9.4.2000

Viturlegur dómur - furðuskrif

Hæstiréttur komst að viturlegri niðurstöðu með dómi sínum fimmtudaginn 6. apríl í Vatneyrarmálinu svonefnda, sem snerist um kvótakerfið og úthlutun aflaheimilda. Var leitað álits á því, hvort tiltekin atriði laganna um fiskveiðistjórnun 38/1990 (kvótalaganna) brytu í bága við stjórnarskrána. Ekki var á það fallist af hæstarétti, að vald ráðherra til að úthluta veiðiheimildum bryti gegn áskilnaði 1. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar um að atvinnufrelsinu yrði aðeins settar skorður með lögum. Þá þótti réttinum einnig að mat löggjafans, sem lýsir sér í lögunum um stjórn fiskveiða, væri reist á málefnalegum forsendum og voru ekki talin efni til þess, að því yrði haggað af dómstólum. Var úthlutun aflaheimilda samkvæmt 7. grein laganna talin fullnægja jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum um jafnræði, sem gæta þyrfti við takmörkun atvinnufrelsis.

Af forsendum dómsins sést, að dómurum hefur verið í mun að taka á sem flestum álitaefnum, sem lúta að lögfræðilegri og stjórnskipulegri hlið kvótalaganna. Er þessi dómur mun skýrari og afdráttaralausara en hinn, sem féll 3. desember 1998 og snerist um 5. grein kvótalaganna og útgáfu veiðileyfa. Töldu ýmsir, að túlka ætti hann á þann veg, að þar væri einnig felldur dómur um 7. greinina, það er úthlutun veiðiheimilda. Ég hallaðist að þröngri skýringu á dóminum frá 3. desember 1998 eins og sjá má í pistlum hér á síðu minni. Vatneyrardómurinn staðfestir, að sá skilningur var réttur, sem byggðist á þröngri túlkun fyrri dómsins.

Einkum er athyglisvert að lesa VI. kafla í dómi hæstaréttar í Vatneyrarmálinu. Þar er áréttað, að megineinkenni íslenskrar fiskveiðistjórnunar felist í því, að einstökum mönnum eða félögum sé ákveðin hlutdeild í leyfilegum árlegum heildarafla þeirra fisktegunda, sem sæta aflatakmörkunum. Sé ákvörðun aflahlutdeildar að stofni reist á veiðireynslu skipa, sem voru í eigu kvótahafa 1. nóvember 1980 til 31. október 1983, eða menn leiði rétt sinn til kvóta af veiðireynslu annarra, sem slík skip áttu á sama tíma. Úthlutun kvóta myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir honum. Réttindin, sem felast í úthlutun aflaheimilda, ráðist af lögum eins og þau eru á hverjum tíma. Kvótinn haldist óbreyttur milli ára og sé í meginatriðum framseljanlegur. Þá hafi alþingi ákveðið, að ríkið skuli taka takmarkað gjald vegna úthlutunar kvóta miðað við áætlað verðmæti hans.

Hæstiréttur telur, að það hafi verið samrýmanlegt jafnræðisrökum að deila takmörkuðum heildarafla milli skipa, sem þá stunduðu viðkomandi veiðar, með þeim hætti, sem gert var, þótt alþingi hafi átt úr fleiri kostum að velja. Lögin um fiskveiðistjórnun séu reist á því mati alþingis, að sú hagkvæmni, sem leiði af varanleika kvótans og heimildum til að framselja hann og aflamark, leiði til arðbærrar nýtingar fiskstofna fyrir þjóðarbúið í samræmi við markmið 1. greinar fiskveiðistjórnunarlaganna. Kvótinn sé aðeins varanlegur í þeim skilningi, að hann verði hvorki felldur niður né breytt nema með lögum. Alþingi geti í skjóli valdheimilda sinna kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.

Þá segir orðrétt í dóminum: Að öllu þessu virtu er mat löggjafans reist á málefnalegum forsendum. Eru ekki efni til þess, að því mati verði haggað af dómstólum. Verður þannig að leggja til grundvallar að úthlutun aflaheimilda eftir 7. gr. laga nr. 38/1990 fullnægi jafnræðisreglu 1. mgr. 65. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum um jafnræði, sem gæta þarf við takmörkun atvinnufrelsis samkvæmt 1. mgr. 75. gr. hennar. Ákvæðið er því stjórnskipulega gilt.

Ég sé ekki, hvernig unnt er að draga þá ályktun af þessum dómi, að hann snúist frekar um þjóðhagfræði en lögfræði. Hér er tekið á lögfræðilegum álitaefnum, sem hafa vafist fyrir mönnum í mörg ár, og komist að ótvíræðri niðurstöðu. Valdmörk alþingis og hæstaréttar eru skýrð á rökréttan hátt, en samkvæmt stjórnarskránni á hæstiréttur síðasta orðið um það, hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrá eða ekki. Hér lýsir hæstiréttur yfir því með afdráttarlausum hætti, að ákvæði 7. greinar kvótalaganna um úthlutun kvóta sé stjórnskipulega gilt og alþingi hafi hvergi farið út fyrir mörkin, sem stjórnarskráin setur því, við setningu kvótalareglnanna. Ég sé þess vegna ekki heldur, hvernig unnt er að gera því skóna með málefnalegum hætti, að ný málshöfðun leiði til annarrar niðurstöðu um þetta efni hjá hæstarétti.

Löngum hafa andstæðingar kvótakerfisins haldið því fram, að þeir séu talsmenn réttlætis og þar með eru málsvarar kvótakerfisins væntanlega talsmenm ranglætis að mati þessara sömu manna. Er það skoðun þeirra eftir dóm hæstaréttar, að hann gangi á svig við réttlætið? Er ekki tímabært að hverfa svo gildishlöðnum yfirlýsingum um kvótamálið? Varla næst nokkur sátt um mál, ef það í eðli sínu brýtur gegn réttlætiskennd þeirra, sem að sáttinni þurfa að koma? Er réttlætinu fullnægt með því einu að auka álögur á þá, sem kvótann eiga?

Spurningar af þessu tagi vakna, þegar farið er yfir opinberar umræður um kvótamálin eftir að Vatneyrardómurinn er fallinn. Hæstiréttur hefur dregið skýrar línur. Menn þurfa ekki lengur að ganga til umræðna um þetta mál á þeirri forsendu, að kvótalögin brjóti í bága við stjórnarskrána. Dómurinn sýnir einnig, hve fljótræðisleg viðbrögð margra eftir niðurstöðu héraðsdóms í málinu einkenndust af mikilli skammsýni eða óskhyggju. Sleggjudómar setja því miður talsverðan svip sinn á opinberar umræður okkar, þeir skipta þó litlu, ef ekki er tekið mark á þeim eða komið í veg fyrir, að þeir ráði ferðinni.

Þeir, sem taka þátt í opinberu lífi, eiga að sjálfsögðu að búa sig undir þátttöku í opinberum deilum um stórt og smátt. Hef ég oft haft gaman að slíku orðaskaki og tekið þátt í margri sennunni sem blaðamaður og stjórnmálamaður. Eftir að blöðin hættu að taka afdráttarlausa afstöðu með eða á móti einstökum stjórnmálaflokkum á þeirri forsendu, að slíkt hlutleysi jafngilti góðri blaðamennsku, hefur sú mikla breyting orðið, að ritstjórar og blaðamenn eru hættir að deila á opinberum vettvangi. Helst slettist upp á vinskapinn, þegar rætt er um útbreiðslu og kannanir á lestri blaða. Í megindráttum eru það sömu viðhorfin, sem koma fram í ritstjórnardálkum dagblaðanna, höfundar ganga að vísu mislangt í einstökum málum, en þeir eru í stórum dráttum sammála og deila ekki innbyrðis um nein þjóðmál.

Á sama tíma og ritstjórnardálkarnir eru meira og minna með sama yfirbragði beinist athygli þeirra, sem vilja kynnast ólíkum sjónarmiðum, einkum að aðsendum greinum. Þar er vettvangur mismunandi skoðana og yfirleitt um málefnalega afstöðu að ræða. Sumir höfundar kjósa hins vegar rætni til að ná athygli lesenda og oft einkennast aðsendar greinar af sérkennilegri heift. Slík grein birtist til dæmis í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 9. apríl, og er hún eftir Halldór Þorsteinsson, sem er skólastjóri málaskóla og fyrrverandi bókavörður. Morgunblaðið leggur hart að greinarhöfundum, að þeir haldi skrifum sínum innan ákveðinna marka. Halldór Þorsteinsson fer á svig við þær reglur að þessu sinni eins og oft áður. Halldór býsnast í þessari grein yfir því, að ráðist hefur verið í það stórvirki að skapa Safnahúsinu við Hverfisgötu nýtt hlutverk sem Þjóðmenningarhús en notar tilefnið til að ómálefnalegra árása. Leitast hann við að upphefja sjálfan sig og málstað sinn með sérkennilegum hætti, og er þetta ekki fyrsta grein Halldórs í þessum dúr. Er umhugsunarvert fyrir okkur lesendur Morgunblaðsins, hvaða erindi þessi grein, sem skrifuð er 17. febrúar, að vísu árið 2000, á til okkar sunnudaginn 9. apríl, þar sem hápunktur hennar missir alveg marks vegna dóms hæstaréttar í Vatneyrarmálinu. Hið ámælisverða við þessa tímaskekktu grein er, að höfundur er ekki aðeins að ráðast á okkur stjórnmálamennina heldur víkur hann með níðangurslegum hætti að móður utanríkisráðherra. Málstaður Halldórs í kvótamálinu varð undir í hæstarétti og tal hans um slæman fjárhag Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns byggist einnig á röngum forsendum.