Evrópuumræður - Samfylkingin - ísafjarðarferð
Þess var minnst með hátíðlegum hætti mánudaginn 10. apríl, að 60 ár voru liðin frá því að utanríkismál færðust í hendur íslenskra stjórnvalda og íslensk utanríkisþjónusta kom til sögunnar. Þeir atburðir gerðust í skugga síðari heimsstyrjaldarinnar, eftir að Danmörk hafði verið hernumin og danska ríkisstjórnin gat ekki sinnt þeirri skyldu sinni samkvæmt sambandslagasáttmálanum frá 1918 að gæta hagsmuna Íslendinga á alþjóðavettvangi.
Afmælisdag utanríkisþjónustunnar sendi utanríkisráðherra frá sér skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Er hún lögð fram í því skyni, að unnt sé að ræða þetta mál á efnislegum forsendum eins og þær blasa við um þessar mundir.
Þegar rætt er um Evrópumálin verða menn að gera mun á heildarstefnu og úrlausn sérgreindra verkefna, það er hvort litið er á sviðið í heild (macro) eða farið í saumana á einstökum atriðum (micro). Mér sýnist skýrsla utanríkisráðherra að verulegu leyti snúast um síðari þáttinn, það er úrlausn einstakra verkefna með hliðsjón af samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES), sem er grunnur samskipta okkar við Evrópusambandið (ESB). Við framkvæmd samningsins eru sífellt að gerast atvik, þar sem reynir á túlkun hans eða framkvæmd. Samningruinn hefur einnig þá sérstöðu, að hann er í sífelldri þróun. Nærtækt dæmi um annan mikilvægan samning er Atlantshatfssáttmálinn, stofnskrá Atlantshafsbandalagsins (NATO), hann er síðan 1949 og hefur ekki breyst síðan, þótt öryggismál í Evrópu og á Atlantshafi hafi tekið á sig nýja mynd. Inntak EES-samningsins er hins vegar sífellt að taka breytingum með nýjum gerðum, reglum og lögum.
Nauðsynlegt er að stjórnmálamenn, embættismenn, hagsmunasamtök og aðrir fylgist vel með öllu, sem varðar framkvæmd EES-samningsins og gæti þess að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar eða komi sjónarmiðum sínum á framfæri, þar sem um hagsmuni þeirra er að ræða. Raunar hefur oftast við framkvæmd samningsins borið meira á eftirlitsmönnunum, sem fylgjast með því, hvort við fylgjum ákvæðum hans, en sérfróðum málsvörum íslenskra hagsmuna, sem draga það fram, hvernig aðrir standa að framkvæmd samningsins með hliðsjón af hagsmunum okkar. EES-samningurinn gerir ráð fyrir dómstól og eftirlitskerfi, þar sem sérfræðingar sitja og fara með smásjá yfir íslenskar réttarreglur eða ákvarðanir stjórnvalda á samningssviðinu og gera viðvart, ef þeir telja farið af réttri braut. Er það mat sérfróðra manna, að í áliti EFTA-dómstólsins um skaðabótaskyldu íslenskra ríkisins vegna ábyrgðargreiðslu við gjaldþrot, hafi dómstóllinn jafnvel túlkað Evrópuréttinn með skarpari hætti en yfirvöld innan ESB hefðu talið rétt í álitsgerð sinni. Er sú skoðun uppi meðal sumra, að EES-ríkin lúti ströngu eftirliti, þar sem eftirlitsmenn eigi jafnvel til að gerast kaþólskari en páfinn.
Ég lít á það sem sérgreint úrlausnarefni, hve mikið við þyrftum að greiða í sameiginlega sjóði ESB, ef við gerðumst þar aðilar. Fleiri atriði þess eðlis eru rakin ýtarlega í þessari nýju skýrslu utanríkisráðherra og er hún ómetanleg heimild fyrir alla, sem vilja kynnast því, hvernig staðið hefur verið að framkvæmd EES-samningsins þau átta ár, sem liðin eru frá því að ritað var undir hann.
Íslendingar áttu í raun ekki annarra kosta völ fyrir 60 árum en taka utanríkismál sín í eigin hendur og hefja gæslu hagsmuna sinna í samskiptum við aðrar þjóðir. Nokkrir Íslendingar höfðu hlotið þjálfun innan dönsku utanríkisþjónustunnar og voru þeir í fremstu röð þeirra, sem mótuðu starf íslensku utanríkisþjónustunnar. Hitt skipti þó meira máli, að stjórnmálamenn tækju ákvarðanir í utanríkismálum, sem tryggðu hagsmuni þjóðarinnar í bráð og lengd. Verður ekki annað sagt í sögulegu ljósi en vel hafi til tekist.
Fyrir um það bil tíu árum stóðum við frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum í Evrópumálunum, fyrst hvort við ættum að ganga til viðræðnanna um EES og síðan í því ferli, hvort við ættum að sækja um aðild að ESB með þeim EFTA-ríkjum, sem ákváðu að gera það frekar en verða aðilar að EES. Við ákváðum að sækja ekki um ESB-aðild og vissum þó, að norsk stjórnvöld stefndu að því að komast í ESB, en áformin um það voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá lá fyrir, að EES-samningurinn kæmist til framkvæmda, þótt hann væri aðeins með aðild Íslands og Liechtenstein, þess vegna er óþarfi að draga heildarmyndina núna á þann veg, að einhver óvissa yrði um EES-samninginn, ef Norðmenn endurskoðuðu stefnu sína og gengu í ESB.
Umræður um ESB hér bera nokkurn keim af því, að margir eru alltaf að bíða eftir einhverju, sem valdi því, að óhjákvæmilegt verði fyrir okkur að ganga inn í ESB, þess vegna sé rétt af okkur að banka upp á og sjá, hvaða kjör okkur stæðu til boða. Örlagatrú mótar ekki aðeins Evrópuumræðurnar, hún á sér ríka hefð meðal okkar, sem eigum mikið undir náttúruöflunum og duttlungum þeirra. Örlögin færðu okkur líka utanríkismálin í eigin hendur fyrr en við ætluðum. Ekki ber að útiloka örlagavalda í samskiptum okkar við ESB en sé staða mála metin af raunsæi um þessar mundir, er ekkert sérstakt nýtt, sem knýr okkur til að taka upp aðra stefnu núna en þegar við ákváðum að sækja ekki um aðild að ESB fyrir tæpum áratug. Þvert á móti má halda því fram, að í stórum dráttum hafi EES-samningurinn jafnvel reynst okkur betur en margir og þeirra á meðal stuðningsmenn hans væntu. Samningurinn heldur áfram að þróast og fellur ekki úr gildi nema honum sé sagt upp með umsömdum hætti.
Þótt fréttamenn fylgist með framboðsfundum þeirra Össurar Skaprhéðinssonar og Tryggva Harðarsonar vegna formannskjörs í Samfylkingunni, er frá litlu sagt öðru vísi en af hreinni skyldurækni í fjölmiðlum, því að um svo lítið er deilt og fátt fréttnæmt gerist. Ég hef verið að leita að því, sem á að felast í nýrri menntastefnu þeirra félaga en ekki fundið neitt nýtt og raunar læðist að mér sá grunur, að þeir hafi ekki lagt mikið á sig til að kynnast því, sem hefur verið og er á döfinni í menntamálum okkar. Þeir vita hins vegar sem er, að menntamálin er málaflokkur, sem snertir marga og á sem betur fer marga málsvara og stuðningsmenn.
Hagur Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum hefur heldur vænkast undanfarnar vikur og kemur í ljós, að áhugaleysi á fylkingunni hefur mótast af því, að þar var allt látið reka á reiðanum og enginn virtist tilbúinn til að taka af skarið. Nú eru þó tveir tilbúnir til að takast á um formennsku í fylkingunni, þótt átökin séu að margra mati sviðsett, til að draga athygli að þessu skrefi í þróun fylkingarinnar til flokks, og kannski einhver von til þess, að stefna hennar taki á sig einhverja mynd, þótt óljóst sé, hver hún verður, hvort hún verður í ætt við Blair eða Jospin, eitt er víst hún mun mótast af evrópskum kratisma og vorum við minnt á hollustuna við hann í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra í vikunni, þegar Sighvatur Björgvinsson hallmælti hugmyndum um að stofna íslenskt sendiráð í Vínarborg á þeirri forsendu, að þar væri ekki samstarfshæf ríkisstjórn. Tók Sighvatur þar undir með evrópskum krötum, sem eru hinir verstu fyrir hönd flokksbræðra í Austurríki, en þeir eru nú utan stjórnar eftir áratugi við kjötkatlana í stjórnarráðinu. Þaulseta krata í ríkisstjórn Austurríkis og stjórnarhættir þeirra er ein helsta ástæðan fyrir því, að Jörg Haider hefur getað aflað sér fylgis.
Tryggvi Harðarson gengur fram fyrir skjöldu sem talsmaður vinstrikrata í kosningabaráttunni og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið helsti andstæðingur þeirra, meðal annars vegna stefnunnar í utanríkis- og varnarmálum, því að vinstrikratar hafa verið á móti NATO varnarsamstarfi við Bandaríkin, glittir stundum í þetta viðhorf hjá Guðmundi Árna Stefánssyni, sem styður Tryggva gegn Össuri. Sérstaka athygli vekur þess vegna, hve Össur Skarphéðinsson er líka gagnrýninn í garð Sjálfstæðisflokksins í málflutningi sínum og hallmælir honum á gamaldags forsendum. Sýnist hann helst fara í vopnabúr Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem lét af virkri þátttöku í stjórnmálum, eftir að hann hafði gengið svo fram af mörgum sjálfstæðismanninum í málflutningi sínum um flokkinn, að borin von var, að unnt yrði fyrir sjálfstæðismenn að eiga við heilsteypt samstarf. Vaknar sú spurning, hvort Össur sé vísvitandi að mála sig út í eitthvert vinstra horn og telji sig eiga best sóknarfæri innan fylkingarinnar og utan afkróaður í því.
Við fórum á þrítugasta fundinn í framhaldskólum landsins til Ísafjarðar fimmtudaginn 13. apríl og tókst þannig í þriðju tilraun að komast í Menntaskólann á Ísafirði og ræða við nemendur og kennara hans. Var það ánægjulegur fundur og raunar síðasti fundur minn með þessu sniði, enda má segja, að nóg sé komið eftir að hafa flutt 60 sinnum ræður yfir nemendum og kennurum og svarað fyrirspurnum um allt, sem varðar framkvæmd nýrrar námskrár í skólunum og margt annað. Er það mikil og góð reynsla að fá þannig á um það bil þremur mánuðuð sýn yfir skólana. Á Ísafirði var ekki síst spurt um tölvuvæðingu skólanna og hvenær yrði gengið til þess að framkvæma áformin um fartölvu fyrir hvern framhaldsskólanema. Er greinilegt, að mikill og vaxandi áhugi er á verkefninu innan skólanna eftir því sem meira er um það rætt. Get ég í raun talið þá á fingrum annarrar handar, sem hafa gagnrýnt þá stefnu, að tölvukerfi skólanna skuli byggt upp með fartölvum.
Eftir fundi í skólunum hittum við forystumenn bæjarstjórnar Ísafjarðar og ræddum um menningarmál og samstarf á því sviði. Einnig hittum við Þróunarsetur Vestfjarða, þar sem fulltrúar margra stofnana starfa saman við frábærar aðstæður og undir sama þaki. Er ekki nokkur vafi á því, að af samstarfi við þessar aðstæður mun spretta eitthvað nýtt.