20.3.2000

Kaupmannahöfn - Brussel - Lissabon VÍ

Í vikunni 12. til 19. mars sótti ég fundi í Kaupmannahöfn, Brussel og Lissabon, allir snerust þeir um menntamál, en voru hver með sínu sniði.

Fundurinn í Kaupmannahöfn var óformlegur fundur menntamálaráðherra frá OECD-ríkjum, sem boðað var til af norrænu ráðherrunum undir forystu hins danska. Var hann haldinn í gömlu kauphöllinni skammt frá Kristjánsborgarhöll og þar ræddum við um mat og árangur í skólastarfi og skiptumst á upplýsingum um þau málefni auk þess sem mikið var fjallað um gildi upplýsingatækninnar fyrir skólastarf, þótti starfsbræðrum mínum spennandi að heyra af þeirri ákvörðun, að allir íslenskir framhaldsskólanemar skuli eignast fistölvu og nota hana í skóla og annars staðar. Það kom í minn hlut að stjórna einum þessara funda, það er um rannsóknir á skólastarfi en hlutfallslega lítið af því fé, sem varið er til menntamála rennur til rannsókna.

Í Brussel heldur menntamálaráðuneytið úti tveimur starfsmönnum í sendiráði Íslands, enda renna miklir fjármunir héðan til sameiginlegra evrópskra verkefna í menntun, menningu, rannsóknum og þróun. Gafst mér á tveimur dögum tækifæri til að ræða við fulltrúa ESB um þessa málaflokka, stöðu þeirra og þróun, auk þess sem forráðamenn EFTA greindu frá stöðunni á sínum vettvangi, þá hitti ég Íslendinga, sem starfa innan vébanda Evrópusambandsins. Jafnframt hitti ég borgarstjórann í Brussel, það er þann þeirra, sem er fremstur meðal jafningja og hefur aðsetur í ráðhúsinu við Grand Place, eitt virðulegasta torg í allri Evrópu. Ræddi ég við hann um Brussel 2000, það er menningarborgaverkefnið, og hitti síðan stjórnanda verkefnisins í Brussel og skoðaði eina af þeim mörgu sýningum, sem efnt er til vegna ársins. Loks fékk ég tækifæri til að heimsækja höfuðstöðvar NATO en þangað hef ég oft lagt leið mína, frá því að NATO fluttist til borgarinnar árið 1967.

Frá Brussel var svo haldið til Lissabon, þar sem Portúgalir, sem eru í forsæti Evrópusambandsins (ESB), buðu til ráðstefnu til að hleypa þremur verkefnum, Leonardo da Vinci II, Socrates II og Æsku, af stokkunum með hátíðlegum og glæsilegum hætti. Við Íslendingar erum virkir þátttakendur í öllum þessum verkefnum. Samhliða því að verkefnin hófust formlega, en að þeim verður unnið í sjö ár, til 2006, var efnt til ráðstefnu um endurmenntun og símenntun og hlýtt á fyrirlestra um það efni. Nú ræða menn ekki lengur um upplýsingaþjóðfélagið eða þekkingarþjóðfélagið heldur það, sem nefnt er á ensku The Learning Society. Í einu orði á íslensku mætti kalla það menntaþjóðfélagið, það er þjóðfélag, þar sem enginn nýtur sín nema hann sé sífellt að bæta við sig menntun, þekkingu eða þjálfun. Nafnorð af sögninni að læra er ekki þjált á íslensku í þessu sambandi og þess vegna næst ekki til fullnustu, það sem enska heitið á þessari nýju þjóðfélagsgerð segir.

Ráðstefnunni lauk upp úr hádegi laugardaginn 18. mars og þá gafst tími til þess að aka til bæjarins Fatima, sem er um 150 km fyrir norðan Lissabon, en þar gerðust þau undur árið 1917, að þrír ungir fjárhirðar sáu Maríu guðsmóður birtast nokkrum sinnum, hið fyrsta sinn 13. maí 1917 og síðan á mánaðarfresti og síðast 13. október 1917. Tvö barnanna dóu ung en hið þriðja, Systir María Lucia, er enn á lífi og býr hún í Karmel-klaustri í Portúgal 93 ára að aldri. Jóhannes Páll páfi II ætlar að heimsækja Fatima 13. maí næstkomandi, en í kringum staðinn, þar sem börnin sáu heilaga guðsmóður hefur nú skapast góð aðstaða fyrir pílagríma, sem koma langt að til að njóta blessunar staðarins. Hafði það yfir sér sérstakan blæ að fara þarna um og kynna sér lítillega sögu atburðanna, sem þarna gerðust.

Um hádegið mánudaginn 20. mars heimsótti ég Verslunarskóla Íslands, síðasta framhaldsskólann í Reykjavík á ferð minni í skólana og efndi til fundar með nemendum og kennurum. Vakti undrun mína, hve nemendur voru neikvæðir í garð þeirra breytinga, sem felast í námskránni, tóku þeir henni verr en í nokkrum öðrum skóla og var engu líkara en þeir teldu um sérstakar ráðstafanir að ræða til að spilla starfinu í skóla þeirra. Andrúmsloftið var einnig rafmagnað vegna þess að skömmu áður hafði farið fram framboðsfundur í formannskjöri í nemendafélagi skólans og líklegt er, að einhverjir ræðumenn úr hópi nemenda hafi litið á þennan fund með mér, sem gott tækifæri til að láta ljós sitt skína í kosningabaráttunni. Aðdragandi þessa fundar var annar en svipaðra funda í öðrum skólum að því leyti, að vakin hafði verið athygli DV á námskránni undir þeim skrýtnu formerkjum að með henni ætti að draga fjöður úr hatti MR, MA og VÍ. Þá var þetta einnig eini fundurinn, sem fjölmiðlamenn hafa sótt.

Fundirnir í VÍ sönnuðu enn hve nauðsynlegt er að efna til rökræðna af þessu tagi til að heyra sjónarmið og kynna skoðanir. Misskilningur, sem byggist á þekkingarleysi, stuðlar aðeins að vandræðum. Er það von mín, að þessir fundir hafi orðið til þess að auðvelda sameiginlega niðurstöðu skólans og menntamálaráðuneytisins, sem geri VÍ kleift að þróast áfram sem metnaðarfullur skóli með sérkenni sín á framhaldsskólastiginu.