Háskólaþing - fáir í stýrimannanámi - Húsavík, Laugar, Akureyri
Við þurftum ekki að fresta háskólaþingi nema um eina viku, því að það tókst að halda það laugardaginn 19. febrúar. Að vísu var dagskráin ekki alveg eins og upphaflega var ætlað, því að ýmsir gátu ekki komist þennan dag, sem höfðu lofað þátttöku 12. febrúar. Þátttakendur í þinginu urðu væntanlega færri en ella vegna frestunarinnar, en þeir, sem sátu það, lýstu ánægju með framtakið. Við fundarboðendur í menntamálaráðuneytinu teljum einnig, að vel hafi til tekist. Aðdragandi þingsins var langur og margir komu að undirbúningi þess. Hjá mér var það liður í honum að bjóða nemendum úr háskólunum átta til óformlegra viðræðna í ráðuneytinu og byggði ræðu ég mína við upphaf háskólaþings að verulegu leyti á þessum samtölum. Var haft á orði, að ég hefði komið fram fyrir hönd neytenda í skólunum, nemendanna. Frá mínum bæjardyrum séð, þótti mér gott að fá þetta tækifæri til að minna á þá augljósu staðreynd, að nemendur eru þungamiðja alls skólastarfs og skólar starfa fyrir þá og í þágu þeirra. Er ég þeirrar skoðunar, að best verði komið til móts við nemendur með fjölbreytni og samkeppni á háskólastigi um leið og þess er gætt að skólarnir starfi saman, þar sem það skilar bestu niðurstöðu.
Mörg fróðleg erindi voru flutt á þinginu og einnig var mikils virði að það tókst að kalla fólk saman úr ólíkum áttum bæði til að flytja erindi og taka þátt í pallborðsumræðum. Bjarni Ármannsson, forstjóri FBA, skýrði meðal annars frá því, að innan FBA reiknuðu menn með því að verja 500 þúsund krónum í endurmenntun hvers starfsmanns á ári hverju og Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, tók í sama streng, en hann greindi frá því, að vegna alþjóðlegrar starfsemi Össurar væri þar mikið leitað til fólks, sem hefði menntast erlendis. Hann benti á, að inntak menntunar væri ólíkt eftir löndum, þannig væru bandarískir lögfræðingar almennt með annað háskólanám að baki en laganámið eitt, til dæmis væri nauðsynlegt fyrir lögfræðinga, sem sinntu einkaleyfum að vera að vel að sér í verkfræði. Tveir þriðju starfsmanna FBA eru háskólamenntaðir, Bjarni sagðist sjálfur vera með próf í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og á því hefði átt að standa best fyrir 1995. Enginn nyti sín í starfi án þess að bæta sífellt við menntun sína. Í þessu sambandi er einnig nauðsynlegt að hafa í huga, að þeim meiri grunnmenntun sem menn hafa því meiri líkur á því að þeir afli sér endurmenntunar.
Í pallborðsumræðunum vakti Torfi Túliníus, prófessor við Háskóla Íslands, máls á því, að æ fleiri útlendingar vildu koma hingað til lands og leita sér æðri menntunar. Minnti hann á, að til dæmis í Frakklandi hefðu stjórnvöld nýlega ákveðið að markaðssetja æðri menntun með svipuðum hætti og iðnað, ekki væri lengur litið á það sem þróunaraðstoð að laða erlenda námsmenn til Frakklands. Hvort hér á landi hefði verið mótuð stefna til að bregðast við þessum vanda? Ég sagðist áður hafa lýst þeirri skoðun, að það væru forsendur fyrir því að markaðssetja nám í íslensku fyrir útlendinga, hvort sem þeir vildu læra hana til að tala og skrifa eða kynnast þróuðu tungumáli, sem stendur á gömlum grunni. Ég sagði einnig frá því að ég hefði spurt nemanda í Samvinnuháskólanum á Bifröst hvort honum mundi hafa dottið í hug að semja viðskiptaáætlun, sem miðaði að því að stofna og reka skóla á borð við Samvinnuháskólann á Bifröst. Nemandinn, Ólafur M. Einarsson, svaraði að bragði og sagðist sjá fyrir slíkan alþjóðlegan háskóla í sveit á Íslandi, sem mundi höfða til margra. Það væri alls staðar fólk, sem vildi fá tækifæri til að helga sig alfarið markvissu háskólanámi við bestu aðstæður til að leggja stunda það. Þess vegna svaraði ég Torfa á þann veg, að ég sæi það ekki fyrir mér sem vanda heldur markaðstækifæri, að Íslendingar byðu háskólanám í alþjóðlegri samkeppni.
Á þinginu var að sjálfsögðu minnt á nauðsyn þess að auka fjárveitingar til háskólastigsins, rannsókna og þróunar. Er ég þeirrar skoðunar, að við séum þar á réttri braut, en minni jafnframt á þá staðreynd, að alls staðar eiga ríkisrekin fyrirtæki undir högg að sækja í samkeppni við einkarekin. Vilji menn að keppt sé á sambærilegum forsendum verða allir háskólar annað hvort að vera ríkisreknir eða einkareknir.
Menntamálaráðuneytið mun leitast við að setja fyrirlestra á háskólaþingi inn á heimasíðu sínu og útskrift á pallborðsumræðum að svo miklu leyti, sem þær voru skráðar. Einnig kemur til álita að gefa þetta efni út í ritlingi. Staðreynd er, að við Íslendingar erum ekki vanir að ræða um háskólamenntun á þeim forsendum, sem gert var á þessu þingi. Við eigum enn eftir að venjast því, að hér eru fleiri háskólastofnanir en Háskóli Íslands, sem ætla sér stórt hlutverk og sjá ótæmandi tækifæri á þessu sviði. Ég lýsti til dæmis Háskólanum í Reykjavík sem menntunarfyrirtæki, því að þar hafa menn tileinkað sér kennslu- og hvatningaraðferðir til að ná árangri með sama hætti og gert er innan fyrirtækja. Háskólinn í Reykjavík leggur áherslu á erlent nafn sitt, sem gefur til kynna, að hann hafi í huga að láta að sér kveða víðar en hér á landi, þegar höfðað er til nemenda.
Í vikunni hélt ég áfram að heimsækja framhaldsskólana og hitta nemendur og kennara. Ég fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík, sem er nú fámennasti ríkisrekni framhaldsskólinn, með aðeins 38 nemendur alls. Er með ólíkindum, að ekki innritist fleiri nemendur í þennan skóla. Nemendur voru þeirrar skoðunar, að námið væri of langt, 4 ár og jafnvel hálf önn í viðbót til að öðlast mestu réttindi. Kennarar bentu hins vegar á, að hið eiginlega réttindanám væri aðeins 4 annir (tvö ár) og í mesta lagi 5, sem ekki þætti almennt langt til að öðlast alþjóðlega viðurkennd réttindi, en námskráin er skipulögð með það að markmiði, að nemendur útskrifast með alþjóðleg réttindi. Sögðu kennarar, að ekki væri unnt að standa undir þeim kröfum á skemmri tíma. Bentu þeir á, að fyrstu tvö árin væru almennt undirbúningsnám á sjávarútvegsbraut í framhaldsskóla, en sjö framhaldsskólar hafa haft það nám í boði án þess að grunnskólanemar hafi sýnt þessum brautum nokkurn áhuga. Sjávarútvegsbrautin veitir 30 tonna réttindi en eftir hvert ár í réttindanáminu sjálfu öðlast nemendur aukin réttindi.
Í umræðum í Stýrimannaskólanum kom fram, að nemendur vilja á sem skemmstum tíma öðlast sem mest réttindi og telja margt af því, sem krafist er með nýrri námskrá með öllu óþarft. Íslendingar hafa um aldir vanist því, að sjómennska gangi mann fram af manni og ekki þurfi annað en reynslu og brjóstvitið til að sækja sjóinn, menn verði ekki aflakóngar af skólalærdómi. Er greinilegt, að þeir, sem hafa einsett sér á ungum aldri að sækja sjóinn, telja það frekar tímasóun en annað að þurfa að sitja lengi á skólabekk. Nýjar kröfur eru hins vegar þess eðlis að ekki verður komist hjá því að breyta inntaki námsins. Ég minnti nemendur á, að í umræðum um áhugaleysi á stýrimannanámi hefði komið fram, að kvótakerfið fældi ungt fólk frá því að leggja stund á það. Nemendur tóku ekki undir þá skoðun.
Við fórum í leiðangur um Norðurland eystra og heimsóttum Framhaldsskólann á Húsavík og Framhaldsskólann að Laugum og síðan einnig Menntaskólann á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Efndum við þannig til fjögurra funda á tveimur dögum. Var jafnánægjulegt að heimsækja þessa framhaldsskóla og aðra, hver skóli hefur sitt eigið svipmót og þar sannast enn að mikið er í boði og unnt að koma til móts við mismunandi óskir. Á Húsavík vorum við einnig rækilega minnt á, hve miklu það skiptir fyrir byggðarlag, að þar sé framhaldsskóli, án hans yrði mannlífið miklu fátækara, ekki aðeins í menntamálum heldur á öllum sviðum, unga fólkið setur alls staðar svo sterkan svip á samfélagið. Að Laugum er einstök aðstaða og þar var í vikunni flutt inn í nýja heimavist, sem þjónar hlutverki hótels á sumrin, en bygging hennar er sameiginlegt verkefni skólans og Fosshótels. Víða líta menn til þess, að nýjar heimavistir eða stækkun þeirra eigi eftir að bæta samkeppnisstöðu skóla í dreifbýli. Er þörfin þó mismunandi, heimavist er til dæmis forsenda Laugaskóla. Nokkrar umræður hafa orðið um félagslegar íbúðir, sem sums staðar eru lítið eða illa notaðar. Spurning er, hvort það húsnæði megi ekki nota til að bæta úr skorti á heimavistum.
Á Akureyri er bæði verið að huga að heimavist við MA og VMA, hefur jafnvel verið í undirbúningi að ráðast í smíði tveggja stórhýsa á sama tíma. Hefur MA stofnað sjálfseignarfélag til að sinna þessu verkefni af sinni hálfu. Æskilegt er, að MA og VMA sameinist um að reisa heimavist, en því miður hefur reynst erfitt að stofna til slíks samstarfs.
Akureyri er mikill skólabær með þessa tvo öflugu framhaldsskóla og einnig háskóla auk leikskóla og grunnskóla. Er víst, að bæjarlíf á Akureyri væri svipur hjá sjón, ef þessir skólar störfuðu ekki þar. Bæjarstjórn Akureyrar gerir sér glögga grein fyrir þessu og tekur virkan þátt í því að tryggja skólunum sem bestar aðstæður í samvinnu við ríkið. Er önnur afstaða bæjaryfirvalda þar í garð framhaldsskólanna en verið hefur í Reykjavík.
ræðu