27.8.2000

Ferðalög - danskar Evrópudeilur - Raddir Evrópu

Í upphafi ársins lá fyrir, að meira yrði um ferðalög til útlanda en áður vegna þess, hve víða yrði um samstarfsverkefni að ræða og athafnir á sviði menningarmála. Hefur þetta gengið eftir, því að ferðalögin hafa verið meiri hjá mér en nokkru sinni. Fyrri hluta ársins bar það einnig við, að ég fór í alla framhaldsskólana og efndi til funda með nemendum og kennurum. Þá hef ég farið oftar til Ameríku en áður og í næsta mánuði stendur til að fara alla leið til Ástralíu á Ólympíuleikana í Sydney.

Stundum er látið að því liggja í almennum umræðum og jafnvel fjölmiðlum, að stjórnmálamenn og embættismenn ferðist meira en góðu hófi gegnir og meira að segja leggi menn land undir fót án þess að eiga í raun nokkurt erindi. Þeir, sem þannig tala eða skrifa, hafa líklega aldrei verið í þeirri stöðu, að standa næstum á hverjum degi frammi fyrir tilmælum um einhvers konar þátttöku í alþjóðastarfi, fundum eða mótum af einu eða öðru tagi. Vissulega geta slíkar ferðir verið gefandi en þær kosta einnig oft mikinn undirbúning og mikla vinnu, fyrir utan þá röskun, sem óhjákvæmilega fylgir ferðalögum. Viðfangsefnin heima fyrir hverfa ekki á meðan menn eru að sinna skyldustörfum erlendis, þau krefjast sömu athygli og ella væri.

Alþjóðasamstarf er að aukast á öllum sviðum og menntamálaráðherra á Íslandi er í þeim sporum að sinna störfum, sem allt að fimm ráðherrar gegna í öðrum löndum, skólamálaráðherrar, menningarmálaráðherrar, rannsóknamálaráðherrar, íþróttamálaráðherrar og æskulýðsmálaráðherrar. Á öllum þessum sviðum er stundað alþjóðasamstarf, mismundandi mikið, en þó er reglulega gerð krafa til þess að ráðherrar sinni því með beinni þátttöku sinni.

Fylgifiskur aðildar að Evrópusambandinu yrði miklu meira og nánara samstarf við alþjóðastofnanir á öllum sviðum, því að embættismannakerfi aðildarlandanna flyst að hluta inn í skrifstofubákn Evrópusambandsins í Brussel. Þungamiðja í mörgum málaflokkum færist til Brussel og þaðan bíða menn eftir álitum, tillögum og niðurstöðu. Vegna þessa fá utanríkisráðuneyti aðildarríkjanna annað hlutverk en ella væri og þeim hættir meira að segja sumstaðar til að líta á sig sem einskonar yfirráðuneyti, sem í krafti miðstýringaráráttu Brussel-skriffinnanna, geti hlutast til um stórt og smátt á starfssviði annarra ráðuneyta. Má sjá því haldið fram í umræðum um þessi mál, að af þessum sökum séu starfsmenn utanríkisráðuneyta oft áköfustu talsmenn aðildar að Evrópusambandinu og sjái lítið eða ekkert athugavert við að færa sem mest vald til Brussel.

Hætta Evrópusambandsins er ekki síst eigin velgengni, það er hve vel hefur tekist að koma á laggirnar öflugu embættiskerfi, sem berst í raun fyrir eigin áhrifum og lífi, þegar lagt er á ráðin um nánara samstarf Evrópuríkjanna. Ég kalla þetta hættu, því að þess verður víða vart í aðildarlöndunum, að mörgum finnst nóg um afskiptasemina frá Brussel og snúast þess vegna gegn Evrópusambandinu.

Í vikunni fór ég í einn og hálfan dag til Kaupmannahafnar og tók þátt í ráðstefnu um norræn menningarmál og stöðu þeirra, kom það meðal annars í minn hlut að flytja um tungumálið og sjálfsmynd þjóða. Kvöldið fyrir ráðstefnuna gat ég horft í sjónvarpi á kafla frá opinberum kappræðum milli danskra stjórnmálamanna um Evrópumálin, sem fóru fram á fundi í Álaborg en þar deildu Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra og Pia Kjærsgaard, formaður Danska þjóðarflokksins.

Ráðherrann er að sjálfsögðu afdráttarlaus talsmaður þess að Danir segi já í þjóðaratkvæðagreiðslunni 28. september og gerist aðilar að evrópska myntsamstarfinu (EMU). Helstu rök hans voru þau, að nei þýddi nei og yrðu Danir ekki þátttakendur myndu þeir verða í öðrum flokki en aðrar ESB-þjóðir og áhrifalausir aðilar að þessu samstarfi, hvort sem þeim líkaði betur eða verr, þeir yrðu með öðrum orðum að afsala sér nokkru af fullveldi sínu til að öðlast meira fullveldi innan myntsamstarfsins. Pia sagði á hinn bóginn, að með öllu væri ástæðulaust fyrir Dani að ganga til þessa samstarfs, þeir hefðu aldrei staðið betur efnahagslega og ekkert benti til þess að þeim vegnaði betur með því að afsala sér forræði á krónunni.

Skoðanakannanir segja, að danskir kjósendur skiptist til helminga í afstöðu sinni, en já-sinnar telja sig frekar vera að sækja í sig veðrið og eru bjartsýnni núna um sigur en fyrir fáeinum mánuðum. Ég tók eftir því, að Lothar Späth, fyrrverandi forsætisráðherra Baden-Württemberg og mikils metinn stjórnmálamaður og viðskiptafrömuður í Þýskalandi, sagði í sjónvarpsviðtali á föstudagskvöldið, að Íslendingar ættu ekki að leggja áherslu á aðild að Evrópusambandinu, því að alþjóðaviðskipti væru að breytast á þann veg, að það væri óþarft. Þarna kvað við nokkuð annan tón en almennt hjá málsvörum ríkisstjórna innan ESB, því að hjá stjórnmálamönnum í evrópskum valdastöðum heyrast sjaldan gagnrýnisraddir um þróunina innan ESB. Umræðurnar eru einkum um það. hvort stíga eigi enn ný skref til nánara samstarfs, það er hvort í Evrópu eigi að vera ríkjasamban eða sambandsríki.

Hvaða skoðun sem menn hafa á þessum álitaefnum, er hitt víst, að með öllu er óþarft að setja af stað miklar umræður um ESB-aðild hér á landi um þessar mundir, því að Evrópusambandið er ekkert að opna aðildardyr sínar og á eftir að vinna mikla heimavinnu, áður en það verður gert.

Skemmtileg og lifandi hlið á Evrópusamstarfinu birtist okkur í kórnum Raddir Evrópu, sem hefur verið að æfingum í Reykholti í tíu daga, en hann er skipaður ungu fólki frá átta hinna níu borga, sem í ár eru menningarborgir Evrópu. Eftir mikla og stranga þjálfun efndi kórinn til tónleika í Hallgrímskirkju að kvöldi 26. ágúst. Hafði hann ekki komið fram opinberlega síðan um áramótin, þegar hann söng á gamlárskvöld í Perlunni með Björk og síðan í Hallgrímskirkju á nýársdag.

Kirkjan var þéttsetin á laugardagskvöldið og kórnum ákaflega vel tekið, eins og hann átti skilið. Meira en tvö ár eru liðin síðan Íslendingar hreyfðu hugmyndinni um þennan kór og Þorgerður Ingólfsdóttir, aðalstjórnandi hans, fór í ferð til hinna menningarborganna og reifaði málið með þeim árangri, að ýtt var úr vör og verkefnið fékk stærsta menningarborgastyrkinn frá ESB vegna þess hve vel það var úr garði gert og þótti spennnandi. Verkefnið felst ekki aðeins í því að flytja góða tónlist frá þátttökuríkjunum átta á frábæran hátt heldur ekki síður í því að gefa unga fólkinu og stjórnendum þess einstakt tækifæri til að kynnast og stækka sjóndeildarhringinn með því að flytja menningu hver annars á milli borganna í orðsins fyllstu merkingu. Með því að stilla þessar ólíku evrópsku raddir saman verður til ný rödd án þess að nokkur glati því, sem hann á sjálfur, ekki er gengið á hlut neins heldur lögð áhersla á að allir fái notið sín.