18.6.2000

MBA-nám - þjóðhátíðarskjálfti

Nokkrar umræður hafa orðið undanfarna daga vegna þeirrar ákvörðunar háskólaráðs, að í Háskóla Íslands skuli gefast tækifæri til að stunda MBA-nám í samvinnu viðskipta- og hagfræðideildar og Endurmenntunarstofnunar skólans. Umræðurnar eru vegna þess að innheimt verða skólagjöld vegna námsins eins og gert er alls staðar, þar sem slíkt nám er í boði, ef marka má grein í Morgunblaðinu í dag eftir einn af kennurum í deildinni.

Það eru helst forystumenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem beita sér gegn þessari ákvörðun háskólaráðs og tala þar væntanlega fyrir hönd umbjóðenda sinna, en enginn úr þeirra hópi, er þó gjaldgengur í þetta MBA-nám, því að reglan um það er sú, að menn verða að hafa starfað á vinnumarkaði í nokkur ár að loknu háskólaprófi, til þess að geta innritað sig í MBA-námið, enda er þar um starfstengt nám að ræða. Síðan eru það nokkrir stjórnmálamenn á vinstrikanti stjórnmálanna, sem hafa snúist gegn þessari nýskipan. Stóðu þeir þó að því á alþingi, þegar háskólalög voru samþykkt, að þar var einkareknum háskólum heimilað að innheimta skólagjöld, auk þess sem gert er ráð fyrir gjaldtöku vegna endurmenntunar, eins og verið hefur.

Ég átta mig ekki á því til fulls, hvað andstæðingar MBA-námsins hyggjast gera vegna þess, sérstaklega þegar þeir láta í veðri vaka, að hið eina, sem skorti, sé aukafjárveiting til að greiða kostnaðinn við þetta nám. Er það í raun svo, að þingmönnum þyki sjálfsagt, að skattgreiðendur taki að sér að kosta þetta sérhæfðu, starfstengdu endurmenntun? Hvað með aðra endurmenntun?

Hinn 17. júní fór ég í Þingvallakirkju og flutti þar stólræðu á kristnihátíð kirkjunnar, birti ég hana á ræðusíðunni minni, eins og ég ætlaði að flytja hana, en því miður gleymdi ég síðasta blaðinu heima, þar sem er niðurlag þjóðhátíðarkvæðis Tómasar Guðmundssonar, sem hann flutti á ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar á Þingvöllum 1974.

Kirkjan var þéttsetin og ánægjulegt að vera á Þingvöllum í fögru veðri, fórum við síðan með nokkrum góðum vinum og fengum okkur kaffi í Valhöll, og þar sátum við klukkan 15.40 til 15.45, þegar tveir stórir jarðskjálftar gengu yfir og allt lék á reiðiskjálfi. Af nokkrum jarðskjálftum sem ég hef fundið voru þessir þannig, að mér hefur aldrei þótt ég jafnberskjaldaður gegn slíkum náttúruhamförum. Við sátum þó áfram og hlupum ekki frá veisluborðinu, þótt allt nötraði og ljósakrónur sveifluðust á sama tíma og bylgur fóru um gólfið. Sá ég ekki að neinn tæki á rás út á hlað vegna hamfaranna. Er tilfinning varnarleysis erfiðust við þessar aðstæður, því að maður er augljóslega á valdi afla, sem ekki er unnt annað en hlýða og geta valdið miklu tjóni, ef svo ber undir. Þröstur, bílstjóri minn, var úti í bíl og sagði að hann hefði skekist og nötrað, hann hefði verið að tala við móður sína í Reykjavík í síma og hefði hún fundið skjálftann skömmu eftir að hann gekk yfir Þingvelli.

Frá Þingvöllum fórum við í Þjóðmenningarhúsið, þar sem Halldór Blöndal, forseti alþingis, opnaði glæsilega sýningu, Kristni í 1000 ár. Sannaðist þar enn að með sýningarstarfi sínu undir forystu Guðmundar Magnússonar, mótar Þjóðmenningarhúsið nýjan mælikvarða. Eru þetta sýningar með svo miklum upplýsingum, að unnt er að verja löngum stundum til að kynna sér þæt til hlítar, jafnframt eru skrár með þeim hætti, að til fyrirmyndar er. Á sýningunni er dregin upp glögg mynd af höfðudráttum kristnisögunnar.