28.5.2000

Library of Congress - Svanavatnið

Í þriðja sinn á einum mánuði hélt ég til Bandaríkjanna síðdegis mánudaginn 22. maí. Að þessu sinni var ferðin farin til að opna sýningu í Library of Congress (LOC) í Washington, það er bandaríska þjóðbókasafninu, sem er 200 ára og elsta sameiginlega menningarstofnun Bandaríkjamanna. Nýtur bókasafnið virðingar um heim allan og er öflugasta stofnun á sínu sviði á heimsmælikvarða. Er í raun ógerlegt að gera sér í hugarlund þá viðamiklu starfsemi, sem fer fram innan LOC en henni má kynnast á öflugri heimasíðu þess www.loc.gov. Í safninu eru til dæmis nokkur hundruð starfsmenn, sem hafa aðeins þann starfa að sinna bandarískum þingmönnum, en safnið er eins og nafn þess gefur til kynna hluti af Bandaríkjaþingi, þótt starfssvið þess sé í raun miklu víðtækara.

Einar Benediktsson, þáverandi sendiherra Íslands í Bandríkjunum og núverandi framkvæmdastjóri Landafundanefndar, á mestan þátt í því, að þau tengsl tókust við LOC, sem leiddu til þessarar einstöku sýningar á íslenskum handritum og gömlum bókum í helstu byggingu safnsins, sem er kennd við Thomas Jefferson. Þar er við anddyrið merkileg sýning um Jefferson en næstu vikur verður einnig unnt að skoða sýninguna frá Íslandi í sal við anddyrið, en þangað koma tugir ef ekki hundruð þúsunda gesta ár hvert, enda er byggingin með hinum glæsilegri í Washington og til dæmis ævintýri líkast að skoða hin mikla lessal safnsins í þessu húsi. Auk LOC standa bókasafnið í Cornell-háskóla, bóksafn Manitoba-háskóla og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn að þessari sýningu. Er ætlunin að hún fari síðar í háskólana tvo og líklegt er, að hún verði einnig sett upp í New York í nýjum húsakynnum American Scandinavian Foundation þar.

Dr. James Billington, yfirbókavörður LOC, er mikils metinn sérfræðingur í sögu Rússland. Hann flutti ræðu við upphaf athafnarinnar, þegar sýningin á íslensku handritunum og bókunum var opnuð. Þar var einnig Richard W. Riley, menntamálaráðherra Bandríkjanna, sem flutti einnig ávarp. Í lok ræðu minnar afhenti ég ráðherranum og yfirbókaverðinum sitt hvort eintakið af nýrri fimm-binda útgáfu Íslendingasagnanna á ensku. Síðar fór ég í George Washington-háskólann í Washington og gaf bókasafni skólans eintak af þessari útgáfu sagnanna. Þar með hófst afhending á allt að 650 eintökum af þessari bókagjöf til jafnmargra bandarískra bókasafna frá ríkisstjórn Íslands. Er ég þeirrar skoðunar, að þetta verði einn varanlegasti minnisvarðinn frá Íslandi um aldamótaárið í Bandaríkjunum. Bókaverðir í GW-háskólanum sögðu, að allir viðskiptavinir safns þeirra yrðu látnir vita um þennan nýja bókakost og þar með verða sögurnar kynntar fyrir þúsundum manna í þessum skóla einum..

Er ánægjulegt að segja frá sögunum og taka þátt í umræðum um þær í Bamdaríkjunum. Í tilefni af því að sýningin var opnuð efndu LOC og Cornell-háskólabóksafnið til tveggja daga málþings um sögurnar í Madison-byggingu LOC. Var sérfræðingum í Norður-Ameríku og Evrópu boðið til málþingsins og flutti ég ræðu við upphaf þess. Skírskotar það verulega til Bandaríkjamanna og Kanadamanna, að í sögunum skuli sagt frá fyrstu tengslum Evrópumanna við íbúa Norður-Ameríku og nú eru sérfræðingar í Kanada að draga fram í dagsljósið minjar, sem sýna, að tengsl norrænna manna við íbúa Norður-Ameríku takmarkast ekki við það, sem í sögunum stendur, heldur voru þau langvinnari eða jafnvel fram á 14. öld. Tengdi ég þessar nýju upplýsingar við þá kenningu Helga Guðmundssonar prófessors, að Grænlandsviðskiptin hafi skapað þann auð, sem gerði mönnum kleift að rita sögurnar á Íslandi.

Í þessari ferð minni gafst einnig tækifæri til þess að eiga fund með Richard W. Riley menntamálaráðherra í skrifstofu hans og ræða um menntamál, þróun þeirra og stöðu í Bandaríkjunu. Var það gagnlegt ekki síst þar sem forsetakosningar snúast mjög um þennan mikilvæga málaflokk. Sá tími er liðinn, að unnt sé að líta á skólamál með því hugarfari, að aðeins svonefndum sérfræðingum eða kennslufræðingum sé treystandi til að fjalla um þau. Æ meiri kröfur eru gerðar til stjórnmálamanna í umræðum um skólana og starfið innan veggja þeirra, enda hafa forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum lagt fram nákvæmar stefnuskrár um menntamál og láta gjarnan taka af sér myndir, þar sem þeir sitja á skólabekk með nemendum á öllum aldri. Stjórnmálamenn eru einnig kallaðir á vettvang til að flytja ræður við skólaslit og sagðist Riley nýkominn frá Boston, þar sem hann flutti ræðu á skólaslitahátíð Boston University. Riley er fyrrverandi þingmaður og síðar ríkisstjóri í Suður-Karólínu. Hann er fæddur 1933 og hóf þátttöku í stjórnmálum 1963 en árið 1992 skipaði Clinton hann menntamálaráðherra í ríkisstjórn sinni og síðan aftur við upphaf síðara kjörtímabils síns, þannig að Riley er nú að ljúka átta ára farsælum ráðherraferli, þar sem hann hefur beitt sér fyrir margvíslegum umbótum og nýjungum. Er hann einstaklega vingjarnlegur og skín góðsemin af honum en liðagigt hefur leitt til þess, að hann gengur hokinn. Hann hafði ekki aðeins áhuga á að ræða menntamál heldur vildi hann fræðast um Ísland og samskipti okkar við Bandaríkin, ekki síst á sviði öryggis- og varnarmála. Var ekki á honum að finna neinn vafa um nauðsyn þess, að þjóðir okkar ættu áfram náið samstarf á því sviði. Riley er ekki aðeins mikils metinn fyrir framtak sitt í menntamálum innan Bandaríkjanna heldur einnig á alþjóðavettvangi og lætur hann verulega að sér kveða í þeim efnum. Hlutur alríkisstjórnarinnar á þessu sviði ber eðlilega svip af því, að einstök ríki Bandaríkjanna fara með sín eigin mennta- og skólamál, þótt þau verði í ýmsum mikilvægum atriðum að hlíta alríkisreglum og eigi nokkuð undir fjárveitingum frá alríkisstjórninni.

Við komum heim aftur að morgni föstudagsins 26. maí og að kvöldi þess dags var Svanavatnið undir stjórn og í dansgerð Helga Tómassonar flutt af San Francisco ballettnum í Borgarleikhúsinu. Fullyrði ég, að þessi sýning gleymist þeim ekki, sem hana sáu. Minnti hún mig á fyrri stórar stundir á Listahátíð í Reykjavík, þegar einstakt tækifæri hefur gefist til að sjá eða heyra list, sem er túlkuð með þeim hætti, að allt annað gleymist og maður spyr sjálfan sig að því, hvað þurfi til, svo að unnt sé að gera hlutina með slíkum glæsibrag. Eitt er víst, að hjá ballettdönsurum þarf gífurlega mikið til að ná svo góðum árangri, það dugar ekki minna en helga sál og líkama listinni og lifa sig þannig inn í verkið, að hvergi skeiki í neinu og hver vöðvi hlýði á réttu sekúndubroti. Virðingin fyrir Helga Tómassyni verður ekki minni við að kynnast hógværð hans og einlægri virðingu fyrir viðfangsefni sínu. Þegar ég hitti hann síðdegis sunnudaginn 28. maí lýsti hann mikilli ánægju með dvölina hér og hve vel hefði gengið og hve sýningunum hefði verið vel tekið. Dansararnir væru í sjöunda himni og þeim þætti á undirtektum áhorfenda eins og þeir væru að dansa fyrir 2000 mann sal, svo mikið væri klappað. Þá sögðu samstarfsmenn Helga, að það væri ómetanlegt fyrir dansarana að fá tækifæri til að kynnast því, hvaðan Helgi væri kominn, það yki skilning þeirra á kröfum hans og viðhorfi. Raunar væru þeir að spyrja, hvort ekki mætti hafa það sem fastan lið í starfi flokksins að eiga hér viðdvöl!

Erfitt er að átta sig á því, hvenær listalífið nær hámarki á þessu mikla hátíðar- og menningarári og kannski ekki unnt að fyllyrða neitt um það, fyrr en í lok ársins. Mér finnst þó að einskonar hápunkti sé verið að ná einmitt þessa daga. Líklega geta þeir að minnsta kosti varla orðið fleiri en núna, sem láta að sér kveða undir merkjum lista og menningar, nær þátttakan allt frá leikskólum til Háskóla Íslands og spannar þar að auki vítt svið. Til dæmis heyri ég á þeim, sem áttu þess kost að sækja dagskrá um borgarskáld, þar sem Matthías Johannessen var í miðpunkti í samtali við Ástráð Eysteinsson bókmenntafræðing í hátíðarsal Háskóla Íslands, að tæplega verði betur gert á því sviði í bráð, enda hafi Matthías farið á kostum og ekki aðeins leyft fólki að njóta ljóða sinna með einstökum hætti heldur jafnframt opnað í áheyrendum skáldæð þeirra sjálfra, svo mikið var flugið.

Á listahátíð hefur athygli verið beint meira að byggingarlist en oft áður. Sýningin Öndvegishús er til marks um það og einnig sýning á garðhúsum á Kjarvalsstöðum. Garðhúsasýningin er frumleg, því að þar eru frægir arkitektar víða úr heiminum kallaðir til í því skyni að teikna garðhús, hús, sem menn hafa gjarnan reist sér eftir eigin brjósti úr kassafjölum eða öðru, sem til hefur fallið. Fékk ég tækifæri til að fara um sýninguna með Josef Paul Kleinhues frá Berlín, en hann hefur meðal annars verið í forystu við skipulag Berlínar eftir sameiningu hennar og var nú hér í fyrsta sinn ásamt ýmsum öðrum arkitektum úr fremstu röð.