4.6.2000

Fartölvuvæðing - almenn námsbraut - nýir háskólar

Tvö viðfangsefni í menntamálum hafa verið til nokkurrar umræðu undanfarið, fartölvuvæðing framhaldsskólanna og almenn námsbraut í framhaldsskólum. Ætla ég að fjalla um þau hér í þessum pistli auk þess sem ég lít nýrra háskóla.

Hugmyndinni um að allir framhaldsskólanemar í landinu eignist fartölvu og skólastarf þróist í samræmi við það.hreyfði ég fyrst á fundi með sveitarstjórnamönnum í Norðurlandi vestra á Siglufirði í ágúst 1999. Sagði ég þá strax, að hún byggðist á því, að nemendur keyptu tölvurnar. Ég heyrði einhvern vinstrisinna halda því fram í þættinum Silfur Egils sunnudaginn 28. maí, að nú væri svo komið, að ég hefði horfið frá því fyrirheiti mínu að allir nemendur fengju tölvurnar ókeypis! Væri þetta til marks um misheppnaða stefnumörkun stjórnmálamanns. Málflutningur af þessu tagi er svo sem eins og annað úr þessum herbúðum, menn gefa sér forsendur og ráðast síðan á andstæðinga sína fyrir að haga sér ekki í samræmi við þessar heimatilbúnu forsendur. Ég hef aldrei boðað að nemendur fengju ókeypis tölvur, þvert á móti alltaf tekið fram, að ætlunin væri að nemendur stæðu undir kostnaði við þessa eign sína en leitað yrði hagstæðustu tilboða hjá seljendum. Nú hef ég ákveðið, að markinu verði náð í áföngum og í haust eru þrír framhaldsskólar, sem ríða á vaðið, samstarfsskólar menntamálaráðuneytisins um þróun upplýsingatækni í skólastarfi, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi og Menntaskólinn á Akureyri. Hafa þeir þegar auglýst hvernig að þessu verkefni verður staðið gagnvart nemendum og er enginn skyldur til að eignast fartölvu, þótt hann sæki um vist í þessum skólum næsta vetur.

Hljóðvarp ríkisins tók málið upp í fréttatímum sínum fyrir nokkru og þar kom almennt fram sú skoðun, að menn litu á þessa tölvuþróun sem nýtt og spennandi tækifæri í skólastarfi. Kom hún mér ekki á óvart, því að sama sjónarmið hafði komið fram í viðræðum mínum við nemendur og kennara um land allt á liðnum vetri. Er greinilega góður jarðvegur í skólunum fyrir því að fara þessa leið í tölvuvæðingu þeirra og skólastarfsins almennt. Vandi okkar í málinu er meðal annars sá, að með því að móta þessa stefnu á þessum tíma erum við á undan þróuninni að því leyti, að þessi tækni hefur ekki náð almennri fótfestu neins staðar, þótt tilraunir bendi til þess að hún verði ráðandi við tölvuvæðingu skóla, þegar fram líða stundir, og hún sé í samræmi við þá þróun, að tölvur og farsímar falli saman í eitt tæki, sem við höfum alltaf við höndina. Höfum við orðið varir við áhuga margra öflugra tölvufyrirtækja á samstarfi við okkur um framkvæmd þessarar stefnu, en tölvusalar hér heima fyrir hafa verið hikandi í viðbrögðum sínum og látið í ljós meiri efasemdir en þeir, sem líta á tölvuþróunina í stærra samhengi.

Fréttastofa hljóðvarps ríkisins hafði eðlilega samband við Elnu Katrínu Jónsdóttur, formann Félags framhaldsskólakennara innan vébanda Kennarasambands Íslands. Í viðtali við hana kom fram frekar neikvæð afstaða til málsins einkum á þeirri forsendu, að gert væri ráð fyrir því, að kennarar tækju þátt í kostnaði við kaup á þessu vinnutæki sínu. Er það rétt hjá Elnu Katrínu, að ekki hefur verið tekin ákvörðun um að afhenda kennurum slíkar tölvu til eignar endurgjaldslaust, hins vegar hefur ekki heldur verið tekin ákvörðun um hvaða kostnað kennarar skuli bera vegna þessa. Viðræður standa nú yfir við kennara um kjör þeirra og er að sjálfsögðu eðlilegt, að þáttur eins og þessi sé tekinn þar til umræðu, sé það ósk kennaranna og leitað verði eftir sameiginlegri niðurstöðu. Hitt er einnig hugsanlegt, að ákvarðanir um þennan þátt verði á forræði skólameistara innan einstakra skóla með hliðsjón af aðstæðum þar.

Að sjálfsögðu tekur tíma að hrinda hugmynd af þessu tagi í framkvæmd og það eru ekki einungis fjárhagslegir þættir, sem snerta kennara, faglegi þátturinn er ekki síður mikilvægur, en þeir, sem hafa kynnst kennsluháttum með hinni nýju tækni, segja, að hún krefjist nýrra vinnubragða og nýs viðhorfs kennarans. Hvort unnt er að jafna þessari breytingu við það, þegar tölvan var að ryðja sér rúms í prenttækninni, skal ég ekki segja, en þar þurftu margir reyndir setjarar og umbrotsmenn að laga sig að algjörlega nýjum starfsháttum. Kynntist ég því nokkuð á Morgunblaðinu, hvernig tekið var á þessum málum þar, en þau gengu vel fyrir sig vegna þess að prentarar sáu tækifæri í nýju tækninni og ákváðu að verða þátttakendur í að nýta hana en ekki leggjast gegn henni. Er nú svo komið hér á landi, að þróun náms í prent- eða upplýsingatækni, þykir til fyrirmyndar, og ein best ígrundaða og skipulagða nýja starfsnámsbrautin er einmitt í þessari grein.

Síðara málið snertir framkvæmd nýju námskrárinnar í framhaldsskólunum. Í pistlum mínum hér á síðunni hef ég gert nokkra grein fyrir fundum mínum í öllum framhaldsskólum landsins, þar sem ég ræddi bæði við nemendur og kennara. Leit ég á þessa fundi sem smiðshöggið af minni hálfu gagnvart gildistöku námskrárinnar. Voru fundirnir einstaklega gagnlegir og auðvelduðu úrlausn ýmissa viðkvæmra málefna, sem meðal annars snerta einstaka skóla og einstakar námsbrautir. Í fjölmiðlum var athyglinni mest beint að stöðu Verslunarskóla Íslands gagnvart nýju námskránni en að sjálfsögðu leystist það mál á farsælan hátt, enda alls ekki um það að ræða, að með námsrkánni væri ætlunin að kollvarpa því góða starfi, sem unnið er innan þess skóla, frekar en í öðrum skólum. Hefur skólanefnd VÍ og skólameistari þar lýst sérstakri ánægju með þá niðurstöðu, sem náðist í þessu máli.

Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands hefur í vetur boðið 15 eininga framhaldsnám í námskrárfræði og skólanámskrárgerð og lauk náminu föstudaginn 2. júní með námstefnu, sem efnt var til í samvinnu við Kennarasamband Íslands/Félag framhaldsskólakennara og menntamálaráðuneytið. Í þessu framhaldsnámi hafa 42 starfandi kennarar, námsráðgjafar og skólastjórnendur úr flestum framhaldsskólum landsins brotið nýju námskrána til mergjar. Var mér boðið að vera þátttakandi í pallorðsumræðum í lok námstefnunnar og þar skiptust menn mjög málefnalega á skoðunum um einstaka þætti. Skynjaði ég ekki annað en fólk væru almennt sátt við þann ramma, sem nýja námskráin setur. Bent var á þau atriði, sem við vitum, að ekki eru leyst með námskránni, eins og það, að háskólar sendi sem skýrust skilaboð til framhaldskólanna, nemenda og kennara, um hvaða áherslur þurfi að leggja í námi innan einstakra brauta framhaldsskólans til að nemendur njóti sín sem best í einstökum skorum eða deildum háskólanna. Einnig var vakið máls á þeirri staðreynd, að brottfall af framhaldsskólastigi er meira hér en annars staðar. Við höfum ekki fundið neinar leiðir, sem tryggja varnir gegn því, enda er ekki um patentlausn á vandanum að ræða. Þá gafst mér færi á að skýra það út, að ráðuneytið ætlar ekki að fylgja námskránni eftir inn í kennslustofurnar, hlutverk þess er að setja námskrána, veita leiðbeiningu við gerð skólanámskráa og huga að samræmingu, þar sem nauðsynlegt er, en framkvæmdin hvílir á einstökum skólum og að sjálfsögðu kennurunum.

Í tilefni af þessari námstefnu var rætt við Elnu Katrínu Jónsdóttur í Morgunblaðinu og af fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Þótti mér furðulegt, hvernig hún svaraði Morgunblaðinu 1. júní, þegar hún gerir lítið úr þeim ávinningi, sem er af nýju námskránni. Segir hún, að stærstu skilgreindu vandamálin, sem lagt var upp með hafi verið brottfall nemenda og of einhæft námsframboð. Brugðist hafi verið við þessu með því að stofna almenna námsbraut og efla starfsnám meðal annars með því að fjölga stuttum námsbrautum. Segir hún síðan, að í hvorugu hafi fengist viðunandi niðurstaða en á hinn bóginn hafi verið rituð löng og mikil námskrá, mjög miðstýrð, um almennt bóknám til stúdentsprófs, sem ef til vill hafi ekki verið brýn þörf fyrir! Í samtali við hljóðvarp ríkisins 2. júní gerir Elna Katrín síðan almennu námsbrautina tortryggilega og gefur til kynna, að framhaldsskólarnir viti ekkert, hvernig beri að útfæra hana, af því að þeir hafi fengið hana svo seint í hausinn, eins og hún orðar það. Gefur hún skyn, að nemendur og skólar séu verr settir núna en áður en nýja námskráin kom til sögunnar og ákvarðanir voru teknar um, að frá og með vorinu 2001 ráði nemendur því sjálfir, hvort þeir taka samræmt próf úr grunnskóla eða ekki, vegna þess að ekki sé búið að smíða áhugavert námsframboð fyrir þann hóp, sem lendir utan bóknámsbrauta eða starfsnáms og velur sér þess vegna almennu námsbrautina.

Ég velti því stundum fyrir mér, hvort forystumenn kennara telji sér skylt, að bregðast við á neikvæðan hátt, þegar spurt er um nýmæli í skólamálum, og draga upp þá mynd að mál standi jafnan frekar illa. Fyrirspurnir í pallborðsumræðunum báru þess ekki merki, að gagnrýnisatriði Elnu Katrínar væru ofarlega á dagskrá, enda er það kjarnaatriði við útfærslu almennu námsbrautarinnar, að hún sé sem mest í höndum skólanna til að tekið sé mið af nánasta umhverfi þeirra og stefnu skólans við útfærslu hennar. Markmiðið með námsbrautinni er að auðvelda þeim, sem ekki ljúka grunnskólanum með prófi, að fóta sig á framhaldsskólastiginu og fá tóm þar til að átta sig á því, hvort þeir stefni að starfsnámi eða bóknámi eða vilji ljúka einingum, sem almenna námsbrautin veitir. Líklegt er, að á almennu námsbrautinni þurfi að huga meira að þörfum hvers og eins nemanda en gert hefur verið í fornámi eða núll-áföngum til þessa. Er svo sem hægast að setja sig í þær stellingar fyrirfram, að þetta nýmæli sé dæmt til að mistakast, þar sem menntamálaráðuneytið hafi ekki lagt fram tillögur í einstökum atriðum um inntak þess, Það hafa hins vegar einstakir skólar þegar gert og hefur gott undirbúnings- og þróunarstarf verið unnið innan þeirra. Er sérkennilegt, að saka ráðuneytið annars vegar um miðstýringu vegna bóknámsins með útgáfu námskráa þar, og kvarta hins vegar undan skorti á slíkri stýringu varðandi almennu námsbrautina. Starfsgreinaráð eiga að gera tillögur um námskrár hvert á sínu sviði og er það verk misjafnlega á vegi statt eðli málsins samkvæmt.

Ef menn lesa nýju skólastefnuna, sem ég kynnti snemma árs 1998 og lögð var til grundvallar við gerð námskránna, sjá þeir, að áherslurnar eru nokkuð aðrar, en Elna Katrín gefur sér í Morgunblaðsviðtalinu. Markmiðin eru vel skilgreind í nýju skólastefnunni og ekki er unnt að ræða þetta mál í alvöru án þess að geta þeirrar staðreyndar, að nú hefur í fyrsta sinn tekist að móta námskrárramma um þrjú fyrstu skólastigin með samfellu og stígandi á milli þeirra. Barátta gegn brottfalli er auðvelduð með nýju námskánn en rannsóknir hafa sýnt, að hátíðlegar yfirlýsingar eða ýtarleg stefnumörkun ræður ekki brottfalli úr skólum eða dregur úr því. Þar vega aðrir þættir þyngra, ef unnt væri að stemma stigu við brottfalli með námskrá, hefði það verið gert fyrir löngu. Enginn, sem lítur á íslenska framhaldsskólastigið, getur haldið því fram með rökum, að námið þar sé einhæft. Fjölbreyttni og sveigjanleiki setur meiri svip á það en sambærileg skólastig annarra þjóða.

Miðvikudaginn 31. maí rituðum við fjármálaráðherra undir samning til þriggja ára við Háskólann í Reykjavík og laugardaginn 3. júní ritaði ég undir samning við Listaháskóla Íslands (LHÍ) til eins árs. Hér er um tvo einkarekna háskóla að ræða, sem hafa komið til sögunnar á síðustu árum. Er aðsókn að þeim meiri en unnt er að anna, þannig sækja til dæmis þrír nemendur um hvert sæti í LHÍ. Sannar það best, hve skólinn hefur mælst vel fyrir á fyrsta starfsári sínu, enda er starfað þar af miklum metnaði en nú tekur skólinn við nemendum Leiklistarskóla Íslands, sem verður lagður niður eftir 25 ára starf sem ríkisskóli. Háskólinn í Reykjavík sækir einnig fram af miklum krafti og er ekki vafi á því að námið, sem hann býður, höfðar sterkt til nemenda, ef þeir vilja láta að sér kveða í nýja hagkerfinu, því að nám í skólanum fellur vel að kröfum þess.

Smátt og smátt er það að síast inn í skólakerfið, að þar er nauðsynlegt að höfða til nemenda með nýjum hætti og skólarnir verða að leggja nokkuð á sig til að ná til þeirra, sem þeir vilja. Má til dæmis sjá þetta á auglýsingum skólanna. Urðu þessar auglýsingar fréttaefni í hljóðvarpi ríkisins 2. júní, þegar rætt var við Ólaf Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) , sem sagði að um 900 hefðu sótt um nám í skólanum, þar af 240 um framhaldssnám, en það verður í boði fyrir 140 nemendur næsta vetur. Með auglýsingum sínum var KHÍ að bregðast við aukinni samkeppni og nýju umhverfi í menntakerfinu, þar sem háskólum fjölgar og keppni um nýstúdenta eykst.

Innan skólanna eru menn einnig að átta sig á því, að fjármunir fylgja nemendum og þess vegna er mikilvægt að hafa kennara, sem kalla á sem flesta nemendur. Ég er þeirrar skoðunar, að í starfi skóla skipti mestu, að nemendur sannfærist um, að þeir fái gott nám á skömmum tíma á því sviði, sem þeir velja sér. Þess vegna muni þeir skólar eiga auðveldast með að fá nemendur, sem bjóða þeim markvisst og djúpt nám á sem skemmstum tíma. Skólar eigi því að leggja meiri áherslu á þennan þátt í starfi sínu en að þenja sig út og dreifa kröftunum.