5.3.2000

Rússlandsviðskipti - UT2000 - FNV og MH

Morgunblaðið birti frétt um það á blaðsíðu 24 föstudaginn 3. mars, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH) hefði ákveðið að hætta starfsemi í Rússlandi. Í fréttinni segir Gunnar Svavarsson, forstjóri SH, að starfseminni hafi verið hætt vegna þess, að reksturinn gekk einfaldlega alls ekki, SH hefði tapað miklu eða meira en 500 milljónum króna síðan 1998.

Þetta er merkileg frétt í mörgu tilliti. Hún endurspeglar upplausina, sem ríkir í Rússlandi. Æ fleiri erlend fyrirtæki ákveða að hætta starfsemi í Rússlandi. Þau sjá engan hag af viðskiptum í landinu vegna efnahagslegrar upplausnar og hinna óljósu skila, sem þar eru á milli hins löglega og ólöglega. Eimskip var með starfsemi í St. Pétursborg en hefur lagt hana niður meðal annars vegna þess að allt starfsumhverfi er þar mjög framandi og erfitt. Í umræðum um ástandið í Rússlandi rifjast upp það, sem sagt hefur verið um stöðu útlendinga í atvinnurekstri í Alþýðulýðveldinu Kína, það er að þeir treysti ekki fyllilega dómskerfinu, því að svo virðist sem í flestum tilvikum tapi útlendingar málum fyrir dómstólum.

Fréttin um að SH hætti starfsemi Rússlandi er þó merkilegust fyrir þau þáttaskil, sem hún markar í viðskiptasögu okkar Íslendinga. Rússlandsviðskiptin hafa skipt verulegu máli fyrir afkomu íslensks sjávarútvegs, þau voru undirstaða olíuviðskipta þjóðarinnar í marga áratugi og deilur um þau settu verulegan svip á stjórnmálaumræður fram á níunda áratuginn.

Skömmu eftir stríð eða á þeim árum, þegar Sovétríkin höfðu hvað minnst svigrúm til alþjóðaviðskipta vegna gjaldeyrisskorts, ákváðu ráðamenn í Moskvu að semja við Íslendinga um kaup á íslenskum fiski, það er á árunum 1946 - 1947. Var það í upphafi marsmánaðar 1946, sem Ólafur Thors forsætisráðherra fékk þau skilaboð, að Sovétmenn vildu kaupa síld og síldarlýsi af Íslendingum og selja þeim timbur og aðrar vörur í staðinn. Ólafur taldi ástæðurnar fyrir viðskiptunum pólitískar, haft er eftir honum: ·¡·@Ja, það er auðséð að þeir ætla ekki að láta Kanann fá okkur ókeypis.·¡¢\ Þá ákváðu Sovétmenn að kaupa mikið magn af fiski þar á meðal 15.000 tonn af hraðfrystum fiski. Sovétmenn endurnýjuðu samningana eftir nokkurt þóf 1947 en síðan ekki söguna meir, því að eftir að Íslendingar hófu að ræða aðild að Marshall-áætluninni rákust samningamenn þeirra á vegg í viðskiptaviðræðum í Moskvu. Segir Valur Ingimundarson í bók sinni Í eldlínu kalda stríðsins, að með afstöðu sinni hafi Sovétmenn lagt sitt af mörkum til að gera Ísland háðara Bandaríkjunum.

Það var ekki fyrr en eftir dauða Jósefs Stalíns 4. mars 1953, sem ýmis teikn sáust á lofti um að Sovétmenn vildu efla viðskipti við V-Evrópuríki. Sumarið 1953 fóru fram viðskiptaviðræður milli Íslendinga og Sovétmanna í Moskvu og lögðu Íslendingar megináherslu á sölu fiskflaka, enda var meira í húfi en oft áður í því efni, þar sem Bretar höfðu sett löndunarbann á sölu íslensks fisks vegna deilu um útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar. Lauk viðræðunum með því að samið var um sölu á 21.000 tonnum af frystum fiskflökum, 10.000 tonnum af Suðurlandssíld og 3.000 tonnum af frystri síld og í staðinn hófu Íslendingar innflutning á olíu og bensíni frá Sovétríkjunum.

Samningar héldust við Sovétríkin allt að hruni þeirra og í sögu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna segir undir lok kaflans um Sovétviðskiptin, eftir að stjórnkerfi kommúnista er hrunið:

·¡·@Það lýsir kannski sérstöku eðli sovéska markaðarins best, að eftir nærri 40 ára viðskipti stóðu íslensku sölufyrirtækin skyndilega aftur á upphafsreit. Það var eins og þau hefðu aldrei komið þar. Þau stóðu frammi fyrir ónumndu landi og þurftu að vinna vörum sínum sess á ný meðal neytenda, sem höfðu ekki hugmynd um, að um áratugi hefðu þeir neytt íslenskra afurða - og líkað þær vel.·¡¢\ Þá er sagt frá því, að SH hafi í Rússlandi tekið að sér að selja afurðir nokkurra frystitogara Rússa, hafi þau viðskipti farið vaxandi og gefi ef til vill vísbendingu um hvernig takast megi að byggja upp viðskipti þjóðanna á þessu sviði í framtíðinni.

Framtíðin hefur borið það í skauti sínu, frá því að saga SH var skráð, að fyrirtækið hefur hætt starfsemi í Rússlandi eftir meira en hálfa öld. Mikilvæg, söguleg tengsl Íslands og Rússlands eru þar með rofin. Tengsl, sem skiptu miklu pólitísku máli og höfðu mótandi áhrif á utanríkisstefnu Íslands á tímum kalda stríðsins, sköpuðu Íslendingum mikilvægt svigrúm á stundum en voru undir lokin einkum leið Sovétmanna til að hafa áhrif á íslenskt stjórnmálalíf, viðskipta- og embættiskerfið. Þegar ég starfaði við blaðamennsku á árunum 1979 til 1991 ritaði ég ófáar greinar um þessi tengsl Íslands og Sovétríkjanna og varð jafnan undrandi yfir hinni ötulu hagsmunagæslu í kringum þessi viðskipti bæði úr stjórnarráðinu, frá SH, Síldarútvegsnefnd, SÍS og olíufyrirtækjunum, svo að ekki sé minnst á Alþýðubandalagið og síðast en ekki síst Framsóknarflokkinn og Tímann, málgagn hans. Er ég sannfærður um, að af Íslands hálfu var haldið alltof lengi í hina úreltu viðskiptahætti, sem einkenndu viðskiptin við Sovétríkin, þeir hafi beinlínis ýtt undir að fyrirtæki hér þróuðust ekki sem skyldi og voru þess vegna ekki í stakk búin til þess að standast samkeppni á hinum frjálsa markaði. Allri gagnrýni á viðskiptin var mætt af mikilli hörku og jafnvel gefið til kynna, að við sem að henni stóðum, værum að vega að lífshagsmunum þjóðarinnar. Nú lýkur þessum kafla viðskiptasögunnar án þess að í raun heyrist hósti eða stuna.

UT2000 er nafn á ráðstefnu, sem menntamálaráðuneytið efndi til undir kjörorðinu Virkjum netið í námi. Var ráðstefnan haldin við góðar aðstæður í Háskólanum í Reykjavík. Aðsókn var takmörkuð við tæplega 300 gesti og komust færri að en vildu. Fyrirlesarar voru bæði erlendir og innlendir, úr skólum og frá fyrirtækjum auk þess sem stjórnmálamenn lýstu skoðunum sínum. Er þetta í annað sinn sem ráðuneytið stendur fyrir ráðstefnu af þessu tagi, fyrsta ráðstefnan í fyrra var um almennara efni, það er upplýsingatæknina almennt og skólastarf. Ég lét þess getið í setningarávarpi mínu, að áhuginn á þessum UT-ráðstefnum ráðuneytisins væri svo mikill, að ég væri tilbúinn til samvinnu við aðra um að færa ráðstefnuhaldið út, ef það mætti verða til þess að efla enn samvinnu skólakerfisins og hugbúnaðar- og tölvufyrirtækja.

Ég er þeirrar skoðunar, að skólakerfið eigi eftir að verða enn meiri vaxtarbroddur á þessu mikilvæga sviði en hingað til. Við höfum markvisst unnið að því að kynna upplýsingatæknina innan skólakerfisins og náð verulegum árangri. Nýjar námskrár taka mið af tækninni og menntamálaráðuneytið hefur mótað þá stefnu, að allir framhaldsskólanemar í landinu geti eignast eigin fartölvu til notkunar í skólunum.

Á UT2000 var enn staðfest að þróunin í tölvutækninni hefur síður en svo stöðvast. Þvert á móti beinist hún sífellt meira að skólastarfi og sumir erlendu fyrirlesaranna eru þeirrar skoðunar, að skólar séu að hverfa í sinni núverandi mynd og ekki eigi að fjárfesta meira í steinsteypu vegna þeirra heldur eigi að leggja áherslu á þessa nýju byltingarkenndu tækni og nýta hana sem best í þágu nemenda, sem muni stunda nám sitt á eigin forsendum.

Hvað sem framtíðin ber í skauti sér er nauðsynlegt fyrir alla að taka breytingum með opnum huga, því að þeir verða einungis skildir eftir, sem vilja ekki nýta sér tækifæri breytinganna. Nú eru auglýstar ekringlur hér á landi til að greina netverslanir frá hinum hefðbundnu, það er einnig farið að ræða um eháskóla erlendis, eða netháskóla. Heimurinn er orðin ein skólastofa, til dæmis var ég á dögunum að taka þátt í verkefni með nemanda í erlendum háskóla á netinu, svaraði ég spurningum, en svör mín eru lögð til grundvallar við úrvinnslu á verkefni með þátttöku nemandans og kennara hans.

Í vikunni heimsótti ég þrjá framhaldsskóla en þeir áttu að vera fjórir samkvæmt áætluninni, við komumst ekki til Ísafjarðar vegna veðurs. Síðastliðinn mánudag var ég í MR eins og ég gat um síðasta pistli. Miðvikudaginn 1. mars flugum við til Sauðárkróks og heimsóttum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV). Hann er í einu glæsilegasta skólahúsi landsins og var ánægjulegt að ræða þar við nemendur og kennara.

FNV hefur lagt sig fram um að hafa sem mesta breidd í námi sínu til að geta brugðist við óskum nemenda, en öllu starfi okkar eru ákveðin takmörk sett. Með því að virkja netið í námi er hins vegar unnt að gefa nemendum fleiri tækifæri en nokkru sinni fyrr. Er brýnt að ýtt sé undir það í einstökum skólum að nemendur nýti sér þau tækifæri sem netið veitir og það sé metið til eininga í viðkomandi skóla.

Föstudaginn 3. mars fórum við í Menntaskólann við Hamrahlíð, sem er stærsti áfangaskólinn sem aðeins býður bóknám og hefur að mínu mati mjög góð tækifæri til að nýta sér kosti nýju námskrárinnar. Fundurinn með nemendum var sérstakur að því leyti, að þeir ræddu meira við mig um endurinnritunargjaldið eða fallskattinn en gert hefur verið í öðrum skólum. Skýrði ég út fyrir þeim hugmyndafræðina að baki gjaldinu, sem er í megindráttum sú að gefa skólameisturum tæki til að stýra skólastarfi með markvissari hætti. Við sáum það, þegar litið var á þróun skólanna, að of mikið bar á því, að nemendur rituðu sig inn í áfanga, sem þeir höfðu ekki hug á að sækja en vildu hafa á einskonar óskalista. Þetta leiddi til þess að skólar réðu kennara, nýttu skólastofur og tíma í stundaskrá með ómarkvissum en kostnaðarsömum hætti. Með því að láta nemendur bera nokkurn kostnað af því, ef þeir leggja ekki stund á það nám, sem þeir hafa ætlað sér og skólinn skuldbundið sig til að veita þeim, er ætlunin að stuðla að betra skólastarfi. Markmið gjaldtökunnar er ekki að afla tekna heldur spara og hagræða. Einn nemenda í MH taldi sig geta fellt um það dóm, að endurinnritunargjaldið bryti í bága við stjórnarskrána. Hafnaði ég þeirri skoðun en benti á að um þetta ættu dómstólar síðasta orðið. Til marks um ákvekni nemenda í MH má nefna, að einn þeirra kvaddi sér hljóðs til að benda mér á þá villu í máli mínu, að ég hafði sagt ·¡·@talva·¡¢\ en ekki tölva, sem er að sjálfsögðu rétt. Um leið og ég leiðrétti mig varð mér hugsað til allra þeirra villna sem unnt er að finna hér á þessum síðum mínum, sem oftast eru ritaðar í miklum flýti.