10.9.2000

Uppnám R-listans - rússnesk sjónarmið - menntaumræður

Þriðjudaginn 5. september gaf ég út úrskurð vegna kæru Landssímans, sem taldi á sér brotið, þar sem fyrirtæki Reykjavíkurborgar, Lína.Net, hefði samið við grunnskóla Reykjavíkur um ljósleiðaraþjónustu án útboðs. Hafði gengið á ýmsu í aðdraganda málsins og var það orðið að pólitísku hitamáli, áður en ég fékk það í hendur sem settur fjármálaráðherra, þar sem Geir H. Haarde sagði sig frá því að úrskurða í málinu af persónulegum ástæðum, en Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona hans er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Höfðu sjálfstæðismenn undir forystu hennar gagnrýnt R-listann, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra og Alfreð Þorsteinsson, en hann er borgarfulltrúi, stjórnarformaður Innkaupastofnunar Reykjavíkur og Línu. Nets, fyrir framgöngu þeirra í málinu. Svöruðu borgarstjóri og Alfreð þeirri gagnrýni af mikilli hörku og töldu, að um samsæri væri að ræða milli sjálfstæðismanna í borgarstjórn og Landssímans, auk þess sem R-listinn taldi fjármálaráðherra ekki geta farið með málið, af því að um hagsmuni ríkisfyrirtækis væri að ræða.

Niðurstaða mín var í stuttu máli á þann veg, að Reykjavíkurborg hefði framið lögbrot með því að bjóða þessa þjónustu ekki út á evrópska efnahagssvæðinu er niðurstaða rökstudd í úrskurðinum, sem má skoða á vefsíðu menntamálaráðuneytisins www.mrn.stjr.is auk þess sem þar er einnig niðurstaða sérstakrar ráðgjafanefndar um útboðsmálefni, en hún taldi einnig, að Reykjavíkurborg hefði brotið lög.

Í úrskurðinum er einnig hafnað kröfu Reykjavíkurborgar um að ég lýsi mig vanhæfan til að fjalla um málið, byggist sú afstaða mín í fyrsta lagi á því, að það hvílir beinlínis sú lagaskylda á fjármálaráðherra að taka á slíkum kærum auk þess sem vanhæfislegur almennt mæla ekki fyrir um að ég segi mig frá þessu máli vegna hagsmunaáreksturs.

Raunar er sérstakt athugunarefni fyrir áhugamenn á þessu sviði, hvernig lögfræðingar Reykjavíkurborgar geta annars vegar sest niður og samið bréf eða yfirlýsingar um vanhæfi fjármálaráðherra til að fjalla um þetta mál og hins vegar gefið Alfreð Þorsteinssyni vottorð um að hann sé ekki vanhæfur til að fjalla um málið, þótt hann geri það með þrjá ólíka hatta, það er sem seljandi í Línu.Neti, kaupandi í Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar og sérlegur ábyrgðarmaður í borgarstjórn.

Hafi þau Ingibjörg Sólrún og Alfreð verið æst, áður en úrskurður var felldur í málinu, rann á þau enn meiri reiði, eftir að hann var felldur, hefðu þau þó mátt vita, að hann gæti ekki farið nema á einn veg, en kannski einmitt þess vegna hafa þau kosið að þyrla upp öllu þessu moldviðri í kringum málið, það er til þess að fela sjálfan kjarna þess, að þau brutu lög með framgöngu sinni.

Ingibjörg Sólrún sat á alþingi þegar aðildin að evrópska efnahagssvæðinu var til umræðu og lagði henni lið sitt, einnig kynntist hún efni þeirra laga, sem fylgdu aðildinni, henni er því fullljóst, hvaða skyldur opinberir aðilar tóku á sínar herðar vegna aðildarinnar, meðal annars til að bjóða út á öllu svæðinu að fullnægðum ákveðnum skilyrðum og þau eru fyrir hendi í þessu tilviki. Hver sem leggur hlutlægt mat á framgöngu Línu.Nets og Reykjavíkurborgar hlýtur að komast að sömu niðurstöðu og segir í úrskurðinum um lögbrot borgarinnar undir pólitískri forystu þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Alfreðs.

Borgarstjóri fullyrðir, að ekki hafi verið unnt að komast að niðurstöðu í málinu, af því að mér hafi ekki verið afhent umbeðin gögn eða samningurinn hafi ekki verið kærður. Á þessu er að sjálfsögðu tekið í úrskurðinum og sagt, að neitun Reykjavíkurborgar um að afhenda gögn verði að meta henni í óhag samkvæmt almennum reglum. Aðili, sem situr undir kæru, getur ekki skotið sér undan henni með því einu að neita að afhenda dómara eða úrskurðaraðila umbeðin gögn. Þetta ætti öllum að vera augljóst. Lögum samkvæmt er Reykjavíkurborg óheimilt að skipta upp samningi eða breyta honum í því skyni að koma sér undan þeim skyldum að bjóða ákveðin innkaup út á evrópska svæðinu, það er einmitt sú leið, sem Reykjavíkurborg valdi, þegar hún var komin í blindgötu. Á þessu er tekið í úrskurðinum í samræmi við meginreglu laga og tilskipun Evrópusambandsins.

Borgarstjóri líkir úrskurðinum við blaða- eða vefsíðugrein eftir mig og gefur til kynna, að hún ætli þess vegna að hafa hann að engu. Henni er vissulega meira en frjálst að hundsa greinar mínar en hún getur ekki flutt fordóma sína í garð þeirra yfir á þennan úrskurð.

Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að bæta réttarstöðu borgaranna gagnvart opinberum yfirvöldum með setningu nýrra laga á mörgum sviðum má þar nefna stjórnsýslulög, upplýsingalög og samkeppnislög auk þess sem embætti umboðsmanns alþingis hefur verið að eflast og umboðsmaður barna er kominn til sögunnar. Allt miðar þetta að því, að borgarinn geti leitað réttar síns, telji hann á sér brotið. Stjórnvöldum ber lögum samkvæmt að bregðast við kærum með ákveðnum hætti og þeir, sem kæra eiga rétt á að fá niðurstöðu í máli sínu. Stóryrði borgarstjóra vegna úrskurðarins um Línu.Net eru í hróplegu ósamræmi við þessa þróun, það er að unnt sé að leita álits æðra stjórnvalds eða hlutlauss aðila á því, sem lægra sett hefur gert. Borgarstjóri vegur að þessari skipan með aðdróttunum sínum um að ekki sé gætt hlutlægs mats við meðferð slíkra kærumála heldur ráði pólitísk viðhorf. Væri málum þannig háttað myndi almenningur fljótt missa trúna á slíkar kæruleiðir, vonandi segir þessi afstaða borgarstjóra okkur ekki, hvernig hún vill að tekið sé á kærum og álitaefnum innan borgarkerfsins, að þar séu pólitísk sjónarmið látin ráða ferðinni.

Alfreð Þorsteinsson gekk raunar skrefi lengra en borgarstjóri í reiði sinni í garð þeirra, sem geta fjallað um stjórnarhætti R-listans, og gerði harða hríð að hæstarétti og lýsti yfir efasemdum um óhlutdrægni hans vegna þess að sjálfstæðismenn hefðu átt dómsmálaráðherra síðan 1991 og skipað hæstaréttardómara frá þeim tíma. Þetta er að sjálfsögðu ekki árás á ráðherra hjá Alfreð heldur á þá, sem sitja í hæstarétti, því að hann lætur í veðri vaka að dómararnir gangi erinda ráðherrans, sem skipaði þá. Þannig er ekki aðeins grafið undan kæruleiðum á vettvangi stjórnsýslunnar í offorsi R-listans þessa dagana heldur einnig vegið að dómurum hæstaréttar og gefið til kynna, að þeir dæmi á flokkspólitískum forsendum þess, sem skipaði þá.

Tveir ráðherrar Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson og Halldór Ásgrímsson, andmæltu þessu vantrausti Alfreðs á hæstarétt og Halldór tók sérstaklega upp hanskann fyrir Árna Kolbeinsson, nýskipaðan hæstaréttardómara.Stjórnarandstæðingarnir Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson tóku hins vegar undir með Alfreð, en í orðum þeirra fólst einnig von um, að Alfreð kynni að leiða þá til áhrifa í landsstjórninni. Hefur verið á það bent, að nú sé sérkennilega komið fyrir vinstrimönnum, að forstjóri Sölunefndar varnarliðseigna, Alfreð Þorsteinsson, skuli leiða þá í eina sæng saman og vera helsti talsmaður vinstristjórnar. Sölunefndin hefur það hlutverk að selja gamalt góss frá varnarliðinu og maður með reynslu á því sviði ætti einnig að geta tekið að sér að selja háttvirtum kjósendum úreltar vinstrisinnaðar stjórnmálakenningar. Sölunefndinni tekst það kannski, sem Samfylkingunni mistókst, að sameina alla vintsri menn undir einum hatti, jafnvel þótt Alfreð gangi með þrjá, þegar hann fjallar um málefni Línu.Nets.

Skömmu eftir að úrskurðurinn hafði verið birtur ritaði borgarstjóri Geir H. Haarde fjármálaráðherra bréf, þar sem þess er krafist, að upplýst sé um viðskipti ríkisins við Landssímann. Fjármálaráðherra komst þannig að orði, að þessu bréfi mætti helst líkja við það, að dæmdur maður veldi þann kost sér til málsbóta að væna dómarann um fjársvik.

Þegar R-listinn skoðaði stöðu sína eftir að Landssíminn hafði kært samningsgerðina við Línu.Net mat hann hana á þann veg, að gera ætti tafarlaust skammtímasamning og var það gert. Með þeim gjörningi voru hendur fjármálaráðherra bundnar, því að hann getur ekki rift fyrirliggjandi samningi, þótt hann brjóti í bága við lög. Var það einnig niðurstaðan í úrskurðinum, að ekki væri unnt að verða við tilmælum Landssímans um að hindra viðskipti Reykjavíkurborgar við Línu.Net um skólanetið.

Hvar sem niður er borið, sést, að það var einlægur ásetningur Reykjavíkurborgar að gera þennan samning við Línu.Net og nota til þess allar tiltækar leiðir að hann kæmist til framkvæmda, þrátt fyrir kæru og væntanlegan úrskurð. Ásetningurinn snerist ekki aðeins um þetta heldur einnig hitt að gera hlut þeirra sem verstan, sem hefðu aðra sýn á málið.

Sú akvörðun að gera skammtímasamning til að binda hendur fjármálaráðherra, hvað sem hann segði um lögmætið, minnir á atburði sem gerðust í mars 1997, þegar kaup á túrbínum í Nesjavallavirkjun voru á döfinni. Einn tilboðsgjafa, Sumitomo, kærði málsmeðferðina til fjármálaráðherra og var kærunefnd útboðsmála fengið málið til meðferðar. Klukkan 18.00 annan páskadag hittir Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu og segir henni, að hann hafi lögsögu í þessu máli en borgarstjóri hafnar því. Segir fjármálaráðherra borgarstjóra, að daginn eftir, 1. apríl, muni ákvörðun fjármálaráðuneytis um lögsögu sína liggja fyrir og mælist til að útboðsframkvæmdir séu stöðvaðar um ótiltekinn tíma.. Borgarstjóri kallar borgarráð saman klukkan 22.00 sama kvöldið og hún ræddi við fjármálaráðherra og sat ráðið þrjá tíma á fundi, var þar ákveðið að hafa tilmæli fjármálaráðherra um frestun að engu og gengið frá samningi við Mitsubishi, keppinaut Sumitomo. Tilkynnti borgarstjóri fjármálaráðherra þetta með bréfi 1. apríl. Kærunefnd útboðsmála fjallaði um álitaefnið og lýsti því yfir í niðurstöðum sínum að grunnreglur útboðslaga og meginreglur EES-samningsins um jafnræði bjóðenda og „gegnsæi“ í opinberum innkaupum hefðu verið brotnar við meðferð útboðsmálsins, frá opnun tilboða. Telji nefndin meðferð borgarinnar á tilboðum mjög ámælisverða og hafi borgin bakað sér bótaskyldu gagnvart kæranda. Í álitsgerðinni var hins vegar hafnað þeim kröfum kærandans að stöðva útboðsframkvæmdir þar sem þegar hefði verið gengið til samninga við Mitsubishi og nefndin taldi ennfremur ekki í verkahring sínum né fjármálaráðuneytisins að úrskurða að tilboð Sumitomo eða eitthvert annað tilboð hefði verið lægst og eða hagkvæmast þeirra sem fram komu í útboðinu.

Víst er, að þeir, sem standa með þessum hætti að afgreiðslu opinberra mála eru ekki í neinni stöðu til að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn og saka hann um að misfara með pólitískt vald sitt.

Í vikunni var efnt til ráðstefnu í Borgarleikhúsinu á vegum Atlantshafsherstjórnar Atlantshafsbandalagsins og sóttu hana stjórnmálamenn, herforingjar og sérfræðingar frá mörgum löndum. Af fréttum að dæma var margt forvitnilegt þarna til umræðu, en því miður hafði ég ekki tíma til að sækja ráðstefnuna vegna skyldustarfa. Mér gafst hins vegar tækifæri til að ræða við Alexei G. Arbatov, sem er þingmaður fyrir Yabloko-flokkinn, varaformaður varnarmálanefndar þingsins og prófessor í sögu með sérstakri áherslu á stjórnmál og hermál. Er langt síðan mér hefur gefist tækifæri til að fjalla um þau mál, sem við ræddum og snerta öryggi, varnir og utanríkismál í Evrópu og á Norður-Atlantshafsvsæðinu. Ég sagði honum, að yfirlýsingar samlanda hans á ráðstefnunni um að ratsjárstöðvar á Íslandi yrðu fyrstu skotmörk, ef Bandaríkjamenn settu upp gagneldflaugakerfi í geimnum, minntu mig á stóryrði á tímum kalda stríðsins, þegar Sovétmenn hótuðu okkur með kjarnorkuárás fyrir að vera í varnarsamstarfi við Bandaríkin. Hann sagðist ekki taka undir með samlanda sínum.

Georg Arbatov, faðir Alexei, hefur tvisvar komið til Íslands en hann var sérfræðingur við Bandarísku/kanadísku rannsóknastofnunina í Moskvu og lét oft að sér kveða sem málsvari stefnu Sovétstjórnarinnar á tímum kalda stríðsins, þótti hann hafa sérkennilega stöðu, því að hann hafði töluvert meira svigrúm en aðrir til að segja skoðun sína en hann brást aldrei málstað Kremlverja. Hingað kom hann á fund Reagans/Gorbatsjovs1986 og aftur fyrir tveimur árum, ef ég man rétt, þegar rætt var á ráðstefnu um Norðurlöndin og kalda stríðið.

Alexei hefur að nokkru fetað í fótspor föður síns og fjallar mikið um öryggismál, kom hann hingað eftir mánaðardvöl við kennslu í Kaliforníu. Hann þekkir því vel til viðhorfa á Vesturlöndum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Sagðist hann hafa ákveðið að snúa sér að stjórnmálum til að vinna að því að koma á vestrænum eða evrópskum stjórnarháttum í Rússlandi, því að hann væri sannfærður um, að Rússar væru Evrópuþjóð og ættu heima í hópi þeirra, en um þetta væri deilt í Rússlandi eins og svo mörg önnur mál. Hann hefði meðal annars á sínum tíma ritað um það, þegar kallað var á víkingana til Rússlands í því skyni að koma þar á röð og reglu, hin evrópska framvinda mála í Rússlandi hefði hins vegar tafist með innrás Mongóla á sínum tíma og 200 til 300 ára hernámi þeirra.

Hann hefði verið bjartsýnn um að takast mundi að stýra málum á skynsamlegan hátt til samstarfs við Evrópuþjóðir en hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum vegna þess að NATO hefði frekar sýnt Rússum vondu hliðina á sér en hina góðu og í Rússlandi væri enginn stjórnmálaflokkur, sem styddi aðild landsins að NATO eða stækkun bandalagsins. Með aðgerðunum í Kosovo hefðu menn einnig endanlega sannfærst um, hve hættulegt væri að NATO kæmist nær Rússlandi. Var hann miklu harðari í þessari afstöðu sinni en ég hafði vænst. Hins vegar hafði hann allt aðra skoðun á stækkun Evrópusambandsins og taldi hana ekki neina ógn við Rússland. Þótti mér þetta sérkennileg afstaða, því að hlutlaus ríki eins og Finnland, Svíþjóð og Austurríki hefðu notað tækifærið til að hlaupa inn í ESB eftir hrun Sovétríkjanna, ekki síst af öryggisástæðum. Taldi hann það mikil mistök hjá ráðmönnum Sovétríkjanna, þegar ákveðið var að kalla sovéska hermenn heim frá Varsjárbandalagslöndunum að gera það ekki með því skilyrði, að NATO fyllti ekki tómarúmið, engin slík formleg skilyrði hefðu verið sett en þó hefðu menn talið sig geta skilið ummæli í ýmsum samtölum á þann veg, að ekki ráðist í að stækka NATO. Ég sagði, að NATO gæti ekki samþykkt neitunarvald Rússa um eigin stækkun. Taldi hann að framganga NATO-ríkjanna hefði spillt mjög stöðu lýðræðissinnaðra flokka í Rússlandi, sem ættu sífellt meira undir högg að sækja, en flokkur hans er í andstöðu við Putin forseta.

Þegar við ræddum þróun rússneska flotans sagði hann rétt, að hlutfallslegt mikilvægi Norðurflotans við Múrmansk og á Kóla-skaga ykist við að flotastöðvum annars staðar hefði verið eða yrði lokað. Sagði ég okkur hafa sérstakan áhuga á þessu, því að allt sem gerðist í flotamálum á Kóla-skaganum hefði bein áhrif hér. Hann taldi okkur ekki þurfa að hafa áhyggjur, öryggi okkar væri ekki í hættu, enda ekki um nein árásaráform að ræða og rússneski flotinn væri veikbyggður.

Í vikunni var lögð sérstök áhersla á símenntun og sótti ég marga fundi af því tilefni. Var ánægjulegt að kynnast því með ótvíræðum hætti, hve margir eru að huga að þessum aðilum og hve marga öfluga samstarfsaðila menntamálaráðuneytið hefur á þessum vettvangi. Er sá sóknarhugur í mikilli andstöðu við neikvætt tal stjórnarandstæðinga um menntamál.

Ágúst Einarsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hvetur á vefsíðu sinni nemendur til mótmæla gegn stjórnvöldum vegna þess hvernig staðið sé að íslenskum menntamálum. Er sérkennilegt að kynnast röksemdafærslunni en hún byggist meðal annars á því, að nemendur hafi mótmælt heimsókn Li Pengs, forseta kínverska þingsins. Ágúst er jafnseinheppinn í þessum samanburði og þegar hann er að bera fram tölfræði til að réttlæta svartsýnisraus sitt um íslenska skólakerfið. Helstu skjólstæðingar Ágústs, vinstrisinnar í Stúdentaráði Háskóla Íslands, treystu sér nefnilega ekki til að samþykkja tillögu um mótmæli gegn Li Peng.

Ágúst er ekki heppnari þegar hann styður skoðanir sínar sögulegum rökum. Hann segir Samtakamáttur námsmanna dugði fyrir 30 árum til að kasta ónýtum ríkisstjórnum og stöðnuðu skipulagi á haugana hvarvetna á Vesturlöndum. Hver var menntamálaráðherra hér fyrir 30 árum? Gylfi Þ. Gíslason, forystumaður Alþýðuflokksins, sem var menntamálaráðherra frá 1956 til 1971. Er Ágúst að vega að dr. Gylfa með þessum orðum sínum? Er unnt að skilja þessa sögulegu tilvísun hans á annan veg en sem árás á dr. Gylfa?

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, er á ferð með liði sínu um landið og komu þau um daginn í Grundarfjörð. Þar fræddust þau um merkilegt tilraunaverkefni í framhaldsnámi, sem menntamálaráðuneytið ákvað að stofna til samkvæmt ósk forystumanna á staðnum. Hefur verkefnið gengið vel og mun nemendum fjölga á þessum vetri. Össur sá ekki ástæðu til að fjalla á jákvæðan hátt um þetta framtak heldur notaði það til árása á menntamálaráðherra, vegna þess að samkomulag allra aðila varð um að greiðslu nemenda í fjarnámi skuli miða við gjaldskrá Verkmenntaskólans á Akureyri, sem er ákveðin af honum, og hefur síður en svo staðið í vegi fyrir því að nemendur flykkist í skólann, þótt greitt sé 60 þúsund krónur á önnina. Segir Össur þetta vera í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla fjarkennslu um land, sýnir sú yfirlýsing hans það eitt, að hann hefur ekki minnstu hugmynd um það, sem er að gerast á þessu sviði á landsvísu heldur vakir það eitt fyrir honum að nota þessa vel heppnuðu tilraun á Grundarfirði til að koma höggi á menntamálaráðuneytið fyrir að standa að henni á umsömdum forsendum. Ég efast um að það sé góð sending fyrir fólk, að fá yfirboðastjórnmálamenn eins og Össur í heimsókn, þeir geta hæglega komið góðum verkefnum í uppnám,

Eiríkur Jónsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, ritaði blaðagrein í vikunni, þar sem hann krafðist þess að dregið verði úr opinberum fjárveitingum til einkaskóla, af því að þeir hafa heimild til að innheimta skólagjöld. Þetta er í samræmi við þá vinstrimennsku, sem vill að allir séu reyrðir á sama bás og eru á móti því að einstaklingar eða fyrirtæki þeirra fái frelsi til að njóta dugnaðar síns eða áræðis, með opinberum aðgerðum eigi að halda öllum á sama stigi, enginn megi fá heimild til að skara fram úr á neinu sviði. Þessi klafastefna á hvergi heima, þar sem menn vilja ýta undir frumkvæði og dugnað og þess vegna síst í skólstarfi. Jafnframt heldur Eiríkur áfram að rita og tala um fjármál Háskóla Íslands eins og þar sé verið að þengja að öllum rekstri, hið gagnstæða er hins vegar öllum ljóst, sem líta á málin með vísan til staðreynda. Fjárveitingar til skólans hafa hækkað um hundruð milljóna króna undanfarin ár.