Ævintýraferð til Grænlands
Síðustu daga hef ég verið í sannkallaðri ævintrýaferð á Grænlandi. Fór ég þangað annars vegar til að taka þátt í ráðstefnu um menningarmál á vegum Vestnorræna ráðsins og hins vegar til að taka þátt í hátíðarhöldum til að minnast þess, að Leifur heppni fann Vínland og kristni festi rætur á Gænlandi. Allt fór þetta fram með þeim stórbrotna hætti, sem hæfir náttúru Grænlands og hinni hörðu lífsbaráttu Grænlendinga, sem sameina tvo menningarheima, Evrópu og heimskautasvæðin. Ráðstefnan fór fram í Qaqortoq (Julianehåb) en hátíðahöldin voru í Narsarsuaq, Brattahlíð og Görðum. Var þetta í þriðja sinn, sem ég fór til Grænlands en í fyrri skiptin tvö var ég í Nuuk í Vesturbyggð, en að þessu sinni dvöldumst við í Austurbyggð, það er fyrir sunnan Nuuk, en heiti byggðanna má rekja aftur til Víkingatímans, því að norrænir menn bjuggu í þessum tveimur byggðum, sem báðar eru á vesturströnd Grænlands, frá árinu 985 fram undir 1450, síðasta skráða frásögn um dvöl þeirra er lýsing á brúðkaupi árið 1408 í steinkirkjunni í Hvalsey, sem er í nágrenni við Qaqortoq. Það var þó ekki fyrr en Hans Egede fór í trúboðsferð til Grænlands árið 1721, að í ljós kom, að þar bjuggu ekki lengur neinir norrænir menn eða nordbuer eins og Grænlendingar segja á dönsku. Veit enginn um afdrif þeirra og eru uppi margar getgátur um þau. Síðan var það ekki fyrr en á fyrri hluta 20. aldarinnar, að Knud Rasmussen kannaði eskimóabyggðir með þeim hætti, að öllum var ljóst, að þær náðu frá Grænlandi um norðursvæði Kanada og til Alaska. Er talið, að inuitar hafi fyrir fjögur þúsund árum lagt leið sína frá Mongólíu um Síberíu til Ameríku og þaðan til Grænlands og síðan hafi komið önnur bylgja fyrir 2000 árum, en í henni miðri birtust norrænir menn í byggðum þeirra. Virðist nú sannað, að þeir dvöldust ekki aðeins á Grænlandi fram á 15. öld heldur einnig meðal Dorset-fólksins á ströndum Kanada, en þetta fólk er nú horfið. Á Grænlandi búa nú 57 þúsund manns, þar af 45 þúsund með grænlensku sem móðurmál. Málið skiptist í mállýskur en 40 þús. tala vest-grænlensku, sem er grundvöllur ritmálsins. Er talið að um 150 þúsund manns í heiminum tali inuita-mál og geta þeir skilið hvern annan, en kjósa þó að tala saman á ensku, þegar þeir hittast innan alþjóðlegra samtaka sinna.. Það er skemmtilegt að syngja sálma á grænlensku vegna þess hve sérhljóðarnir eru skýrir og vefst ekki fyrir manni að syngja með, þótt hvert orð sé ein ljóðlína. Gáfust mörg tækifæri til sálmasöngs í þessari ferð, var þó aldrei leikið á neitt hljóðfæri við athafnir heldur sungið a capella og mest mæddi á kór grænlenskra námsmanna í Kaupmannahöfn, sem þar var kominn til hátíðabrigða. Þá lét einnig hópur norskra söngkvenna frá Seattle í Banadríkjunum að sér kveða á hátíðinni, en það var þó allt með öðrum blæ en hjá heimamönnunum. Loks má ekki gleyma því, að í hópi vestrnorrænna þingmanna eru miklir söngmenn og gítarkarlar eins og Árni Johnsen og Gísli S. Einarsson, sem létu ekki sitt eftir liggja, þegar á þurfti að halda og var þá ekki síður sungið á færeysku og dönsku en íslensku. Ferðin hófst þriðjudaginn 11. júlí þegar flogið var síðdegis til Narsarsuaq, þar sem er löng flugbraut og öflug mannvirki tengd henni, sem eiga rætur allt aftur til þess tíma, þegar Bandaríkjamenn komu til varnar Grænlandi árið 1941, skömmu áður en Bretar. Bandaríkjamenn og Íslendingar gerðu herverndarsamninginn í júlí 1941, sem leiddi til þess, að Bandaríkjamenn tóku að sér varnir Íslands af breska hernámsliðinu. Lögðu Bandaríkjamenn flugvelli á Grænlandi í Syðri-Straumfirði og Thule fyrir utan Narsarsuaq. Gegna vellirnir allir miklu hlutverki enn, til dæmis er jafnan flogið með þotum til Syðri-Straumfjarðar, ef menn eru á leið til Nuuk og farið þaðan með minni vél á leiðarenda. Flugbrautin í Nuuk hangir utan í fjallshlíð og er frekar stutt, ef flogið er þaðan til Íslands þarf jafnan að hafa viðkomu í Kulusuk á austurströndinni, því að ekki er unnt að fara á loft frá Nuuk með allt það eldsneyti um borð, sem þarf til Íslandsferðar. Bandaríkjamenn eru enn í Thule og vilja vera þar áfram vegna eigin öryggis og Grænlendinga. Er ekki alveg ljóst, hvert framhald verður í því efni, því að stöðin er á ýmsan hátt einstök og tengist meðal annars gagneldflaugakerfi Bandaríkjamanna, sem nú er í mikilli þróun. Í Narsarsuaq var mikið hersjúkrahús og er sagt, að í síðari heimsstyrjöldinni hafi Bandaríkjamenn flutt þangað hermenn, sem fengu andlegt áfall eða töpuðu geði í stríðsátökunum. Síðan voru sögusagnir um, að hið sama hefði verið gert með hermenn í Kóreustríðinu. Í byggingu við flugvöllinn er minjasafn um herstöðina og þar eru bréf, þar sem höfundar segja alrangt, að hersjúkrahúsið hafi verið notað í Kóreustríðinu. Stutt heimsókn í þetta safn minnti á nauðsyn þess, að við Íslendingar hugum sérstaklega að þessum minjum úr sögu okkar. Það tók okkur 3 tíma og 15 mínútur að fljúga með Fokker Flugfélags Íslands frá Reykjavík til Narsarsuaq en þaðan flugum við í 20 mínútur með Sikosky-þyrlu Grænlandsflugs til Qaqortoq, síðar tók það okkur rúma þrjá tíma að sigla á milli staðanna. Upphaflega ætuðum við ekki beint til Qaqortoq heldur lengra út á ströndina og sigla þaðan á tæpum tveimur dögum til Qaqortoq, en hafís kom í veg fyrir það ferðalag. Þess í stað notuðum við fyrsta daginn til að sigla frá Qaqortoq til Hvalseyjar og skoða rústirnar þar. Er einstök reynsla að koma þangað og ganga um rústirnar og leiða hugann að því, hve stórmannlega hefur verið staðið að mannvirkjum á þessum eyðilega og afskekkta stað. Raunar er allt með eindæmum, þegar hugað er að fjarlægðum og náttúrundrum á Grænlandi, þessari stærstu eyju heims, sem er um 2,1 milljón ferkílómetrar á stærð og rúmlega 400 þúsund ferkílómetrar eru íslausir einhvern hluta ársins, eða fjórum sinnum stærra svæði en Ísland. Innan bæja eða byggðarlaga er unnt að fara á bílum eða öðrum farartækjum en milli staða verða menn að ganga, sigla eða fljúga. Strax fyrsta daginn sannaði það ágæti sitt að hafa keypt net gegn mýbiti og hafa áburð til að verjast bitum. Sagt er, að ekki sé mýbit með sauðfé og gátum við sannrænt gildi þeirrar kenningar. Það vakti athygli okkar hve lítið var um fugla á sjó og landi. Líklega stafar því að úrgangur frá mönnum og æti í sjó er ekki mikið. Við fórum ekki aðeins í Hvalsey heldur heimsóttum við tilraunastöð í landbúnaði og hittum þar konu, sem var við ræktunarstörf við erfiðar aðstæður, hafði hún stundað nám á Hesti í Borgarfirði og einnig í Garðyrkjuskóla ríkisins, kunni hún nokkur orð í íslensku en sagt er, að margir bændur á þessum slóðum tali íslensku eftir nám sitt í íslenskum skólum. Þá bar það til tíðinda þennan fyrsta dag, að efnt var til góðrar kjötsúpumáltíðar, en af alkunnri forsjálni hafði Árni Johnsen tekið með sér kjöt og grænmeti að heiman og var það látið malla í um það bil fjóra tíma í 40 lítra potti á meðan við sigldum í steikjandi sólinni á milli ísjakanna í djúpum fjörðunum á tveimur smáskipum. Fengum við lánaða súpudíska og skeiðar í tilraunastöðinni og héldum súpuveisluna góðu við bryggjubútinn þar, gleymist hún engum frekar en tilburðirnir við hífa pottinn góða með kaðli út lúkarnum. Tóku Færeyingar að sér að þvo upp að lokinni máltíðinni. Ráðstefnan í Qaqortoq stóð í tvo daga og var hún sett af Ole Lynge forseta grænlenska þingsins og Jonathan Motzfeldt, formanni landsstjórnarinnar. Fór Jonathan oftar en einu sinni lofsamlegum orðum um nýlega heimsókn Þjóðleikhússins til Nuuk, þegar í fyrsta sinn var sett upp fullbúin leiksýning í Grænlandi með Brúðuheimilinu eftir Ibsen, og var textinn þýddur jafnharðan á grænlensku og dönsku. Fór ekki á milli mála, að sýningin hafði í senn djúp áhrif á Jonathan og gladdi hann mikið. Klukkan 6 að morgni laugardagsins 15. júlí sigldum við frá Qaqortoq í þriggja tíma ferð til Narsarsauaq, sum okkar fengu inni á hótelinu á staðnum, sem var reist af Bandaríkjamönnum í tengslum við flugvöllinn, aðrir gistu í skólahúsum þar i nágrenninu, slökkvistöðinni eða öðrum mannvirkjum, með hina var farið yfir fjörðinn til Brattahlíðar, þar sem gist var í tjöldum og farfuglaheimilum. Danska drottingarskipið, Dannebrog, var í höfn og þar gistu þau Margrét og Hinrik auk Ólafs Ragnars. Þrír danskir ráðherrar gistu í þyrluskipinu Thetis og margir Grænlendingar bjuggu í skipum og bátum í höfninni og úti á firðinum. Talið er að nálægt 3000 manns hefðu verið þarna á svæðinu, þegar flest var en um 2000 á hátíðinni í Brattahlíð. Hátíðin hófst klukkan 14.00 laugardaginn 15. júlí og vorum við ferjuð yfir fjörðinn á smáskipum eða öðrum fleytum en þennan dag fékk ég far á Zodiac-gúmmibát, sem Árni Johnsen átti þarna. Vorum við um átta mínútur að skjótast yfir fjörðinn á milli jakanna. Upphaf hátíðahaldanna fólst í því að tekið var á móti áhöfninni á Íslendingi í Brattahlíð, var henni vel fagnað. Er engum blöðum um það að fletta, að siglingin vekur mikla athygli og snerti það strengi í brjóstum okkar allra Íslendinganna, að verða vitni að hinum hlýju móttökum og fá að taka þátt í þeim. Síðan gengum við upp í hlíð fyrir ofan staðinn, þar sem afhjúpuð var stytta af Leifi Eiríkssyni, gefin af fólki í Seattle í Bandaríkjunum, sem helgar sig minningu Leifs. Við þessa athöfn flutti ég ásamt Lise Lennert menntamálaráðherra Grænlendinga og afhentum við þar nýja bók, glæsilega myndskreytta skáldsögu um Leif heppna fyrir unglinga, sem Námgagnastofnun lét vinna í samvinnu við Grænlendinga og hefur verið gefin út á grænlensku, dönsku og íslensku. Höfundar texta eru Jóhanna Karlsdóttir og Leif Aidt en myndir í bókinni eru eftir Jette Jörgensen. Flutti Íslendingur bækurnar yfir hafið og fengu þau hvert sitt eintakið Margrét Danadrottning, Ólafur Ragnar Grímsson og Jonathan Motzfeldt. Heyrði ég síðar á drottningunni, að hún hafði gefið sér tíma til að lesa bókina og fór fögrum orðum um hana. Hafa komið fram óskir um, að bókin verði einnig til á ensku. Að morgni sunnudagsins 16. júlí afhenti Árni Johnsen, formaður bygginganefndar, Jonathan Motzfeldt Þjóðhildarkirkjuna endurreista, það er kirkjuna, sem Þjóðhildur kona Eiríks rauða reisti í Brattahlíð, þegar hún tók kristni. Einnig afhenti Árni endurgerðan bæ Eiríks rauða. Setja þessi tvö hús góðan svip á staðinn enda vel úr garði gerð af starfsmönnum Ístaks. Voru fluttar margar ræður af þessu tilefni og efnt til andagtar með þátttöku fjölmargra biskupa þar á meðal herra Karls Sigurbrjörnssonar, sem afhenti kirkjunni klukku og Biblíu að gjöf. Að athöfnunum loknum var snæddur hádegisverður undir beru lofti og bornar fram góðar veitingar. Um kvöldið bauð grænlenska landstjórnin til mikillar veislu í stærsta skýlinu við flugvöllinn og hafði það verið glæsilega skreytt af Sigurjóni Jóhannssyni leikmyndahönnuðar. Við þurftum að vakna um klukkan 5 mánudaginn 17. júlí til að vera komin nægilega tímanlega að Görðum, þar sem var biskupssetur norrænna manna á Grænlandi. Sigldum við nokkur saman með lögreglubátnum í um 30 mínútur og síðan var okkur ekið sitjandi flötum beinum á hörðum dráttarvélarvagni í álíka langan tíma yfir grýttann háls, var ekki þægilegt fyrir biskupana að halda á hempum sínum við þessar aðstæður en allt blessaðist þetta og var efnt til hátíðlegrar messu á rústum dómkirkjunnar í Görðum, að henni lokinni var boðið til glæsilegs hádegisverðar undir berum himni. Síðan héldum við sömu leið til baka og klukkan klukkan 21.20 flugum við af stað heim með þotu fæeryska félagsins Atlantic Airways og tók ferðin heim tæpa tvo tíma, þannig að klukkan var farin að ganga tvö, þegar lent var á Reykjavíkurflugvelli, en klukkan á Grænlandi er tveimur tímum á eftir okkar. Alla dagana var veðrið með eindæmum gott og áttar maður sig á því eftir þessa ferð, að það var ekki aðeins auglýsingamennska hjá Eiríki rauða að kalla Grænland Grænland, því að landið stendur vel undir því nafni á þessum slóðum, þótt stutt sé niður á klöppina og ísjakar fljóti um firði. Þessi ferð hverfur þeim aldrei úr minni, sem fengu tækifæri til að taka þátt í henni. Þegar ég lít til baka vekur ekki síst aðdáun, hvernig Grænlendingar stóðu að öllu skipulagi, hvernig þeir gátu látið þriggja daga hátíðahöld á þremur stöðum ganga upp með þessum glæsibrag, þótt flytja þyrfti menn og vistir á bátum og litlum bílum eða dráttarvélum. Vissulega höfðu þeir gæfuna með sér með hinu góða veðri en allt hefði haft annan blæ, ef sólin hefði ekki skinið svo skært og heitt, að helst var ástæða til að óttast sting af hennar völdum eins og flugnanna. Sumir fengu slæm bit eða brunnu í andliti en allir voru glaðir og hamingjusamir yfir að fá að fagna á þennan hátt með Grænlendingum. Hlutur okkar Íslendinga í þessum hátíðahöldum var ekki lítill, hvorki þegar litið er til fjölda þeirra, sem sóttu þau, né aðildar að undirbúningi þeirra og framkvæmd. Þarna voru einnig margir víkingar, sem efndu til hátíðar undir forystu Fjarðarkrárinnar. Ingvi Guðmundsson myndhöggvari vann með tveimur starfsbræðrum að því að höggva Eirík rauða í þann harðasta stein, sem Ingvi sagðist hafa kynnst, og voru þeir að leggja síðustu hönd á verkið, þegar við heimsóttum þá skömmu fyrir brottförina. Verður 13 tonna höggmyndin varanlegur minnisvarði við flugvallarleiðina í Narsarsuaq. Er ekki vafi á því, að þessir dagar eiga eftir að ylja okkur öllum, sem fengum að njóta þeirra, um hjartaræturnar um ókomin ár. Þeir styrkja einnig böndin milli þeirra, sem tóku þátt í þeim með hinn vestnorræna samstarfsanda í brjóstum og sýnir þeim, að eyþjóðirnar þrjár við Norður-Atlantshaf hafa enn þann dag í dag markverðu hlutverki að gegna í samfélagi þjóðanna.