21.5.2000

Listahátíð - R-listinn

Listahátíð í Reykjavík, hin 16. frá upphafi, hófst laugardaginn 20. maí og stendur fram til 8. júní. Þrjátíu ár eru liðin frá því að þessi hátíðahöld hófust og á tveggja ára fresti hafa menn numið staðar og gert sér margt til hátíðabrigða. Í setningarræðu hátíðarinnar minntist ég sérstaklega á Vladimir Ashkenazy, en hann er heiðursforseti hátíðarinnar, og var á fyrstu árunum mikill áhrifamaður um alla mótun hennar. Hann fékk hingað til lands marga fræga listamenn og fór í staðinn á hátíðir, þar sem þeir voru skipuleggjendur eða áhrifamenn. Væri í raun að æra óstöðugan að telja upp nöfn þeirra allra, sem hafa heimsótt okkur undir merkjum Listahátíðar í Reykjavík.

Enn þann dag í dag leggja menn töluvert á sig til að fá hingað heimsfræga listamenn til hátíðarinnar en samkeppni á þessu sviði eins og öllum öðrum hefur aukist milli landa og borga, þannig að menn verða að bera sig að með öðrum hætti við alla skipulagningu en áður. Það er meðal annars ein ástæðan fyrir því, að ákveðið hefur verið að breyta yfirstjórn Listahátíðar í Reykjavík og fela listrænum stjórnanda hennar að axla verulegan hluta þeirrar ábyrgðar, sem hvílt hefur á framkvæmdastjórn til þessa. Hún starfar í tvö ár hverju sinni, til skiptis undir forystu ríkis og Reykjavíkurborgar, sem eru hinir opinberu bakhjarlar hátíðarinnar.

Eðlilegt er að velta því fyrir sér, eins og gert er í blöðum og á netinu, hvort ástæða sé til þess að leggja opinbera fjármuni í listahátíð eða önnur menningarleg verkefni, sem setja sterkan svip á árið 2000. Stjórnmál snúast að verulegum hluta um ráðstöfun á skattfé almennings og þeir, sem fá umboð til að ráðstafa því verða að sjálfsögðu að geta varið það fyrir sjálfum sér og öðrum, hvernig þeir fara með þetta vald. Raunar eru þeir kallaðir til ábyrgðar á fjögurra ára fresti.

Í starfi mínu sem menntamálaráðherra hef ég aldrei átt í erfiðleikum með að rökstyðja fjárveitingar, sem renna til menningar og lista. Ég lít ekki á það sem óþarfa eyðslu heldur fjárfestingu í þeim þætti þjólífsins, sem styrkir okkur í bráð og lengd til að takast á við mikil og góð verkefni á öllum sviðum. Raunar á það að vera okkur Íslendingum í blóð borið, að fjárfesting í menningarlegum verðmætum sé til marks um einstakan og arðbæran stórhug, þótt ekki sé hann endilega mældur í krónum og aurum eða komi fram í því bókhaldi, sem byggist á rekstrar- og efnahagsreikningum.

Helgi Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur ritað fróðlega bók, Um haf innan, þar segir meðal annars:

"Afrakstur Grænlandsverslunarinnar var sennilega fjárhagslegur grundvöllur og um leið helzta ástæða þess, að íslendingar fóru að leggja stund á sagnaritun og bókagerð í svo miklum mæli. Það má að nokkru leyti bera saman við ítalskar borgir á miðöldum. Feneyjar, aristókratískt lýðveldi undir stjórn hertoga, voru til dæmis um langt skeið milliliður í verzlun við Austurlönd og höfðu nánast einokunaraðstöðu. Austurlönd lágu þá utan við sjóndeildarhring flestra Evrópubúa, líkt og Grænland. Verzlun Feneyinga fylgdi ríkidæmi, náið samband við mörg lönd og blómaskeið menningar á ýmsum sviðum Dæmi um svipaðar aðstæður í verzlun, auðlegð og á sama tíma blómlega menningu, má finna miklu víðar og á ýmsum tímum. Þar má t.d. minna á verlzunarborgirnar við Silkiveginn, sem lá um þvera Asíu. Sagnaritun og bókagerð Íslendinga hefur orðið til við sams konar aðstæður. Ísland var ekki endastöð heldur miðstöð. Það skipti mestu máli.

Í kirkjunni San Marco í Feneyjum eru einhyrningshorn. Líklegt er, að þar hafi komið saman verzlunarleiðirnar frá Grænlandi og frá Austurlöndum.

Íslenzk rit voru að mestu skrifuð á íslenzku en ekki latínu. Þau voru þá ekki sérstaklega ætluð klerkum og munkum. Sögur voru samdar og afritaðar fyrir auðuga höfðingja og kostaðar af þeim. Fyrir þá og fólk þeirra varð að skrifa á íslenzku. Í fátæku landi hefðu verið til einhverjar latínubækur handa klerkum og munkum."

Ég vitna í þennan texta, af því að mér finnst þetta heillandi skýring á upphafi og þróun ritlistar á Íslandi. Hún er rökstudd með þeim hætti, að við sjáum fyrir okkur auðuga höfðingja, sem höfðu ekki aðeins áhuga á að saga þeirra sjálfra yrði skráð, heldur einnig lýsingar á uppruna jarðarinnar og sögu mannkyns frá því að þeir atburðir gerðust; höfðingja, sem höfðu tekjur af verslun, og þurftu því frið og stöðugleika til að sinna störfum sína.

Sem betur fer sjáum við enn hér á landi, að vel efnuð fyrirtæki og jafnvel auðugir einstaklingar sjá sér hag af því að leggja þeim lið, sem stunda menningu og listir. Meira þarf þó til, þótt stuðningur þessara aðila vaxi jafnt og þétt. Opinber stuðningur við menningu og listir er ekki óráðsía frekar en það var bruðl hjá höfðingum 13. aldar að stuðla að ritun sagnanna. Við höfum ekki síður efni á því sameiginlega en þeir að verja fjármunum til þessara hluta. Fáum þjóðum ætti að vera það ljósara en Íslendingum, að það er ekki til marks um neinn flottræfilshátt eða sýndarmennsku að hlú vel að hvers kyns menningarstarfi, væri það ekki gert, hyggjum við að rótum búsetu í landinu.

Fastir lesendur þessara pistla minna í rúm fimm ár vita, að ég hef gaman af því að skrifa um þróunina innan R-listans og auk þess að líta á stjórnmálaframa Ingibjargar Sólrúna Gísladóttur borgarstjóra. Hef ég meðal annars spáð henni leiðtogahlutverki hjá sameinuðum vinstri mönnum. Þessir spádómar mínir hafa hins vegar ekki gengið eftir og nú er svo komið, að ekki aðeins hefur mistekist að sameina vinstrisinna á landsvísu heldur virðist klofningur í röðum þeirra innan R-listans geta kippt fótfestunni undan Ingibjörgu Sólrúnu. Ágreiningurinn innan R-listans er hugmyndafræðilegur og angi af þeirri staðreynd, að tilraunin til að sameina vinstrisinna mistókst. Ögmundur Jónasson, fyrsti þingmaður vinstri/grænna í Reykjavík, gagnrýnir stefnu R-listans harðlega og telur hann ganga á svig við þau sjónarmið, sem honum eru helgust í stjórnmálum.

Vegna þessarar stöðu birti DV viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu mánudaginn 15. maí undir fyrirsögninni: Mun verja Reykjavíkurlistann með kjafti og klóm. Þannig tala ekki stjórnmálamenn nema þeir séu að eigin mati komnir út í horn og alvarlega sé sótt að þeim. Borgarstjóri leitast við að friðmælast við Ögmund Jónasson í viðtalinu og segist síður en svo bera kulda í hans garð, þótt Ögmundur líti á það sem hlutverk sitt að halda R-listanum við efnið og vera samviska hans. Ingibjörg Sólrún hótar Ögmundi þó með því að menn geti sammælst um að standa saman eða ákveðið að afhenda Sjálfstæðisflokknum lyklana að ráðhúsinu en bætir síðan við, að innan R-listans sé enginn málefnaágreiningur og þess vegna skilji hún ekki hvers vegna vinstri/grænir ættu að fara í sérframboð í Reykjavík. Hún telur einnig að Samfylking og Framsóknarflokkur gætu staðið saman að R-listanum, ef vinstri/grænir færu sína leið. Hún hafi frekar kosið að vera á fundi í ráðhúsinu en við setningu stofnfundar Samfylkingarinnar, hún hafi að vísu tekið þátt í málfstofu á fundinum, en áréttar, að áhersla hennar sé í borginni og hjá Reykjavíkurlistanum og hún muni bjóða sig fram í næstu borgarstjórnarkosningum. Hins vegar muni hún ekki sitja í borgarstjórn, lendi hún í minnihluta, heldur líta í kringum sig á hinum almenna vinnumarkaði.

Hvað á að lesa úr þessu? Við blasir, að þarna talar ekki stjórnmálamaður, sem er öruggur með stöðu sína. Ingibjörg Sólrún áttar sig á því, að bakland hennar er í molum og það hefði ekki samræmst hagsmunum hennar sem borgarstjóri að vera áberandi á stofnfundi Samfylkingarinnar, hvorki framsóknarmenn né vinstri/grænir hefðu tekið því vel. Hitt sýnist næsta fjarlægt, að samfylkingarfólk og framsóknarmenn standi saman að R-listanum, ef vinstri/grænir hverfa frá honum, eftir að Kvennalistinn er orðinn að engu, nema í samstöðunni felist ákvörðun um víðtækara pólitískt samstarf framsóknarmanna og samfylkingarmanna en að berjast við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Framsóknarflokkurinn á einfaldlega á hættu að þurrkast út í Reykjavík, ef hann markar sér ekki skýrari stöðu í borgarstjórninni með beinni aðild að kosningum þar. Þátttaka framsóknarmanna í R-listanum er einfaldlega að ganga að flokki þeirra dauðum í Reykjavík eins og Halldór Ásgrímsson hefur nefnt.Sést það best á fylgiskönnunum í höfuðborginni.

Viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu í DV sýnir mjög veika stöðu R-listans, örlög hans kunna að verða svipuð og Kvennalistans í höndum Ingibjargar Sólrúnar, að gufa upp, án þess að viðurkennt sé, að hann hafi horfið. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég hef áður notað sem sögulega skírskotun í þessu sambandi, enda fór það fyrir brjóstið á svo mörgum og var afflut sem ómakleg árás á Ingibjörgu Sólrúnu.

Eftirfarandi kafli í DV-viðtalinu við borgarstjóra vakti athygli mína, enda skrýtið að nafn mitt skuli sérstaklega vera nefnt í þessu samhengi.

Blaðamaður: Hvernig er samstarf þitt við Björn Bjarnason menntamálaráðherra?

Ingibjörg Sólrún: Ég hef átt ágætt samstarf við Björn þrátt fyrir að við eldum oft grátt silfur saman á pólitískum vettvangi. En ég hef verið mjög ósátt við það að eftir að við tókum við grunnskólunum frá ríkinu í miklu fjársvelti og mikilli uppsafnaðri þörf fyrir meðal annars endurbætur og launahækkanir sitja þeir uppi í ráðuneyti og semja endalaust nýjar reglugerðir og námskrár sem setja nýjar kvaðir á sveitarfélögin. Menn fyllast allt í einu miklum metnaði um það sem grunnskólinn á að gera þegar þeir bera ekki lengur ábyrgð á honum, hvorki faglega né fjárhagslega.

Ég get staðfest það, sem Ingibjörg Sólrún segir, að við höfum unnið saman að ýmsum góðum málum, þótt leiðir skilji í öðrum eins og gengur, þegar við margt og mismunandi er að fást. Hitt er ómaklegt hjá henni að saka ráðuneytið um að koma aftan að sveitarfélögunum eftir flutning grunnskólans. Reglugerðir eru að sjálfsögðu settar með vísan til laga og leggja í engu þyngri byrðar á sveitarfélögin en grunnskólalögin auk þess sem lögð var á það sérstök áhersla að ljúka gerð umfangsmestu reglugerðanna, eins og til dæmis um sérkennslu, áður en samið var um fjárhagslega skiptingu vegna flutnings skólanna. Við gerð námskránna var einnig haft að leiðarljósi að þyngja ekki fjárhagsbyrði sveitarfélaga, enda hef ég ítrekað óskað eftir því, að þeir sveitarstjórnamenn, sem halda fram hinu gagnstæða, bendi mér á þá þætti, sem leiða til kostnaðarauka vegna námskránna. Ég hef ekki fengið neinar rökstuddar ábendingar í því efni en hins vegar lagt áherslu á að nú í ár fari fram umsamið mat á kostnaðarþáttum við rekstur grunnskólanna og samanburður við samkomulagið um það efni, svo að unnt sé að sjá það svart á hvítu, hvernig þessi mál standa. Þetta svar Ingibjargar Sólrúnar staðfestir helsta veikleika hennar sem stjórnmálamanns, að skella skuldinni á aðra. Þeir, sem gera það, lenda að lokum í öngstræti, því að þessir aðrir geta ekki tekið að sér að leysa vanda á skrifborðum annarra manna.