Undirskriftir - Winnipeg - bekkjarkerfisskólar
Merkileg grein birtist í Morgunblaðinu hinn 24. febrúar síðastliðinn, þar sem þeir Þorvaldur Búason, Ragnar Ingimarsson og Þorsteinn Sæmundsson gerðu grein fyrir því, hvernig staðið var að söfnuninni undir kjörorðinu Varið land 15. janúar til 20. febrúar 1974 og báru þá framkvæmd saman við söfnun á vegum Umhverfisvina undanfarna mánuði. Af grein þeirra félaga má sjá, hve fráleitur samanburðurinn er. Það liggja alls engar upplýsingar fyrir um það, hvernig staðið hefur verið að því að safna í nafni Umhverfisvina, hvað þá heldur að gerð hafi verið grein fyrir því, hvort farið hafi verið yfir hvert einasta nafn og þess gætt að enginn skrifi tvisvar og þar fram eftir götunum.
Ég man vel eftir þessum dögum í ársbyrjun 1974 en þá var ég blaðamaður á Vísi og varði öllum mínum frítíma í baráttuna undir merkjum Varins lands. Höfuðstöðvarnar voru við Háaleitisbraut og þar var alltaf mikið um að vera en allt unnið af þeirri einstöku nákvæmni, sem setur svip sinn á grein þremenninganna í Morgunblaðinu. Var lögð höfuðáhersla á það frá upphafi að gæta þess að ekki yrði unnt að draga í efa, að þeir, sem rituðu undir, hefðu gert það og ekki oftar en einu sinni. Það er því skiljanlegt, að þeir hafi ákveðið að skýra lesendum Morgunblaðsins frá því, að alls ekki sé unnt að bera söfnun Umhverfisvina saman við Varið land.
Ljóst er af greininni, að ríkisfjölmiðlarnir lögðu sig í líma við að segja sem minnst frá Vörðu landi og sjónvarpið sendi ekki einu sinni mann á vettvang til að mynda afhendingu undirskriftanna. Segir þetta okkur meira en margt annað um þá undarlegu umræðuhefð, sem þá ríkti hér í fjölmiðlum og þróaðist meðal annars í því skjóli, að ríkið einokaði útvarp og sjónvarp. Engum dytti líklega í hug núna, að það þýddi að þegja yfir átaki á borð við það, sem gert var með Vörðu landi. Ekki hikaði RÚV við að segja frá söfnun Umhverfisvina og hefur raunar setið undir ámæli fyrir að ganga beinlínis erinda þeirra.
Því miður hefur of lítið verið gert af því að rannsaka efnistök íslenskra fjölmiðla með skipulegum hætti og greina frá þeim af þeirri nákvæmni, sem krafist er við rannsóknir af þessu tagi. Sagan af þögninni um Varið landi er aðeins eitt dæmi um það, hvernig menn haga sér, þegar þeir einoka eitthvað. Hún minnir mig á það, hve hatrammlega var snúist gegn okkur, sem beittum okkur fyrir því í útvarps- og blaðamannaverkfallinu mikla 1984 að hafist var handa um útvarpsrekstur undir merkjum Frjáls útvarps. Þar var gengið hart fram til að uppræta útvarpsstöðvarnar og mælingabílar símans óku um borgina í leit að ólögmætum sendum. Voru ábyrgðarmenn dæmdir fyrir tiltækið. Þegar litið er til baka, rifjast upp, að ekki var síður skemmtilegt og spennandi að eiga hlut að því ágæta framtaki að rjúfa ríkiseinokunina í útvarpsrekstri en berjast undir merkjum Varins lands. Hvernig halda menn að staðan væri á Íslandi núna, ef tekist hefði að reka fleyg í varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna eða Íslands og NATO? Eða þeir hefðu náð sínu fram, sem máttu ekki til þess hugsa, að einokun ríkisins á útvarpi og sjónvarpi yrði aflétt? Það gerðist 1985, því að menn sáu, að sagan frá 1984 mætti ekki endurtaka sig, að slökkt yrði á allri útvarpsþjónustu við landsmenn vegna verkfalla, enda hefur það ekki gerst síðan.
Í síðustu viku fórum við Rut til Winnipeg í Manitobafylki í Kanada með Herði Sigurgestssyni, forstjóra hf. Eimskipafélags Íslands, og Áslaugu Ottesen konu hans. Tilgangur ferðarinnar var að afhenda Háskólanum í Manitoba 50 milljónir króna að gjöf til að efla íslenskukennslu innan veggja hans og styrkja íslenska bókasafnið í skólanum. 30 milljónir frá ríkinu og 20 milljónir frá Eimskip og háskólasjóði Eimskips.
Ég hafði komið þrisvar áður til Winnipeg, síðast að vísu fyrir 21 ári, þannig að margt hefur breyst síðan. Í fyrsta sinn flaug ég núna í gegnum Minneapolis, en þar vorum við í tvær nætur og gafst mér meðal annars tækifæri til að heimsækja háskólann þar og ræða við stjórnendur hans auk þess sem við hittum íslenska nemendur í skólanum. Örn Arnar, læknir og ræðismaður Íslands í Minneapolis, skipulagði þessa ferð í háskólann. Fór ég hana í fylgd með John Magnússyni, flugmanni hjá Northwest, en hann veitir Erni aðstoð við ræðismannsstörfin, ef svo ber undir, en þennan dag var Örn við skurðaðgerð, sem lengi hafði verið í undirbúningi. Var mjög fróðlegt að kynnast sjónarmiðum manna í svo stórum og öflugum háskóla. Hann hefur 1,2 milljarð Bandaríkjadala til ráðstöfunar á ári, aðeins 35% þessara fjármuna koma frá Minnesotaríki, 15% frá skólagjöldum (4000 USD), sem þykja lág við skólann, tæplega 400 m USD í rannsóknafé samkvæmt umsóknum og keppni og það sem eftir eru tekjur af starfsemi skólans. Er því spáð að hlutur ríkisins muni minnka jafnt og þétt og telja menn það merki um styrkleika skólans.
Ekki var síður skemmtilegt að koma í Manitoba-háskóla í Winnipeg og hitta stjórnendur hans, sem fögnuðu innilega og af einlægni þessari gjöf frá Íslandi. Er hún liður í söfnunarátaki Vestur-Íslendinga til að styrkja íslenskuna í sessi innan háskólans. Þá er verið að búa íslenska bókasafninu betri umgjörð innan háskólabókasafnsins. Er ekki annars staðar í Norður-Ameríku betur búið að íslenskukennslu og er skynsamlegt að leggja áherslu á eina miðstöð um leið og ýtt er undir kennsluna annars staðar eins og til dæmis í Minneapolis.
Við Hörður höfðum tækifæri til að hitta forystumenn í fleiri deildum en hinni íslensku í skólanum. Þar má nefna Harald Bjarnason, sem nú er deildarforseti í landbúnaðardeild háskólans, flutti hann okkur magnaða lýsingu á því, hvernig fræði hans væru að breytast og að færast inn á nýjar brautir meðal annars með erfðabreytingum. Vill Haraldur gjarnan stofna til samstarfs við íslenska háskóla. Með honum var Baldur Stefánsson, sem kenndi við skólann, en hann er frægur í Kanada og raunar um heim allan fyrir að finna upp eða þróa Granola-olíuna, sem þykir einstaklega heilsusamleg. Gerði Baldur þetta með erfðabreytingum.
Við fórum einnig til Gimli og hittum þar þá félaga af íslenskum ættum, sem eru að stækka elliheimilið Betel og gera það af miklum stórhug. Þar sátum við í hádegisverði, þegar fregnir bárust um að gos hefði hafist í Heklu (26/2). Gimli hefur breyst mikið frá því að ég kom þangað fyrst árið 1964, þegar ég fór þarna um með foreldrum mínum.
Síðasti stórviðburður okkar í Winnipeg var þátttaka í fjölmennu þorrablóti. Var ánægjulegt að hitta þá, sem þar voru, og kynnast því, hvernig þeir skemmta sér á hátíð sem þessari.
Svavar Gestsson aðalræðismaður Guðrún Ágústsdóttir, kona hans, tóku á móti okkur ásamt Neil Bardal, ræðismanni í Gimli, og lögðu þau sig fram um að dvöl okkar varð bæði fóðleg og skemmtileg.
Ég hef farið í tvo bekkjakerfisskóla, Menntaskólann við Sund og Menntaskólann í Reykjavík, undanfarið og rætt um nýju námskrárnar við nemendur og kennara. Þar standa menn frammi fyrir nokkuð öðrum viðfangsefnum en í áfangakerfisskólunum við skipulag skólanámskrár í samræmi við nýju námskrána.
Ég hef lagt áherslu á, að markmið nýju námskránna sé ekki að útrýma bekkjakerfinu. Ef svo væri, hefði það verið tekið fram með skýrum og ótvíræðum hætti. Teljum við í ráðuneytinu, að skólar eigi að geta haldið sérkennum sínum, þótt þeir skipuleggi nám sitt samkvæmt nýju námskránni, geri skólar það ekki séu þeir að bregðast nemendum og raunar muni það ráða miklu um ákvörðun nemenda um innritun í skóla, hvort þeir taka mið af nýju námskránni eða.