Virkjanamál - heimsslitaspár - framhaldsskólaferðir
Tvenn stórtíðindi urðu í stjórnmálum í vikunni. Annars vegar var tilkynnt, að öll áform um Fljótsdalsvirkjun hefðu tekið nýja stefnu vegna breyttra viðhorfa hjá þeim, sem eru að íhuga að reisa álver við Reyðarfjörð. Hins vegar var skýrt frá því, að viðræður væru hafnar um sameiningu milli Íslandsbanka hf. og FBA hf. Hvoru tveggja tíðindin minntu okkur á, að það eru ekki stjórnmálamenn, sem hafa ákvarðanir af þessu tagi í hendi sér, heldur eru þær teknar af þeim, sem stjórna fyrirtækjum og móta stefnu fyrir þau, þótt vissulega ráði afstaða stjórnmálamanna oft miklu um það, hvort stjórnendur fyrirtækja taki eina ákvörðun frekar en aðra.
Áður höfum við Íslendingar kynnst því, að ekki er allt í hendi varðandi fjárfestingu erlendra aðila í stóriðju, þótt fulltrúar samningsaðila hafi ritað undir hátíðlegar yfirlýsingar. Gífurlegir hagsmunir eru í húfi fyrir fjárfesta og forsendur þeirra taka mið af aðstæðum hverju sinni og mati, sem byggist á ströngum krofum um arðsemi. Samtímis því, sem eigendur álvera reikna út frá sínum forsendum, þurfa þeir, sem selja þeim orku, að gæta sinna hagsmuna og leggja á ráðin um það, hvernig eigi að útvega þessa orku, hvað það tekur langan tíma og hve mikið það kostar. Óskir um að álver í Reyðarfirði verði 240 þúsund tonn í stað 120 þúsund tonna eins ráðgert var með Fljótsdalsvirkjun sem orkugjafa krefjast þess, að nýjar áætlanir verða gerðar um virkjun og nú er litið til svonefndrar Kárahnjúkavirkjunar.
Umhverfissinnar eru að skríða í skotgrafir að nýju og finna virkjun við Kárahnjúka allt til foráttu. Á stjórnmálavettvangi er ný staða, því að ýmsir stjórnmálamenn, sem vildu ekki Fljótsdalsvirkjun, höfðu lýst yfir stuðningi við Kárahnjúkavirkjun og má þar nefna Össur Skarphéðinsson formannsefni Samfylkingar, fylkingar vinstri manna. Hvað sem stjórnmáladeilum líður verða þær háðar á öðrum forsendum en um Fljótsdalsvirkjun, því að ekki er ágreiningur um, að við Kárahnjúka verður ekki virkjað án lögformlegs umhverfismats, það er farið verður að lögbundnum leikreglum, sem voru settar eftir að alþingi tók á sínum tíma ákvörðun um Fljótsdalsvirkjun. Deilan um þá virkjun snerist að verulegu leyti um formsatriði, sem eiga ekki að þvælast lengur fyrir mönnum.
Morgunblaðið byggði til dæmis andstöðu sína við Fljótsdalsvirkjun einkum á því, að ekki væri farið í lögformlegt umhverfismat. Hefur blaðið ritað töluvert um umhverfismál undanfarna mánuði og tekið afstöðu, sem er að ýmsu leyti byggð á afstöðu róttækra umhverfissinna. Má þar til dæmis nefna Whitley Strieber, sem vitnað var til í Reykjavíkurbréfi blaðsins 26. mars, en hann telur, að ís kunni að leggjast yfir allt norðurhvel jarðar.
Eftir að Morgunblaðið hafði vitnað í Whitley þennan Strieber voru lesendur Vef-Þjóðviljans www.andriki.is upplýstir um það, að Strieber teldi sig hafa verið numinn brott af geimverum en skilað aftur með litla ígræðslu í líkama sínum og hana sé ekki unnt að fjarlægja, því að hluturinn hafi fært sig undan hnífi skurðlæknisins.
Fyrir venjulega menn er ekki auðvelt að setja sig í spor þeirra, sem hafa aðskotahluti frá geimverum í heila sínum og sjá þess vegna framtíðina væntanlega frá sérstökum sjónarhóli eða leggja nýtt mat á þróun mála. Sagan kennir okkur hins vegar, að hvað sem líður loftslagsbreytingum af mannavöldum nú á tímum. hafa orðið gífurlegar sveiflur í hitastigi á jörðunni og nú á tímum lifum við óvenjulega langt hlýindaskeið í okkar heimshluta. Þetta sjáum við meðal annars með því að skoða borkjarna af Grænlandsjökli, þar sem Íslendingar hafa komið að rannsóknum með öðrum.
Straðreynd er, að við höfum eignast marga heimsslitaspámenn á síðustu áratugum, en það er sameiginlegt með þeim flestum, að spárnar hafa alls ekki gengið eftir og þróunin hefur þvert á móti oft orðið sú, að mál hafa tekið betri stefnu en þessir ágætu menn spáðu.
Í vikunni komst ég í tvo framhaldsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands á Neskaupsstað og Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Voru þetta ánægjulegar heimsóknir eins og í aðra skóla. Báðir eru þessir skólar fjölbrautaskólar, sem bjóða bóknám og starfsnám og geta því nýtt sér kosti nýju námskrárinnar til fulls.
Við höfðum gert okkur vonir um, að fá notið veðurblíðu á Norðfirði en þar hlýnaði mjög á þriðjudag og miðvikudag, fimmtudaginn þegar við vorum á ferðinni var hins vegar frekar kalt og snjóaði á fjallvegum eins og á Fagradal og á Oddskarði. Ferðin gekk þó að óskum og var okkur vel tekið í skólanum og nutum góðrar gestrisni í heimavist hans, þar sem við snæddum hádegisverð. Þar vorum við minnt á, að sé litið á landið allt skortir í sjálfu sér ekki heimavistarrými, því að glæsileg heimavistin á Neskaupstað er alls ekki fullnýtt og sömu sögu er raunar að segja um Ísafjörð.
Í viðræðum við kennara í Verkmenntaskólanum kom fram, að þeir hafa áhyggjur af því að starfsgreinaráð í byggingagreinum sé að móta tillögur um námskrá, sem stangist á við þær hugmyndir, sem náðist góð sátt um á fyrri hluta áratugarins milli skóla og atvinnulífs. Eftir fundina í framhaldsskólunum hef ég fengið nokkrar vísbendingar um, að ekki sé fullur trúnaður á milli skóla og starfsgreinaráða, sem gera tillögur til ráðuneytisins um námskrár, hvert á sínu sviði. Er þetta nýskipan í samræmi við nýju framhaldsskólalögin og kann að reynast vandasamt að koma henni á í einhverjum tilvikum. Mikilvægast er, að menn gefi sér tóm til að ræða saman og skiptast á skoðunum. Þannig höfum við staðið að vinnunni við gerð námskránna fyrir bóknámsgreinar. Virðist sæmileg sátt um inntak þeirra, helst hefur komið fram gagnrýni á inntak áfanga í náttúrugreinum á framhaldsskólastigi. Til minningar um heimsóknina í Verkmenntaskólann afhentu nemendur mér heimasmíðaðan vita, vandaðan að allri gerð.
Það var fagurt veður föstudaginn 31. mars þegar við flugum til Vestmannaeyja. Var fjölmenni á fundinum með nemendum og lögðu þeir fyrir mig fjölda spurninga um mörg mál. Þar og einnig í viðræðunum við kennara var spurt, hvar væru skilin á milli hlutverks skóla og annarra aðila, þegar upp kæmu tilvik, þar sem nemandi þyrfti að leita sér aðstoðar vegna viðkvæmra félagslegra aðstæðna. Spurningar af þessu tagi byggjast meðal annars á því, að tengsl milli skóla og nemenda í framhaldsskólum hafa breyst eftir að sjálfræðisaldur færðist úr 16 árum í 18 ár. Allir átta sig á því, að kennarar hafa hvorki hlotið menntun né þjálfum, sem gerir þeim kleifr að sér að leysa úr erfiðum tilfinningalegum og félagslegum málefnum.
Vestmannaeyingar spurðu einnig töluvert mikið um fartölvuvæðinguna í framhaldsskólunum. Greindi ég frá því, að fyrr í vikunni hefði ég meðal annars hitt fulltrúa helstu tölvusölufyrirtækja og rætt málið við þá. Þeir hefðu meðal annars sagt, að skynsamlegt væri að stíga varlega til jarðar vegna þess að breytingar væru mjög örar á þessu sviði auk þess væri ef til vill ekki rétt að hið opinbera hefði fastmótaðar skoðanir á eðli útstöðva skólanemenda. Þrátt fyrir þessi varnaðarorð um framkvæmd er ekki ágreiningur um, að sú stefna menntamálaráðuneytisins sé rétt, að byggja tölvukerfi í skólum upp á því meginsjónarmiði, að notendur hafi hreyfanlegar útstöðvar í stað þess að binda noktun tölva við ákveðnar skólastofur. Við framkvæmd stefnunnar verður að sjálfsögðu ekki rasað um ráð fram.
Innan Verslunarskóla Íslands hafa nemendur hleypt í sig nokkrum hita vegna nýju námskrárinnar og meðal annars sakað mig um sósíalisma og jafnvel kommúnisma með því að óska eftir því, að skólinn taki mið af þeim meginsjónarmiðum, sem búa að baki námskránni. Miðvikudaginn 29. mars gengum við Þorvaður Elíasson skólastjóri VÍ frá samkomulagi um það, hvernig VÍ lagar sig að námskránni og ætti þar með að vera ástæðulaust fyrir nemendur og aðra að magna með sér áhyggjur vegna þessa máls. Raunar hef ég verið þeirrar skoðunar, að stóryrði um skemmdarverk mín gagnvart VÍ væru frekar til þess fallin að draga úr áhuga nýnema á því að skrá sig í skólann en það, sem segir í námskránni eða kröfur hennar gagnvart VÍ. Sérstaklega væru þú bagaleg, þar sem um órökstuddar fullyrðingar væri að ræða.