7.8.2000

Noregskonungur í Reykholti - Frakklandsferð

Það var ánægjulegt að kynnast áhuga Haralds Noregskonungs og Sonju drottningar á málefnum Snorrastofu og Reykholts laugardaginn 29. júlí, þegar stofan var opnuð með formlegum hætti. Veðrið var einstaklega gott og fallegt. Meira en 200 Norðmenn tóku þátt í athöfninni og fluttu meðal annars hluta úr leikverki, sem lýsir því, þegar kristin trú kom til Noregs.

Norska konungsfjölskyldan hefur jafnan sýnt arfleifð Snorra Sturlusonar mikinn áhuga. Í ræðu sinni í Reykholti minnti Haraldur konungur á það, að Heimskringla og frásagnir Snorra hefðu verið Norðmönnum leiðarljós árið 1814, þegar þeir slitu sambandið við Danmörku, eignuðust eigin stjórnarskrá og tóku upp konungssamband við Svíþjóð og síðan aftur árið 1905, þegar Norðmenn eignuðust eigin konung, Hákon VII., afa Haralds, en Ólafur, faðir Haralds, kom hingað til lands árið 1947 sem krónprins og fyrirliði Norðmanna, þegar þeir afhentu Íslendingum styttu Gustavs Vigelands af Snorra að gjöf, en hún stendur fyrir framan gamla skólahúsið í Reykholti. Hefur þessi heimsókn lengi verið í minnum höfð, því að hún skipti Íslendinga ekki aðeins miklu vegna Snorra, heldur var hún fyrsta heimsókn af sínu tagi, frá því að Íslendingar stofnuðu lýðveldi árið 1944. Haraldur kom hingað sem krónprins á sjöunda árataugnum (1964?) sem gestur ríkisstjórnarinnar og dvaldist hér í tæpa viku, þá heimsótti hann meðal annars Reykholt. Sonja drottning hafði hins vegar aldrei komið í Reykholt, því að veður leyfði ekki ferð þangað í þau tvö skipti, sem hún hefur verið hér á landi áður, og stefnt var að heimsókn á þennan sögumikla stað.

Stundum er látið í veðri vaka, að af hálfu Norðmanna sé leitast við að eigna sér Snorra, en Haraldur konungur tók af allan vafa um slíkt í ræðu sinni í Reykholti, þegar hann áréttaði, að Snorri hefði verið Íslendingur. Á hinn bóginn skipar Heimskringla sess í bókahillum Norðmanna við hlið Biblíunnar og segir það meira en mörg orð, hvaða augum þeir líta þetta meistaraverk.

Snorrastofu hefur verið búin hin besta umgjörð í Reykholti. Hafa sóknarnefndin og sóknarpresturinn sr. Geir Waage staðið vel og skynsamlega að allri uppbyggingu.

Góður bókakostur er í Reykholti og ræður þar úrslitum að hið einstæða bókasafn dr. Jakobs Benediktssonar í miðaldafræðum var gefið til staðarins með samkomulagi við ríkisstjórn um gæslu þess og eflingu. Ráðist hefur verið í endurbætur á gamla skólahúsinu, sem Guðjón Samúelsson teiknaði á sínum tíma. Verður stærsti hluti hússins nýttur fyrir varaeintök Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns en í norður álmunni, þar sem áður var sundlaug, hefur verið innréttaður samkomusalur. Efndum við Rut þar til kvöldverðar til heiðurs norsku konungshjónunum og má segja, að með því hafi þessi salur verið formlega opnaður sem hluti af þeirri starfsemi, sem nú er að taka á sig mynd í Reykholti og miðar að því að þar verði rannsóknamiðstöð íslenskra og evrópskra miðaldafræða.

Vel var að þessum hátíðarhöldum staðið og í raun hefðu þau ekki getað verið með slíkum glæsibrag án hótelsins á staðnum og hins góða starfsfólks þar, sem stóð að því að undirbúa þrjár fjölmennar og glæsilegar veislur um kvöldið.

Strax morguninn eftir konungsveisluna í Reykholti flaug ég til Parísar en Rut bjó sig undir vikudvöl í Skálholti, þar sem hún lék með Bach-sveitinni, en hún hélt tónleika í Skálholtskirkju 5. og 6. ágúst. Ég leigði hins vegar bíl á Charles de Gaulle flugvelli og ók sem leið lá um 500 km suður fyrir París til bóndabæjar skammt frá bænum í Brive í héraðinu Corréze og dvaldist þar mér til hvíldar og hressingar frá sunnudagskvöldi til laugardagsmorguns. Er þetta í fimmta sinn á rúmum áratug, sem ég fer á þennan stað, en þar býr franskt vinafólk og býður meðal annars qigong.

Á námskeiðinu, sem ég sótti í Kennedy-skólanum í Harvard, var lögð á það áhersla, að menn í erilsömum störfum gæfu sér tóm til að hverfa af dansgólfinu og færu upp á svalirnar til að sjá, hvað þar væri að gerast. Byggist þetta ráð á því, að menn séu svo uppteknir við að stíga danssporin, þegar þeir eru á gólfinu, að þeir gefi sér ekki tóm til að sjá samhengi hlutanna. Má segja, að Frakklandsferð mín hafi verið upp á svalirnar. Næst er að meta það, sem við blasti og vonandi nýta sér þekkinguna með réttum hætti.