26.6.2000

Skírnisgreinar um veiðigjald, íslensk tunga og Sovéttengsl

Við fórum í viku til Spánar og nutum þess að vera á ströndinni í smábæ skammt frá Marbella á Costa del Sol. Veðrið var einstaklega gott, sól en ekki of heitt, fengum við þangað fréttir af seinni stóra jarðskjálftanum. Hafði ég ekki tekið frí á þessum slóðum síðan árið 1997, þegar við vorum þarna einnig í eina viku. Tími gafst til að lesa ýmislegt, meðal annars nýtt hefti af Skírni, spjaldanna á milli.

Í Skírni er grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson og nefnist hún: Rökin fyrir veiðigjaldi: Greining og gagnrýni. Í greininni fer Hannes Hólmsteinn í gegnum röksemdafærslu þeirra, sem eru talsmenn veiðigjalds í umræðunum um stjórn fiskveiða og kvótakerfið.

Undir lok greinar sinnar spyr Hannes Hólmsteinn: Hvernig stendur á því, að veiðigjald nýtur fylgis ýmissa gáfaðra og góðviljaðra manna, þar á meðal nokkurra virtra hagfræðinga? Hann segir, að ein ástæðan kunni að vera sú, að veiðigjaldssinnar hafi ekki hugsað málið nógu vel, ekki seilst nógu djúpt, ekki skyggnst nógu víða.

Meginröksemdir Hannesar Hólmsteins gegn veiðigjaldi eru allar málefnalegar og studdar fræðilegum rökum úr lögfræði og hagfræði. Lokaniðurstaða hans er sú, að sumir gáfaðir og góðviljaðir menn hafi aðhyllst veiðigjald þrátt fyrir ærin rök gegn því, vegna þess að sósíalisminn, andstaðan við einkaeignarrétt á fjármagni, ekki síst náttúruauðlindum, eigi sér enn bólstað í hjörtum margra Íslendinga. Sósíalisminn spretti upp, þegar farið sé inn á ótroðnar slóðir, þótt dýrkeypt reynsla hafi vissulega veikt hann í almennum umræðum um ríkisrekstur og þjóðnýtingu.

Eftir að hafa lesið grein Hannesar Hólmsteins hallast ég að því, að þessi pólitíska röksemd vegi þyngst að lokum í deilunum um kvótamálið. Spurningin snúist ekki um réttlæti eða ranglæti á heimspekilegum, hagfræðilegum eða lögfræðilegum forsendum, heldur snerti hún sjálfan kjarnann í stjórnmálaágreiningi milli þeirra, sem trúa á forsjá ríkisvaldsins á kostnað einstaklingsfrelsis annars vegar, og hinna, sem vilja frelsi einstaklingsins sem mest.

Í Skírni er einnig grein eftir Magnús Þór Þorbergsson í tilefni af 50 ára afmæli Þjóðleikhússins og heitir hún: Musteri tungunnar. Þar er meðal annars að finna þessa tilvitnun í grein eftir Harald Björnsson leikara frá árinu 1941: % %Í hinum fullkomnu og fögru húsakynnum ríkisleikhússins, með stórkostlega bættum vinnuskilyrðum, myndi list hins fagra íslenska máls hljóma í meiri og fullkomnari fegurð, en verið hefir til þessa á leiksviði Íslands. Á ríkisleiksviði hverrar þjóðar er móðurmálið ætíð talað hreinast og fegurst. % %

Ég efast um, að nokkur myndi taka þannig til orða nú á tímum, að það sé hin besta trygging fyrir því, að hrein og fögur íslensk tunga sé töluð í íslensku leikhúsi, að það sé ríkisrekið. Ég heyri að minnsta kosti ekki þá gagnrýni á leikhús, sem ekki eru ríkisrekin, að þar sé töluð lakari íslenska en í hinum. Raunar hafði vinur minn Kristján Albertsson, sem ég vitnaði til í ræðu minni á 50 ára afmælishátíð Þjóðleikhússins, á orði við mig, þegar hann var farinn að eldast, að sér þætti sá ókostur helstur við að fara í Þjóðleikhúsið, að leikararnir hefðu ekki nógu skýran og sterkan framburð. Vildi hann ekki viðurkenna, að með þessari gagnrýni væri hann að játa á sig daprari heyrn en á yngri árum!

Ekkert ríkisfyrirtæki flytur meira af íslensku máli en Ríkisútvarpið, en í lögum þess segir skýrum stöfum, að það skuli leggja rækt við íslenska tungu. Í 1062. þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu, sem birtist 17. júní 2000, segir Gísli Jónsson meðal annars í lok ádrepu á málfar Ríkisútvarpsins: % %Og það er best ég segi það eins og er, að mér þykir málfar á fréttastofu Stöðvar 2 betra en Ríkisútvarpsins, þó hnökralaust sé það ekki. % %

Það er ekkert í ríkisrekstri, sem tryggir að ríkistarfsmenn fari betur með íslenska tungu en þeir, sem starfa hjá einkaaðilum. Þannig er heldur engin trygging í því fólgin, að betur verði farið með fiskstofna umhverfis landið, ef ríkið aflar meiri tekna með veiðigjaldi vegna þeirra, veiðigjaldið veitir ekki heldur neina tryggingu fyrir því, að sátt náist um kvótakerfið. Gjaldið mundi gleðja þá, sem heimta það, en valda deilum á nýjum forsendum. Krafan um veiðigjald, eins og það er sett fram af helstu talsmönnum þess, virðist er sprottið af sjónarmiðum, sem snúast að öðrum þræði um öfund, en hún hefur jafnan verið ríkur þáttur í stjórnmálastefnu sósíalismans, það verði að koma í veg fyrir, að einn hafi það betra en annar og hlutverk ríkisins sé að jafna muninn með því að seilast í vasa hins ríka og færa til hins fátæka.

Í fríinu las ég ævisögu Max Frankels, sem var blaðamaður og síðar ritstjóri The New York Times. Hann er gyðingur að uppruna og flúði með móður sinni til Bandaríkjanna í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar, en faðir hans hraktist til Sovétríkjanna undan nasistum og komst ekki þaðan fyrr en að stríðinu loknu. Frankel var fréttamaður fyrir blað sitt í Moskvu, þegar Nikita Krútsjoff var upp á sitt besta í lok sjötta áratugarins, Spútnikinn var að koma til sögunnar og Bandaríkjamenn fylltust tæknilegri minnimáttarkennd gagnvart Rússum og Krútsjoff hrópaði til þeirra, að Rússar myndu grafa þá, því að þeir ætluðu að vinna efnahagslega og tæknilega kapphlaupið. Við vitum nú hvílík blekking þetta allt var. Frankel fylgdist einnig með því sem blaðamaður á Kúbu, hvernig marxistar og kommúnistar náðu tökum á Fidel Castró og hann gerðist einn af þeim fyrir um það bil 40 árum og situr enn við völd í gjaldþrota ríki sínu undir merkjum sósíalismans.

Það er von, að í samtímanum gangi menn ekki fram undir merkjum sósíalismans í lýðfrjálsum löndum til að afla sér fylgis heldur kjósi að færa málstað sinn í annan búning, þótt gríman falli fljótt þegar á reynir. Helsta einkenni sósíalismann er, að betra sé að láta fé almennings renna um hendur stjórnmálamanna með aukinni skattheimtu heldur en treysta fólkinu sjálfu fyrir aflafé sínu. Þeim mun meira sem þetta aflafé verður því ríkari ástæða sé til að herða skattatökin eða búa til nýja skatta.

Þessum augum er nauðsynlegt að líta umræður um veiðigjald, svo að krafan um að það sé tekið upp sé örugglega skoðuð frá öllum hliðum. Ég sit enn þann dag í dag á fjölþjóðlegum ráðherrafundum, þar sem ráðherrar úr röðum sósíalista segjast ekki skilja ráðleggingar sérfræðinga, innlendra sem erlendra, sem segja, að skynsamlegra sé að innheimta gjöld af þeim, sem nota opinbera þjónustu, en hækka almenna skatta til að standa undir henni. Þessir stjórnmálamenn spyrja einfaldlega, hvers vegna eigi ekki að treysta þeim fyrir því að forgangsraða á þeim forsendum, sem þeir telja skynsamlegastar, og þar með einnig að taka þá skatta af fólki, sem þeir telja hæfilega til að ná þeim markmiðum, sem þeir setja þjóðfélaginu.

Grein Hannesar Hólmsteins í Skírni um veiðigjaldið ætti að vera upplýsandi fyrir alla, sem vilja kynna sér röksemdir með og á móti gjaldinu, þótt hann taki skýra afstöðu gegn því, dregur hann þó fram röksemdir með og á móti. Hið furðulega í málinu er þó, að það er mjög erfitt að henda reiður á, hvað stendur á bakvið hugtakið veiðigjald hjá þeim, sem helst ræða nauðsyn þess, því að þeir láta það oftast liggja á milli hluta, enda sýnist ekki ríkja neinn einhugur um það meðal þeirra, sem telja gjaldið geta orðið smyrsl á sár kvótadeilnanna.

Jón Ólafsson, framkvæmdastjóri Hugvísindastofnunar við heimspekideild Háskóla Íslands, fjallar í Skírni um Sovéttengsl sósíalista á Íslandi og veltir fyrir sér, hvaða hagsmuni þeir voru að verja, og hvaða staðreyndir skipti máli, þegar um tengslin er fjallað. Hann skiptir þeim í tvo hópa, sem fjalla um tengsl kommúnista á Íslandi við Moskuvaldið. Annars vegar séu þeir, sem í raun haldi áfram gömlum deilum í stað þess að auka skilning á þeim eða staðreyndum þeirra, það er þeir, sem líta á kommúnista á Íslandi sem handbendi Moskvuvaldsins og tengslin beri að skoða út frá þeim sjónarhóli. Hins vegar séu þeir, eins og Jón Ólafsson sjálfur, sem starfi í samræmi við nýjustu heimildir og vinnubrögð þeirra sagnfræðinga, sem helst hafi getið sér orð á sviði sovétsögu og sögu kalda stríðsins. Óvenjulegt er að menn slái sjálfa sig til riddara með þessum hætti í opinberum umræðum um sagnfræðileg efni, einkum þau, sem eru okkur jafnnærri í tíma og þau, sem hér um ræðir.

Þegar ég les rök Jóns Ólafssonar fyrir því, að hann hafi rétt fyrir sér en hinir rangt, sannfæra þau mig ekki, enda hef ég annað sjónarhorn en hann og hef fjallað um þessi mál á öðrum forsendum en rýna í gömul skjöl. Kjarninn í kenningu Jóns er sá, að hagsmunirnir, sem leiðtogar sósíalista á Íslandi vildu ekki fórna, hafi verið möguleiki flokks þeirra til að hafa áhrif á viðskipti Íslands og Sovétríkjanna frekar en beinn fjárhagslegur ávinningur þeirra sjálfra eða flokks þeirra af sambandinu við Moskvu. Að mati Jóns eru verslunarviðskipti landanna tveggja aðalatriðið, sem hafa beri hugfast, þegar Sovéttengsl kommúnista á Íslandi eru skilgreind.

Hvers vegna ber að skilgreina samband Moskvuvaldsins við kommúnista á Íslandi með öðrum hætti en við skoðanbræður þeirra í heimsvaldakerfi kommúnismans annars staðar í veröldinni? Hvers vegna má ekki nota sömu mælistiku um þennan þátt sögunnar gagnvart Íslandi og öðrum löndum? Mér finnst Jón Ólafsson ekki færa nein rök fyrir því. Vilji hann ekki skipa sér í flokk með okkur, sem skilgreinum tengsl kommúnista hér við yfirboðara sína í Moskvu með sömu aðferðum og almennt er beitt, þarf hann að benda á annað en verslunarviðskiptin.

Ég hef ritað töluvert um þessi viðskipti Íslands og Sovétríkjanna. Meginniðurstaða mín er sú, að viðskiptin hafi orðið helsta skjól Sovétmanna sjálfra og þar með innlendra erindreka þeirra til að hafa áhrif innan íslenska stjórnkerfisins og viðskiptalífsins, langt út fyrir það, sem eðlilegt var miðað við umfang og eðli viðskiptanna. Byggist þessi niðurstaða mín meðal annars á þeim harkalegu viðbrögðum, sem urðu jafnan á áttunda og níunda áratugnum, þegar ég vakti máls á því í mörgum greinum í Morgunblaðinu, hvort ekki væri tímabært að endurmeta gildi viðskiptanna við Sovétríkin. Gæslumenn viðskiptanna í sovéska sendiráðinu gátu kippt í spotta á ólíklegustu stöðum og þeir hikuðu ekki við að segja viðmælendum sínum að gagnrýnisraddir á Sovétríkin gætu haft hinar hörmulegustu afleiðingar fyrir þróun viðskiptanna og komið Íslendingum illa í koll. Að sjálfsögðu var það mikilvægt fyrir kommúnista og sósíalista á Íslandi, að Sovétmenn gætu talað með þessum hætti við íslenska áhrifamenn.

Þeir, sem kynna sér viðskiptasöguna við Sovétríkin, sérstaklega upphaf hennar, sjá, að þar áttu aðrir Íslendingar meiri hlut að máli en kommúnistar eða sósíalistar, hins vegar varð mikilvægi viðskiptanna fljótt helsta skjól kommúnista og sósíalista til að réttlæta náin tengsl sín við Sovétríkin og þessi réttlæting þeirra dugar þeim út yfir gröf og dauða Sovétríkjanna eins og niðurstaða Jóns Ólafssonar sýnir.

Málsvarar Sovétviðskiptanna voru alls ekki allir sósíalistar eða kommúnistar og ekki var unnt að saka þá um þjónkun við Moskvuvaldið, þvert á móti fólst styrkur þeirra margra í því, að þeir voru einlægir og yfirlýstir andstæðingar heimsvaldastefnunnar í Moskvu og gerðu sitt til að sporna gegn henni í harðri andstöðu við kommúnista á Íslandi eins og annars staðar. Það sýnir hins vegar best, að hráskinnaleikur kommúnista hefur dugað þeim vel, ef það er nú talið afsaka náin tengsl þeirra við Moskvuvaldið, að þeim var annt um verslunarviðskiptin. Einar Olgeirsson kallaði þessi viðskipti stundum líftaugina, hann leit á þau, sem taugina, sem hélt lífi í tengslunum við Sovétríkin, auðveldaði honum að rökstyðja þau án þess að vera beinlínis sakaður um Sovétþjónkun og viðskiptin auðvelduðu auk þess að flytja fé frá Moskvu til skoðanabræðra þeirra á Íslandi. Viðskiptin duga hins vegar ekki til að beita annarri mælistiku á kommúnista á Íslandi en í öðrum vestrænum Evrópulöndum, þegar lagt er mat á kalda stríðið og viðleitni Moskvuvaldsins til að koma ár sinni fyrir borð með stuðningi við hirðmenn sína um hinn frjálsa heim.