12.6.2000

Stækkun ESB - Danir og ESB

Forsíða vikuritsins The Economist sýnir að þessu sinni mynd af fulltrúum
þeirra þjóða, sem æskja aðildar að Evrópusambandinu, hlaupa með trjádrumb
að harðlæstri aðildardyr sambandsins í því skyni að brjóta hana upp.
Fyrirsögn forsíðunnar er þessi: Aðildarríki árið 2005, snertið tré.
Forystugreinin um málið heitir: Aðilar árið 2005? og hún hefst á þeim
orðum, að fyrir þremur árum hefði Jacques Chirac, forseti Frakklands, sagt,
að Pólland yrði orðinn aðili að Evrópusambandinu (ESB) árið 2000. Hann
vonaði, að sama mætti segja um Tékkland og einnig Ungverjaland. Nú hefði
Chirac hætt að tala á þennan veg og hið sama ætti við um aðra leiðtoga
innan ESB. Það væri ekki lengur neinn áhugi á því að stækka klúbbinn og
kannski kviknaði hann ekki aftur. Þótt 10 ár væru liðin frá hruni
kommúnismans, væri alls ekki á næsta leiti, að fjölgaði í ESB með nýjum
aðildarríkjum. Telur The Economist, að enginn geti fagnað þessari þróun. Nú
segist ESB geta tekið á móti nýjum aðilum árið 2003, en það þýði ekki
endilega að þeir fái aðild þá. Sex af 13 umsóknarríkjum óskuðu eftir
staðfestingu á því í síðustu viku, að aðildardyrnar yrðu í raun opnaðar
árið 2003. Telur blaðið, að þeir muni ekki fá hana, því að ríkisstjórnir
ESB tali um það í hálfum hljóðum sín á milli að kannski komi til þess árið
2005 eða 2006.

The Economist telur þrjár ástæður fyrir þessari afstöðu innan ESB. Í fyrsta
lagi taki ríkisstjórnir Þýskalands og Austurríkis mið af ótta íbúa landa
sinna við frelsi Austur-Evrópubúa til að fara að vild um ESB-svæðið. Í öðru
lagi sé ESB að leita leiða til þess að koma í veg fyrir hrun stofnana sinna
undan álaginu við fjölgun aðildarríkja. Í þriðja lagi vilji
framkvæmdastjórn ESB, að nýju aðildarríkin hafi svo til að fullu lögfest
allan Evrópuréttinn og hrundið honum í framkvæmd, áður en þau fá aðild.
Segir blaðið, að unnt sé að fullnægja öllum þessum skilyrðum en til þess
þurfi meiri pólitískan vilja en nú sé fyrir hendi. Skynsamlegt sé að miða
við það að bandalagsdyrnar verði opnaðar árið 2005.

Ég vek athygli á þessu hér til að minna á þá óvissu, sem er enn um
framtíðarþróunina í Evrópusambandinu, hvað sem líður skoðunum manna hér á
landi, sem töldu þegar fyrir nokkrum árum, að við Íslendingar hefðum misst
af Evrópulestinni. Svo er að sjálfsögðu ekki. Í raun uppfyllum við öll
skilyrði til aðildar frá sjónarhóli ESB og myndum leggja fé af mörkum í
sameiginlega sjóði þess. Við þurfum ekkert sérstaklega að berja á dyr ESB
til að vekja á okkur athygli. Það er alltaf að skýrast betur, að við höfum
rétt fyrir okkur, sem teljum ótímabært, að taka það á dagskrá sem sérstakt
viðfangsefni í íslenskum stjórnmálum, hvort sækja eigi um aðild að ESB eða
ekki. Hvers vegna á að hefja á þessari stundu deilur um málefni, sem er
ekki betur þroskað en þessi lýsing The Economist gefur til kynna? Málefni,
sem kynni að kljúfa þjóðina í hatrammar fylkingar að ástæðulausu, því að
ekki er unnt að leggja öll spil á borðið, fyrr en ESB hefur mótað skýrari
stefnu um framtíð sína. Ég er til dæmis viss um að nýskipan stofnanamál ESB
og afstaða þess til varanlegra undanþága frá Rómarsáttmálanum mun mjög móta
skoðanir okkar á aðild. Líkur á undanþágum aukast ekki, ef stefnan er sú að
gera umsóknarríkjunum lífið sem leiðast og tefja fyrir samningum við þau.

Ég fór til Kaupmannahafnar í síðustu viku og sat fundi norrænna
menningarmálaráðherra og menntamálaráðherra. Er ljóst, að töluverð spenna
er í Danmörku vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem verður þar 28. september
um aðild að evrópska myntsamstarfinu (EMU). Andstæðingar aðildar hafa betur
núna samkvæmt könnunum. Er margt sem stuðlar að því. Má fyrst nefna
afstöðuna til ríkisstjórnarinnar í Austurríki og á Poul Nyrup Rasmussen
undir högg að sækja fyrir að hafa tekið þátt í því að vilja einangra
auturrísku ríkisstjórnina innan ESB. Vitað er að sósíaldemókratar innan ESB
beittu sér sérstaklega í þessu máli, þótt margir þeirra vilji ekki
viðurkenna það núna, þegar málið verður sífellt vandræðalegra vegna þess að
almenningur á erfitt með að skilja, hvers vegna á að setja þjóð í bann
innan lýðræðislegs ríkjasamstarfs fyrir niðurstöðu í lýðræðislegum
kosningum. Sérstaklega er vakin athygli á því, hve þessi afstaða er
andkannaleg fyrir ríkisstjórn Frakklands, sem er með kommúnista innan
borðs, fulltrúa flokks, sem í áratugi vann leynt og ljóst að því að grafa
undan lýðræðislegum stjórnarháttum í Evrópu og tók alltaf upp vörn fyrir
ódæðisverk Moskvuvaldsins. Hver man eftir því, að hafi orðið uppi fótur og
fit í Brussel vegna þess að kommúnsitar sitja í stjórn Frakklands? Eru
fjölmiðlar að eltast við þessa menn og grafa upp stuðningsyfirlýsingar
þeirra við ráðamenn í Moskvu? Loks sjá Danir, að þeim hefur sjaldan eða
aldrrei vegnað betur efnahagslega en utan EMU og spyrja sig að sjálfsögðu
að því, hvaða ávinning þeir hafi af því að ganga inn í þetta samstarf.

Hér skal engu spáð um framvindu þessara mála í Danmörku en á sínum tíma
felldu Danir aðild að Maastricht-samkomulaginu og gengu síðan aftur til
þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykktu aðildina.

Á þessum fundum gafst mér tækifæri til að ræða stöðu Álandseyja innan ESB
og hug Álendinga til sambandsins. Dreg ég þá ályktun af þeim samræðum, að
ESB-aðildin njóti ekki mikils stuðnings á eyjunum og raunar blöskri
almenningi þar að þurfa að standa í öllu því umstangi sem henni fylgir.
Hafa Álendingar lent í sérstökum hremmingum vegna þess að ESB er að hlutast
til um stórt og smátt og stendur nú til að leiða stjórnvöld eyjanna fyrir
Evrópudómstólinn vegna þess að þau fari ekki eftir evrópskum fyrirmælum um
baðstrandir. Álendingum var ekki annarrra kosta völ en ganga í ESB með
Svíum og Finnum, því að annars hefði fótunum verið kippt undan efnahagslífi
þeirra.

Í vikunni kom til mín Paola Zanuttni, blaðakona á la Republicca í Róm, en
hún var sendi hingað til að skrifa um land og þjóð, eftir að Björk vann til
verðlauna í Cannes. Eins og venjulega spurði blaðakonan um afstöðu mína til
ESB, sagði ég eins og væri, að enginn pólitískur þrýstingur væri hér á
landi um aðild. Ríkisstjórnin hefði það ekki á stefnuskrá sinni og þótt
menn efndu til umræðna um málið, væri það ekki pólitískt baráttumál hjá
neinum flokki, að Ísland gengi í ESB. Ég væri auk þess þeirrar skoðunar, að
aðild að EES reyndist okkur mjög vel og skilaði okkur góðum árangri, við
hefðum í raun ekkert meira að sækja til Brussel auk þess sem ESB væri orðið
of sósíalískt að mínu mati, kváði blaðakonan tvisvar, þegar ég notaði þetta
orð og virtist koma henni á óvart, að einhver hefði þessa skoðun.