25.7.2000

Farið um Skagafjörð - niðurskurði hallmælt

Við Rut fórum í ferðalag norður í Skagafjörð í síðustu viku. Tilefnið var, að lokið hafði verið við það koma bæjardyrunum á Reynistað í varanlega umgjörð. Með því er vísað til þess, að þegar bæjarhúsin á Reynistað brunnu um miðja átjándu öld bjargaði Þóra Björnsdóttir biskupsekkja stafverksþiljum úr gamla bænum, sem síðan hafa verið varðveittar og þykja ómetanlegur hluti íslenskrar byggingarsögu eins og Hörður Ágústsson færir rök fyrir í afmælisriti til heiðurs Kristjáni Eldjárn, en Hörður heimsótti reynistað 1967 og kynntist þá bæjardyrunum. Um kynni mín af þeim fjallaði ég í ræðu, sem ég flutti af þessu tilefni í kirkjunni á Reynistað. Ég var þar í sveit í níu sumur í tíð Jóns Sigurðssonar, bónda og alþingismanns, og Sigrúnar Pálmadóttur, konu hans, og því var mér sérstakt ánægjuefni að vera þátttakandi í þessari athöfn, sem var fjölsótt í góðviðrinu og gátum við drukkið kaffi og te í garðveislu að loknum ræðuhöldum, sálmasöng og bæn í kirkjunni, þar sem séra Gísli Gunnarsson í Glaumbæ hafði forystu, Hjalti Pálsson flutti erindi um Reynistað að fornu og nýju og Sigríður Sigurðardóttir, forstöðmaður Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ, lýsti framkvæmdum.

Allt gerðist þetta síðdegis sunnudaginn 23. júlí en við vorum komin að morgni föstudagsins 21. júlí í Skagafjörð og hittum á Sigríði Sigurðardóttur í Víðimýrarkirkju, sem er einstök í sinni röð og hefur verið nefnd sem hugsanlegt framlag okkar Íslendinga á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Er það mál til athugunar í samvinnu menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Þúsundir mann koma í Víðmýrarkirkju ár hvert, sömu sögu er að segja um Byggðasafnið í Glaumbæ, sem er eitt fjölsóttasta byggðasafn landsins og keppir í því efni við Byggðasafnið að Skógum undir Eyjafjöllum, þar sem Þórður Tómasson ræður ríkjum. Hátt í 30 þúsund manns heimsækja þessi söfn yfir sumartímann. Er staðarlegt að koma heim að Glaumbæ og margt skemmtilegt að sjá, þá er þar einnig vinsæl veitingastofa. Á leiðinni frá Víðmýri í Glaumbæ, litum við inn á Löngumýri, sem lýtur forsjá þjóðkrikjunnar, en þar var hópur fatlaðra til náms og skemmtunar.

Sagan er allt í kringum mann á þessum slóðum og í Glaumbæjarkirkju er þess minnst með sérstakri sýningu, að þarna reisti Snorri Þorfinnsson, fyrsti hvíti maðurinn, sem fæddist í Norður-Ameríku, móður sinni, Guðríði Þorbjarnardóttur kirkju, á meðan hún fór í pílagrímsgöngu til Rómar. Miðað við þann áhuga, sem þetta ágæta fólk vekur núna í N-Ameríku er full ástæða til þess fyrir frumkvöðla á heimaslóð þess hér, að huga að því, hvernig á að leggja enn frekari rækt við minningu Guðríðar, Snorra og Þorfinns karsefnis, styttan af Þorfinni, sem var á sínum tíma á hólma í lítilli tjörn í Hljómskálagarðinum, sómir sér nú vel við Vesturfararsetrið á Hofsósi, en Þorfinnur lagði upp frá þeim slóðum, þegar hann hélt héðan til Grænlands, þar sem hann hitti Guðríði í Brattahlíð og voru þau gefin saman þar, kannski í kirkju Þjóðhildar, konu Eiríks rauða, en hún hefur nú verið endurreist og tekin í notkun með hátíðlegum hætti, eins og ég gat um í síðasta pistli. Þetta er þó aðeins lítill angi hinnar miklu sögu, sem er hvarvetna í Skagafirði. Er þar í raun um ótæmandi brunn að ræða, þegar litið er til sögu kristni á Hólum eða stjórnmálátaka allt frá því að Gissur jarl bjó á Reynistað og Sturlungar stóðu í styrjöldum.

Úr Glaumbæ fórum við í heimsókn á Reynistað og eftir að hafa átt stutta viðdvöl á Sauðárkróki og meðal annars skoðað minjasafnið þar undir leiðsögn Kristjáns Runólfssonar, sem sjálfur er mikill safnari og á þarna marga góða muni til sýnis, héldum við að Hólum í Hjaltadal, þar sem Skúli Skúlason skólastjóri tók á móti okkur. Fræddumst við um skólahald og framtíðaráform á staðnum og hlýddum auk þess á Kammerkór Skagafjarðar syngja í Hóladómkirkju um kvöldið. Daginn eftir fórum við til Hofsóss og hittum Valgeir Þorvaldsson, sem hefur byggt upp Vesturfarasetrið af miklum dugnaði, og Wincie Jóhannsdóttur, sem um tíma var rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, en starfar nú sem fræðslufulltrúi við setrið. Var mikill fjöldi að skoða sýningarnar og allt iðaði af mannlífi.

Síðdegis laugardaginn 22. júlí ókum við síðan til Siglufjarðar, þar sem bæjarstjórnin bauð okkur og forystumanni þjóðlagahátíðarinnar á staðnum, Gunnsteini Ólafssyni, til kvöldverðar og fræddumst við jafnframt um stækkun safnsins og næstu skref til að efla það enn frekar. Kallar safnið á mörg þúsund gesti ár hvert.

Um kvöldið vorum við síðan á hátíðartónleikum þjóðlagahátíðarinnar og urðum vitni að því, þegar þeir Gunnsteinn og Guðmundur Guðlaugsson bæjarstjóri skrifuðu undir samning um að bærinn myndi styrkja Þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar um þrjár milljónir króna til að kaupa svokallað Maðdömuhús í bænum, en þar bjó séra Bjarni á sínum tíma. Einnig heiðraði þjóðlagahátíðin Sigurjón Sæmundsson, fyrrverandi bæjarstjóra og prentsmiðjueiganda, sem hefur látið sér annt um minningu sr. Bjarna og gaf hann okkur Rut eintak af hinni merku bók sr. Bjarna, Íslenzk þjóðlög.

Hátíðartónleikarnir voru fjölbreyttir og skemmtilegir og sóttu þá um 500 manns. Kynntumst við því, sem menn höfðu verið að læra og þjálfa á þjóðlagahátíðinni. Lauk kvöldinu með því að stiginn var færeyskur dans með hópi frá Færeyjum, sem er á hringferð um landið. Var komið fram yfir miðnætti þegar ég ók aftur af stað til Hofsóss, þar sem við gistum um nóttina, áður en við héldum að Reynistað með stuttri viðdvöl í Grafarkirkju, en Hallgrímur Pétursson fæddist að Gröf.

Ég ætla ekki að hafa þessa frásögn lengri, en hún minnir á, hve margt er verðmætt um allt land, sem ástæða er til að halda til haga og auðveldar okkur að skilja samtíðina betur. Var það mál manna, sem ég hitti þarna, að ferðamönnum færi sífellt fjölgandi og höfðu margir orð á því, að Hvalfjarðargöngin skiptu miklu fyrir öll ferðalög og auðvelduðu mönnum þau

Í DV mánudaginn 24. júlí birtist forystugrein eftir Óla Björn Kárason ritstjóra, sem einmitt er ættaður frá Sauðarkróki, en greinin ber fyrirsögnina Niðurskurður. Þar er fjallað um afkomu ríkissjóðs, sem er mjög góð um þessar mundir, eins og kunnugt er. Óli Björn hefur hins vegar áhyggjur af þróun ríkisútgjalda og telur þau vaxa of ört. Verst þykir honum þó, að ekki skuli hafa verið gripið til róttækra kerfisbreytinga í ríkisrekstrinum. Þá segir hann meðal annars:

Stjórnarflokkarnir virðast sammála um að draga verði á næstu mánuðum úr aukningu ríkisútgjalda og grípa til niðurskurðar á verklegum framkvæmdum. Vandi ríkissjóðs liggur hins vegar ekki í fjárfestingu í ýmsum framkvæmdum enda er það eitt helsta verkefni ríkisins að tryggja að innviðir samfélagsins séu traustir. Vandinn snýr að rekstrinum sjálfum og þeirri sóun á opinberum fjármunum sem þar fer fram á hverjum degi. Nirðurskurður á framkvæmdum mun því litlu breyta þegar til lengri tíma er litið.

Þetta sjónarmið stangast nokkuð á við það, sem almennt er uppi í umræðum um ríkisfjármálin, þegar hrópað er hæst, að ríkisvaldið haldi að sér höndum í framkvæmdum. Þegar ég lít til þess, sem að menntamálaráðuneytinu snýr, get ég ekki verið annað en sammála Óla Birni. Það skiptir miklu meira máli, að halda vel utan um reksturinn og stuðla að því, að hann sé sem hagkvæmastur, en slá viðhaldsvinnu sífellt á frest eða láta opinberar byggingar standa hálfkaraðar, af því að það sé talið eitthvað sérstaklega þjóðhagslega óhagkvæmt að leggja á þær síðustu hönd. Er alltof mikil einföldun að láta sem svo, að með því að fresta opinberum framkvæmdum, á meðan aðrir spenna bogann til hins ýtrasta, sé verið að bjarga þjóðarhag.

Með þessu er ég ekki að segja, að ráðast eigi í opinberar framkvæmdir, hvað sem það kostar og hvenær sem mönnum dettur það í hug, í því efni þarf að sjálfsögðu að gæta forsjálni og stuðla að jafnvægi. Hitt er svo miklu auðveldara að slá framkvæmdum á frest heldur en að standa fyrir raunverulegum umbótum í ríkisrekstri, þar sem tregðulögmálið ræður miklu og breytingar eru almennt taldar af hinu illa, ekki sé unnt að taka að sér ný verkefni nema fjölga starfsfólki og svo framvegis. Reynslan sýnir, að ríkisrekstur fer alltaf halloka fyrir einkarekstri, enda nefna menn aldrei ríkisfyrirtæki, þegar þeir fjalla um hin best reknu, hvorki hér á landi né annars staðar. Meðal annars af þessum sökum er borin von, að ríkisfyrirtæki geti keppt um starfsfólk við einkafyrirtæki, þegar til lengdar er litið, enda er það alls staðar svo, að ríkisstarfsmenn telja sig vanhaldna í launum í samanburði við þá, sem á einkamarkaði starfa, og hefur verið leitast við að bæta þeim muninn til dæmis með starfsöryggi og lífeyrisgreiðslum.

Raunar er rangt að klifa sífellt á niðurskurði, þegar rætt er um sparnað og aðhald í ríkisfjármálum. Í fæstum tilvikum er verið að skera eitthvað niður, oftast er einhverju slegið á frest eða leitast við að sporna við frekari útgjöldum. Hugtakið niðurskurður er mjög neikvætt og kallar fram þá afstöðu, að menn hljóti óhjákvæmilega að snúast gegn honum. Mætti halda að það hafi verið sérstaklega hannað af þeim, sem er annt um að ríkisútgjöld hækki sem mest og andstæðingar þess séu blóðugir upp fyrir axlir við að skera allt hið góða við trog, sem ríkið hefur að bjóða.