6.5.2000

Blair tapar - Alþýðuflokkur í skuldafangelsi - nýr flokkur fæðist

Sama dag og Samfylkingin, fylking vinstri manna, breytist í flokk berast þau tíðindi frá Bretlandi, að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og pólitískur leiðtogi margra evrópskra jafnaðarmanna, hafi beðið versta pólitíska ósigur sinn. Fólst hann í því, að andstæðingur Blairs á vettvangi Verkmannaflokksins, Ken Livingstone, var kjörinn borgarstjóri í London, það er í embætti sem Blair endurvakti, þar sem Margaret Thatcher leysti á sínum tíma upp sameiginlega borgarstjórn fyrir London, ekki síst vegna þess að Ken, sem kallaður er Rauði-Ken, vegna kommúnisma og öfga til vinstri, fór þar með forystu. Fyrir þá, sem utan standa, er erfitt að átta sig á því, hvers vegna íbúar London kjósa slíkan mann í forystu fyrir sig ekki síst á sama tíma sem Íhaldsflokkurinn fær meira fylgi við val á mönnum í borgarstjórn London en við var búist og hefur þar jafnmarga menn og Verkamannaflokkurinn, sem tapaði á þeim vígstöðvum eins og svo víða annars staðar í þessum sveitarstjórnaskosningum. Rauði-Ken hefur hiklaust lýst aðdáun sinni á þeim leiðtogum Sovétríkjanna, sem kölluðu hvað mestar hörmungar yfir íbúa þeirra. Hann hefur þannig verið eindregin málsvari öfgastefnu ekki síður en Jörg Haider í Austurríki, stefna Haiders og stjórnmálaframi hefur leitt til þess að Austurríki hefur verið sett í póltíska sóttkví innan Evrópusambandsins og fjölmiðlar tala gjarnan um Haider sem öfgamann til hægri. Rauði-Ken er ekki kallaður öfgamaður í fjölmiðlum hér á landi og það á eftir að koma í ljós, hvort Evrópusambandið grípur til pólitískrar sótthreinsunar gagnvart Bretum vegna góðs árangurs hans í blóra við vilja Blairs.

Ástæðan fyrir því að þetta er rifjað upp um leið og minnst er á Samfylkinguna og formlega stökkbreytingu hennar yfir í stjórnmálaflokk er sú, að menn ættu að gera sér í hugarlund, hvernig látið væri hér, ef það hefði borið upp á sama dag, að Blair hefði unnið góðan sigur í Bretlandi og nýi jafnaðarmannaflokkurinn á Íslandi komið til sögunnar. Þá hefði því verið haldið að okkur með innantómu fjölmiðlaglamri vinstrisinna, að enn væri staðfest, að nýr tími væri að renna upp í evrópskum stjórnmálum, þar sem ný-jafnaðarmennskan færi eins og logi um akur. Fyrir fáeinum misserum máttum við hlusta á þetta daginn út og daginn inn og nokkuð lengra er liðið síðan þeir keppstust við að sýna, hvor væri meiri alþjóðasinni í jafnaðarmennskunni formaður Alþýðuflokksins eða Alþýðubandalagsins, þegar send voru heillaóskaskeyti til evrópskra krata, sem voru að ná góðum árangri, var þetta sérstaklega hlægilegt, þegar Mitterrand náði kjöri sem forseti Frakklands í fyrsta sinn. Jafnaðarmenn á Íslandi hafa löngum getað huggað sig við það eitt að geta fagnað sigrum annarra.

Nú er Samfylkingin sem sagt orðin að flokki en án þess að íslenskir vinstrisinnar hafi sameinast undir einu merki og þess vegna getum við enn fylgst með því, hvernig þeir eiga eftir að leita sér skjóls og væntanlegrar vegsemdar undir handarjaðri stjórnmálaforingja í Evrópu og líklega einnig keppast um að senda þeim heillaóskaskeyti.

Hér skulu Morgunblaðinu færðar sérstakar þakkir fyrir að hafa veitt því athygli, að fimmtudagskvöldið 4. maí var 50. flokksþing Alþýðuflokksins haldið, þetta hafði farið fram hjá flestum. Þá skal blaðinu einnig þakkað fyrir að segja frá því, sem gerðist á þessu síðasta þingi Alþýðuflokksins, sem sagt er að staðið hafi í tvær klukkustundir. Á þinginu var Alþýðuflokkurinn að vísu ekki formlega lagður niður en ákveðið var að framselja pólítskt vald hans, eins og það er orðað, til Samfylkingarinnar. Þegar betur er að gáð og rýnt í það, sem gerðist á þessu flokksþingi, má segja, að Alþýðuflokkurinn sé einskonar öryggisnet, ef nýi flokkurinn splundrast, og einnig má túlka ákvörðun flokksþingsins á þann veg, að Alþýðuflokkurinn hafi verið settur í skuldafangelsi.

Seinni fullyrðinguna er auðvelt að rökstyðja, því að samningar um nýja flokkinn byggjast á því, að ríkisstyrkir til stjórnmálaflokkanna, sem standa að baki Samfylkingunni skuli notaðir til að greiða niður skuldir þeirra. Upplýst var á flokksþinginu, að flokksmenn væru lausir úr persónulegum ábyrgðum á skuldum Alþýðuflokksins auk þess sem þannig hefði verið búið um hnúta að skuldabagginn flyttist ekki á Samfylkinguna. Magnús M. Norðdahl. formaður framkvæmdastjórnar Alþýðuflokksins, sagði um þetta atriði orðrétt samkvæmt frásögn Morgunblaðsins: Þau framlög úr ríkissjóði, sem renna til samstarfsaðilanna [það er Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Samtaka um kvennalista] á kjörtímabilinu skulu afhent og greidd til sameiginlegrar ráðstöfunar. Þaðan er þeim fyrst varið til greiðslu afborgana og vaxta þeirra skulda samstarfsaðila, sem tilgreind eru á fylgiskjali c - óþarfi að leggja það fram hér, það er trúnaðarmál á milli aðila - og þannig er tryggt að þessir aðilar geti allir staðið við sitt.

Hér skal ekki dregið í efa, að samningar um þau atriði, sem hér er lýst, hafi í senn verið erfiðir og viðkvæmir og mikilvægt hafi verið að fá botn í þennan þátt málsins, áður en lengra væri haldið. Er ljóst, að þarna hefur tekist að semja við einhvern banka, sem gerir kröfu til þess, að fá ríkisstyrkina greidda til sín. Hitt er næsta sérkennilegt í ljósi þess, hve ákafir pólitískir talsmenn Samfylkingarinnar hafa verið í yfirlýsingum um að öll fjármál stjórnmálaflokka eigi að vera öllum opin, að þarna lýsir Magnús M. Norðdahl yfir því, að sérstakt samkomulag hafi verið gert um að halda þessum mikilvæga grundvallarþætti Samfylkingarinnar og nýja flokksins leyndum. Óþarft sé að kynna fylgiskjal c við samning aðilanna, af því að samið hafi verið um, að það yrði trúnaðarmál. Fylgiskjal c fjallar um fjárhagslegar forsendur fyrir samstarfinu innan Samfylkingarinnar og snýst því um viðkvæmasta þátt samstarfsins, en sérstök ákvörðun hefur verið tekin um að halda því leyndu, þrátt fyrir að talsmenn Samfylkingarinnar berji sér á brjóst og segist vilja upplýsa allt, sem snertir fjármál stjórnmálaflokka!

Í þessari einstæðu frásögn Morgunblaðsins af endalokum Alþýðuflokksins er sagt frá ræðu Sighvats Björgvinssonar, formanns flokksins. Frásögninni lýkur þeð þessum orðum:

Mikið var klappað í lok þingsins og bað Sighvatur menn að spara lófana því mikið þyrfti að klappa í dag og ekki borgaði sig að mæta með sára lófa á stofnfund Samfylkingarinnar: Alþýðuflokkurinn hefur nú lokið sínu 50. flokksþingi og hann gaf sjálfum sér í tilefni af því bestu gjöf sem nokkur stjórnmálaflokkur getur gefið sjálfum sér. Hvaða gjöf er það? Það er að láta stærsta drauminn rætast.

Já, hvaða gjöf er þetta? Hún er sú, að Alþýðuflokkurinn er lagður niður, af því að hann hefur ekki burði til að starfa einn og óstuddur. Þessi ummæli Sighvats minna á gleði hans yfir því, að Alþýðublaðið hvarf, af því að enginn las það lengur, gott ef það var ekki líka draumur, sem rættist. Ummælin eru einnig í ætt við sífellda gleði Margrétar Frímannsdóttur, formanns Alþýðubandalagsins, yfir því, að þingmenn yfirgáfu þann flokk og stofnðuðu síðan nýjan.

Það verður áreiðanlega ekki auðvelt að ná hinum nýja flokki inn í heim veruleikans að loknu stofnþingi hans, en Össur Skarphéðinsson hlaut eins og ljóst hefur verið um langt skeið kosningu sem formaður nýja flokksins og hefur óvtírætt umboð til að leiða hann. Í ræðu sinni við upphaf þings hins nýja flokks, ræddi hann um stefnuna gagnvart ESB. Hann sagði þá meðal annars. Ég tel því að næsta skref í þessum málum sé að hefja skipulega vinnu við að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Um þau markmið þarf að ríkja meirihlutasamstaða meðal þjóðarinnar.

Morgunblaðið túlkar þessi orð á þann veg í forystugrein í dag, laugardaginn 6. maí, að með þeim sé Össur að stíga mikilvægt skref og skerpa ágreining um Evrópumálin á stjórnmálavettvangi, enda sé það ekki á dagskrá ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga Líta má ummæli Össurar með öðrum augum en Morgunblaðið gerir, því að hann tekur ekki undir með þeim innan Samfylkingarinnar, sem vilja að sótt sé um aðild að ESB, því að aðeins í aðildarferlinu fáum við tækifæri til að kynnast því um hvað við þurfum að semja og setja okkur markmið. Össur virðist ekki talsmaður þess, að sótt sé um aðild, heldur vill hann stofna til umræðna um það, sem hann kallar samningsmarkmið og síðan kanna, hvort unnt sé að skapa meirihluta meðal þjóðarinnar að baki þeim. Orð hans verða varla skilin á annan veg en þann, að þessi tvö skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að tekin verði ákvörðun um að sækja um aðild. Erfitt er að túlka þessa stefnu sem róttæka, frekar er hún í ætt við það, sem samfylkingarmenn sögðu í kosningunum 1999, að þeir settu ekki Evrópumálin á oddinn, af því að þau hefðu ekki hlotið neinn hljómgrunn í kosningunum árið 1995!

Margt er sem sé óljóst í stefnu hins nýja flokks. Hann boðar fátt ef nokkuð nýtt. Ég hef til dæmis lagt mig fram um að kynna mér það sérstaklega, sem sagt er um menntamál, en þau eru sögð eitt helsta baráttumál flokksins. Þar er í raun ekki sagt neitt sem máli skiptir. Stefnan einkennist af yfirboðum og fyrirheitum um aukið fjármagn án þess að skilgreint sé, hvað að baki henni býr annað. Flokkurinn setur sem sagt upp ýmsar skrautfjaðrir eins og sést best á því, að á flokksþingið kallaði hann til að láta í sér heyra fjölda manna, sem eru ekki endilega samfylkingarmenn og líklega sumir ósammála flokknum í grundvallarmálum. Er þetta sama aðferð og Jón Baldvin Hannibalsson beitti gjarnan þegar hann var formaður Alþýðuflokksins, að fá menn úr öðrum stjórnmálaflokkum til að að tala á flokksþingum til að sýna einhverja tilbúna breidd flokksins.

Mesta sýndarmennskan í kringum fyrsta flokksþing Samfylkingarinnar er við val á mönnum í forystu þar. Það er að renna upp fyrir öllum, að um það var samið, að Össur yrði formaður, Margrét Frímannsdóttir varaformaður og Ágúst Einarsson, formaður framkvæmdastjórnar. Framboð Tryggva Harðarsonar var sviðsett til að skapa smávægilega spennu í kringum flokksþingið. Síðan klúðraðist kjör í ritaraembætti flokksins, þegar ungir fulltrúar og konur kepptu.

Í lokin vil ég geta þess, að í vikunni tókst gott samkomulag innan stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins.