Þjóðardagur í Hannover - Helsinki - Tallinn - Evrópuumræður
Greinilegt var, að gestir á EXPO 2000 höfðu áhuga á því, sem við Íslendingar höfðum fram að færa á þjóðardegi okkar þar 30. ágúst. Allt, sem í boði var, kallaði á marga gesti og það var ánægjulegt síðla kvölds og um nóttina að hitta alla listamennina og heyra þá segja frá góðri reynslu sinni af viðtökum áhorfenda. Sumir höfðu aldrei áður átt þess kost að sýna fyrir svo mörgum gestum og þótti það merkileg reynsla í sjálfu sér.
Tæpt ár er síðan menntamálaráðuneytið hóf undirbúning að þessum degi með því að birta auglýsingu í blöðum og leita eftir hugmyndum frá listamönnum eða hópum þeirra. Síðan tóku við samtöl og ákvarðanir, sem tóku mið af þeim fjármunum, sem við höfðum til verkefnisins, 15 m. kr. og framboði af efni. Að lokum var samið við þá, sem komu fram á deginum. Þetta er sama fyrirkomulag og við höfðum á EXPO 1998 í Lissabon og þótti gefast vel þar.
Viðamesta verkefnið var að setja upp sýningu Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki. Í fyrstu var ætlunin að hafa sýninguna inn á EXPO svæðinu sjálfu en síðan kom í ljós, að ýmsar tæknilegar ástæður útilokuðu það. Var á tímabili óttast, að falla yrði frá áformum um sýninguna en með góðri samvinnu allra náðist að lokum samkomulag við stjórnendur borgarleikhússins í Hannover um að fá þar inni fyrir sýninguna. Er óhætt að segja, að það hafi verið vel ráðið, bæði vegna aðstöðunnar í leikhúsinu og einnig vegna hins að unnt var að nálgast áhorfendur með öðrum hætti en ella hefði verið. Sent var bréf til allra fastagesta leikhússins og þeim var gefinn kostur á að fá miða á sýninga, annað hvort fyrri hlutann eða seinni hlutann, eða sýningar báðar, Virtist sem flestir hafi valið að sjá verkið í heild bæði sýninguna síðdegis og um kvöldið, eitt er víst, milli fimm og sex hundruð miðar hurfu eins og dögg fyrir sólu og var leikhúsið því þéttsetið á báðum sýningum. Verkið var flutt á íslensku en meginefni textans þýtt á þýsku og sýnt á skjá yfir sviðinu.
Í stuttu máli sagt gekk sýningin eins og vel og á var kosið. Ég var í leikhúsinu síðdegis og flutti þar ávarp , áður en sýningin hófst. Í hléi og að sýningunni lokinni komu þakklátir áhorfendur til að láta í ljós þakklæti fyrir boðið og lýsa ánægju sinni og aðdáun með verkið og framgöngu leikaranna. Að lokinni kvöldsýningunni létu áhorfendur fögnuð sinn ákaft í ljós með lófataki og með því að stappa í gólfið eða slá í bekkina fyrir framan sig eins og Þjóðverja er siður, þegar þeir vilja þakka vel fyrir sig. Höfðu leikararnir á orði, að aldrei hefðu þeir fengið slíkar móttökur að loknum þessum sýningum eða jafnvel endranær. Þeir, sem voru á báðum sýningunum, dáðust að því, hve áhorfendur fylgdust með af miklum áhuga og jafnframt var okkur sagt, að þetta hefði verið mun kröfuharðari hópur en unnt hefði verið að ná til á EXPO-svæðinu og þar hefði verið meira hætta á því, að gestir hefðu komið og farið, því að tilgangur EXPO-gesta væri almennt ekki að fara á leiksýningu heldur skoða skála einstakra þjóða og fyrirtækja.
Klukkan var orðin rúmlega eitt um nóttina, þegar leikhópurinn kom til lokahófs þjóðardagsins en þá hafði Karlakórinn Heimir úr Skagafirði kvatt hófið með því að syngja Undir bláhimni. Kórfélagar þurftu að halda snemma af stað heimleiðis næsta dag, en kórinn hóf þjóðardaginn með glæsilegum söng sínum á megintorgi sýningarinnar, og var sérstaklega haft á orði, hve hann hefði sungið þýska þjóðsönginn af miklum krafti og hve vel það mæltist fyrir hjá áheyrendum.
Vissulega er ógjörningur að meta áhrif þess að halda dag sem þennan hátíðlegan, en eftir öllum sólarmerkjum að dæma, hefur framlag Íslands til EXPO 2000 vakið umtalsverða athygli, hvort heldur skálinn eða annar þáttur okkar. Við höfðum tækifæri til að fara á þá staði, þar sem íslensku listamennirnir létu að sér kveða og alls staðar var margt fólk að fylgjast með þeim. Auðvitað má spyrja, hver sé tilgangurinn með því almennt að taka þátt í sýningu sem þessari eða stuðla að því, að íslenskir listamenn komi þar fram.
Í mínum huga snýst svarið við þessum spurningum um það, hvað við viljum gera til að árétta sjálfsvitund okkar í öllu tilliti og til að sýna, að við getum látið að okkur kveða á mörgum sviðum. Við vitum að afstaða margra til lands og þjóðar breytist við að sækja okkur heim, af því að fólk gerir sér í hugarlund allt aðra mynd af Íslendingum en reyndin verður. Sama held ég að eigi við um kynni fólks af menningu okkar og listamönnum, margir fá miklu raunsannari mynd af þjóðlífi okkar, eftir að hafa áttað sig á því, að við höfum margt fram að færa, sem stenst strangar alþjóðlegar kröfur. Öllum er okkur annt um að verða metin að eigin verðleikum, en til þess að það sé unnt, verðum við að fá tækifæri til að sýna, hvað í okkur býr á sem flestum sviðum. Það fengum við tækifæri að gera í Hannover á EXPO 2000. Við fengum einnig tækifæri til að sýna og sanna, að við höfum eitthvað fram að færa til heimsmenningarinnar, og hún væri fátækari, ef við gerðum það ekki.
Var ánægjulegt að vera Íslendingur þessa tæpu tvo sólarhringa, sem við Rut vorum í Hannover en þaðan flugum við með Þórunn Sigurðardóttur, stjórnanda M 2000, til Helsinki og vorum þar um kvöldið á tónleikum Radda Evrópu í Jóhannesarkirkjunni. Var gaman að hlýða á kórinn við aðrar aðstæður en hér á landi og jafnframt skynja, að hann getur alltaf batnað með meiri æfingu og fleiri tónleikum.
Daginn eftir, föstudaginn 1. september, sigldum við síðan með kórnum yfir til Tallinn, höfuðborgar Eistlands, en þar söng kórinn um kvöldið í þéttsetinni stórkirkju, mannfjöldinn var meiri en í Helsinki og viðtökurnar opnari og innilegri. Í Eistlandi er mikil og löng kórahefð, þannig að það er töluverð áskorun fyrir alla kóra að koma þar fram. Þá var það einnig sérstakt við tónleikana í Tallinn, að Eistleningar fengu þar í fyrsta sinn að hlusta á verkið, sem landi þeirra Arvo Pärt samdi sérstaklega fyrir kórinn. Arvo gat ekki verið á tónleikunum, enda búsettur í Berlín, hins vegar sendi hann blómvönd og kveðju, sem afhent var Þorgerði Ingólfsdóttur, aðalstjórnanda kórsins, í lok tónleilkanna.
Þegar Arvo dvaldist á Íslandi var með honum tökulið til að gera sjónvarpsþátt um hann og Raddir Evrópu. Einn þeirra, sem var í þessu liði, hreyfst svo af kórnum, að hann gerði sér ferð til Helsinki með fjölskyldu sinni þar til að hlusta á hann. Hinir voru á hafnarbakkanum, þegar kórinn kom til Tallinn og gáfu honum stóran poka fullan af eistensku sælgæti auk þess sem þeir færðu Þorgerði blóm að tónleikunum loknum. Þarna sáum við það enn sannast, að listin skapar ný tengsl milli þjóða og manna.
Þótt við dveldumst ekki nema síðdegi í Tallinn og yrðum að fara beint af tónleikunum og ná báti aftur til Helsinki klukkan 21. 00 um kvöldið, gafst mér tækifæri til að hitta eistneska menningarmálaráðherrann og ræða við hana auk þess sem hún sótti tónleikana og lét í ljós mikla hrifningu yfir þessu framtaki, að kalla saman ungt fólk frá átta borgum og gefa því tækifæri til að kynnast og syngja saman og flytja síðan list sína til menningarborganna átta, en níunda borgin, Prag, dró sig út úr verkefninu.
Við kvöddum unga fólkið og stjórnendur þess á hafnarbakkanum í Helsinki, og þegar við vorum komin á flugvöllinn í Stokkhólmi á heimleið laugardaginn 2. september, fréttum við af því að fyrsti hópurinn kórfélaganna væri þegar kominn til Kraká um Kaupmannahöfn, enda þurftu þeir að leggja af stað klukkan 6 um morguninn frá Helsinki.
Þegar kórinn söng í Brussel voru embættismenn Evrópusambandsins, sem styrkir kórinn og þetta íslenska verkefni rausnarlega, meðal tónleikagesta í Beux Arts, helsta tónleikahúsi borgarinnar. Höfðu þeir hrifist af unga fólkinu eins og aðrir og áttað sig betur á því en áður, hve hér er um einstakt evrópskt samvinnuverkefni að ræða, þar sem fólki gefst í raun tækifæri til að kynnast innbyrðis og kynnast ólíkum en þó skyldum menningarheimum. Það snertir til dæmis viðkvæma strengi í brjóstum okkar Íslendinga að heyra Gefðu að móðurmálið mitt... sungið á óaðfinnanlegri íslensku af þessum fjölþjóðlega kór, þegar hann gengur úr kirkju að loknum tónleikum, hvort heldur hér í Helsinki eða Tallinn.
Að sjálfsögðu hefur það aldrei verið markmið Evrópusambandsins að steypa alla í sama mót heldur leyfa mismunandi menningu til dæmis að blómstra, hið þunga skrifstofubákn innan þess hefur hins vegar sömu tilburði og samskonar bákn annars staðar að slá frekar á fingur frumkvöðlana en ýta undir þá fjölbreytni, sem þeir skapa.
Fróðlegt að fylgjast með því, hvernig nýjasta kaflanum í umræðunum um Ísland og Evrópusambandið lyktar, sérstaklega þegar að því er hugað, að hann er ótímabær miðað við seinaganginn innan sambandsins sjálfs í viðræðum við þær þjóðir, sem æskja aðildar. Íslensk tilgátustefna í Evrópumálum kann að verða fróðleg stjórnmálaæfing og kannski losar hún einhver flokksbönd, ef stefnt er að því. Hún veitir okkur hins vegar ekki svar við því núna, hvaða kostir yrðu í boði, tækju Íslendingar ákvörðun um að vilja aðild að Evrópusambandinu. Innan sambandsins er unnið að endurskoðun ýmissa grundvallatriða, áður en aðildardyrnar verða opnaðar. Þessi endurskoðun er ekki í höndum framkvæmdastjórnarinnar heldur fer hún fram á vegum ríkisstjórna aðildarlandanna og meðal þeirra eru uppi ólík sjónarmið.
Eins og svo oft áður einkennast Evrópuumræður hér heima fyrir af nokkrum mótsetningum, áfram klifa til dæmis blaðamenn á því, að það sé til marks um þroskaleysi íslenskra stjórnmálamanna eða staðnað stjórnmálakerfi, að stjórnmálamenn skuli ekki ræða á annan hátt um Evrópusambandið en þessir sömu blaðamenn vilja. Raunar er ekkert fráleitara í evrópsku samhengi en að tala um pólitískt kyrrstöðusamfélag á Íslandi í samanburði við það, sem er að gerast innan Evrópusambandsins. Ber það ekki vott um mikla þekkingu á umræðum um stöðu Evrópusambandsins í aðildarríkjum þess, ef menn hér telja, að litið sé til sambandsins eða stjórnenda þess nú um stundir sem frumkvöðla. Þvert á móti er matið almennt á þann veg, að framkvæmdastjórn sambandsins sé kraftlítil og sviplaus og í aðildarríkjunum sé ekki að finna framsýna pólitíska leiðsögn. Breytingarnar á íslensku samfélagi hafa verið og eru meiri og örari en víðast annars staðar og það hefur síður en svo staðið okkur fyrir þrifum í því efni að vera utan Evrópusambansins. Margar breytinganna má rekja til aðildar okkar að evrópska efnahagssvæðinu en margt fleira kemur til álita, ekki síst svigrúm okkar í samvinnu við þriðju ríki, sem væri ekki með sama hætti innan sambandsins. Miklu líklegra er, að þá hefði þungt Brusselbáknið tafið hér fyrir framgangi mála og stjórnmáladeilur snúist um fyrirmæli þaðan frekar en það, sem hér hefur verið efst á baugi.
Þeir, sem vilja meiri Evrópuumræður þurfa að sýna meiri hreinskilni í afstöðu sinni en felst í því að saka aðra um að taka ekki þátt í þeim. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur það á stefnuskrá sinni, að Ísland skuli gerast aðili að Evrópusambandinu. Hins vegar er stundum látið að því liggja, að Íslendingar standi frammi fyrir voðalegri vá í framtíðinni vegna þess að Evrópa geti þróast á þann veg, að okkur sé hætta búin af framvindu mála þar. Minnir þetta dálítíð á óttann, sem hefur lengi blundað í vitund þjóðarinnar, að til þess kunni að koma, að við glötum tungu okkar, eða jafnvel allir Íslendingar ákveði að yfirgefa ættjörð sína og velja sér geðfelldari dvalarstað. Óttinn við þetta hvoru tveggja setur ekki eins mikinn svip á umræðurnar og stundum áður en í stað þess er gefið til kynna, að skammsýnir stjórnmálamenn haldi þannig á málum, að þjóðin sé að lenda í blindgötu utan Evrópusambandsins eða frammi fyrir neyðarkostum við val á alþjóðlegu gjaldmiðlasvæði.
Þetta er stórt og mikilvægt viðfangsefni, sem sjálfsagt er að ræða. Ég er þeirrar skoðunar, að talsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu verði að leggja spil sín á borðið og bjóða til umræðna á stjórnmálavettvangi með skýrari stefnu en til þessa, svo að unnt sé að átta sig á hinum pólitísku átakalínum í málinu.