn, þegar 110.000 gestir streymdu þangað auk um 11.000 íþróttamanna og 13.000 þátttakenda í sýningaratriðum á hátíðinni sjálfri og um 4000 tæknimanna.

Ferðin að leikvanginum gekk eins og í sögu og klukkan var um 17.00 þegar við höfðum farið í gegnum öryggisskoðun og vorum komin í móttökusalinn við stúkuna, þar sem okkur var ætlað sæti. Allt hafði verið skipulagt í þaula en áður en gengið er til sæta er gestum, sem tilheyra Ólympíufjölskyldunni, eins og það er orðað, boðið upp á veitingar, mat og drykk, svo að enginn þurfi að vera svangur, á meðan hann horfir á hina miklu sýningu, sem að þessu sinni stóð í rúmar fimm klukkustundir. Hafi maður aðgangskort sem einn af þessari fjölskyldu getur maður um öll keppnissvæði en kemst ekki inn í Ólympíuþorpið eða á aðra sérstaka staði án frekari heimilda.

Klukkan 18.00 hófst upphitun og á fyrsta klukkutímanum var til dæmis farið yfir það með áhorfendum, hvað þeir áttu að gera til að setja sem bestan svip á hátíðina fyrir þá, sem fylgjast með henni í sjónvarpi.

Í hverju sæti var lítil gul taska og í henni meðal annars vasaljós og lítið armband, sem var þannig úr garði gert, að unnt var að kveikja á rauðum ljósum á því og ef maður hristi handleginn byrjuðu ljósin að glitra eins og litlar stjörnur. Var okkur sagt, hvenær við ættum að kveikja á þessum ljósum og láta að okkur kveða með þeim hætti.

Á þeim stað, þar sem við sátum, virtist vanta marga, sem höfðu átt frátekin sæti, ef marka má þau, sem auð voru. Við settumst við hliðina á manni, sem reyndist vera ráðherra frá Austur-Tímor, en aldrei áður hafa leikmenn þaðan tekið þátt í Ólympíuleikum og gengu þeir inn undir Ólympíufánanum, af því að land þeirra á ekki eigin fána, komu næstsíðastir 200 þjóða, það er á undan ástralska liðinu, og var ákaflega vel fagnað, enda nágrannaþjóð við Ástrali, sem hafa komið þar talsvert við sögu. Þegar við sáum þessi auðu sæti leitaöi hugurinn til þeirra, sem ekki komust á setningarathöfnina, en vildu gefa háar fjárhæðir fyrir, var sagt, að dýrustu miðar hafi verið seldir á allt að 100.000 krónur á svörtum markaði fyrir utan leikvanginn.

Þegar 10 sekúndur voru til klukkan 19.00 tókum við áhorfendur þátt í að telja sekúndurnar og síðan hófst sýningin með því að knapi þeysti inn á völlinn með ástralska fánann, sló svipu með snöggum hvelli og 120 riddarar birtust fyrir aftan hann. Ég ætla ekki að lýsa því, sem síðan bar fyrir augu, en í stuttu máli snerist sagan um unga hvíta stúlku, sem fer í gegnum sögu Ástralíu með gömlum frumbyggja og er þáttum úr sögunni lýst með snilldarlegum hætti. Greinilegt er, að þeim, sem að leikunum standa, er mikið í mun að nota tækifærið til að skapa skilning og jafnvægi milli hvítra manna og frumbyggjanna, en þegar fjallað er um leikana almennt í blöðum hefst frásögnin gjarnan á því að rifja upp, hve hvíti maðurinn hefur farið illa með frumbyggjana og gengið á rétt þeirra. Fyrir aðra en Ástrala er erfitt að skilja einstaka þætti þessrar sögu en eins og hún var kynnt þarna, var hún magnað sjónarspil, sem stóð í um það bil klukkustund og hvert atriðið öðru glæsilegra rak annað.

Þá gengu 2000 lúðraþeytarar og trommuleikarar inn á leikvanginn og sýndu listir sínar í tónum og takti, því að þeir skiptust í hópa og fylkingar og nýttu mislista búninga sína til að skapa alls kyns form og myndir. Við svo búið gengu þeir í þann enda leikvangsins, þar sem sviðið var, og blésu síðan allan tímann sem íþróttamennirnir gengu inn á völlinn, var tónlistin valin með hliðsjón af því, sem tengdist einstökum löndum, og skiptust hópar innan þessarar miklu hljómsveitar á að flytja hana, virtust þeir gera það allt án þess að hafa nótur.

Fagnaðarlætin voru mismikil meðal áhorfenda eftir því hvaða þjóð var kynnt við inngöngu á völlinn. Nágrönnum Ástrala auk, Breta og Kandamanna var mest fagnað og síðan að sjálfsögðu gestgjöfunum sjálfum, en allt ætlaði um koll að keyra, þegar lið þeirra kom síðast. Guðrún Arnardóttir var fánaberi íslenska liðsins, sem gekk með reisn og skipulega inn á leikvanginn, en athygli vekur, hve sundurleitir sumir þjóðahóparnir eru, þótt allir í þeim séu klæddir eins búningum, vegna þess hve óskipulegt göngulagið er og hve margir leikmanna ryðjast að þeim stað, þar sem sjónvarpsmyndavélarnar eru til að sjást á skjánum. Sumum er fagnað mér sérstökum hætti af pólitískum ástæðum og má þar nefna auk Austur-Tímora, sem áður er getið, lið Kóreumanna, en nú gengu þeir inn saman Norður- og Suður- Kóreumenn undir fána, sem bar mynd af Kóreuskaganum.

Hápunktur athafnarinnar var þegar Ólympíueldurinn var kveiktur og var það gert með miklum glæsibrag að þessu sinni, þar sem eldurinn spratt upp úr vatni og var síðan hafin upp úr því. Síðasti blysberinn og sú sem kveikti eldinn var spretthlauparinn Cathy Freeman íþróttakona af frumbyggjaættum en alls voru um 11.000 blysberar í Ástralíu allri og er talið að allt að 15 milljónir manna af rúmlega 19 milljón íbúum landsins hafi séð einhvern þeirra á ferð umhverfis þetta risastóra land, hvarvetna var efnt til hátíða í tilefni af ferð blysberanna og þannig tókst að sameina þjóðina með einstökum hætti í kringum þennan þátt leikanna, þannig að það hefur snert strengi margra beint að sjá blysið borið að hinum risastóra kyndli, sem síðan steig upp úr vatninu og lyftist til himins með rennandi vatnið að baki. Gnæfði eldurinn síðan yfir leikvanginum og Ólympíuvsæðinu.

Að taka þátt í athöfn af þessu tagi er í raun ólýsanlegt, því að það hefur mjög sterk tilfinningaleg áhrif að sameinast 110 þúsund manns í slíkri þátttöku auk þess þóttist ég skynja mjög sterka þjóðernisstrauma, sem eru sérstaks eðlis hjá þjóð eins og þeirri áströlsku, sem á svo sundurleitan uppruna og er á sinn hátt að gera það upp við sig, að níðst hafi verið á þeim, sem bjuggu í landinu, áður en hvíti maðurinn lagði það undir sig. Við Íslendingar ættum að minnast þess, að sá, sem er gjarnan nefndur faðir Ástralíu, er Sir Joseph Banks, en hann kemur einnig við sögu Íslands við upphaf nítjándu aldar, þar sem við eigum velvild hans í Napóleonstríðunum mikið að þakka. Fáir eiga lengri leið á Ólympíuleikana en við, en eigum á hinn bóginn Sir Joseph Banks sameiginlegan með Áströlum sem sögulegan áhrifavald.

Við vorum komin heim á hótel um klukkan hálf eitt um nóttina, en heimferðin gekk vel, eftir að við komumst um borð í rútuna, sem flutti okkur í bæinn, ýmsum var vafalaust orðið kalt, því að það kular hér með kvöldinu, og voru fegnir að komast inn í hlýjuna. Við höfðum búið okkur vel meðal annars með teppi frá hótelinu, þannið að ekki sló að okkur. Margir langt að komnir voru auk þess orðnir þreyttir eftir þessa átta tíma törn. Hið sama á við um íþróttamennina, sem biðu utan leikvangs á meðan sjónarspilið mikla var og urðu síðan að standa á miðjum leikvanginu, eftir að þeir komu inn á hann og þar til yfir lauk. Sumir, sem áttu að keppa daginn eftir hvíldust heima eða flýttu sér aftur út af leikvanginum eftir gönguna.

Mannmergðin var mikil í miðbænum og allir í hátíðarskapi, höfðu hundruð þúsunda safnast saman eins og kvöldið áður en nú til að taka þátt í setningarathöfninni, en víða um borgina eru risastórir sjónvarpsskermar og skemmtikraftar láta þar einnig að sér kveða. Hvort heldur komið er inn á veitingastað eða í verslun, alls staðar eru sjónavörp eða stórir skermar til að unnt sé að fylgjast með því, sem gerist á leikunum.

Við fórum af stað rúmlega hálf tíu í morgun og sáum þau Eydísi Konráðsdóttur keppa í 100 m flugsundi og Hjalta Guðmundsson keppa í 100 m bringusundi. Var gaman að verða vitni að þessum stórviðburði í lífi þessa glæsilega íþróttafólks okkar. Við hittum þau síðan að lokinni keppninni og voru þau bæði sæl og glöð með að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í keppni meðal allra bestu sundmanna í veröldinni við bestu hugsanlegar aðstæður. Eydísi höfðum við hitt áður á leikunum í Atlanta, hún hefur því áður kynnst því að keppa við þessar aðstæður, en Hjalti var að takast á við þessa miklu raun í fyrsta sinn og taldi sig hafa öðlast dýrmæta reynslu, sem ætti eftir að duga sér vel næst, ekkert stæðist samanburð við að þreyta þessa keppni.

Eftir að hafa fylgst með sundkeppninni í nokkurn tíma héldum við á Bondi-ströndina við Kyrrahafið, sem er skammt frá miðborg Sydney, en þar var verið að keppa í strandblaki og voru um 15 þúsund manns þar að horfa á stúlkur frá Kúbu og Brasilíu keppa. Þetta er frægasta strönd borgarinnar og hefur þar verið reistur keppnisvöllur til bráðabirgða.

Við ókum síðan að hafnarmynninu, The Gap, og sáum af höfða þar inn í hina risastóru höfn, sem er einstök frá náttúrunnar hendi.

Um kvöldið fórum við síðan í óperuna og sáum Tosca eftir Puccini. Var sýningin falleg og tónlistin vel flutt en óperuhúsið er fallegra að utan en að innan, enda hefur lengi verið rætt um að breyta innréttingum þar. Hefur hinn danski arkitekt hússins Jörn Utzon nýlega verið ráðinn til að gera tillögur að breytingum og þróun hússins en á sínum tíma hvarf hann frá byggingunni, áður en henni var fulllokið, nú tæpum 30 árum síðar leggur hann ef til vill síðustu hönd sína á verkið, en á hverju ári heimsækja 4,4 milljónir manna óperhúsið og njóta alls þess, sem þar er að finna.

Sunnudagur 17. september.

Sundkeppnin hófst klukkan 10.00 og þá keppti Kólbrún Ýr Kristjánsdóttir í 100 m baksundi, Íris Edda Heimisdóttir í 100 metra bringusundi og Örn Arnarson í 200 metra skriðsundi.

Fylgdumst með þeim öllum keppa og veifuðum íslenska fánanum til að fagna þeim og hvetja. Erni vegnaði best og komst í undanúrslit, keppti hann því aftur um kvöldið og varð þá fimmtándi af sextán en tíundi þegar litið er á tímann í keppninni í heild og setti nýtt Íslandsmet. Var hann að vonum ánægður, þegar við hittum hann um kvöldið að lokinni keppni, en þarna fauk heimsmetið í undanúrslitunum, þar sem Hollendingurinn Pieter van den Hoogenband sigraði á 1:45.35 sek. en ástralski töfrasundmaðurinn Ian Thorpe náði 1:45.37, en þakið ætlar að fjúka af sundhöllinni þegar hinn 17 ára gamli Thorpe birtist þar og strax á fyrsta degi vann hann tvö gull og blés miklum metnaði í brjóst hinna sigurvissu gestgjafa, bíða þeir allir með öndina í hálsinum eftir því, sem gerist í úrslitakeppninni á mánudagskvöldið. Vonirnar, sem eru bundnar við þennan unga sundkappa eru svo miklar, að það eitt kynni að sliga hann. Hvert sæti í hinni risastóru 17.000 áhorfenda sundhöll er setið allan daginn og mun færri komast að en vilja.

Keppnin gengur mjög vel og skipulega fyrir sig og aldrei neinar tafir af tæknilegum ástæðum. Reglan er sú, að þjófstarti keppandi er hann úr leik. Þetta er nýleg regla, sem hefur aukið hraðann við framkvæmd sundkeppni mikið og gert keppnina skemmtilegri en ella væri, því að nú verður hver keppandi að gæta sín í upphafsstöðunni, ég sá aðeins einn keppanda, unga stúlku frá Bangladesh falla úr keppni af þessum sökum og var hálf dapurlegt að sjá hana standa skömmu síðar eina og yfirgefna fyrir utan keppnistaðinn, þar sem hún virtist vera að bíða eftir ferð í Ólympíuþorpið. Að lokum er það íþróttamaðurinn einn, sem verður að gera upp árangur sinn við sjálfan sig, sé hann sáttur við það, sem gerðist í keppninni, er sama hvað aðrir segja, sé hann ósáttur, er auðvelt fyrir aðra að ýfa sárin. Það skein úr andliti þessarar ungu stúlku, hvað hún var ósátt við að fá ekki tækifæri til að sýna getu sína.

Um hádegið buðum við Rut með aðstoð heimamanna til grillveislu í Children Museum, Barnasafni, í bænum Holroyd, sem er hluti af Sydney í um 20 mínútna fjarlægð frá Ólympíusvæðinu. Þangað buðum við öllum, sem sóttu leikana að heiman, en auk þess sendi ég bréf til allra af íslenskum ættum, sem Sigrún Baldvinsdóttir hafði á skrá ásamt með Konráði Pálmasyni, formanni Íslendingafélagsins. Vissi enginn hve margir myndu sækja hófið, en í gestabók, sem var látin ganga, skrifuðu 147 manns nafnið sitt og komu þó ekki allir íþróttamennirnir, því að sumir voru að æfa og aðrir að hvíla sig fyrir keppni. Var það samdóma álit heimamanna, að aldrei hefði verið haldið jafnfjölmennt Íslendingamót í Ástralíu, að minnsta kosti ekki undir þessum formerkjum, því að Sigrún Baldvinsdóttir skýrði frá því, að aldrei fyrr hefði íslenskur ráðherra komið til landsins. Vorum við þarna saman í um það bil þrjár klukkustundir og held ég, að allir hafi skemmt sér hið besta. Sumir höfðu ekið fjögur til fimm hundruð kílómetra til að njóta stundarinnar með okkur.

Bæjarstjórninni þótti svo mikið til þess koma, að við Íslendingarnir skyldum hittast þarna, að Ken Morrisey, aðstoðarbæjarstjóri Holroyd, kom og ávarpaði okkur og færði íþróttamönnunum minngargjöf um komu þeirra, auk þess bar þarna að Laurie Ferguson, þingmann kjördæmisins á sambandsþingi Ástralíu í Canberra. Hann er einlægur áhugamaður um Ísland og hefur verið í fjöldamörg ár, án þess að hafa sótt landið heim. Vissi hann margt um íslensk stjórnmál, kvikmyndir og bókmenntir auk þess sem hann hafði áhuga á að vita, hvor Færeyingar myndu lýsa yfir sjálfstæði sínu. Var hann betur að sér um málefni Íslands og okkar, sem búum í Norður-Atlantshafinu, en margir stjórnmálamenn, sem maður hittir í Evrópu eða Bandaríkjunum, hef ég raunar aldrei á ferðum mínum erlendis hitt stjórnmálamann, sem hefur lagt fyrir mig spurningar byggðar á jafnmikilli þekkingu og skilningi á íslenskum málefnum. Er það þó landfræðileg staðreynd, sem ég var upplýstur um í grillveislunni, að ekki sé unnt að komast fjær Íslandi en einmitt til Sidney og var fullyrðingin byggð á vísindalegum rökum, sem ég dreg ekki í efa. Í Ástralíu eru einmenningskjördæmi og var það sannarlega skemmtileg tilviljun, að við skyldum efna til þessa einstæða Íslendingamóts í kjördæmi Laurie Fergusons, sem sagðist einu sinni hafa hitt Íslendinga á fundi Alþjóðaþingmannasambandsins í Afríku og datt mér helst í hug, að það hefðu verið þau Ólafur heitinn Þórðarson og Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Um kvöldið ók okkur sjálfboðaliði sem sagðist fæddur á Trinidad en vissi einnig mikið um Ísland og spurði að mörgu af töluverði þekkingu og á veitingastað hittum við unga þjónustustúlku, sem sagðist hafa hitt Íslendinga á ferð sinni um Evrópu og kunni að segja Takk fyrir á íslensku. Loks fórum við stutta ferð í dýragarðinn og þar tók á móti okkur yfirmaður fræðsludeildarinnar, sem hafði farið í ferðalag til Íslands til að kynnast náttúru landsins. Víða hittum við því fólk, sem kannaðist við landið okkar.

Mánudagur 18. september.

Klukkan rúmlega 10.00 sá ég Láru Hrund Bjargardóttur synda 200 metra skriðsund og verða fyrst í sínum riðli en ekki verða eina af 16, sem komust í næsta riðil.

Eftir að hafa fylgst með sundkeppninni fram að hádegi fórum við Sigrún Baldvinsdóttir í alþjóðlegu útvarpsmiðstöðina, sem er risavaxin eins og allt annað á þessum leikum. Hún er í vörugeymslu, sem er á stærð við 10 fótboltavelli og var okkur sagt, að 10.000 manns kæmu þar við sögu með einum eða öðrum hætti. Ingólfur Hannesson, íþróttamaður RÚV, sem þarna var sem starfsmaður EBU, samstarfsstofnunar evrópskra útvarpsstöðva, fylgdi okkur um þessa undraveröld, þar sem allur besti tæknibúnaður í heimi er notaður til að miðla efni frá leikunum. Fórum við inn í stöðvar svissneska útvarpsins, TV 2 í Danmörku og Noregi og BBC-Sport auk þess sem við heimsóttum bækistöð RÚV, þar sem fimm menn miðla efni sem tíu, hundrað eða jafnvel þúsund sinnum fleiri gera undir merkjum annarra stöðva, en bandaríska NBC-stöðin er með mestu umsvifin og greiðir meira en helming -þess, sem það kostar að senda efni frá leikunum, en alls voru greiddar 1300 milljónir USD fyrir réttinn, sem er þó aðeins brot af kostnaðinum við að miðla sjónarps- og útvarpsefni um heim allan Var mér sagt, að þessi fjárhæð hefði tvöfaldast síðan í Barcelona 1992. Stjórnandi svissnesku miðstöðvarinnar sagði, að frá Sviss hefðu verið 15 tonn af tækjum og minnti á, að þau væru ekki sett upp eins og um einhverjar bráðabirgðaráðstafanir væri að ræða heldur með það fyrir augum, að geta sinnt hlutverki sínu miðað við ströngustu kröfur.

Síðdegis leitaði ég að póstmiðstöð í þeim tilgangi að finna umslög eða fyrsta dags merki, fóum við í frímerkjamiðstöð en heldur var þar fátæklegt um að litast og ekki var vakin athygli á séstökum stimplum eða öðru slíku á Ólympíusvæðinu. Þeim mun meira var um að menn skiptust á barmmerkjum eða pinnum, hafði ég fengið fullan poka af pinnum frá ÍSÍ fyrir komu mína og tæmdist hann svo að segja á þessum fáu dögum svo mikil varð eftirspurnin. Fyrstu dagana gaf ég gjarnan bílstjórum okkar pinna en þegar á leið og fólk fór almennt að átta sig á söfnunargildi þeirra var gjarnan spurt, hvort við gætum látið þá af hendi, þó ekki af sjálfboðaliðunum, þeir máttu það ekki, heldur spurðu þjónar og jafnvel lögreglumenn við öryggisgæslu, hvort við gætum séð af einum pinna. Úti á götu komu menn og buðu pinnaskipti og á ýmsum stöðum við höfnina var lífleg skiptiverslun. Ef maður bauð þjóni á veitingastað pinna, þegar auðséð var á honum, að hann safnaði þeim og festi framan á sig, var gjarnan spurt, hvort við ættum einn aukalega handa vini eða starfsfélaga. Er ég viss um að þessi pinnasöfnun á eftir að aukast jafnt og þétt, þar til leikunum lýkur.

Um kvöldið fór fram úrslitakeppni í 200 metra skriðsundinu og sigraði Hollendingurinn Hoogenband í einvíginu við Ian Thorpe, sem hlaut silfur. Thorpe sagðist vera með kvef eftir keppnina um helgina og tók úrslitum eins og sönnum íþróttamanni sæmir, spurning er hvort hann hefur ekki einnig verið sligaður af væntingunum, allir fjölmiðlar eru undirlagðir af myndum og frásögnum af þessari ungu þjóðhetju.

Þriðjudagur 19. september

Heimferðardagurinn hófst með því að við fórum með Sigrúnu í dýragarðinn í Sydney og sáum kengúrur, pokdaýr og koalabirni undir frábærri leiðsögn fræðslustjórans, sem sagðist hafa óskað sérstaklega eftir að fylgja okkur til að láta í ljós þakklæti sitt fyrir að hafa heimsótt Ísland á síðasta ári í því skyni að kynnast af eigin raun landi, sem væri alltaf að stækka.

Eftir hraðferð um dýragarðinn fórum við í listasafn og skoðuðum, einnig undir frábærri leiðsögn, yfirlitsýningu nútímaverka og sérstaka sýningu á málverkum frumbyggja, sem opnaði nýja vídd gagnvart þessu frumstæða fólki, loks litum við inn á farandsýningu frá Ísrael, þar sem sjá mátti Dauðahafshandritin og sagði leiðsögumaður okkar, að fáar sýningar hefðu verið vinsælli í safninu.

Síðustu klukkutímana notuðum við til að skoða sýningu á fornmunum frá Grikklandi, sem gríska menningarmálaráðuneytið hafði sent sérstaklega og sýna ýmislegt tengt Ólympíuleikunum og upphafi þeirra, er raunar ótrúlegt, að þessir munir skuli hafa verið sendir úr landi. Grikkir gerðu það meðal annars til að minna á, að næstu leikar verða í Aþenu.

Verður spennandi að sjá, hvernig Grikkjum tekst að glíma við hið risavaxna verkefni að skipuleggja Ólympíuleikana. Ég hef tekið þátt í margvíslegum alþjóðamótum og ráðstefnum en ekkert jafnast á við Ólympíuleikana, sama hvernig á hlutina er litið. Allt er hér stærra og meira en í tengslum við nokkuð annað, sem maðurinn tekur sér fyrir hendur og kallar á þátttöku margra þjóða. Í Sydney var skipulagið fullkomið, þegar ég lít yfir þessa fáu daga og það, sem að mér snýr. Aldrei brást neitt af því, sem átti að gerast, og aldrei sköpuðust nein vandræði vegna skipulagsleysis, fer ég héðan með aðra tilfinningu að þessu leyti en frá Atlanta fyrir fjórum árum, þar sem ýmislegt fór úrskeiðis. Það verður þess vegna ekki auðvelt fyrir Grikki að gera betur en hér verið gert.

Ég sit nú klukkan 17.10 þriðjudaginn 19. september á flugvellinum í Sydney og bíð eftir að fara um borð í Qantas-vélina, sem flýgur okkur klukkan 17.55 um Bangkok til London á tæpum 23 klukkutímum. Þegar við leggjum af stað er 06.55 að morgni þriðjudagsins á Íslandi og eigum við að verða komin heim fyrir klukkan 16.00 miðvikudaginn 20. september.

Miðvikudagur 20. september

Qantas-vélin lenti í London klukkan 06.45 að breskum tíma eða 16.45 að Sydney-tíma, þannig að við höfðum setið tæpa 23 tíma í henni með klukkustundarviðdvöl í Bangkok, þegar við stigum út úr henni. Það kom mér á óvart, hve hún flaug langt norður yfir Afganistan og inn í Rússland en við komum inn á Eystrasaltið rétt fyrir sunnan Riga í Lettlandi og flugum milli Kaupmannahafnar og Hamborgar til London. Það er sérkennileg tilfinning að hafa farið þessa löngu leið í einum áfanga.

Bresku blöðin, sem ég las á meðan við biðum eftir fluginu heim, voru öll með forsíðufréttir af vandræðum Blair-stjórnarinnar vegna þess að Brown fjármálaráðherra hefði ekki sagt satt og rétt frá vitneskju sinni um fjárstuðning við Verkamannaflokkinn fyrir síðustu kosningar, auk þess sem Íhaldsflokkurinn hefði nú betur í skoðanakönnunum í fyrsta sinn síðan 1992.

Þá sögðu blöðinn einnig frá því með mjög áberandi hætti, að Erik óreyndur sundmaður frá Miðbaugs-Gíneu hefði synt einn í fyrstu umferð 100 metra skriðsunds í Sydney, af því að keppendur hans tveir hefðu þjófstartað, og hefði hann lokið sundinu á einni mínútu lengri tíma en lágmarkið fyrir leikana hefði verið og þegar hann fór síðasta spölinn hefðu menn verið að velta fyrir sér, hvort það þyrfti að kasta til hans bjarghring. 17.000 manna áhorfendaskarinn hefði hins vegar hvatt með miklum látum og sagði sundkappinn að það hefði gefið sér kraft til að ljúka sundinu! Í leiðara einhvers blaðanna var sagt, að þátttaka Eriks væri besta dæmið um almennt gildi Ólympíuleikana, þeir væru ekki fyrir fáa útvalda heldur alla.

Í Morgunblaðinu, í Flugleiðavélinni, var hins vegar sagt frá því, að Örn Arnarson hefði náð glæsilegum árangri 200 metra í baksundinu, sett Norðurlandamet, orðið sjötti í sínum riðli og komist í undanúrslit. Við misstum því miður af þessu afreki Arnar og annarra úr Ólympíuliði okkar sem áhorfendur á staðnum en fylgjumst með þeim úr fjarlægð og óskum þeim alls góðs.

Vegna anna á Heathrow-flugvelli varð rúmlega klukkutíma seinkun á því, að Flugleiðavélin kæmist af stað, hóf hún sig til flugs rúmlega 14.00 á breskum tíma í stað 13.00 en það var bót í máli, að flugtíminn heim var sagður aðeins 2:10, svo að töfin átti að vinnast upp að verulegu leyti. Þjónustan um borð var eins og best verður á kosið og lýk ég þessum dagbókarbrotum hér í háloftunum, þegar vélin er tekin að lækka flugið til Keflavíkur.